2023
Þú hefur alltaf vitað það
Mars 2023


„Þú hefur alltaf vitað það,“ Líahóna, mars 2023.

Fyrirmynd trúar

Þú hefur alltaf vitað það

Ég hafði fengið vitnisburð um hið endurreista fagnaðarerindi, en ég átti enn 10 mánuði eftir af samningi mínum sem prestur fyrir aðra kirkju.

Ljósmynd
kennari með nemendum trúarskóla

Ljósmyndun eftir Leslie Nilsson

Þegar ég var um níu ára gamall fékk ég slæma tannpínu. Sársaukinn varð óbærilegur en við áttum engan pening til að fara til tannlæknis. Á þeim tíma bjó ég hjá englinum ömmu minni í Mexíkó.

Með tár í augum spurði hún mig: „Trúir þú á Jesú og að hann geti hjálpað þér?“

Ég sagði henni að ég gerði það. Hún bað mig að fara í næsta herbergi, krjúpa og biðja um kraftaverk. Ég úthellti hjarta mínu í bæn, en ekkert gerðist. Vonsvikinn þrýsti ég eins mikið og ég gat á kjálkann og fór með aðra bæn. Fljótlega var sársaukinn horfinn! Þegar ég hljóp til að segja ömmu frá því, fann ég hana á hnjánum, biðjandi Guð að hjálpa litla barnabarninu sínu. Ég hef aldrei gleymt þeirri sjón og ég er þakklátur ömmu minni.

Önnur andleg reynsla fylgdi í kjölfarið.

Þegar ég varð 14 ára, flutti ég til Texas í Bandaríkjunum, til að sameinast foreldrum mínum og systkinum. Ég fann kirkju á svæðinu og tók að mæta reglulega. Vegna reynslu minnar af Guði, vildi ég segja öllum sem á mig vildu hlusta frá nafni hans og fagnaðarerindi. Þegar ég var 15 ára, skráði ég mig í prestaskóla til að verða prestur. Í tvö ár sótti ég biblíunámsbekk fyrir skóla, eftir skóla og um helgar.

Einn morguninn í menntaskóla, heyrði ég hávaða í búningsklefa strákanna. „Mormóninn þinn!“ hrópaði einhver. Ég hafði aldrei heyrt þetta orð áður, en það hljómaði eins og það væri móðgandi.

Síðar komst ég að því að sá sem hrópað var að, var góður vinur minn, Derek.

„Mér þykir leitt að þú hafir verið kallaður mormóni,“ sagði ég.

Derek brosti og spurði: „Þú veist ekki hvað mormóni er, er það nokkuð?“

Hann sagði mér að þetta væri viðurnefni á meðlimum Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.

„Svo, ertu kristinn?“ spurði ég.

Þegar hann sagði já var ég ánægður að vita að við trúðum báðir á Jesú Krist.

„Hefurðu spurt Guð?“

„Hverjir eru þessir mormónar,“ velti ég fyrir mér, „og hverju trúa þeir?“

Ég fór á netið til að komast að því. Að nokkrum mínútum liðnum, ákvað ég að vinur minn væri ekki kristinn eftir allt saman og að hann væri á leið til helvítis. Ég fór því í leiðangur til að bjarga honum.

Næstu tvö árin las ég allar bækur sem ég fann um kirkjuna, þar á meðal alla Mormónsbók – tvisvar. Ég hitti líka Derek og fastatrúboðana til að reyna að hjálpa þeim.

Þegar ég varð 17 ára útskrifaðist ég úr prestaskólanum, var vígður til prests og tók að mér prestsstörf í litlum söfnuði í Texas. Tveimur mánuðum eftir vígsluna mína átti ég aftur samræður við trúboðana.

Annar þeirra spurði: „Þú hefur lesið Mormónsbók og þú hefur tekið allar lexíur sem við getum boðið, en hefurðu spurt Guð hvort boðskapur okkar sé sannur? Þú myndir kannast við svar frá honum, ekki satt?“

„Auðvitað,“ svaraði ég stoltur.

„Eins og ég sé það, þá ætti þetta að gagnast þér mjög vel,“ svaraði trúboðinn. „Ef þú spyrð Guð hvort það sé sannleikur, sem vinur þinn trúir og Guð segir nei, þá hefur þú lokið því verkefni sem þú tókst þér fyrir hendur í upphafi. Ef hann aftur á móti segir að boðskapur okkar sé sannur, hugsaðu þér þá hversu mikið það gæti gagnast þér.“

Ég hafði aldrei hugsað um það svona. Um kvöldið kraup ég í herberginu mínu eftir að hafa lesið Moróní 10:3–5. Svar mitt frá Guði var einfalt en áhrifamikið. Með hljóðri, kyrrlátri röddu svaraði hann mér: „Þú hefur alltaf vitað það.“

Nýr lærisveinskafli í lífi mínu

Þegar ég nú hafði vitnisburð um hið endurreista fagnaðarerindi, hvað þá um prestþjónustu mína? Ég átti enn 10 mánuði eftir af samningi mínum sem prestur. Eftir margar bænir og samráð við Guð, ákvað ég að ljúka þjónustu minni. Næstu 10 mánuðina hélt ég áfram að miðla hinum hefðbundnu biblíusannindum, en þegar hægt var, þá bætti ég við sjónarhorni hins endurreista fagnaðarerindis. Fólk meðtók þessi sannindi og litla hjörðin mín stækkaði úr 20 í næstum 150.

Eftir að ég hafði lokið samningi mínum, var mér boðin föst staða, en ég vissi að tími var kominn til að skírast inn í kirkjuna. Það var tími til kominn að hefja nýjan lærisveinskafla í ferð minni.

Þegar ég sagði fjölskyldumeðlimum frá þessu, voru þeir ekki ánægðir – í fyrstu. Þremur mánuðum eftir að ég gekk í kirkjuna, skírði ég þó móður mína og tvö systkina minna. Eftir að hafa þjónað í fastatrúboði í Oklahoma, í Oklahoma City trúboðinu, skírði ég yngri systur mína.

Ef einhver spyr hvers vegna ég skipti um trú, svara ég alltaf: „Ég skipti ekki um trú – ég er enn trúfastur kristinn einstaklingur. Ég styrkti einfaldlega samband mitt við frelsarann með því að vera skírður meðlimur kirkju hans – Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Ég þekki hann á persónulegri máta og nánar nú en áður, vegna endurreisnar fagnaðarerindisins, Mormónsbókar, nútíma spámanna og helgiathafna sáluhjálpar og upphafningar, sem standa okkur til boða í musterinu.“

Í dag nýt ég þeirra forréttinda að vera í fullu starfi sem trúarskólakennari. Ég er enn að helga líf mitt Jesú Kristi og fagnaðarerindi hans. Ég er enn að boða öllum sem vilja hlusta „mikinn fögnuð“ (Lúkas 2:10).