2023
Von og trú í hirðisþjónustu
Mars 2023


„Von og trú í hirðisþjónustu,“ Líahóna, mars 2023.

Reglur hirðisþjónustu

Von og trú í hirðisþjónustu

Þegar við höldum sáttmála okkar í trú, getum við hjálpað við að leiða aðra að uppsprettu vonar.

Ljósmynd
kona sem snertir klæðisfald Jesú

Fordæmi um von og trú

Í Markúsarguðspjalli lesum við hjartnæma frásögn um „[konu] sem hafði haft blóðlát í tólf ár.“ Við lesum: „Hún hafði orðið margt að þola hjá mörgum læknum, kostað til aleigu sinni en engan bata fengið, öllu heldur versnað“ (Markús 5:25–26).

Tólf ár er langur tími til að þjást. Allt er mikil eyðsla. Henni versnaði þó bara. Ef einhver átti rétt á að vera vonlaus, þá var það þessi kona.

„Hún heyrði um Jesú og kom … að baki honum og snart klæði hans,“ vegna þess að hún trúði: „Ef ég fæ aðeins snert klæði hans mun ég heil verða.“

Markús segir að vegna trúar hennar hafi „[blóðlát hennar þorrið jafnskjótt] og hún fann það á sér að hún var heil af meini sínu“ (Markús 5:27–29).

Von og trú konunnar á Jesú var svarað með blessun. Jesús sagði við hana: „Dóttir, trú þín hefur bjargað þér. Far þú í friði og ver heil meina þinna“ (Markús 5:34).

Í hvaða áskorun sem er, óháð stærð eða tímalengd, er mikil þörf fyrir von. Ótti og örvænting geta lamað okkur. Von og trú á Jesú Krist bjóða hins vegar krafti hans og blessunum í líf okkar.

Iðka von og trú í hirðisþjónustu

Sem þjónandi bræður og systur, þurfum við að tileinka okkur þessa sömu von og trú. Þjónusta getur verið bæði gefandi og krefjandi. Þegar einhver sem við viljum hjálpa virðist ekki vilja það, getur verið auðvelt að missa vonina. Ef til vill eruð þið í þeirri stöðu varðandi fjölskyldumeðlim, vin eða einhvern sem ykkur hefur verið falið að hjálpa. Ef til vill er það eins og með konuna með blóðlátið, að Drottinn einn veit hversu mikið og lengi þið hafið reynt að finna eitthvað sem hjálpar. Eins og með þessa konu, þá getur máttur frelsarans skipt sköpum, ef við finnum vonina um að sýna áfram trú.

Stundum er hirðisþjónusta þeim áskorun sem sjálfir eiga í erfiðleikum með að finna nægilega von til að iðka trú. Það eru sumir sem gætu, líkt og konan í Markúsarguðspjalli, glímt við langvarandi sjúkdóma, fjárhagsáföll eða hvað annað sem virðast yfirþyrmandi prófraunir. Að vita að þeir eru ekki einir í baráttu sinni, getur verið máttug uppspretta vonar. Við getum hjálpað þeim að finna þessa von er við sýnum að við séum fús til að bera byrðar þeirra, syrgja með þeim, hugga þá og standa sem vitni Guðs (sjá Mósía 18:9–10).1

Ljósmynd
tvær konur lesa tímarit með telpu

Þróa von og trú

Hvernig getum við þróað hina kristilegu eiginleika vonar og trúar? Hér eru nokkrar hugmyndir:

  1. Öldungur Dieter F. Uchtdorf, í Tólfpostulasveitinni, kenndi að von sé að treysta því að Jesús Kristur muni uppfylla loforð þau, sem hann gaf ykkur.2 Þar sem „von er gjöf andans [sjá Moróní 8:26],“3 er hún nokkuð sem við getum beðist fyrir um að hljóta (sjá Kenning og sáttmálar 46:7–9).

  2. Russell M. Nelson forseti kenndi að aukin trú krefðist erfiðis. Hann sagði frá því hvernig við getum aukið trú okkar með því að læra, velja að trúa, starfa í trú, taka verðug þátt í helgiathöfnum og biðja himneskan föður um hjálp.4

Heimildir

  1. Sjá Jeffrey R. Holland, „Bearing One Another’s Burdens,“ Liahona, júní, 2018, 26–28.

  2. Sjá Dieter F. Uchtdorf, „Hinn takmarkalausi lækningamáttur vonarinnar,“ aðalráðstefna, október 2008.

  3. Dieter F. Uchtdorf, „Hinn takmarkalausi lækningamáttur vonarinnar.“

  4. Sjá Russell M. Nelson, „Kristur er risinn; trú á hann mun færa fjöll úr stað,“ aðalráðstefna, apríl 2021.