Aðalráðstefna
Systur í Síon
Aðalráðstefna október 2020


Systur í Síon

Þið verðið nauðsynlegt afl við samansöfnun Ísraels og sköpun Síonarfólks.

Ástkæru systur mínar, ég er blessaður að fá að tala á þessum yndislega tíma í sögu heimsins. Daglega nálgumst við þá dýrðarstund að frelsarinn, Jesús Kristur, komi aftur til jarðar. Við erum kunnug einhverjum þeim hræðilegu atburðum sem munu verða áður enn hann kemur, en samt svella hjörtu okkar af gleði og fullvissu yfir hinum dýrðlegu loforðum sem munu uppfyllast áður en hann kemur aftur.

Sem ástkærar dætur himnesks föður og sem dætur Drottins Jesú Krists í ríki hans,1 munið þið gegna mikilvægu hlutverki á hinum stórbrotnu tímum framundan. Við vitum að frelsarinn mun koma til fólks sem hefur verið safnað saman og búið undir að lifa eins og fólkið gerði í borg Enoks. Fólkið þar var sameinað í trú á Jesú Krist og var orðið svo algjörlega hreint að það var tekið upp til himins.

Hér er opinberuð lýsing á því sem átti sér stað með fólk Enoks og hvað gerast mun í þessari ráðstöfun í fyllingu tímanna:

„Og sá dagur kemur, að jörðin mun hvílast, en fyrir þann dag munu himnarnir myrkvast og hula myrkursins mun þekja jörðina, og himnarnir munu bifast og jörðin einnig, og miklar þrengingar verða meðal mannanna barna, en fólk mitt mun ég varðveita

Og réttlæti mun ég senda niður af himni, og sannleika mun ég senda frá jörðu, til að bera vitni um minn eingetna, upprisu hans frá dauðum, já, og einnig upprisu allra manna. Og réttlæti og sannleika mun ég láta sópa jörðina sem vatnsflóð, til að safna mínum kjörnu saman frá öllum heimshornunum fjórum, til staðar, sem ég mun fyrirbúa, helgrar borgar, svo að fólk mitt megi girða lendar sínar og líta fram til komu minnar. Því að þar mun tjaldbúð mín standa, og hún skal nefnd Síon, Nýja Jerúsalem.

Og Drottinn sagði við Enok: Þá skalt þú og öll borg þín mæta þeim þar, og við munum taka þau í faðm okkar og þau skulu sjá okkur og við munum falla þeim um háls og þau munu falla okkur um háls og við munum kyssa hvert annað–

Og þar mun bústaður minn vera, og hann verður Síon, sem koma mun út frá öllu því, sem ég hef skapað. Og í þúsund ár skal jörðin hvílast.2

Þið systur, dætur ykkar, dætur barna ykkar og þær konur sem þið hafið endurnært, munu gegna meginhlutverki við að skapa það samfélag manna sem munu eiga dýrðlegt samfélag við frelsara okkar. Þið verðið nauðsynlegt afl við samansöfnun Ísraels og sköpun Síonarfólks, sem mun dvelja friði í Nýju Jerúsalem.

Drottinn hefur gefið ykkur loforð með spámanni sínum. Á fyrri tíð Líknarfélagsins sagði spámaðurinn Joseph Smith við systurnar: „Ef þið lifið samkvæmt forréttindum ykkar, munu englarnir ekki geta haldið sig frá því að verða samstarfsfélagar ykkar.“3

Þessir dásamlegu möguleikar eru innra með ykkur og verið er að búa ykkur undir þá.

Gordon B. Hinckley forseti sagði:

„Þið systur … eruð ekki í öðru sæti í áætlun föður okkar til eilífrar hamingju og farsældar barna hans. Þið eruð algjörlega nauðsynlegur hluti af þeirri áætlun.

Án ykkar myndi áætlunin ekki virka. Án ykkar yrði allt starfið fyrir bí. …

Hver ykkar er dóttir Guðs, gædd guðlegum fæðingarrétti.“4

Núverandi spámaður okkar, Russell M. Nelson forseti, hefur sett fram þessa lýsingu á því hlutverki sem þið gegnið í komu frelsarans:

„Það væri vonlaust að meta þau áhrif sem … konur hafa, ekki bara á fjölskyldur, heldur á kirkju Drottins, sem eiginkonur, mæður og ömmur, sem systur, frænkur, sem kennarar og leiðtogar og sérstaklega sem fyrirmyndir og trúfastir verndarar trúarinnar.

Svona hefur það verið á öllum ráðstöfunartímum allt frá dögum Adams og Evu. Samt eru konurnar á þessum ráðstöfunartíma ólíkar konunum á öðrum ráðstöfunartímum, því þessi ráðstöfunartími er ólíkur öllum öðrum. Þessi mismunur veitir bæði forréttindi og ábyrgð.“5

Þessi ráðstöfunartími er sérstakur því Drottinn mun leiða okkur og búa okkur undir að verða eins og borg Enoks. Hann hefur sagt með postulum sínum og spámönnum hvað í þeirri breytingu felst að verða Síonarfólk.

Öldungur Bruce R. McConkie sagði:

„Ranglæti og illska ríktu á tíma [Enoks], myrkur og uppreisn ríktu, stríð og eyðilegging ríktu, sem leiddi til þess að jörðin var hreinsuð með vatni.

Enok var þó trúfastur. Hann ‚sá Drottin‘ og talaði við hann ‚augliti til auglitis,‘ eins og menn tala saman. (HDP Móse 7:4.) Drottinn sendi hann til að kalla heiminn til iðrunar og bauð honum að ‚skíra í nafni föðurins og sonarins, sem er fullur náðar og sannleika, og heilags anda, sem ber föðurnum og syninum vitni.‘ (HDP Móse 7:11.) Enok gerði sáttmála og laðaði að sér söfnuði sanntrúaðra, og allir þeir urðu svo trúfastir að ‚Drottinn kom og dvaldi meðal fólks síns og það lifði í réttlæti,‘ og var blessað frá hæðum. ‚Og Drottinn nefndi þjóð sína Síon, vegna þess að hugur hennar og hjarta voru eitt, og hún lifði í réttlæti og enginn fátækur var á meðal hennar.‘ (HDP Móse 7:18.) …

Eftir að Drottinn hafði nefnt fólk sitt Síon, segir ritningin að Enok hafi ‚byggt borg sem nefnd var borg heilagleika, já, Síon;‘ að Síon hafi verið ‚tekin upp til himins,‘ þar sem ‚Guð tók hana upp að sínum eigin barmi, og þaðan er sú sögn komin, að Síon sé Flúin.‘ (HDP Móse 7:19, 21, 69.) …

Þessi sama Síon sem tekin var upp til himins, mun aftur snúa … þegar Drottinn kemur aftur með Síon, og íbúar hennar munu sameinast Nýju Jerúsalem, sem þá verður stofnuð.“6

Ef fortíðin er formáli, verða þær dætur sem eru einkar tryggar sáttmálum sínum við Guð meira en helmingur þeirra sem eru undir það búnir að taka á móti frelsaranum við komu hans. Hver sem fjöldi ykkar verður, þá mun framlag ykkar til að stuðla að einingu meðal þess fólks sem undirbúið er fyrir Síon vera miklu meira en sem nemur helmingi.

Ég skal segja ykkur ástæðu þess að ég tel svo verða. Í Mormónsbók er sagt frá Síonarfólki. Þið munið eftir að það var eftir að hinn upprisni frelsari kenndi, elskaði og blessaði fólkið að „engar deilur voru í landinu vegna elsku Guðs, sem bjó í hjörtum fólksins.“7

Reynsla mín hefur kennt mér að dætur himnesks föður hafa gjöf til að draga úr ágreiningi og stuðla að réttlæti með kærleika sínum til Guðs og með kærleika til Guðs sem þær sýna þeim sem þær þjóna.

Ég sá þetta á æskuárum mínum, þegar fámenna greinin okkar kom saman á heimili mínu. Ég og bróðir minn vorum einu Aronsprestdæmishafarnir og faðir minn eini Melkísedeksprestdæmishafinn. Líknarfélagforseti greinarinnar var trúskiptingur og eiginmaður hennar var ekki ánægður með að hún þjónaði í kirkjunni. Meðlimirnir voru allir eldri systur án prestdæmishafa á heimilum sínum. Ég fylgdist með móður minni og þessum systrum elska og annast hver aðra af alúð. Mér er nú ljóst að þar sá ég fyrirfram brot af Síon.

Ég lærði áfram um áhrif trúfastra kvenna í fámennri grein kirkjunnar í Albuquerque, Nýju Mexíkó. Ég horfði á eiginkonu greinarforsetans, eiginkonu umdæmisforsetans og forseta Líknarfélagsins ylja nýliðum og trúskiptingum um hjartaræturnar. Sunnudaginn sem ég fór frá Albuquerque, eftir að hafa fylgst með áhrifum systranna þar í tvö ár, var fyrsta stikan stofnuð. Nú hefur Drottinn sett upp musteri þar.

Ég flutti þessu næst til Boston, þar sem ég þjónaði í umdæmisforsætisráði, sem hafði forsjá með fámennum greinum víða í tveimur fylkjum. Þar kom upp ágreiningur sem oftar en einu sinni var leystur með kærleiksríkum og fyrirgefandi konum sem hjálpuðu við að mýkja hjörtu. Sunnudaginn sem ég fór frá Boston, stofnaði meðlimur í Æðsta forsætisráðinu fyrstu stikuna í Massachusetts. Þar er nú musteri, í nágrenninu þar sem umdæmisforsetinn bjó áður. Hann hafði verið fenginn til starfa í kirkjunni og var síðar kallaður sem stikuforseti og eftir það sem trúboðsforseti, sem naut áhrifa dyggrar og ástúðlegrar eiginkonu.

Systur, ykkur var gefin sú blessun að vera dætur Guðs gæddar sérstökum gjöfum. Þið komuð með í hið jarðneska líf andlega getu til að hlúa að öðrum og lyfta þeim á hærra plan til þess kærleika og hreinleika sem hæfir þeim sem búa saman í Síonarsamfélagi . Það er ekki fyrir tilviljun að Líknarfélagið, fyrstu samtök kirkjunnar sérstaklega fyrir dætur himnesks föður, hafa sem kjörorð: „Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.“

Kærleikurinn er hin hreina ást Krists. Það er trúin á hann og full áhrif hinnar altæku friðþægingar hans sem gera ykkur hæfar, og þá sem þið elskið og þjónið, fyrir hina guðlegu gjöf að lifa í samfélagi hinnar langþráðu og fyrirheitnu Síonar. Þar munið þið verða systur, í Síon, elskaðar persónulega af Drottni og þeim sem þið hafið blessað.

Ég ber vitni um að þið eruð ríkisþegnar Drottins á jörðinni. Þið eruð dætur kærleiksríks himnesks föður sem sendi ykkur í heiminn með sérstakar gjafir sem þið lofuðu að nota til að blessa aðra. Ég lofa ykkur að Drottinn mun leiða ykkur með hönd sinni, með heilögum anda. Hann mun fara fyrir augliti ykkar er þið hjálpið honum að búa fólk hans undir að verða hin fyrirheitna Síon hans. Um það vitna ég í heilögu nafni Jesú Krists, amen.