Aðalráðstefna
Gjörið rétt, hafið dálæti á miskunn og fram gangið í lítillæti fyrir Guði
Aðalráðstefna október 2020


Gjörið rétt, hafið dálæti á miskunn og fram gangið í lítillæti fyrir Guði

Að gjöra rétt, er að breyta af heiðarleika. Við erum heiðvirð við Guð þegar við fram göngum í lítillæti fyrir honum. Við erum heiðvirð við aðra þegar við höfum dálæti á miskunn.

Við, sem fylgjendur Jesú Krists og Síðari daga heilagir, reynum – og erum hvött til að reyna – að gera betur og verða betri.1 Ef til vill hafið þið eins og ég velt fyrir ykkur: „Geri ég nóg?“ „Hvað annað ætti ég að gera?“ og „Hvernig get ég svo ófullkomin ‚dvalið með Guði í óendanlegri sælu‘?“2

Spámaður Gamla testamentisins, Míka, spurði hins sama þannig: „Með hvað á ég að koma fram fyrir Drottin, beygja mig fyrir Guði á hæðum?“3 Míka velti fyrir sér af kaldhæðni hvort gegndarlausar fórnir væru nægilegt gjald fyrir synd og sagði: „Hefir Drottinn þóknun á þúsundum hrúta, á tíþúsundum olífuolíulækja? Á ég að fórna frumgetnum syni mínum … sem syndafórn sálar minnar?“4

Svarið er nei. Góð verk nægja ekki. Sáluhjálp er ekki áunnin.5 Hin mikla fórn sem Míka þekkti dugði jafnvel ekki til endurlausnar frá smæstu synd. Af eigin rammleik er algjörlega vonlaust að fá dvalið í návist Guðs.6

Án blessananna sem koma frá himneskum föður og Jesú Kristi, dugar ekkert sem við getum gert eða sjálf orðið. Góðu tíðindin eru þó þau að fyrir tilveknað Jesú Krists getum við orðið hæf.7 Allir menn munu frelsast frá líkamlegum dauða fyrir náð Guðs, vegna dauða og upprisu Jesú Krists.8 Ef við því snúum hjörtum okkar að Guði, verður hjálpræði frá andlegum dauða öllum tiltækt „fyrir friðþægingu [Jesú] Krists … með hlýðni við lögmál og helgiathafnir fagnaðarerindisins.“9 Við getum frelsast frá synd og staðið hrein frammi fyrir Guði. Líkt og Míka úrskýrði: „Hann hefir sagt þér, maður, hvað gott sé! Og hvað heimtar Drottinn annað af þér en að gjöra rétt, [hafa dálæti á miskunn] og fram ganga í lítillæti fyrir Guði þínum?“10

Leiðsögn Míka um að snúa hjörtum okkar til Guðs og verða hæf fyrir sáluhjálp felur í sér þrjá samtengda þætti. Að gjöra rétt, er að vera heiðvirð við Guð og alla menn. Við erum heiðvirð við Guð þegar við fram göngum í lítillæti fyrir honum. Við erum heiðvirð við aðra þegar við höfum dálæti á miskunn. Að gjöra rétt, er því hagnýt beiting tveggja æðstu boðorðanna um að „elska … Drottin, Guð …, af öllu hjarta …, allri sálu … og öllum huga … [og að] elska [náungann] eins og [sjálf okkur].“11

gjöra rétt og fram ganga í lítillæti fyrir Guði, er að halda hendi sinni frá misgjörð, breyta að boðum hans og vera algjörlega trúfastur.12 Réttvís maður snýr sér frá synd og að Guði, gerir sáttmála við hann og heldur þá sáttmála. Réttvís maður velur að halda boðorð Guðs, iðrast er hann bregst væntingum og halda áfram að reyna.

Þegar hinn upprisni Kristur vitjaði Nefítanna, útskýrði hann að æðra lögmál hefði komið í stað lögmáls Móse. Hann bauð þeim að „fórnir [þeirra] og brennifórnir“ skyldu undir lok líða og að þeir biðu honum sem fórn „sundurkramið hjarta og sáriðrandi anda.“ Hann lofaði líka: „Og hvern þann, sem kemur til mín með sundurkramið hjarta og sáriðrandi anda, mun ég skíra með eldi og heilögum anda.“13 Þegar við tökum á móti og notum gjöf heilags anda, eftir skírn, fáum við notið stöðugs samfélags heilags anda sem kennir okkur allt sem við þurfum að gera,14 einnig að fram ganga í lítillæti fyrir Guði.

Fórn Jesú Krists fyrir syndir og hjálpræði frá andlegum dauða er öllum tiltæk sem hafa sundurkramið hjarta og sáriðrandi anda.15 Sundurkramið hjarta og sáriðrandi andi knýja okkur af gleði til daglegrar iðrunar og að líkjast meira himneskum föður og Jesú Kristi. Þegar við gerum það, hljótum við hreinsandi, græðandi og styrkjandi mátt frelsarans. Við gjörum ekki aðeins rétt og fram göngum í lítillæti fyrir Guði, heldur lærum að hafa dálæti á miskunn, líkt og himneskur faðir og Jesús Kristur gera.

Guð hefur dálæti á miskunn og er ekki spar á hana. Svo orð Míka til Jehóva séu notuð: „Hver er slíkur Guð sem þú, sá er fyrirgefur … misgjörð …, hefir unun af að vera miskunnsamur“ og „[varpar] öllum syndum … í djúp hafsins.“16 Að hafa dálæti á miskunn, líkt og Guð gerir, er óaðskiljanlega tengt því að gjöra öðrum rétt og leika menn ekki grátt.

Mikilvægi þess að leika menn ekki grátt er undirstrikað í gamansögu um öldunginn Hillel, gyðingaættar fræðimann, sem var uppi á fyrstu öld fyrir Krist. Einn af nemendum Hillel var gramur yfir því hversu flókin Tóra var – hinar fimm bækur Móse, með sínum 613 boðorðum og tilheyrandi rabbínskum skrifum. Nemandinn skoraði á Hillel að útskýra Tóra, einungis á þeim tíma sem hann gat staðið á einum fæti. Þótt Hillel hefði kannski ekki átt auðvelt með að halda jafnvægi, þá tók hann áskoruninni. Hann vitnaði í 3. Mósebók og sagði: „Eigi skalt þú hefnisamur vera né langrækinn við samlanda þína, en þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“17 Hillel bætti síðan við: „Gerðu náunga þínum ekki það sem þú hefur andstyggð á. Þetta er meginmál Tóra; allt annað eru útlistanir. Haltu svo áfram að læra.“18

Að eiga heiðvirð samskipti við aðra er alltaf hluti af því að hafa dálæti á miskunn. Íhugið samtal sem ég heyrði fyrir áratugum á bráðamóttöku Johns Hopkins sjúkrahússins í Baltimore, Maryland, í Bandaríkjunum. Sjúklingurinn, herra Jackson, var háttprúður og þægilegur maður sem var vel þekktur af starfsfólki sjúkrahússins. Hann hafði oft áður verið lagður inn á sjúkrahús til meðferðar við áfengistengdum sjúkdómum. Í þessu tilviki kom herra Jackson aftur á sjúkrahúsið vegna einkenna sem reyndust vera bólga í brisi af völdum áfengisneyslu.

Cohen læknir, sem var duglegur og dáður, skoðaði herra Jackson við lok vaktar sinnar og tók ákvörðum um að sjúkrahúsvist væri réttlætanleg. Cohen læknir fól Jones lækni, sem var næst honum í stöðu, að leggja herra Jackson inn og hafa umsjón með meðferð hans.

Jones læknir hafði gengið í virtan læknaskóla og var nýbyrjuð í læknisþjálfun. Í þessari erfiðu þjálfun var svefnleysi oft algengt, sem líklega var ástæða hinna neikvæðu viðbragða Jones læknis. Þetta var hennar fimmta innlögn kvöldsins og hún kvartaði hátt við Cohen lækni. Henni fannst ósanngjarnt að þurfa að verja mörgum klukkustundum við að annast herra Jackson, því vandræði hans væru jú sjálfsköpuð.

Cohen læknir brást við með ákveðinni en næstum hvíslandi röddu. Hann sagði: „Jones læknir, þú varðst læknir til að annast aðra og vinna að lækningu þeirra. Þú varðst ekki læknir til að dæma þá. Ef þú getur ekki greint þar á milli, hefur þú engan rétt til að njóta þjálfunar á þessari stofnun.“ Eftir þessa leiðréttingu, annaðist Jones læknir herra Jackson af kostgæfni í sjúkrahúsvistinni.

Herra Jackson er nú látinn. Bæði Jones læknir og Cohen læknir hafa átt afburða starfsferil. Á mikilvægri stundu í þjálfun Jones læknis, þurfti að minna hana á að gjöra rétt, hafa dálæti á miskunn og annast herra Jackson án dómhörku.19

Í áranna rás hef ég notið góðs af þessari áminningu. Að hafa dálæti á miskunn, er ekki bara að hafa dálæti á þeirri miskunn sem Guð sýnir okkur; við höfum dálæti á því að Guð sýnir öðrum sömu miskunn. Við fylgjum fordæmi hans. „Allir eru jafnir fyrir Guði“20 og við þurfum öll andlega meðferð til að njóta liðsinnis og læknast. Drottinn sagði: „Þér skuluð ekki meta eitt hold öðru æðra, og einn maður skal ekki telja sig öðrum æðri.“21

Jesús Kristur sýndi hvað í því felst að gjöra rétt og hafa dálæti á miskunn. Hann umgekkst frjálslega syndara, kom fram við þá af sóma og virðingu. Hann kenndi gleði þess að halda boðorð Guðs og reyndi að upphefja en ekki sakfella þá sem áttu í erfiðleikum. Hann sakfelldi þá sem fundu að því að hann þjónaði fólki sem þeir töldu óverðugt.22 Slíkt sjálfsréttlæti misbauð honum og gerir það enn.23

Menn gjöra rétt séu þeir kristnir og heiðvirðir bæði við Guð og aðra menn. Réttlát manneskja er háttvís í orðum og athöfnum og lætur ekki ólíkt útlit eða skoðanir útiloka einlæga vinsemd og vináttu. Menn sem gjöra rétt „[munu] ekki hafa hug á að gjöra hver öðrum mein, heldur lifa í friði.“24

Sá sem er kristinn hefur dálæti á miskunn. Þeir sem elska miskunn eru ekki dómharðir; þeir hafa samúð með öðrum, einkum þeim sem eru ólánsamari; þeir eru velviljaðir, vinsamlegir og vammlausir. Slíkir einstaklingar koma fram við alla af ástúð og umhyggju, óháð sérkennum, eins og kynþætti, kyni, trúartengslum, kynhneigð, félagslegri efnahagsstöðu, og ólíku ætterni eða þjóðerni. Kristilegur kærleikur rís ofar öllu slíku.

Sá sem er kristinn, velur Guð,25 gengur í auðmýkt með honum, reynir að þóknast honum og halda sáttmála gjörða við hann. Þeir sem ganga í auðmýkt með Guði hafa hugfast það sem himneskur faðir og Jesús Kristur hafa gert fyrir þá.

Geri ég nóg? Hvað meira get ég gert? Hvernig við bregðumst við þessum spurningum skiptir öllu fyrir hamingju okkar í þessu lífi og í eilífðinni. Frelsarinn vill ekki að við tökum hjálpræðinu sem sjálfsögðu. Eftir að við höfum gert helga sáttmála, er mögulegt að við gætum „[fallið] úr náðinni og [vikið] burt frá lifanda Guði.“ Við ættum því að „vera vel á verði og biðja stöðugt,“ svo við föllum ekki „í freistni.“26

Himneskur faðir og Jesús Kristur vilja þó ekki að við látum truflast af stöðugri óvissu í okkar jarðneska ferðalagi og veltum fyrir okkur hvort við höfum gert nóg til að frelsast og verða upphafin. Þeir vilja vissulega ekki að við séum þjökuð yfir mistökum sem við höfum iðrast af og lítum á þau sem sár er aldrei gróa27 eða að við séum yfirgengilega kvíðafull yfir að falla aftur.

Við getum séð okkar eigin framþróun. Við getum vitað að „sú lífsstefna [sem við] höldum okkur við, samræmist vilja Guðs“28 þegar við gjörum rétt, höfum dálæti á miskunn og fram göngum í lítillæti fyrir Guði. Við gerum eiginleika himnesks föður og Jesú Krists að persónuleika okkar og við elskum hvert annað.

Þegar þið gerið þetta eruð þið að fylgja sáttmálsveginum og verða hæf til „fá dvalið með Guði í óendanlegri sælu.“29 Sálir ykkar munu fyllast dýrð Guðs og ljósi ævarandi lífs.30 Þið munið fyllast ólýsanlegri gleði.31 Ég ber vitni um að Guð lifir og að Jesús er Kristur, frelsari okkar og lausnari og að hann sýnir öllum miskunn af kærleika og gleði. Finnst ykkur það ekki dásamlegt? Í nafni Jesú Krists, amen.