Aðalráðstefna
Biðjið, leitið og knýið á
Aðalráðstefna október 2020


Biðjið, leitið og knýið á

Mikilvægur þáttur í áætlun himnesks föður er sá möguleiki að eiga samskipti við hann hvenær sem við viljum.

Fyrir fjórum mánuðum, í ritningarnámi mínu, las ég um trúboð Alma í Ammóníaborg, þegar ég kom að þessari ábendingu í Kom, fylg mér: „Þegar þið lesið um þær dásamlegu blessanir sem Guð veitti fólki Nefís (sjá Alma 9:19–23), ígrundið þá þær dásamlegu blessanir sem hann hefur veitt ykkur.“1 Ég ákvað að skrá þær blessanir sem Guð hefur veitt mér í rafræna útgáfu kennslubókarinnar. Á nokkrum mínútum hafði ég skráð 16 blessanir.

Fremstar meðal þeirra voru hinar dásamlegu blessanir miskunnar og friðþægingar frelsarans í mína þágu. Ég skrifaði einnig um þá blessun að vera fulltrúi frelsarans, sem mér veittist sem ungum trúboða í Portúgal og síðar með kærleiksríkum eilífum félaga mínum, Patriciu, í Porto Alegre suður-trúboðinu í Brasilíu, þar sem við þjónuðum með 522 öflugum og yndislegum trúboðum. Talandi um Patriciu, þá eru margar þeirra blessana sem ég skráði þennan dag, blessanir sem við höfum notið saman í 40 ára hjónaband okkar – og má þar nefna innsiglun okkar í musterinu í São Paulo, Brasilíu, yndislegu börnin okkar þrjú, makar þeirra og 13 barnabörn okkar.

Hugsanir mínar beindust einnig að réttlátum foreldrum mínum, sem ólu mig upp í reglum fagnaðarerindisins. Einkum var mér minnisstæð sú stund er ég var 10 ára og elskuleg móðir mín kraup með mér við rúmstokkinn til bænagjörðar. Hún hlýtur að hafa fundið að ef bænir mínar ættu að ná til föður míns á himnum, þyrftu þær að verða betri. Hún sagði: „Ég mun fyrst biðja, og eftir bæn mína skalt þú biðja.“ Hún hélt áfram að gera þetta mörg kvöld, þar til hún var viss um að ég hefði lært með reglu og æfingu hvernig mér bar að tala við himneskan föður. Ég mun verða henni eilíflega þakklátur fyrir að hafa kennt mér að biðja, því ég lærði að himneskur faðir minn heyrir bænir mínar og svarar þeim.

Reyndar var það önnur blessun sem ég setti á listann minn – gjöfina til að geta heyrt og lært vilja Drottins. Mikilvægur þáttur í áætlun himnesks föður er sá möguleiki að eiga samskipti við hann hvenær sem við viljum.

Boð frá Drottni

Þegar frelsarinn heimsótti Ameríku eftir upprisu sína ítrekaði hann boð sem hann hafði gefið lærisveinum sínum í Galíleu. Hann sagði:

„Biðjið, og yður mun gefið verða, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða.

Því að hver sá öðlast, sem biður, sá finnur, sem leitar, og fyrir þeim, sem á knýr, mun upp lokið verða“ (3. Nefí 14:7–8; sjá einnig Matteus 7:7–8).

Spámaður okkar, Russell M. Nelson forseti, hefur gefið okkur álíka boð á okkar tíma. Hann sagði: „Biðjið í nafni Jesú Krists varðandi áhyggjuefni ykkar, ótta, veikleika – já, innstu hjartans þrá. Leggið síðan við hlustir. Skrifið það sem upp í hugann kemur. Skráið tilfinningar ykkar og fylgið innblæstri ykkar eftir í verki. Ef þið endurtakið þetta ferli dag eftir dag, mánuð eftir mánuð, ár eftir ár, munið þið ‚vaxa inn í reglu opinberunar.‘“2

Nelson forseti sagði ennfremur: „Á komandi tíð verður hins vegar ekki mögulegt að komast af andlega, án þess að njóta handleiðslu og huggunar og stöðugra áhrifa heilags anda.“3

Hvers vegna er opinberun svo nauðsynleg til að komast af andlega? Vegna þess að heimurinn getur verið ruglandi og hávær, fullur af blekkingum og truflunum. Samskipti við föður okkar á himnum gera okkur kleift að flokka það sem er satt og það sem er rangt, það sem skiptir máli fyrir áætlun Drottins fyrir okkur og það sem gerir það ekki. Heimurinn getur líka verið harður og átakanlegur. Þegar við hins vegar ljúkum upp hjarta okkar í bæn, þá skynjum við hughreystinguna sem kemur frá föður okkar á himnum og fullvissuna um að hann elskar okkur og metur.

Biðjið

Drottinn sagði að „hver sá öðlast, sem biður.“ Að biðja virðist einfalt, en samt er það áhrifaríkt, því það afhjúpar þrár okkar og trú. Það tekur þó tíma og þolinmæði að læra að skilja rödd Drottins. Við gefum gaum að hugsunum og tilfinningum sem koma í huga og hjarta og skrifum þær niður, eins og spámaður okkar hefur hvatt okkur til að gera. Að skrá hughrif okkar, er mikilvægur þáttur í því að taka á móti. Það gerir okkur kleift að rifja upp, skoða og upplifa aftur það sem Drottinn er að kenna okkur.

Nýlega sagði ástvinur við mig: „Ég tel að persónuleg opinberun sé sönn. Ég trúi að heilagur andi muni sýna mér alla hluti sem mér ber að gera.4 Það er auðvelt að trúa þegar ég finn brjóst mitt brenna af óhagganlegri sannfæringu.5 Hvernig get ég látið heilagan anda alltaf tala við mig á þessu sviði?“

Við ástvin minn og ykkur öll myndi ég segja að ég vildi líka finna stöðugt fyrir þessum sterku hughrifum frá andanum og sjá alltaf veginn greinilega sem fylgja ber. Ég geri það þó ekki, en það sem við gætum fundið fyrir oftar er hin kyrrláta, hljóða rödd Drottins, sem hvíslar í huga og hjarta: „Ég er hér. Ég elska þig. Haltu áfram; gerðu þitt besta. Ég mun styðja við þig. Við þurfum ekki alltaf að vita allt eða sjá allt.

Hin kyrrláta, hljóða rödd er staðfestandi, hvetjandi og hughreystandi – og oft er það bara það sem við þurfum fyrir daginn. Heilagur andi er raunverulegur og áhrif hans eru raunveruleg – þau stóru og þau smáu.

Leitið

Drottinn hélt áfram að lofa: „Sá finnur, sem leitar.“ Að leita felur í sér huglega og andlega áreynslu – að ígrunda, prófa, reyna og læra. Við leitum af því að við treystum fyrirheitum Drottins. „Því að sá, sem gengur fram fyrir Guð, verður að trúa því, að hann sé til og að hann umbuni þeim, er hans leita“ (Hebreabréfið 11:6). Þegar við leitum, viðurkennum við auðmjúklega að við eigum enn margt ólært og Drottinn mun auka skilning okkar og búa okkur undir að hljóta meira. „Því að sjá. Svo segir Drottinn Guð: Ég mun gefa mannanna börnum orð á orð ofan og setning á setning ofan, örlítið hér, örlítið þar. … Því að þeim, sem tekur á móti, mun ég meira gefa“ (2. Nefí 28:30).

Knýið á

Drottinn sagði svo líka: „Fyrir þeim, sem á knýr, mun upp lokið verða.“ Að knýja á er að bregðast við í trú. Þegar við fylgjum Drottni á virkan hátt, lýkur hann upp veginum framundan. Það er fallegur sálmur sem kennir okkur: „Því vakna! Ei dugir að dreyma dýrðina er enn eigi sást, því góðverk er yndi á gleðinnar tindi og blessun í umhyggju og ást.“6 Öldungur Gerrit W. Gong, í Tólfpostulasveitinni, útskýrði nýlega að opinberun kemur oft á meðan við erum að gera góðverk. Hann sagði: „Þegar við reynum að liðsinna þeim sem umhverfis eru með þjónustu, þá held ég að Drottinn gefi okkur aukinn kærleika í þeirra þágu og því njótum við hans líka. Ég held að við heyrum rödd hans – finnum fyrir honum á annan hátt – þegar við biðjum þess að hann hjálpi fólki umhverfis, því það er ein af þeim bænum sem hann vill helst svara.“7

Fordæmi Alma

Þessi einfalda ábending í Kom, fylg mér um að íhuga blessanir mínar, færði mér ljúfan anda og óvæntan andlegan skilning. Þegar ég hélt áfram að lesa um Alma og þjónustu hans í Ammoníaborg uppgötvaði ég að Alma er gott dæmi um hvað í því felst að biðja, leita og knýja á. Við lesum: „Alma [lagði] hart að sér andlega og glímdi við Guð í máttugri bæn, bað hann að úthella anda sínum yfir íbúa borgarinnar.“ Þeirri bæn var þó ekki svarað eins og hann vonaði og Alma var rekin úr borginni. Alma var í þann mund að gefast upp, „því að sorgin íþyngdi honum,“ þegar hann sá engil birtast með þessi orð: „Blessaður ert þú, Alma. Lyft þess vegna höfði þínu og fagna, því að þú hefur fulla ástæðu til að fagna.“ Engillinn bauð honum að fara aftur til Ammoníaborgar og reyna aftur og Alma „sneri í skyndi aftur.“8

Hvað lærum við af Alma um að biðja, leita og knýja á? Við lærum að bæn krefst andlegrar áreynslu og hún leiðir ekki alltaf til þeirrar niðurstöðu sem við vonumst eftir. Þegar okkur finnst við kjarklaus og sorgin íþyngja okkur, mun Drottinn veita okkur huggun og styrk á marga vegu. Hann svarar kannski ekki öllum spurningum okkar eða leysir öll vandamál okkar strax; hann hvetur okkur til að halda áfram að reyna. Ef við þá aðlögum áætlun okkar í skyndi að áætlun hans, mun hann ljúka upp leið fyrir okkur, eins og hann gerði fyrir Alma.

Það er vitnisburður minn að þetta er ráðstöfun fyllingar fagnaðarerindisins. Við getum notið blessana friðþægingar Jesú Krists í lífi okkar. Við höfum ritningarnar tiltækar okkur. Við erum leidd af spámönnum sem kenna okkur vilja Drottins fyrir hinn erfiða tíma sem við lifum á. Að auki höfum við beinan aðgang að persónulegri opinberun, svo að Drottinn geti hughreyst og leiðbeint okkur persónulega. Líkt og engillinn sagði við Alma, þá höfum við „fulla ástæðu til að fagna“ (Alma 8:15). Í nafni Jesú Krists, amen.