Aðalráðstefna
Elskið óvini ykkar
Aðalráðstefna október 2020


Elskið óvini ykkar

Vitneskjan um að við erum öll börn Guðs veitir okkur guðlega sýn á gildi annarra og vilja og getu til að rísa ofar fordómum.

Kenningar Drottins eru fyrir eilífðina og fyrir öll börn Guðs. Í þessum boðskap mun ég greina frá nokkrum dæmum frá Bandaríkjunum, en reglurnar eiga þó hvarvetna við.

Við lifum á tíma reiði og haturs pólitískra sambanda og stefna. Við urðum vör við það nú í sumar er margir létu ófriðlega í mótmælum og tóku þátt í skaðlegri hegðun. Við verðum vör við það í yfirstandandi stjórnmálabaráttu um opinber embætti. Því miður þá hefur sumt af þessu jafnvel sýnt sig í pólitískum yfirlýsingum og óviðeigandi tilvísunum á kirkjusamkomum okkar.

Í lýðræðislegri skipan mun alltaf verða ágreiningur um frambjóðendur og stefnur. Við, sem fylgjendur Krists, verðum þó að láta af reiðinni og hatrinu sem verður til af kappræðum og úthrópunum yfir pólitískum valkostum við ýmis tækifæri.

Ljósmynd
Fjallræðan

Hér er eina af kenningum frelsara okkar, sem líklega er vel kunnug, en sjaldan iðkuð:

„Þér hafið heyrt, að sagt var: Þú skalt elska náunga þinn og hata óvin þinn.

En ég segi yður: Elskið óvini yðar, [blessið þá sem formæla yður, gjörið þeim gott sem fyrirlitlega notfæra sér yður] og biðjið fyrir þeim, sem ofsækja yður“ (Matteus 5:43–44).1

Í margar kynslóðir var Gyðingum kennt að hata óvini sína og þá lifðu þeir undir hernámi og grimmd Rómverja. Jesús kenndi þeim þó: „Elskið óvini yðar“ og „gjörið þeim gott sem fyrirlitlega notfæra sér yður.“

Ljósmynd
Jesús kennir í Ameríku

Hve byltingarkenndar kenningar um persónuleg og pólitísk sambönd! Þetta er þó enn það sem frelsari okkar býður. Í Mormónsbók lesum við: „Því að sannlega, sannlega segi ég yður, að sá, sem haldinn er anda sundrungar er ekki minn, heldur djöfulsins, sem er faðir sundrungar og egnir menn til deilna og reiði hvern gegn öðrum“ (3. Nefí 11:29).

Að elska óvini og andstæðinga sína, er ekki auðvelt. „Flest okkar hafa ekki náð slíku stigi … elsku og fyrirgefningar,“ sagði Gordon B. Hinckley forseti, og bætti við: „Til þess þarf sjálfsstjórn sem við ættum næsta erfitt með að sýna.“2 Hún er þó nauðsynleg, því hún er hluti af tveimur æðstu boðorðum Drottins: „Elska skalt þú Drottin“ og „Elska skalt [þú] náunga þinn eins og sjálfan þig“ (Matteus 22:37, 39). Þetta hlýtur að vera gerlegt, því hann kenndi líka: „Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna“ (Matteus 7:7).3

Hvernig höldum við þessi guðlegu boðorð í heimi þar sem við erum líka sett undir lög manna? Sem betur fer þá höfum við fordæmi sjálfs frelsarans um hvernig samræma skal hans eilífu lögmál að lagaákvæðum manna. Þegar óvinir hans reyndu að egna fyrir hann með spurningu um hvort Gyðingar ættu að greiða Rómverjum skatt, benti hann á mynd af keisaranum á myntpeningi og sagði: „Gjaldið þá keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er“ (Lúkas 20:25).4

Ljósmynd
Gjaldið keisaranum

Okkur ber því að fara að lögum manna (að gjalda keisaranum), til að lifa í friði við stjórnvaldið og hlíta lögmáli Guðs til eilífs ákvörðunarstaðar okkar. Hvernig gerum við þetta – og einkum hvernig lærum við að elska andstæðinga okkar og óvini?

Kenning frelsarans um að „deila ekki af reiði“ er góð sem fyrsta skref. Djöfullinn er faðir deilna og það er hann sem freistar manna til reiðast og deila. Hann hvetur til óvildar og haturs meðal einstaklinga og hópa. Thomas S. Monson forseti kenndi að reiði er „aðferð Satans,“ því „reiðin er á áhrifasvæði Satans. Enginn getur reitt okkur til reiði. Það er eitthvað sem við veljum.“5 Reiðin er vegur ágreinings og óvildar. Við komumst nær því að elska óvini okkar, ef við forðumst reiði og óvild gagnvart þeim sem við erum ósammála. Það er líka gagnlegt að vera fús til að læra af þeim.

Meðal annarra leiða til að tileinka sér hæfni til að elska aðra, er einfaldlega sú sem lýst er með texta gamals söngleiks. Þegar við reynum að skilja fólk frá ólíkri menningu, ættum við að bera okkur eftir því að kynnast því. Í ótal aðstæðum víkur tortryggni ókunnugra eða jafnvel fjandskapur fyrir vináttu eða jafnvel elsku þegar ávextir persónulegra samskipta eru skilningur og gagnkvæm virðing.6

Enn árangursríkari hjálp til að læra að elska andstæðinga okkar og óvini, er að leitast við að skilja áhrifamátt kærleikans. Hér eru þrjár spámannlegar kenningar af mörgum um þetta.

Spámaðurinn Joseph Smith kenndi að „það væru tímabær spakmæli að kærleikur vekur kærleika. Við skulum gera allt með kærleika – sýna öllu mannkyni vinsemd okkar.“7

Howard W. Hunter forseti kenndi: „Sá heimur sem við lifum í myndi hafa mikinn hag af því að karlar og konur hvarvetna iðkuðu hina hreinu ást Krists, sem er ljúf, mild og lítillát. Hún öfundar ekki eða hreykir sér upp. … Hún sækist ekki eftir neinu endurgjaldi. … Hún hefur ekkert rými fyrir fordóma, óvild eða ofbeldi. … Hún hvetur ólíka einstaklinga til að lifa saman í kristulegum kærleika, burt sér frá trúarskoðunum, kynþætti, þjóðerni, fjárhagi, menntun eða menningu.“8

Nelson forseti hefur eindregið hvatt okkur til að „útvíkka kærleikshring okkar til að elska allt mannkyn.“9

Nauðsynlegur hluti af því að elska óvini okkar, er að gjalda keisaranum með því að halda lög hinna ýmsu landa. Þótt kenningar Jesú hafi verið byltingakenndar, þá hvatti hann ekki til byltingar eða lögbrota. Hann kenndi betri hætti. Nútíma opinberun kennir hið sama:

„Enginn maður skal brjóta lög landsins, því að sá sem hlítir lögmáli Guðs finnur enga þörf til að brjóta lög landsins.

Verið þess vegna undirgefnir því valdi sem er“ (Kenning og sáttmálar 58:21–22).

Í Trúaratriðunum, sem spámaðurinn Joseph Smith ritaði eftir að hinir heilögu höfðu þjáðst mikið vegna ofsókna af hendi embættismanna Missouri, segir: „Vér höfum trú á að lúta konungum, forsetum, stjórnendum og yfirvöldum með því að hlýða lögunum, virða þau og styðja“ (Trúaratriðin 1:12).

Þetta merkir ekki að við séum sammála öllu því sem framfylgt er með lagavaldi. Það merkir að við hlýðum gildandi lögum og beitum friðsamlegum aðferðum til að breyta þeim. Það merkir líka að við sættum okkur við úrslit kosninga af stillingu. Við tökum ekki þátt í ofbeldishótunum þeirra sem eru ósáttir við úrslitin.10 Í lýðræðislegu samfélagi höfum við alltaf tækifæri og skyldu til að standa fast á okkar af stillingu fram að næstu kosningum.

Kenning frelsarans um að elska óvini okkar, byggist á þeim raunveruleika að allir menn séu ástkær börn Guðs. Á þá eilífu reglu og aðrar lögbundnar grundvallarreglur hefur reynt á í nýlegum mótmælum í mörgum borgum Bandaríkjanna.

Ljósmynd
Friðsamleg mótmæli

Einir öfgar eru að einhverjir virðast hafa gleymt því að fyrsta breytingin á stjórnarskrá Bandaríkjanna tryggir „rétt fólks til koma saman í friðsamlegum tilgangi og biðla til stjórnvalda um úrbætur á kvörtunarefni.“ Þetta er hin lögmæta leið til að vekja almenna athygli og beina spjótum að óréttlátum lögum eða stjórnsýsluskipan. Við höfum vissulega upplifað óréttlæti. Í opinberum aðgerðum og í persónulegu viðmóti margra hefur borið á kynþáttafordómum og öðru sem vekur gremju. Í sannfærandi ritgerð sinni hefur séra Theresa A. Dear í Landssamtökum til framdráttar þeldökkum (NAACP) minnt okkur á að „kynþáttafordómar þrífast á hatri, kúgun, óvirkni, afskiptaleysi og þögn.“11 Við, sem þegnar og meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, verðum að gera betur til að uppræta kynþáttafordóma.

Ljósmynd
Ólögleg uppþot

Aðrir öfgar eru að minnihluti þátttakenda og stuðningsmanna þessara mótmæla og ólöglegra athafna í kjölfar þeirra virðast hafa gleymt að þau mótmæli sem vernduð eru með stjórnarskránni eru friðsamleg mótmæli. Mótmælendur hafa engan rétt til að tortíma, eyðileggja eða stela eigum eða grafa undan lögmætu lögregluvaldi stjórnvalda. Stjórnarskráin og lögin geyma ekkert boð um byltingu eða stjórnleysi. Við öll – lögregla, mótmælendur, stuðningsmenn og áhorfendur – ættum að skilja takmörk réttinda okkar og mikilvægi skyldna okkar til að halda okkur innan marka gildandi laga. Abraham Lincoln hafði rétt fyrir sér þegar hann sagði: „Það er ekkert umkvörtunarefni sem réttlætir lagaumbætur óaldarlýðs.“12 Umbætur óaldarlýðs eru umbætur eftir ólögmætum leiðum. Það er stjórnleysi, ástand sem hefur enga skilvirka stjórn og enga formlega lögreglu, sem grefur undan rétti einstaklinga, fremur en að vernda hann.

Ein ástæða þess að nýleg mótmæli í Bandaríkjunum voru mörgum svo mikið reiðarslag, er sú að sá fjandskapur og lögleysa sem sjá má meðal þjóðarbrota ýmissa annarra landa, ættu ekki að eiga sér stað í Bandaríkjunum. Þetta land ætti að standa sig betur í því að útrýma kynþáttafordómum, ekki aðeins gegn svörtum Bandaríkjamönnum, sem voru áberandi í undanförnum mótmælum, heldur einnig gegn fólki af rómönskum uppruna, Asíubúum og öðrum hópum. Saga þessa lands varðandi kynþáttafordóma er ekki sældarsaga og við verðum að gera betur.

Ljósmynd
Ellis-eyja
Ljósmynd
Innflytjendur

Bandaríkin voru stofnuð af innflytjendum af mismunandi þjóðerni og uppruna. Sameiningarmálstaður hennar var ekki að koma á fót ákveðnum trúarbrögðum eða viðhalda einhverjum hinna fjölbreyttu menningarheima eða ættartryggð gömlu landanna. Kynslóð stofnenda okkar reyndi að sameinast með nýrri stjórnarskrá og lögum. Þar með er ekki sagt að sameiningarskjöl okkar eða þáverandi skilningur á merkingu þeirra hafi verið fullkominn. Saga fyrstu tveggja aldanna í Bandaríkjunum ber vott um að margt þurfti að laga og bæta, svo sem kosningarrétt kvenna og einkum afnám þrælahalds, þar með talin lög sem tryggðu þeim sem höfðu verið þrælkaðir öll frelsisskilyrði.

Tveir fræðimenn við Yale háskólann minntu okkur nýlega á þetta:

„Þrátt fyrir alla sína galla eru Bandaríkin einstaklega vel í stakk búin til að sameina fjölbreytt og klofið samfélag. …

… Þegnar þess þurfa ekki að velja á milli þjóðernis og fjölmenningar. Bandaríkjamenn geta haft hvorttveggja. Lykillinn er þó stjórnskipuleg þjóðrækni. Við verðum að vera sameinuð með stjórnarskránni, óháð hugmyndafræðilegum ágreiningi okkar.“13

Fyrir mörgum árum gaf breskur utanríkisráðherra þessa góðu leiðsögn í umræðum í Þinghúsinu: „Við höfum enga eilífa bandamenn og við eigum enga varanlega óvini. Hagsmunir okkar eru eilífir og varanlegir og skylda okkar er að fylgja þeim eftir.“14

Það er góð veraldleg ástæða fyrir því að fylgja „eilífum og varanlegum“ hagsmunum í stjórnmálum. Að auki kennir kenning kirkju Drottins okkur annað eilíft hagsmunamál okkur til leiðsagnar: Kenningar frelsara okkar, sem innblésu stjórnarskrá Bandaríkjanna og grundvallarlög margra landa okkar. Hollusta við sett lög í stað tímabundinna „bandamanna“ er besta leiðin til að elska andstæðinga okkar og óvini þegar við keppum að einingu í fjölbreytileikanum.

Vitneskjan um að við erum öll börn Guðs gefur okkur guðlega sýn á gildi allra manna og vilja og getu til að rísa ofar fordómum og kynþáttafordómum. Ég hef búið í mörg ár á mismunandi stöðum í þessu landi og Drottinn hefur kennt mér að það er vel mögulegt að hlýða lögum þjóðar okkar og reyna að bæta þau og jafnframt elska andstæðinga okkar og óvini. Þótt það sé ekki auðvelt, er það mögulegt með hjálp Drottins vors Jesú Krists. Hann gaf þetta boð um að elska og hann lofar okkur liðsinni þegar við leitumst við að hlýða því. Ég ber vitni um að við erum elskuð og munum njóta liðsinnis himnesks föður og sonar hans, Jesú Krists. Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Sjá einnig Lúkas 6:27–28, 30.

  2. Gordon B. Hinckley, „The Healing Power of Christ,“ Ensign, nóv. 1988, 59; sjá einnig Teachings of Gordon B. Hinckley (1997), 230.

  3. Sjá einnig Kenning og sáttmálar 6:5.

  4. Sjá einnig Matteus 22:21; Markús 12:17.

  5. Thomas S. Monson, „School Thy Feelings, O My Brother,“ Liahona, nóv. 2009, 68.

  6. Sjá Becky og Bennett Borden, „Moving Closer: Loving as the Savior Did,“ Ensign, sept. 2020, 24–27.

  7. Joseph Smith, í History of the Church, 5:517. Martin Luther King yngri (1929-68) sagði álíka: „Að endurgjalda ofbeldi með ofbeldi magnar ofbeldið og gerir næturmyrkrið enn svartara sem þegar er gjörsneitt stjörnum. Myrkur getur ekki rekið úr myrkur; aðeins ljósið getur það. Hatur getur ekki rekið út hatur; aðeins elska getur það“ („Where Do We Go from Here: Chaos or Community?“ [2010], 64–65).

  8. Teachings of Presidents of the Church: Howard W. Hunter (2015), 263.

  9. Russell M. Nelson, „Blessed Are the Peacemakers,“ Liahona, nóv. 2002; sjá einnig Teachings of Russell M. Nelson (2018), 83.

  10. Sjá „A House Divided,“ Economist, 5. sept. 2020, 17–20.

  11. Theresa A. Dear, „America’s Tipping Point: 7 Ways to Dismantle Racism,“ Deseret News, 7. júní 2020, A1.

  12. Abraham Lincoln, ræða flutt í Young Men’s Lyceum, Springfield, Illinois, 27. jan. 1838, í John Bartlett, Bartlett’s Familiar Quotations, 18. útg. (2012), 444.

  13. Amy Chua and Jed Rubenfeld, „The Threat of Tribalism,“ Atlantic, okt. 2018, 81, theatlantic.com.

  14. Henry John Temple, Viscount Palmerston, athugasemdir í the House of Commons, 1. mars 1848; í Bartlett, Bartlett’s Familiar Quotations, 392; skáletrað hér.