2023
Yfirstíga erfiðleika í samböndum
Janúar 2023


„Yfirstíga erfiðleika í samböndum,“ Líahóna, jan. 2023.

Yfirstíga erfiðleika í samböndum

Hægt er að sigrast á erfiðleikum fjölskyldunnar, ef við erum fús til að leita aðstoðar Drottins til að breyta og bæta.

Ljósmynd
kona og karl andspænis hvort öðru á brotinni brú

Myndskreyting: Ale+Ale

Að yfirstíga áskoranir í fjölskyldusamböndum okkar, getur reynt á tilfinningaleg mörk okkar. Sem meðferðaraðili sá ég margar sorglegar aðstæður. Ég varð þó líka vitni að blessunum í lífi þeirra sem tókust á við fjölskylduvanda með því að leita liðsinnis Drottins til að bæta samskipti sín, auka elsku sína og skilning og vinna saman að mikilvægum breytingum. Með liðsinni Drottins fundu þau styrk til að vaxa gegnum vandamál sín.

Kristileg samskipti geta fært kærleika og skilning

Tom og Joan (nöfnum hefur verið breytt) höfðu bæði misst maka sinn. Eiginkona Toms hafði látist úr krabbameini og eiginmaður Joan hafði farið í önnur sambönd, vegna ávanafíknar. Tom og Joan kynntust á ráðstefnu fyrir einhleypa og hlökkuðu til að gifta sig.

Bæði áttu þau börn, 15 ára og yngri. Fjölskyldur þeirra höfðu farið í nokkrar skemmtiferðir saman og bæði Tom og Joan greindu hugsanleg vandamál við að blanda fjölskyldunum saman. Þau komu í ráðgjöf til að fá hugmyndir um hvernig hægt væri að eiga heilbrigð samskipti til að takast á við þennan nýja kafla í lífi sínu.

Ég lagði til að þau kynntu sér boðskapinn um fjölskyldufundi eftir M. Russell Ballard forseta, starfandi forseta Tólfpostulasveitarinnar. „Börn þarfnast sárlega foreldra sem eru viljugir að hlusta á þau,“ kenndi hann, „og fjölskylduráðið getur veitt tækifæri þar sem fjölskyldumeðlimir geta lært að skilja og elska hvort annað.“1

Fyrir fjölskyldufundinn ákváðu þau eftirfarandi dagskrá:

  1. Skilgreina vandann.

  2. Hugsa um lausnir.

  3. Gera áætlun.

  4. Koma henni í verk.

  5. Meta árangur áætlunarinnar í næstu viku og endursemja áætlunina ef þörf krefur.

Auk þess að ráðgast saman sem fjölskylda, lærðu Tom og Joan að þegar streita í samböndum er mikil getur verið nauðsynlegt að læra líka hvernig bæta á samskipti tveggja einstaklinga.

Tom og Joan lærðu nokkrar aðferðir sem hjálpuðu þeim að bæta eigin samskipti og samskipti sín við börnin sín.

  • Foreldrarnir stóðu saman að því að finna lausnir á vandamálum varðandi börnin.

  • Ef barn átti í erfiðleikum með að ljúka daglegu verkefni, varði annað foreldrið tíma með því og ræddi daginn á meðan það vann að því að ljúka verkefninu.

  • Þau vörðu tíma í hverri viku í það að dýpka samband sitt við hvert barn.

  • Þau staðfestu fyrir fram að þau myndu draga sig í hlé þegar „tilfinningalegi“ heilinn (öskur) tók yfir „skynsamlega,“ lausnamiðaða heilann (umræður).

  • Alltaf þegar upp kom valdabarátta milli foreldris og barns, dró foreldrið sig í hlé, þegar því fannst það þurfa þess, og kom aftur síðar til að hugsa um nýja lausn.

Þar sem fjölskyldan gerði sitt besta til að nálgast krefjandi mál sambandsins á trúfastan, heilbrigðan hátt – að ræða áskoranir sínar og vinna sig í gegnum þær saman – sáu Tom og Joan mikilvægan þroska eiga sér stað hjá börnum sínum sem og sjálfum sér.

Skilningur og kærleikur gerir okkur nánari hvert öðru

Þegar börn verða fullorðin, taka þau ekki alltaf þær ákvarðanir sem við óskum af þeim. Hvernig tökumst við á við slíkar aðstæður? Hvernig getum við viðhaldið samböndum okkar eða jafnvel eflt þau, svo við getum haldið áfram að veita þeim stuðning og vera réttlátur áhrifavaldur í lífi þeirra?

Terry og Bruce komu inn á skrifstofuna mína skömmu eftir að Terry og sonur þeirra, Seth, rifust í síma. Seth hafði verið í burtu í námi í þrjú ár. Hann hafði átt við alvarleg veikindi og var enn í umsjá læknisins. Vegna veikinda sinna hafði hann ekki farið í trúboð. Terry og Bruce vissu ekki hver vitnisburður hans var eða jafnvel hvort hann sótti kirkju. Þau höfðu áhyggjur af því að Jolyn, nýja kærasta Seth, væri ekki sá áhrifavaldur sem þau óskuðu sér í lífi Seth. Báðir foreldrarnir voru miður sín yfir þeirri braut sem hann var á.

Þegar við ræddum hvað þau gætu gert, tókum við fyrir dæmisöguna um týnda sauðinn. Líklega hlustaði hirðirinn eftir jarmi lambsins áður en hann fann það, elskaði það og kom með það aftur í hjörðina (sjá Lúkas 15:6). Terry og Bruce viðurkenndu að þau gætu ekki breytt Seth, en þau ákváðu að reyna að hlusta á hann, elska hann og bjóða honum heim. Þau gátu ekki valið eiginkonu hans eða lífsleið fyrir hann, en þau gátu minnt hann á að fjölskylda hans elskaði hann og fagnaðarerindið.

Terry hringdi í Seth og baðst afsökunar á rifrildinu. Hún hlustaði einungis þegar hann tjáði henni að hann skammaðist sín fyrir að hafa ekki þjónað í trúboði. Hann velti því fyrir sér hvernig hann gæti verið með stelpu úr kirkjunni. Þau buðu Seth og Jolyn heim í skólafríi.

Seth og Jolyn komu. Systur Seth umvöfðu parið. Báðir foreldrarnir elskuðu að hafa Seth heima og sögðu honum það. Terry og Bruce höfðu oftar samband við Seth. Terry sendi skilaboð nokkrum sinnum í viku. Fjölskyldan átti myndspjall á hverjum sunnudegi. Pabbi Seth varði tíma með honum í golfi og veiðum. Það gerðist hægt, en Seth sameinaðist fjölskyldunni aftur. Að lokum ákvað Seth að sú leið sem Jolyn valdi væri ekki rétt fyrir hann. Hann giftist síðar yndislegri konu sem hann skírði.

Terry og Bruce fundu týnda lambið sitt með því að hlusta, elska og bjóða honum aftur inn í hjörðina.

Ljósmynd
kona og karl gera við brú saman

Að vinna að breytingum saman, getur styrkt sambönd og stuðlað að vexti

Marie og eiginmaður hennar, David, höfðu verið gift í mörg ár og voru virtir meðlimir samfélags síns. Dag einn frétti Marie, án vitundar Davids, að hann ætti í sambandi við aðra konu.

Marie kom á skrifstofu mína og var allt í senn reið, sorgmædd og döpur. Meðan hún grét í gegnum frásögn sína, vissi hún að hún þyrfti að segja David hvernig henni liði, en ekki reiðilega, svo að andinn yrði með þeim.

Eftir bænheitan undirbúning, tjáði hún David að hún elskaði hann en væri niðurbrotin af því að frétta af sambandi hans við aðra konu. Þau þyrftu að fara til biskupsins og íhuga afdrif hjónabandsins. David vildi hvorki missa eiginkonu sína né fjölskyldu. Með aðstoð biskupsins, hóf hann iðrunarferlið.

Marie vissi að það væri ýmislegt sem þau bæði þyrftu að gera til að finna lækningu, hvort fyrir sig og sem hjón. Marie bað David að vera hjá foreldrum sínum um tíma, meðan hún greiddi úr tilfinningum sínum. Hún varði tíma í musterinu og bað Drottin um hjálp. Hún hélt meðferðinni áfram, efldi samskiptahæfni sína og lærði að setja viðeigandi mörk.

Marie og David gerðu eftirfarandi saman:

  • Lásu ritningarnar á hverju kvöldi.

  • Báðust fyrir.

  • Sögðu frá atburðum hvers dags.

  • Fóru á stefnumót eitt kvöld í viku.

Þau töluðu hreinskilnislegar saman. Marie sagði hug sinn og David hlustaði. Þau tóku að tala saman eins og þau höfðu gert þegar þau giftu sig.

Marie sagði frá því að það væri ekki bara David sem breyttist; hún breyttist líka. Henni fannst hún sterkari og öruggari með sjálfa sig. Davíð sýndi áframhaldandi iðrun og kom heim.

Að hafa Drottin með í sínu daglega lífi, gæddi samband þeirra auknu trausti og kærleika. Bæði töldu að viðleitnin við að sigrast á þessari áskorun með hjálp Drottins hefði styrkt þau.

Orð Krists munu leiða okkur

Þegar við ráðgumst um erfið fjölskyldusambönd, megum við þá öll muna eftir því að hafa Drottin með í ráðum. Stundum mun hann segja okkur hvað gera skal. Stundum getum við valið það sjálf. „Ekki er rétt, að ég skipi fyrir í öllum efnum“ (Kenning og sáttmálar 58:26). Á öðrum stundum verðum við að fela okkur Drottni. Ef við höldum eilífu sjónarhorni, munu auðæfi eilífðarinnar verða okkar og „allt mun vinna saman að velfarnaði [okkar]“ (Kenning og sáttmálar 90:24).

Heimildir

  1. M. Russell Ballard forseti, „Fjölskyldufundir,“ aðalráðstefna, apríl 2016.