2023
Þegar heimur minn myrkvaðist, snéri ég mér til Krists
Mars 2023


„Þegar heimur minn myrkvaðist, snéri ég mér til Krists,“ Líahóna, mars 2023.

Ungt fullorðið fólk

Þegar heimur minn myrkvaðist, snéri ég mér til Krists

Þar sem svo margt drungalegt gerðist kringum mig, var ég ekki viss um hvað fólst í því að hafa Krist að grundvelli.

Ljósmynd
kona horfir í átt að ljósi

Ljósmynd frá Getty Images, uppstilling

Í nýlegri aðalráðstefnuræðu ræddi Henry B. Eyring forseti, annar ráðgjafi í Æðsta forsætisráðinu, um hina örðugu tíma í heiminum: „Páll postuli skrifaði Tímóteusi: ,En það skaltu vita að á síðustu dögum munu koma örðugar tíðir‘ (2. Tímóteusarbréf 3:1).

… Það verður því erfiðara, ekki auðveldara, að virða þá sáttmála sem við verðum að gera og halda til að lifa eftir fagnaðarerindi Jesú Krists.“1

Þegar ég heyrði þessi orð, fann ég fyrir kvíða. Ég var þegar að takast á við áskoranir á heimili mínu í Venesúela. Í hjarta mínu á þessum tíma voru því spurningar eins og: „Hvernig get ég verið bjartsýn þegar heimurinn er svo drungalegur?“ og: „Hvernig get ég horft fram á bjarta framtíð í svona svartri nútíð?“

Eyring forseti lagði þá fram lausnina. Hann vitnaði í Helaman 5:12, sem talar um að byggja undirstöðu okkar „á bjargi lausnara okkar, sem er Kristur, sonur Guðs.“

Ég hef alltaf trúað að þessi ritning væri sönn, en að byggja undirstöðu á frelsaranum virtist mun auðveldara sagt en gert. Engu að síður, þegar ég hef komist nær frelsaranum, hef ég séð að allt vinnur saman að velfarnaði okkar þegar trú okkar á hann er staðföst (sjá Kenning og sáttmálar 90:24).

Finnst ég yfirgefin

Fyrir nokkrum mánuðum, fékk ég skelfilegar fréttir frá fjölskyldu minni. Heimur minn virtist hrynja fyrir framan mig. Mér fannst ég dofin, ringluð og svo kvíðin að ég varð meira að segja veik!

Ég skildi ekki hvers vegna við stóðum frammi fyrir slíkum erfiðleikum þegar ég var að reyna að vera trúföst. Ég velti fyrir mér hvort ég hefði gert eitthvað rangt. Framtíðin leit dapurlega út og mér fannst himneskur faðir og Jesús Kristur hafa yfirgefið mig.

Mitt í þessum þrengingum, talaði ég við góðan vin. Hann sagði mér nokkuð sem ég gleymi aldrei: „Ég held að þetta sé gott tækifæri fyrir þig til að ígrunda persónulegt samband þitt við Drottin. Sama hvað gerist, það er undir þér komið að leita til hans eftir hjálp. Ef þú gerir það, mun hann veita þér þá elsku og líkn sem þú þarfnast núna.“

Þessi orð breyttu sjónarhorni mínu. Ég var reið og sár og ringluð yfir kringumstæðum mínum, en ég hafði val. Sama hvað við erum að ganga í gegnum, hver sem ótti okkar er eða hverjir sem erfiðleikar okkar eru, þá er Jesús Kristur alltaf rétt við hlið okkar. Við höfum val um að snúa okkur til hans í trú og fjarlægjast hann ekki á erfiðum tímum.

Þannig styrkjum við undirstöðu trúar okkar á hann og stöndumst erfiðleika heimsins. Með því að velja hann.

Líkt og öldungur D. Todd Christofferson, í Tólfpostulasveitinni, kenndi: „Í miðjum eldi hreinsunar ættuð þið fremur að vera nálægt Guði, fremur en að reiðast honum. Ákallið föðurinn í nafni sonarins. Gangið með þeim í andanum, dag frá degi. Leyfið þeim með tímanum að sýna ykkur tryggð sína. Þekkið þá sannarlega og þekkið ykkur sannarlega.“2

Kristur beið eftir því að ég leitaði til hans eftir hjálp. Það þýddi ekki að hann léti öll vandamál mín hverfa eða lagaði samstundis allt í lífi mínu og fjölskyldu minnar, heldur hjálpaði hann mér að verða betri, finna gleði og verða fágaðri.

Með tímanum, þegar ég leitað frelsarans með bæn, ritningarnámi og trú, hjálpaði hann mér að fyrirgefa fjölskyldumeðlimum mínum og færa aftur gleði í líf mitt, jafnvel þótt sum vandamál séu enn ekki leyst.

Loforð um öryggi

Þetta eru vissulega örðugir síðustu dagar. Við heyrum um stríð og orðróm um stríð, um heimsfaraldur, um náttúruhamfarir – og ég er viss um að það verða enn erfiðari tímar framundan. Ef við aftur á móti byggjum á bjarginu Jesú Kristi og setjum traust okkar á hann, munum við alltaf hljóta frið og gleði, sama hverju við stöndum frammi fyrir. Líkt og Eyring forseti hefur kennt: „Fyrir þau okkar sem bera ugg í brjósti vegna okkar sjálfra og ástvina okkar, þá er von í loforði Guðs um öruggan stað í væntanlegum stormum.“3

Hve kröftugt og fallegt fyrirheit. Ég hef séð þetta loforð rætast í lífi mínu. Ég veit að þetta er hið endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists og að hann er uppspretta sérhverrar blessunar. Hann er ljósið, hann er frelsari okkar og við erum sauðirnir hans. Við skulum velja hann og velja trú.

Höfundur býr í Zulia, Venesúela.