2023
Af hverju gat ég ekki fyrirgefið?
Janúar 2023


„Af hverju gat ég ekki fyrirgefið?“ Líahóna, jan. 2023.

Frá Síðari daga heilögum

Af hverju gat ég ekki fyrirgefið?

Ég bað þess að himneskur faðir hjálpaði mér að sigrast á slæmum tilfinningum og fyrirgefa.

Ljósmynd
maður vinnur í garði á musterislóð

Myndskreyting eftir Allen Garns

Ég hafði tekið höndum saman með nokkrum bræðrum í deildinni minni til að hjálpa systur við flutning. Þegar við komum að íbúðinni hennar, var þar fyrir sendibíll sem hafði verið lagt á rangan hátt og kom í veg fyrir að við kæmumst að staðnum hennar með sendibílinn okkar.

Ég hringdi í símanúmerið á hlið sendibílsins til að biðja um að einhver kæmi og færði hann. Maður svaraði og lofaði að koma bráðum.

Eftir 15 mínútur hringdi ég aftur, en hann svaraði ekki. Loks, eftir eitt símtal í viðbót, birtist hann með tvö börn. Hann var reiður og sagði eitthvað sem náði að hreyfa við mér. Ég reyndi að ýta því frá mér er við héldum áfram með flutninginn.

Um kvöldið hugsaði ég um þessa upplifun. Ég bað þess að himneskur faðir hjálpaði mér að láta af tilfinningum mínum og fyrirgefa manninum. Hann svaraði bæn minni.

Nokkru síðar var ég hins vegar að lesa fréttablað og tók eftir grein um þennan mann. Í blaðinu var mynd af honum. Neikvæðar tilfinningar vöknuðu aftur í hans garð. Ég fór því aftur í gegnum sama ferlið. Ég bað Drottin um að þetta ómerkilega mál truflaði mig ekki lengur og að hann hjálpði mér að fyrirgefa manninum. Góð tilfinning kom.

Það leið ekki á löngu þar til ég hitti þennan sama mann í verslun. Slæmu tilfinningar mínar komu enn aftur. Ég varð undrandi. Ég spurði Drottin hvers vegna ég gæti ekki komist yfir þessa reynslu. Nokkrum dögum síðar kenndi hann mér lexíu.

Ég var að fara af lóð Helsinki-musterisins í Finnlandi þegar ég tók eftir þessum sama manni við vinnu í musterisgarðinum. Ég trúði ekki eigin augum. Hugur minn laukst upp og ég skildi að hann, eins og ég, þjónaði Drottni og að hann, eins og ég, ætti sér gremjulega daga, þegar hlutirnir ganga ekki upp. Ég gat þá séð þennan mann sem bróður minn. Með nýjum augum fann ég virðingu og kærleika til hans. Eftir þetta hurfu allar fyrri tilfinningar og komu aldrei aftur.

Þegar við sjáum aðra eins og Drottinn sér okkur, getum við fylgt boðorði hans um að fyrirgefa algjörlega (sjá Matteus 6:14–15; Kenning og sáttmálar 64:9–10). Þessi reynsla var eftirminnileg og ég ígrunda enn í hjarta mér hina mildu miskunn Drottins.