Aðalráðstefna
Öllum þjóðum, kynkvíslum og tungum
Aðalráðstefna október 2020


Öllum þjóðum, kynkvíslum og tungum

Við getum á okkar hátt orðið hluti af uppfyllingu spádóma og fyrirheita Drottins – orðið hluti af fagnaðarerindinu sem blessar heiminn.

Kæru bræður og systur, nýlega þjónaði ég við musterisinnsiglun í samræmi við leiðbeiningar um Kóvíd-19. Með brúðhjónunum, sem bæði voru trúfastir heimkomnir trúboðar, voru foreldrar þeirra og öll systkini. Þetta var ekki auðvelt. Brúðurin var níunda af tíu börnum. Systkinin hennar níu sátu í röð, frá elsta til yngsta, og auðvitað í félagslegri fjarlægð.

Fjölskyldan hafði leitast við að vera góðir nágrannar hvar sem hún bjó. Eitt samfélag hafði þó verið óvinsamlegt – vegna þess að móðir brúðarinnar sagði að fjölskylda þeirra væri í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.

Fjölskyldan gerði allt til að eignast vini í skólanum, leggja sitt af mörkum og vera meðtekin, en án árangurs. Fjölskyldan bað þess stöðugt að hjörtu myndu mýkjast.

Nótt eina fannst fjölskyldunni að bænum þeirra væri svarað, en þó á mjög óvæntan hátt. Eldur kom upp í húsinu þeirra og það brann til kaldra kola. En svolítið annað gerðist líka. Eldurinn mildaði hjörtu nágranna þeirra.

Nágrannar þeirra og skólinn á staðnum söfnuðu fötum, skóm og öðrum nauðsynjum sem fjölskyldan, er hafði missti allt sitt, þarfnaðist. Góðvildin opnaði skilning. Það var ekki eins og fjölskyldan hefði vænst þess eða vonað að bænum þeirra yrði svarað. Þau lýsa þó þakklæti fyrir það sem þau lærðu í gegnum erfiða reynslu og óvænt svör við hjartans bænum.

Sannlega staðfestist miskunn Drottins mitt í áskorunum lífsins, þeim sem eru trúfastir í hjarta og hafa augu til að sjá. Þeir sem trúfastlega takast á við áskoranir og fórnir, hljóta vissulega blessun himinsins. Í þessu jarðlífi gætum við misst eða þráð eitthvað um tíma, en að lokum munum við finna það sem mestu skiptir.1 Því hefur hann lofað.2

Hin tvö hundruð ára afmælisyfirlýsing okkar 2020, hefst á innilegu og almennu loforði um að „Guð elskar börn sín meðal allra þjóða heimsins.“3 Hverju okkar, meðal allra þjóða, kynkvísla, tungna og lýða,4 gefur Guð loforð, gerir sáttmála við og býður að við komum og meðtökum ríkulega af gleði hans og gæsku.

Elska Guðs til allra manna er staðfest í ritningunum.5 Sú elska nær yfir sáttmála Abrahams, samansöfnun tvístraðra barna hans6 og hamingjuáætlu hans fyrir okkur.

Í samfélagi trúaðra á enginn að vera ókunnugur eða útlendingur,7 enginn ríkur eða fátækur,8 engir „utangarðsmenn.“ Sem „samþegnar hinna heilögu,“9 er okkur boðið að breyta heiminum til hins betra, innan frá og út, einum einstaklingi í senn, einni fjölskyldu í senn, einu hverfi í senn.

Það gerist þegar við lifum eftir og miðlum fagnaðarerindinu. Snemma í þessari ráðstöfun hlaut spámaðurinn Joseph merkilegan spádóm um að himneskur faðir vill að allir, hvar sem er, finni kærleika Guðs og upplifi kraft hans til að vaxa og breytast.

Ljósmynd
Heimili Smith-fjölskyldunnar

Sá spádómur hlaust hér, í húsi Smith-fjölskyldunnar í Palmyra, New York.10

Ljósmynd
Öldungur og systir Gong á heimili Smith-fjölskyldunnar

Lokið var við að endurbyggja hús Smith-fjölskyldunnar á upphaflegum grunni árið 1998. Svefnherbergið á annari hæð, þar sem hinn dýrðlegi sendiboði frá Guði, Moróní, birtist hinum unga Joseph að kvöldi 21. september 1823, er 5.5 x 9 x 3 metrar að stærð.11

Þið munið hvað spámaðurinn Joseph sagði:

„[Moróní] sagði að … Guð ætlaði mér verk að vinna og nafn mitt yrði talið tákn góðs og ills með öllum þjóðum, kynkvíslum og tungum. …

[Moróní] sagði, að bók væri geymd, … að hún hefði að geyma fyllingu hins ævarandi fagnaðarerindis.“12

Hér hinkrum við. Við tilbiðjum Guð hinn eilífa föður og son hans, Jesú Krist, ekki spámanninn Joseph eða nokkurn annan dauðlegan karl eða konu.

Íhugið þó hvernig spádómar Guðs til þjóna hans eru að uppfyllast.13 Sumir þeirra uppfyllast fyrr og aðrir síðar, en allir uppfyllast.14 Þegar við hlustum á spádómsanda Drottins getum við á okkar hátt orðið hluti af uppfyllingu spádóma hans og loforða – orðið hluti af fagnaðarerindinu sem blessar heiminn.

Árið 1823 var Joseph óþekktur 17 ára unglingur sem bjó í lítt þekktu þorpi, í nýlega sjálfstæðu landi. Hvernig ætti honum að geta dottið í hug að segjast vera verkfæri í verki Guðs og að hafa þýtt helgar ritningar með gjöf og krafti Guðs, sem hvarvetna yrðu þekktar, nema satt væri?

Samt, vegna þess að það er satt, getum ég og þú orðið vitni að því að spádómurinn er að uppfyllast, einmitt með því að okkur er boðið að taka þátt í því að uppfylla hann.

Bræður og systur, hvert okkar sem tekur þátt í þessari aðalráðstefnu í október 2020, hvarvetna í heimi, er meðal þjóðanna, ættkvíslanna, tungnanna sem um er rætt.

Á þessum tíma búa meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu í 196 löndum og landsvæðum, og 3.446 kirkjustikur eru í 90 þeirra.15 Við erum landfræðilega útbreidd og eigum sterkar einingar.

Hver hefði ímyndað sér árið 1823, að árið 2020 yrðu þrjú lönd með meira en milljón meðlimi þessarar kirkju – Bandaríkin, Mexíkó og Brasilía?

Eða að 23 lönd, hvert með meira en 100.000 meðlimi kirkjunnar – þrjú í Norður-Ameríku, fjórtán í Mið- og Suður-Ameríku, eitt í Evrópu, fjögur í Asíu og eitt í Afríku?16

Russell M. Nelson forseti segir Mormónsbók vera „dásamlegt kraftaverk.“17 Vitni hennar staðfesta: „Veri það heyrinkunnugt öllum þjóðum, kynkvíslum, tungum og lýðum.“18 Á þessum tíma er aðalráðstefna tiltæk á 100 tungumálum. Nelson forseti hefur vitnað um Jesú Krist og hið endurreista fagnaðarerindi hans meðal 138. þjóða og þeim fjölgar.

Frá fyrstu 5.000 prentuðu eintökum af útgáfu Mormónsbókar árið 1830, hafa um 192 milljónir eintaka Mormónsbókar verið gefnar út, eða hluti af hennar, á 112 tungumálum. Þýðingar á Mormónsbók eru líka tiltækar víða á stafrænu formi. Mormónsbók hefur nú verið þýdd yfir á flest hinna 23. heimstungumála, sem 50 milljónir eða fleiri tala, sem eru móðurmál samtals um 4,1 milljarða manna.19

Fyrir hið smáa og einfalda – sem okkur er boðið að taka þátt í – er miklum hlutum komið til leiðar.

Ég spurði t.d. á stikuráðstefnu í Monroe í Utah, þar sem 2.200 manns búa, hversu margir hefðu farið í trúboð. Nær allir réttu upp hönd. Undanfarin ár hafa, einungis frá þessari stiku, 564 trúboðar þjónað í öllum 50 ríkjum Bandaríkjanna og 53 löndum – í öllum heimsálfum nema í Suðurskautslandinu.

Talandi um Suðurskautslandið, jafnvel í Ushuaia á suðurodda Argentínu, sá ég spádóma rætast þegar trúboðar okkar miðluðu hinu endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists á stað sem kallast „endamörk jarðar“.20

Ljósmynd
Veggmynd á ritinu Heilagir

Veggmyndin sem er á kápum fjögurra binda ritsins Heilagir21 er alþjóðlegt veggteppi af ávöxtum trúarlífs, sem allir heilagir hvarvetna hljóta. Saga kirkjunnar okkar er samofin lifandi vitnisburði og trúarferð hvers meðlims, þar á meðal Mary Whitmer, hinnar trúuðu systur sem Moróní sýndi töflur Mormónsbókar.22

Ljósmynd
Ný kirkjutímarit

Í væntanlegum þremur heimstímaritum kirkjunnar í janúar 2021 – Barnavini, Til styrktar ungmennum og Líahóna – eru allir í okkar heimslæga trúarsamfélagi hvattir til taka þátt og miðla eigin reynslu og vitnisburði.23

Bræður og systur, þegar við eflum trú á himneskan föður og Jesú Krist, hljótum blessunina sem bundin er hinum lifandi endurreista sannleika fagnaðarerindisins og heilögum sáttmálum og lærum, ígrundum og miðlum hinni viðvarandi endurreisn, þá tökum við þátt í að uppfylla spádóma.

Við erum að breyta okkur sjálfum og heiminum að forskrift fagnaðarerindisins, sem blessar líf alls staðar.

Afrísk systir segir: „Prestdæmisþjónusta eiginmanns míns gerir hann þolinmóðari og vingjarnlegri. Ég er líka að verða betri eiginkona og móðir.“

Virtur alþjóðlegur viðskiptaráðgjafi í Mið-Ameríku segir að áður en hann fann hið endurreista fagnaðarerindi Guðs, hafi hann búið stefnulaus á götunni. Nú hefur hann og fjölskylda hans fundið auðkenni, tilgang og styrk.

Ungur drengur í Suður-Ameríku elur upp kjúklinga og selur eggin til að hjálpa við að kaupa glugga fyrir húsið sem fjölskylda hans er að byggja. Hann greiðir tíundina sína fyrst. Hann mun bókstaflega sjá glugga himins opna.

Í Four Corners, í suðvesturhluta Bandaríkjanna, ræktar amerísk frumbyggjafjölskylda fallegan rósarunna, til blómstrunar í eyðimörkinni, tákn trúar á fagnaðarerindið og sjálfsbjargar.

Bróðir nokkur í Suðaustur-Asíu lifði af hörmulega borgarastyrjöld og fannst líf sitt örvæntingarfullt og merkingarlaust. Hann fann von í draumi þar sem fyrrum bekkjarbróðir hélt á sakramentisbakka og vitnaði um frelsandi helgiathafnir og friðþægingu Jesú Krists.

Himneskur faðir býður öllum alls staðar að finna elsku sína, að læra og vaxa með lærdómi, heiðvirðu starfi, sjálfsbjargarþjónustu og forskrift að gæsku og hamingju sem við finnum í hinni endurreistu kirkju hans.

Þegar við vöknum til trausts á Guði, stundum með því að biðjast fyrir á okkar myrkustu, einmanalegustu og ótryggustu stundunum, þá lærum við að hann þekkir okkur betur og elskar okkur meira en við þekkjum og elskum okkur sjálf.

Þess vegna þurfum við hjálp Guðs við að koma á varanlegu réttlæti, jafnrétti, sanngirni og friði á heimilum okkar og í samfélögum okkar. Okkar sannasta, dýpsta, einlægasta frásögn, staður eða aðild, verður til þegar við upplifum frelsandi kærleika Guðs, leitum náðar og kraftaverka í friðþægingu sonar hans og komum á varanlegum samböndum með heilögum sáttmálum.

Þörf er á trúarlegri gæsku og visku í hinum tvístraða, hávaðasama og mengaða heimi nútímans. Á hvaða annan hátt getum við endurnýjað, innblásið og fætt anda mannsins?24

Ljósmynd
Trjáplöntun á Havaí
Ljósmynd
Trjáplöntun á Havaí
Ljósmynd
Trjáplöntun á Havaí

Að gróðursetja tré á Haítí, er eitt dæmi af hundruðum þar sem fólk kemur saman til að gera gott. Samfélagið þar, ásamt 1.800 meðlimum kirkju okkar, sem gáfu trén, kom saman til að gróðursetja um 25.000 tré.25 Í þessu margra ára skógræktarverkefni hefur þegar yfir 121.000 trjám verið plantað. Ráðgert er að gróðursetja tugi þúsunda í viðbót.

Þetta sameinaða átak veitir skugga, verndar jarðveg og dregur úr flóðum í framtíð. Það fegrar umhverfið, byggir samfélagið, gleður augað og nærir sálina. Ef þið spyrðuð Haítíbúa að því hver muni tína ávextina af trjánum, segðu þeir: „Hver sem svangur er.“

Áttatíu prósent jarðarbúa tengjast á einhvern hátt trúarbrögðum.26 Trúarsamfélög bregðast strax og fúslega við neyð eftir náttúruhamfarir sem og við sífelldri þörf fyrir mat, húsaskjóli, menntun, læsi og starfsþjálfun. Um allan heim aðstoða meðlimir okkar, vinir og kirkjan samfélög við að styðja flóttafólk og sjá öðrum fyrir vatni, hreinlætisaðstöðu, tækjum fyrir hreyfihamlaða, sjónvernd – einum einstaklingi, einu þorpi, einu tré í senn.27 Alls staðar reynum við að vera góðir foreldrar og góðir borgarar, leggja okkar af mörkum í hverfum okkar og samfélögum, meðal annars í gegnum Hjálparstofnun Síðari daga heilögu.28

Guð gefur okkur siðferðilegt sjálfræði – og siðferðilega ábyrgð. Drottinn sagði: „Ég, Drottinn Guð, gjöri yður frjálsa. Þess vegna eruð þér vissulega frjálsir.“29 Með því að gefa „herteknum frelsi,“30 lofar Drottinn að friðþæging hans og fagnaðarerindið geti rofið stundleg og andleg bönd.31 Af miskunn nær þetta endurleysandi frelsi til þeirra sem hafa hafa horfið úr jarðlífinu.

Fyrir nokkrum árum sagði prestur nokkur í Mið-Ameríku mér frá því að hann væri að læra um Síðari daga heilagra „skírn fyrir dána.“ „Það virðist réttlátt,“ sagði presturinn, „að Guð myndi gefa hverjum manni tækifæri til að meðtaka skírn, sama hvenær og hvar þeir hafa lifað, að undanskildum litlum börnum, sem eru ‚lifandi í Kristi.‘32 Páll postuli,“ sagði presturinn, „talar um að hinir dánu bíði skírnar og upprisu.“33 Staðgengilshelgiathafnir í musterinu lofa öllum þjóðum, kynkvíslum og tungum að enginn þurfi að „vera í ánauð dauða, helju eða grafar.“34

Þegar við uppgötvum Guð, leiðir stundum óvænt bænaheyrsla til þess að við förum af götunni, látum leiðast í samfélag, að myrkrið hverfi úr sál okkar og við finnum andlegt athvarf og skjól í gæsku sáttmála hans og varanlegs kærleika.

Hið stóra hefst oft á hinu smáa, en kraftaverk Guðs eru sýnileg daglega. Hve þakklát við erum fyrir hina guðlegu gjöf heilags anda, friðþægingu Jesú Krists og hinar opinberuðu kenningar, helgiathafnir og sáttmála sem finna má í hinni endurreistu kirkju, nefndri hans nafni.

Megum við með gleði taka á móti boði Guðs um að öðlast og hjálpa við að uppfylla hinar fyrirheitnu og fyrirspáðu blessanir hans til handa öllum þjóðum, ættkvíslum og tungum. Ég bið þess í heilögu nafni Jesú Krists, amen.