6. kapítuli

(Nóvember—desember 1830)

Niðjar Adams skrá minningabók—Réttlátir afkomendur hans prédika iðrun—Guð opinberar sig Enok—Enok prédikar fagnaðarerindið—Sáluhjálparáætlunin var opinberuð Adam—Hann meðtekur skírn og prestdæmið.

  Og Adam hlýddi rödd Guðs og kallaði syni sína til iðrunar.

  Og Adam kenndi enn konu sinnar og hún ól son og hann nefndi hann Set. Og Adam vegsamaði nafn Guðs, því að hann sagði: Guð hefur útnefnt mér annað afkvæmi í stað Abels, sem Kain drap.

  Og Guð opinberaðist Set og hann gjörði ekki uppreist, heldur færði honum þóknanlega fórn, líkt og bróðir hans Abel. Og honum fæddist og sonur og hann gaf honum nafnið Enos.

  Og þá hófu þessir menn að ákalla nafn Drottins og Drottinn blessaði þá—

  Og minningabók var haldin og í hana skráð á tungu Adams, því að öllum þeim, sem ákölluðu Guð, var gefið að rita það, sem andinn blés þeim í brjóst—

  Og þeir kenndu börnum sínum að lesa og skrifa á hinni hreinu og óspilltu tungu þeirra.

  Og þetta sama prestdæmi og var í upphafi skal einnig verða við endi veraldar.

  Og þennan spádóm mælti Adam, knúinn af heilögum anda, og ættartala var haldin yfir börn Guðs. Og þetta var ættarskrá Adams er segir: Þann dag, sem Guð skapaði manninn, í líkingu Guðs gjörði hann hann—

  Í mynd síns eigin líkama skapaði hann þau karl og konu, og þann dag, sem þau voru sköpuð og urðu lifandi sálir í landinu, á fótskör Guðs, blessaði hann þau og nefndi þau Adam.

  10 Og Adam lifði eitt hundrað og þrjátíu ár og gat son í líking sinni, eftir sinni eigin mynd, og nefndi hann Set.

  11 Og dagar Adams, eftir að hann gat Set, voru átta hundruð ár, og hann gat marga sonu og dætur—

  12 Og allir dagar Adams, sem hann lifði, voru níu hundruð og þrjátíu ár, og hann andaðist.

  13 Set lifði eitt hundrað og fimm ár, og hann gat Enos. Og hann spáði alla sína daga og fræddi son sinn Enos um vegu Guðs. Þess vegna spáði Enos einnig.

  14 Eftir að Set gat Enos lifði hann átta hundruð og sjö ár og gat marga sonu og dætur.

  15 Og fjöldi mannanna barna varð mikill á yfirborði landsins. Og á þeim tímum hafði Satan mikil ráð meðal manna og hamaðist í hjörtum þeirra. Og þaðan í frá urðu stríð og blóðsúthellingar, og hönd manna reis gegn eigin bróður og deyddi hann, vegna leyndra verka og valdafýsnar.

  16 Og allir dagar Sets voru níu hundruð og tólf ár, og hann andaðist.

  17 Og Enos lifði níutíu ár og gat Kenan. Og Enos og aðrir af fólki Guðs fóru úr landinu, sem nefndist Shulon, og dvöldust í fyrirheitna landinu, sem hann nefndi eftir sínum eigin syni, er hann hafði nefnt Kenan.

  18 Og eftir að Enos gat Kenan lifði hann átta hundruð og fimmtán ár og gat marga sonu og dætur. Og allir dagar Enoss voru níu hundruð og fimm ár, og hann andaðist.

  19 Og Kenan lifði sjötíu ár og gat Mahalalel. Og eftir að Kenan gat Mahalalel, lifði hann átta hundruð og fjörutíu ár og gat sonu og dætur. Og allir dagar Kenans urðu níu hundruð og tíu ár, og hann andaðist.

  20 Og Mahalalel lifði sextíu og fimm ár og gat Jared. Og eftir að Mahalalel gat Jared, lifði hann átta hundruð og þrjátíu ár og gat sonu og dætur. Og allir dagar Mahalalels voru átta hundruð níutíu og fimm ár, og hann andaðist.

  21 Og Jared lifði eitt hundrað sextíu og tvö ár og gat Enok. Og eftir að Jared gat Enok, lifði hann átta hundruð ár og gat sonu og dætur. Og Jared fræddi Enok um alla vegu Guðs.

  22 Og þetta er ættarskrá sona Adams, sem var sá sonur Guðs, er Guð sjálfur ræddi við.

  23 Og þeir voru boðberar réttlætisins og töluðu og spáðu og kölluðu alla menn hvarvetna til iðrunar. Og mannanna börnum var kennd trú.

  24 Og svo bar við, að allir dagar Jareds voru níu hundruð sextíu og tvö ár, og hann andaðist.

  25 Og Enok lifði sextíu og fimm ár og gat Metúsala.

  26 Og svo bar við, að Enok ferðaðist um landið meðal fólksins, og er hann ferðaðist, sté andi Guðs frá himni og var með honum.

  27 Og hann heyrði rödd frá himni, er sagði: Enok, sonur minn, spá þú fyrir þetta fólk og seg því—Iðrist, því að svo mælir Drottinn: Ég er reiður þessu fólki og heit reiði mín er tendruð gegn því, því að hjörtu þess hafa harðnað og eyru þess daufheyrast og augu þess sjá ekki langt—

  28 Og í marga ættliði, allt frá þeim degi er ég skapaði það, hefur það farið afvega og afneitað mér og leitað sinna eigin ráða í myrkri. Og í viðurstyggð sinni hefur það ráðgjört morð og ekki haldið boðorðin, sem ég gaf föður þess, Adam.

  29 Þess vegna hefur það unnið meinsæri, og með eiðum sínum hefur það leitt yfir sig dauða. Og víti hef ég fyrirbúið því, ef það iðrast ekki—

  30 Og þetta er ákvörðun, sem ég hef í upphafi heimsins gefið með eigin munni, frá grundvöllun hans, og fyrir munn þjóna minna, feðra yðar, hef ég ákvarðað það, já, eins og það mun kunngjört heiminum allt til loka hans.

  31 Og þegar Enok hafði heyrt þessi orð, laut hann til jarðar fyrir Drottni, talaði frammi fyrir Drottni og sagði: Hvernig má það vera, að ég hef fundið náð fyrir augum þínum, og er ég þó aðeins drengur, og allir fyrirlíta mig, því að mér er tregt um mál. Hvers vegna er ég þjónn þinn

  32 Og Drottinn sagði við Enok: Far og gjör eins og ég hef boðið þér, og enginn maður skal granda þér. Ljúk upp munni þínum og hann skal fyllast, og ég mun gefa þér málið, því að allt hold er í mínum höndum, og ég mun gjöra sem mér þóknast.

  33 Seg þessu fólki: Veljið nú í dag að þjóna Drottni Guði, sem gjörði yður.

  34 Sjá, andi minn er yfir þér, þess vegna mun ég réttlæta öll þín orð. Og fjöllin munu hörfa undan þér og fljótin breyta farvegi sínum. Og þú munt vera í mér og ég í þér. Gakk þess vegna með mér.

  35 Og Drottinn talaði til Enoks og sagði við hann: Smyr augu þín með leir og lauga þau, og þú munt sjá. Og hann gjörði svo.

  36 Og hann leit andana, sem Guð hafði skapað, og hann sá einnig það, sem ekki var sýnilegt hinu náttúrlega auga. Og frá þeim tíma breiddist sú sögn um landið: Sjáanda hefur Drottinn upp vakið fyrir fólk sitt.

  37 Og svo bar við, að Enok fór um meðal fólksins í landinu, og frá hæðum og tindum hrópaði hann hárri röddu og vitnaði gegn verkum þeirra. Og allir menn styggðust vegna hans.

  38 Og þeir komu til að hlusta á hann á hæðunum og sögðu við gæslumenn tjaldanna: Verið hér um kyrrt og gætið tjaldanna meðan við förum til að sjá sjáandann, því að hann spáir, og undarlegir hlutir eru í landinu. Brjálaður maður er á meðal okkar.

  39 En svo bar við, að þegar þeir hlustuðu á hann, lagði enginn maður hendur á hann, því að ótti greip alla þá, sem á hann hlýddu, því að hann gekk með Guði.

  40 Og maður kom til hans að nafni Mahía og sagði við hann: Seg þú okkur berum orðum hver þú ert og hvaðan þú kemur.

  41 Og hann svaraði þeim: Ég kem frá Kenanslandi, landi feðra minna, landi réttlætisins fram á þennan dag. Og faðir minn fræddi mig um alla vegu Guðs.

  42 Og svo bar við, að er ég ferðaðist frá Kenanslandi, sem liggur með sjónum í austri, þá sá ég sýn. Og tak eftir, ég sá himnana, og Drottinn talaði til mín og gaf mér fyrirmæli. Af þeim sökum, og til þess að hlíta þeim fyrirmælum, mæli ég þessi orð.

  43 Og Enok hélt áfram ræðu sinni og sagði: Drottinn, sem talaði til mín, sá hinn sami er Guð himinisins, og hann er minn Guð og yðar Guð, og þér eruð bræður mínir, og vegna hvers leitið þér eigin ráða, en hafnið Guði á himni

  44 Himnana gjörði hann. Jörðin er fótskör hans, og grundvöllun hennar er hans. Sjá, hann lagði hann, og herskara manna hefur hann sett á yfirborð hennar.

  45 Og dauðinn kom yfir feður vora. Þó þekkjum vér þá og afneitum þeim ekki. Og jafnvel hinn fyrsta allra þekkjum vér, sjálfan Adam.

  46 Því að minningabók höfum vér skráð meðal vor, með þeim hætti, sem fingur Guðs benti oss á, og hún er skráð á vorri tungu.

  47 Og þegar Enok mælti fram orð Guðs, tók fólkið að skjálfa og fékk eigi staðið í návist hans.

  48 Og hann sagði við það: Vegna þess að Adam féll, erum vér til, og með falli hans kom dauðinn, og vér gjörðumst þátttakendur í vansæld og vesöld.

  49 Sjá, Satan hefur komið meðal mannanna barna og tælir þau til að tilbiðja sig. Og mennirnir hafa orðið holdlegir, munúðarfullir og djöfullegir og eru útilokaðir úr návist Guðs.

  50 En Guð hefur gjört feðrum vorum kunnugt, að allir menn verði að iðrast.

  51 Og hann talaði til föður vors Adams með eigin röddu og sagði: Ég er Guð. Ég gjörði heiminn og mennina áður en þeir voru í holdinu.

  52 Og hann sagði einnig við hann: Viljir þú snúa til mín og hlýða rödd minni og trúa og iðrast allra þinna brota og láta skírast, já, í vatni, í nafni míns eingetna sonar, sem er fullur náðar og sannleika, sem er Jesús Kristur, hið eina nafn, sem gefið verður undir himninum og mannanna börn öðlast sáluhjálp fyrir, þá munt þú meðtaka gjöf heilags anda og biðja allra hluta í hans nafni, og hvers sem þú beiðist, það mun þér gefið verða.

  53 Og Adam faðir vor talaði við Drottin og sagði: Hvers vegna verða menn að iðrast og skírast í vatni? Og Drottinn sagði við Adam: Sjá, ég hef fyrirgefið þér brot þitt í aldingarðinum Eden.

  54 Þess vegna breiddist sú sögn út á meðal fólksins, að sonur Guðs hefði friðþægt fyrir erfðasyndina, og því geta syndir foreldranna ekki komið yfir börnin, því að þau eru hrein frá grundvöllun veraldar.

  55 Og Drottinn mælti til Adams og sagði: Þar sem börn þín eru getin í synd þá mun syndin frjóvgast í hjörtum þeirra þegar þau fara að vaxa upp, og þau munu bragða hið beiska, svo að þau læri að meta hið góða.

  56 Og þeim er gefið að þekkja gott frá illu. Þess vegna hafa þau sjálfræði, og ég hef gefið þér annað lögmál og boðorð.

  57 Kenn því börnum þínum, að allir menn, hvarvetna, verði að iðrast, ella geti þeir engan veginn erft ríki Guðs, því að ekkert óhreint fær dvalið þar eða dvalið í návist hans, því að á tungu Adams er nafn hans Maður heilagleika, og nafn hans eingetna er Mannssonurinn, já, Jesús Kristur, réttlátur dómari, sem koma mun á hádegisbaugi tímans.

  58 Þess vegna gef ég þér þau fyrirmæli, að fræða börn þín óspart um þetta, og segja:

  59 Vegna brots varð fallið, og fallið leiðir til dauða, og eins og þér fæddust í heiminn af vatni og blóði og anda, sem ég hef gjört, og urðuð þannig úr dufti að lifandi sál, já, eins verðið þér að endurfæðast inn í himnaríki af vatni og af anda og verða hreinsaðir með blóði, já, blóði míns eingetna, svo að þér megið helgast af allri synd og njóta orða eilífs lífs í þessum heimi og eilífs lífs í komanda heimi, já, ódauðlegrar dýrðar—

  60 Því að með vatninu haldið þér boðorðið, með andanum eruð þér réttlættir, og með blóðinu eruð þér helgaðir—

  61 Þess vegna er gefið, að hann haldist í yður, vitni himins, huggarinn, friðsæld hinnar ódauðlegu dýrðar, sannleikur alls, hann sem lífgar alla hluti og gæðir allt lífi, hann sem veit allt og hefur allt vald varðandi visku, miskunn, sannleika, réttvísi og dóm.

  62 Og sjá, nú segi ég yður: Þetta er áætlun sáluhjálpar fyrir alla menn, með blóði míns eingetna, sem koma mun á hádegisbaugi tímans.

  63 Og sjá, allt hefur sína líkingu og allt er skapað og gjört til að bera vitni um mig, bæði hið stundlega og hið andlega. Það sem er á himnum uppi og það sem er á jörðu og það sem er í jörðu og það sem er undir jörðu, bæði yfir og undir. Allt ber vitni um mig.

  64 Og svo bar við, að eftir að Drottinn hafði talað við Adam, föður vorn, ákallaði Adam Drottin, og hann var hrifinn í burt af anda Drottins og borinn niður í vatnið og lagður undir vatnið og reistur upp úr vatninu.

  65 Og þannig var hann skírður, og andi Guðs kom yfir hann, og þannig fæddist hann af andanum og innri maður hans lífgaðist.

  66 Og hann heyrði rödd frá himni er sagði: Þú ert skírður með eldi og með heilögum anda. Þetta er vitnið um föðurinn og soninn héðan í frá og að eilífu—

  67 Og þú ert eftir reglu hans, sem var án upphafs daganna eða loka áranna, frá allri eilífð til allrar eilífðar.

  68 Sjá, þú ert eitt í mér, sonur Guðs. Og þannig geta allir orðið synir mínir. Amen.