2023
Finna guðlega skipan í okkar „ófullkomnu“ fjölskyldu
Janúar 2023


„Finna guðlega skipan í okkar ,ófullkomnu‘ fjölskyldu,“ Líahóna, jan. 2023.

Ungt fullorðið fólk

Finna guðlega skipan í okkar „ófullkomnu“ fjölskyldu

Það getur verið sársaukafullt að eiga ekki „fullkomna“ fjölskyldu í jarðlífinu, en við getum notað ófullkomna stöðu okkar til að komast nær frelsaranum.

Ljósmynd
ung kona með hugsanablöðru um fjölskyldu

Myndskreyting: David Green

Ekkert vekur dýpri tilfinningar um merkingu, gleði, þrá og sársauka en þau sambönd sem eru mikilvægust í upplifun okkar í jarðlífinu – fjölskyldusambönd okkar. Vegna þess að þessi sambönd skipta svo miklu máli, fengu kirkjuleiðtogar okkar innblástur um að setja saman skjalið „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins.“1 Sannleikur þess ber vitni um kærleiksríkan föður sem þráir að við þekkjum hina guðlegu forskrift, er leiðir til eilífrar hamingju í fjölskyldulífi.

Henry B. Eyring forseti, annar ráðgjafi í Æðsta forsætisráðinu, kenndi: „Vegna þess að faðir okkar elskar börn sín, mun hann ekki láta okkur giska á hvað skiptir mestu máli í þessu lífi og getur veitt okkur hamingju, ef við beinum athygli okkar að því eða óhamingju, ef við sýnum því afskiptaleysi.“2 Þetta felur í sér fjölda helgra fjölskylduhlutverka, sem við gætum gegnt í þessu lífi: dóttir eða sonur, systir eða bróðir, móðir eða faðir, frænka eða frændi, amma eða afi.

Sannleikurinn í fjölskylduyfirlýsingunni greinir frá leiðinni að „eilífum fullkomleika“ sem mörg okkar þrá innilega – sterk, hamingjusöm eilíf fjölskyldusambönd. Vandinn er sá er að við búum í „jarðneskum ófullkomleika.“ Bilið á milli „ófullkomleika“ og „fullkomleika“ getur verið sársaukafullt. Í stað þess að sjá fjölskylduyfirlýsinguna sem ljós til að leiðbeina okkur, gætum við jafnvel stundum upplifað hana sem sára áminningu um það sem okkur hefur „mistekist“ að gera „fullkomið.“

  • Við þráum kannski hjónaband en lítum ekki á það sem möguleika.

  • Við höfum kannski gift okkur og upplifað átakanlegan skilnað.

  • Við gætum þráð börn sem við getum ekki borið.

  • Við gætum hafa orðið fyrir ofbeldi í fjölskyldusamböndum sem við treystum.

  • Við gætum hafa upplifað verulegan sársauka vegna ákvarðana fjölskylduástvina.

  • Okkur kann að finnast við sundruð, þrátt fyrir bestu viðleitni okkar til að koma á einingu meðal ástvina okkar.

  • Við gætum jafnvel fundið fyrir vonbrigðum vegna óuppfylltra þráa og loforða.

Í raun munum við öll verða kunnug áskorunum, sársauka og sorg í fjölskyldulífi – sum meira en önnur. Að einhverju leyti, munum við öll falla utan við hina fullkomnu fyrirmynd sem greint er frá í fjölskylduyfirlýsingunni.

Það sem við gerum okkur kannski ekki grein fyrir, er hin guðlega skipan í þeim veruleika.

Að leita og lúta vilja frelsarans

Sem einstæð kona sem þráði hjónaband og börn í mörg ár, þráði ég og trúði því að grundvallartilgangur lífs míns væri sá að vinna að því fullkomna fjölskyldulífi sem greint er frá í fjölskylduyfirlýsingunni. Þrátt fyrir mína einlægustu viðleitni, tókst mér ekki að gera það að á þann hátt sem ég trúði að það ætti að vera. Sú barátta var sársaukafull.

Á þeim tíma fékk ég ekki séð kraftaverkið sem Drottinn var að koma til leiðar í hjarta mínu í gegnum þá baráttu.

Þegar ég lít til baka, sé ég að óuppfylltar þrár mínar gegndu helgu hlutverki í því að tengja hjarta mitt lausnara mínum, til að leita friðar og leiðsagnar sem hann einn gat veitt og dýpka traust mitt á hans fullkomna kærleika og virkjandi krafti. Daglegar bænir og ritningarnám, og einkum orð aðalráðstefnu, urðu líflína vonar og handleiðslu. Ég fann mig knúna til að snúa mér að orðum patríarkablessunar minnar – og annarra prestdæmisblessana – til að finna kærleika og leiðsögn sem var mér persónuleg frá eilífum föður mínum.

Þegar ég úthellti hjarta mínu fyrir Drottni, jafnvel er ég freistaðist til að hverfa frá í biturleika, komu helg hughrif upp í huga minn og hjarta, sem fullvissuðu mig um að hann vissi hvar ég var, að líf mitt fæli í sér dásamlega áætlun og að ég gæti treyst honum. Sáttmálsaðild3 með frelsara mínum, varð leið til þess að veita mér djúpan frið og gleði, umfram öll önnur úrræði lífsfyllingar eða hamingju.

Ég komst að því að þó ég hefði trúað því að tilgangur lífs míns væri sá að gera draum minn um að gera hina fullkomnu fjölskyldu að veruleika, þá var Drottinn að gera mögulegt það sem öldungur Jeffrey R. Holland, í Tólfpostulasveitinni, sagði vera grundvallartilgang jarðlífsins. Hann vitnaði í Benjamín konung og útskýrði: „Kannski er grundvallartilgangurinn … að verða ,heilagur fyrir friðþægingu Krists, sjálfs Drottins,‘ sem gerir kröfu til þess að við verðum ,sem barn, undirgefin, hógvær, auðmjúk, þolinmóð, elskurík og reiðubúin að axla allt, sem Drottni þóknast á okkur að leggja, á sama hátt og barn, sem beygir sig fyrir föður sínum.‘“4

Þörf mín fyrir hjálp og styrk frelsarans, knúði mig til þess að leita og upplifa hans hjarta undirgefni, hógværðar, auðmýktar, þolinmæði og kærleika. Í því ferli var mér breytt fyrir virkjandi kraft hans. Í sannleika sagt var það það sem ég óskaði mér mest. Það sem hafði virst svo „ófullkomið,“ hafði í raun rutt brautina að hinu fallegasta „fullkomna.“

Vinur minn og samstarfsfélagi, Ty Mansfield, greindi frá álíka sannleika. Sem maður sem upplifir samkynhneigð, varð Ty vitni að þeim andlega vexti sem getur átt sér stað þegar við bindum líf okkar Jesú Kristi og gefum honum fúslega hjarta okkar heilskipt og leyfum að hann helgi alla okkar erfiðu reynslu okkur til ávinnings. Hjá Ty byrjaði það á því að andinn kenndi honum „að hvort sem ég giftist einhvern tíma eða ekki, þá var ég óendanlega elskaður og meðtekinn af Guði. Ábyrgð mín var sú að halda áfram að lifa einn dag í senn, á meðan ég leitaði og fylgdi leiðsögn andans.“5 Að lokum, leiddi traust á Guði Ty til að ganga í gleðiríkt, dásamlegt, eilíft hjónaband með eiginkonu sinni.

Þróa dýpra samband við frelsarann

Ég gifti mig loks líka, eftir að hafa velt því fyrir mér hvort ég myndi nokkurn tímann gera það. Þörfin fyrir að vera vandlega bundin Jesú Kristi, hefur aðeins viðhaldist, ef ekki aukist, á árunum frá því að ég var innsigluð eiginmanni mínum. Ég tók aftur að leita til hans eftir friði, þar sem ég háði baráttu við ófrjósemi. Ég vissi ekki hvernig ég gæti nokkuru sinni notið þeirrar gleði sem ég vonaðist eftir í fjölskyldulífi án barna. Jafnvel eftir að við hjónin vorum blessuð með tveimur börnum, einbeitti ég mér oft að veikleikum mínum sem móður. Þótt ég hefði loks öðlast það sem ég hafði alltaf óskað eftir, þá virtist bilið á milli hins „fullkomna“ og hins „ófullkomna“ að nokkru leyti breikka.

Þessar aðstæður fengu mig að endurskoða tilgang jarðlífsins og hið guðlega helgaða vaxtarferli. Kannski er tilgangur lífsins í raun ekki sá að öðlast hina fullkomnu fjölskyldu. Kannski er sá fullkomleiki ekki einu sinni til í jarðlífinu. Kannski er fjölskyldan þess í stað tækifæri til framþróunar.

Kannski er það í raun svo að hinn „ófullkomni“ veruleiki, sem er svo sársaukafullur, uppfyllir þann helga tilgang að gera þann vöxt mögulegan sem við í raun þurfum á að halda til að lifa í „fullkomnum“ samböndum. Kannski er staðreyndin sú að krafturinn býr í hinu breiða bili milli hins ófullkomna og hins fullkomna, sem gerir okkur mögulegt að dýpka samband okkar við Jesú Krist, þar sem hann læknar og helgar það sem er brotið, byggir upp visku, styrk og kærleika í því ferli. Það er fyrir hans undursamlegu náð og endurlausn, einungis fyrir hann, að við getum orðið að því fólki sem fær notið þeirra sambanda sem við þráum að eiga á himnum.

Ég er farin að trúa því að „fullkomnun“ sé í raun engum möguleg í fjölskyldusamböndum – hið minnsta ekki í þessu lífi – en heiðarleiki, heilindi og ósvikin nálægð eru það. Reyndar mun það að gera sér upp eða vænta fullkomleika, trufla raunverulega nálægð við Guð, fjölskyldur okkar og aðra. Þess í stað, þegar við leyfum okkur að sjást eins og við í raun erum séð af Kristi, fjölskyldum okkar og öðrum, þar á meðal í öllu því sem er „minna en fullkomið,“ þá getum við boðið helgandi krafti hans í líf okkar. Við getum upplifað dásamleg kraftaverk hans til að leysa hið óleysanlega, fylla okkur kærleika og breyta okkur í þær mannverur sem búa að dýpra sambandi við hann og ástvini sína.

Ef til vill er helgasti tilgangur fjölskylduyfirlýsingarinnar að fullvissa okkur um að vegna Jesú Krists geti hin „fullkomna“ fjölskylda verið eilíf örlög sérhvers.

Sem ástkærir synir og dætur himneskra foreldra, tilheyrum við öll eilífri fjölskyldu. Einstök reynsla okkar í jarðlífinu er ómissandi hluti af áætlun föður okkar til að hjálpa okkur að þróast og „að lokum gera að veruleika guðleg örlög [okkar] sem erfingjar eilífs lífs“6 – hið sama dásamlega fjölskyldulíf sem hann sjálfur lifir, hversu ólíkt sem það kann að vera þeirri fjölskyldupplifun sem við nú lifum. Líkt og öldungur D. Todd Christofferson, í Tólfpostulasveitinni, kenndi: „Af sannfæringu berum við vitni um að friðþæging Jesú Krists er raunveruleg og að hún muni umbuna þeim sem til hans koma og að lokum bæta fyrir allan skort og skaða. Öllum börnum föðurins er fyrirbúið að hljóta allt það sem faðirinn á.“7

Líkt og Drottinn lofaði Jakobi mitt í áskorunum fjölskyldu hans, sem var „minna en fullkomin,“ þá fullvissar sáttmálssamband við hann okkur: „Ég er með þér og gæti þín hvar sem þú ferð og mun leiða þig aftur [heim], því að ég yfirgef þig ekki fyrr en ég hef komið því til leiðar sem ég hef heitið þér“ (1. Mósebók 28:15). Þegar við fylgjum honum, sama hversu ófullkominn veruleiki okkar lítur út fyrir að vera, mun hann ekki „sleppa okkur,“ fyrr en við höfum orðið allt sem við þráum að verða, bundin fjölskyldusamböndum guðlegrar gleði að eilífu.

Heimildir

  1. Sjá „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins,“ KirkjaJesuKrists.is, Frá leiðtogum/Yfirlýsingar.

  2. Henry B. Eyring, „The Family,“ Liahona, okt. 1998, 10.

  3. Sjá Gerrit W. Gong, „Sáttmálsaðild,“ aðalráðstefna, október 2019.

  4. Jeffrey R. Holland, „A Saint Through the Atonement of Christ the Lord“ (ræða á trúarsamkomu í Brigham Young-háskóla, 18. jan. 2022), 1, speeches.byu.edu.

  5. Ty Mansfield, Voices of Hope (2011), 5.

  6. Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins.“

  7. D. Todd Christofferson, „Af hverju hjónaband og fjölskylda?,“ aðalráðstefna, apríl 2015.