2023
Hvernig guðleg sjálfsmynd hefur áhrif á það að tilheyra og verða
Mars 2023


„Hvernig guðleg sjálfsmynd hefur áhrif á það að tilheyra og verða,“ Líahóna, mars 2023.

Hvernig guðleg sjálfsmynd hefur áhrif á það að tilheyra og verða

Þegar við höfum samband okkar við Guð og lærisveinslíf okkar með Jesú Kristi í fyrirrúmi, munum við finna gleði í guðlegri sjálfsmynd okkar, hljóta þá varanlegu tilfinningu að tilheyra og ná að lokum guðlegum möguleikum okkar.

Ljósmynd
fjölbreyttur hópur fólks

Bandaríska sálfræðingafélagið skilgreinir að tilheyra sem „tilfinningu um að vera samþykktur og meðtekinn af hópi.“1

Því miður finnum við ekki öll þá tilfinningu að við tilheyrum og reynum stundum að breyta því hver við erum til að vera meðtekin. „Við viljum öll falla í hópinn,“ útskýrir Joanna Cannon, breskur geðlæknir. „Til þess að það geti gerst, sýnum við oft örlítið aðra útgáfu af því hver við erum, allt eftir umhverfinu og félagsskapnum sem við erum í. Við gætum búið yfir fjölmörgum „útgáfum“ af okkur sjálfum – fyrir atvinnuna eða heimilið eða jafnvel Alnetið.“2

Mikilvægt er að hafa í huga að það er munur á því að falla í hópinn og að tilheyra. Brené Brown, bandarískur vísindamaður og rithöfundur, sagði: „Að falla í hópinn er ekki það sama og að tilheyra. Að falla í hópinn er í rauninni ein mesta hindrun þess að tilheyra. Að falla í hópinn snýst um að meta aðstæður og verða sá eða sú sem þið þurfið að vera, til að vera tekin í sátt. Að tilheyra krefst þess aftur á móti að við þurfum ekki að breyta því hver við erum; það krefst þess að við séum það sem við erum.“3

Að þekkja guðlega sjálfsmynd sína, er nauðsynlegt til að tilheyra í raun; ella munum við verja tíma okkar og kröftum í að breytast til að verða meðtekin á stöðum sem ekki heiðra eða falla að eilífu eðli okkar. Þar sem við veljum að tilheyra, getur auk þess leitt til að gildi okkar og atferli breytist, því við lögum okkur að hópviðmiðum og stöðlum. Með tímanum, mun sá staður sem við veljum að tilheyra hafa áhrif á það hver við verðum.

Í stuttu máli, með því að umfaðma okkar guðlegu sjálfsmynd, hefur það áhrif á hvar við þráum að tilheyra og sá staður sem við veljum að heyra til, ákvarðar að lokum hvað við verðum.

Guðleg sjálfsmynd

Við dvöldum öll hjá Guði í fortilverunni (sjá Kenning og sáttmálar 93:29; 138:55–56). Við vorum sköpuð í hans mynd – karl og kona (sjá 1. Mósebók 1:27). Hann fyrirbjó áætlun fyrir okkur, til að við yrðum eins og hann (sjá Kenning og sáttmálar 132:19–20, 23–24). Hamingjuáætlun hans fól í sér að við kæmum til jarðar til að fá efnislegan líkama, öðlast þekkingu og að lokum snúa aftur til okkar himneska heimilis, til að lifa með honum í eilífri gleði (sjá 2. Nefí 2; 9; Abraham 3:26). Guð opinberaði: „Því að sjá. Þetta er verk mitt og dýrð mín – að gjöra ódauðleika og eilíft líf mannsins að veruleika” (HDP Móse 1:39). Hið dásamlega er að við erum verk hans og dýrð! Þetta segir nokkuð um gríðarlegt gildi okkar og verðmæti í hans augum.

Þar sem milljarðar manna eru á jörðinni, gætu sumir átt erfitt með að meðtaka að Guð sé minnugur okkar einstaklingsbundið. Ég ber vitni um að hann þekkir sérhvert okkar og er líka meðvitaður um hvað við erum að gera, hvar við erum og jafnvel „hugsanir [okkar] og öll áform hjartans“ (Alma 18:32). Guð hefur ekki bara „tölu“ á okkur (HDP Móse 1:35), heldur elskar hann okkur líka fullkomlega (sjá 1. Nefí 11:17).

Sökum þessarar fullkomnu elsku til okkar, þráir himneskur faðir að deila með okkur öllu sem hann á (sjá Kenning og sáttmálar 84:38). Enda erum við dætur hans og synir. Hann vill að við verðum eins og hann, gerum það sem hann gerir og upplifum þá gleði sem hann nýtur. Þegar við opnum hjörtu okkar og huga fyrir þessum sannleika, mun „sjálfur andinn [vitna] með anda okkar að við erum Guðs börn. En ef við erum börn erum við líka erfingjar og það erfingjar Guðs“ (Rómverjabréfið 8:16–17).

Jarðneskur mismunur

Í fortilverunni gengum við með Guði, heyrðum rödd hans og fundum kærleika hans. Síðan þá höfum við gengið í gegnum hulu gleymsku í jarðlífið. Við höfum ekki lengur fullkomna endurminningu um líf okkar áður. Aðstæður þessa jarðneska umhverfis, gera okkur erfiðara með að skynja guðlegt eðli okkar og þá tilfinningu að tilheyra, sem við nutum í okkar himnesku heimkynnum.

Sem dæmi um það, þá getur of mikil áhersla á það sem aðgreinir okkur erfðafræðilega og umhverfislega verið hindrun í tengingu okkar við Guð. Andstæðingurinn reynir að nýta sér þessa aðgreiningu til að beina okkur frá hinu sameiginlega guðlega ætterni okkar. Við erum auðkennd af öðrum og tökum stundum þessar merkingar á okkur sjálf. Í sjálfu sér er ekkert athugavert við að finnast maður tilheyra öðrum út frá jarðneskum eiginleikum; í raun finna mörg okkar gleði og stuðning frá þeim sem hafa svipaða eiginleika og reynslu. Þegar við aftur á móti gleymum sjálfsmynd okkar sem börn Guðs, getum við tekið að óttast þá sem eru ólíkir okkur, vantreysta þeim eða finnast við æðri þeim. Slíkt viðhorf leiðir oft til sundrungar, mismununar og jafnvel eyðileggingar (sjá HDP Móse 7:32–33, 36).

Þegar við minnumst okkar guðlegu arfleifðar, glæðir fjölbreytileikinn lífið fegurð og auðgi. Við lítum á okkur sem bræður og systur, þrátt fyrir ágreining okkar. Við tökum að virða og læra hvert af öðru. Við leitumst við að veita öðrum stuðningsstaði til að finna að þeir tilheyra, einkum þegar einkenni þeirra og upplifun er ólík okkar. Við finnum fyrir þakklæti til Guðs fyrir fjölbreytta sköpun hans.4

Þótt erfðir og umhverfi hafi áhrif á reynslu okkar í jarðlífinu, þá skilgreina þau okkur ekki. Við erum börn Guðs og höfum möguleika á að verða eins og hann.

Að tilheyra fyrir tilstilli Jesú Krists

Guð vissi að við myndum standa frammi fyrir mikilvægum áskorunum í jarðlífinu og sendi því son sinn, Jesú Krist, til að hjálpa okkur að yfirstíga þessar hindranir. Kristur býðst til að hjálpa okkur að endurreisa hið nána samband sem við áttum við Guð í fortilverunni. Kristur útskýrði: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig“ (Jóhannes 14:6; sjá einnig Jóhannes 3:16–17).

Kristur er alltaf fús til að liðsinna okkur. Við tilheyrum honum (sjá 1. Korintubréf 6:20) og hann þráir að við komum til hans. Frelsarinn lofar með eigin orðum: „Komið … til mín með einlægum ásetningi, og ég mun taka á móti yður“ (3. Nefí 12:24).

Svo, hvernig komum við til Krists með einlægan ásetning hjartans?

Í fyrsta lagi meðtökum við hann sem frelsara okkar og lausnara. Við viðurkennum hátign Guðs, glatað og fallið ástand okkar og að við séum algjörlega háð Jesú Kristi til að verða hólpinn. Við þráum að vera kölluð hans nafni (sjá Mósía 5:7–8) og viljum vera lærisveinar hans „alla okkar ókomnu ævidaga“ (Mósía 5:5).

Í öðru lagi komum við til Krists með einlægum ásetningi hjartans, með því að gera og halda sáttmála við Guð (sjá Jesaja 55:3). Sáttmálar eru gerðir með endurleysandi og upphefjandi helgiathöfnum fagnaðarerindis Jesú Krists, framkvæmdar með prestdæmisvaldi.

Ljósmynd
piltur útdeilir sakramentinu til meðlima

Að gera og halda sáttmála, bindur okkur ekki aðeins við Guð og son hans, heldur tengir okkur líka hvert öðru. Fyrir nokkrum árum var ég að heimsækja Kosta Ríka með fjölskyldu og sótti sakramentissamkomu í kirkjudeild á staðnum. Þegar við komum inn fyrir, tóku nokkrir meðlimanna vel á móti okkur. Á samkomunni sungum við sakramentissálm með fámennum söfnuðinum. Við horfðum á prestana undirbúa sakramentið og hlustuðum síðan á þá flytja sakramentisbænirnar. Þegar brauðinu og vatninu var útdeilt til okkar, varð ég gagntekinn af kærleika Guðs til hvers þessara sáttmálshaldandi félaga. Ég hafði ekki hitt neinn þeirra fyrir þessa samkomu, en fann fyrir einingu og skyldleika við þá, vegna þess að við höfðum allir gefið og kappkostað að halda sömu loforð við Guð.

Þegar við gerum og kappkostum að halda helga sáttmála við Guð, tökum við að upplifa tilfinningu um að tilheyra, meiri en hægt er að ná fram með tengingu við nokkurn jarðneskan eða stundlegan hóp.5 Við erum „ekki framar gestir og útlendingar heldur [erum við] samþegnar hinna heilögu og heimamenn Guðs“ (Efesusbréfið 2:19).

Mér er ljóst að sum okkar munu, vegna jarðneskra aðstæðna, ekki hafa tækifæri til að meðtaka allar helgiathafnir og gera alla sáttmála í þessu jarðneska lífi.6 Í slíkum tilvikum, biður Guð okkur að gera „allt sem [við] getum gjört“ (2. Nefí 25:23) til að gera og halda þá sáttmála sem okkur eru tiltækir. Hann hefur lofað að sjá okkur fyrir tækifæri til að taka á móti öllum þeim helgiathöfnum og sáttmálum sem eftir eru í næsta lífi (sjá Kenning og sáttmálar 138:54, 58). Hann mun gera okkur mögulegt að taka á móti öllum blessunum sem hann geymir börnum sínum (sjá Mósía 2:41).

Ljósmynd
mynd af Jesú með börnum

Verða eins og himneskur faðir og Jesús Kristur

Guð gleðst þegar við finnum kærleikann, eininguna og styrkinn sem kemur frá djúpri tilfinningu um að tilheyra honum, syni hans og þeim sem fylgja þeim. Hann hefur þó miklu stærri áætlanir fyrir okkur! Þótt hann bjóði okkur að koma eins og við erum, þá er raunveruleg þrá hans sú að við verðum eins og hann er.

Að gera og halda sáttmála, gerir okkur ekki aðeins mögulegt að tilheyra Guði og Kristi, heldur veitir það okkur líka kraft til að verða eins og þeir (sjá Kenning og sáttmálar 84:19–22). Þegar við gerum og höldum sáttmála sem tengjast endurleysandi og upphefjandi helgiathöfnum fagnaðarerindisins, getur kraftur Guðs streymt í líf okkar. Við getum litið á sáttmálsveginn sem guðlega lærdómsáætlun. Þegar við gerum og höldum sáttmála við Guð, æfum við okkur í því að hugsa, breyta og elska eins og hann gerir. Smátt og smátt, með hjálp hans og krafti, er okkur gert kleift að verða eins og hann.

Guð þráir að við göngum til liðs við hann og son hans í því að gera „ódauðleika og eilíft líf mannsins að veruleika” (HDP Móse 1:39). Hann hefur gefið sérhverju okkar tíma á þessari jörðu, andlegar gjafir og umboð til að nota þær í þjónustu annarra. Við erum synir hans og dætur og hann hefur mikilvægt verk fyrir okkur að vinna (sjá HDP Móse 1:4, 6).

Til að vera áhrifarík í verki hans, þurfum við að snúa okkur út á við og læra að hafa Guð í fyrsta sæti og setja þarfir annarra oft framar okkar eigin. Að einblína út á við, krefst persónulegrar fórnar (sjá Kenning og sáttmálar 138:12–13), en gerir líka líf okkar innihaldsríkara og veitir mikla gleði (sjá Alma 36:24–26).

Þegar við tökum þátt í verki Guðs, tilheyrum við ekki bara hóp sem meðlimir; heldur verðum við raunverulegir samverkamenn Guðs og sonar hans, Jesú Krists. Engin tilfinning er dásamlegri en að vita að Guð treystir okkur nægilega til að vinna í gegnum okkur við að færa öðrum eilíft líf.

Ljósmynd
fjölbreyttur hópur fólks í samskiptum

Þrjú boð

Að lokum set ég fram þrjú boð, sem geta hjálpað okkur að öðlast gleðiríka og varanlega tilfinningu sjálfsmyndar og að tilheyra og gert okkur mögulegt að ná guðlegum möguleikum okkar.

1. Ég býð okkur að hafa hina guðlegu sjálfsmynd okkar, sem dætur og synir Guðs, í fyrirrúmi. Þetta þýðir að við byggjum sjálfsvirðingu okkar á guðlegum foreldrum okkar. Við leitumst við að byggja upp samband okkar við Guð með bæn og ritningarnámi, helgi hvíldardagsins og musteristilbeiðslu og allri annarri breytni sem færir heilagan anda inn í líf okkar og styrkir tengsl okkar við hann. Við látum Guð ríkja í lífi okkar.7

2. Ég býð okkur að taka á móti Jesú Kristi sem frelsara okkar og að láta lærisveinshlutverk okkar vera ofar öllum öðrum hugðarefnum. Í þessu felst að við tökum á okkur nafn hans og að við þráum að vera kunn sem fylgjendur hans. Við leitumst við að hljóta fyrirgefningu hans og styrk daglega. Við gerum og höldum sáttmála. Við reynum að verða eins og hann.

3. Ég býð okkur að taka þátt í verki Guðs, með því að hjálpa öðrum að koma til Krists og öðlast eilíft líf. Þetta þýðir að við hjálpum öðrum að sjá guðlega sjálfsmynd sína og finna að þau tilheyra. Við deilum opinskátt gleðinni sem við finnum í Jesú Kristi og fagnaðarerindi hans (sjá Alma 36:23–25). Við leitumst við að hjálpa öðrum að gera og halda helga sáttmála við Guð. Við leitum leiðsagnar Guðs til að vita hverja við getum blessað og hvernig á að gera það.

Ég lofa því að þegar við höfum samband okkar við Guð og lærisveinslíf okkar með Jesú Kristi í fyrirrúmi, munum við finna gleði í guðlegri sjálfsmynd okkar, hljóta þá varanlegu tilfinningu að tilheyra og ná að lokum guðlegum möguleikum okkar.

Úr trúarsamkomuræðu, „Divine Identity, Becoming, and Belonging,“ sem flutt var í Brigham Young háskóla á Havaí, 25. maí 2022.

Heimildir

  1. APA Dictionary of Psychology, undir orðinu „belonging,“ dictionary.apa.org.

  2. Joanna Cannon, „We All Want to Fit In,“ Psychology Today (blogg), 13. júlí 2016, psychologytoday.com.

  3. Brené Brown, Daring Greatly: How the Courage to Be Vulnerable Transforms the Way We Live, Love, Parent, and Lead (2015), 231–32.

  4. Í Mormónsbók er greint frá tíma þegar fólkið var einhuga í Guði, þótt ólíkt hafi verið (sjá 4. Nefí 1:15–17). Þessi hópur fólks minntist sinnar guðlegu arfleifðar, setti hollustu sína við Guð ofar öllu öðru og lifði í einingu og kærleika með öðrum, þrátt fyrir erfðafræðilegan og umhverfislegan mismun.

  5. Hið heilaga hús Drottins skapar líka andrúmsloft jafnræðis og sáttmálsaðildar. Hugleiðið eftirfarandi um reynslu okkar í musterinu: Öllum er boðið að undirbúa sig og uppfylla skilyrði fyrir musterismeðmæli. Við klæðumst öll hvítum klæðum, sem tákna sameiginlegan hreinleika og jafnrétti fyrir Guði. Við köllum hvert annað bróður eða systur og notum ekki formlega jarðneska titla. Öllum er boðið upp á sömu námstækifæri. Öllum er boðið upp á sömu sáttmála og helgiathafnir og geta hlotið sömu eilífu blessanir.

  6. Af þeim 117 milljörðum manna sem hafa búið á þessari jörð (sjá Toshiko Kaneda og Carl Haub, „How Many People Have Ever Lived on Earth?,“ Population Reference Bureau, 18. maí 2021, prb.org/articles/how-many-people-have-ever-lived-on-earth), hafa tiltölulega fáir haft aðgang að öllum endurleysandi og upphefjandi helgiathöfnum fagnaðarerindisins. Þar af leiðandi munu langflest börn Guðs þurfa að taka á móti þessum helgiathöfnum í andaheiminum.

  7. Sjá Russell M. Nelson, „Látið Guð ríkja,“ aðalráðstefna, október 2020.