2019
Blómleg viðskipti
Apríl 2019


Blessanir sjálfsbjargar

Blómleg viðskipti

Þegar einar dyr lokuðust í lífi Teddy Reyes, opnuðust aðrar, þökk sé sjálfsbjargarnámi hans.

Ljósmynd
couple preparing food

LJÓSMYND EFTIR PAUL SANDOVAL

Klukkan er 4 að morgni í Santo Domingo, Dómíníska lýðveldinu og Teddi Reyes er þegar vaknaður og kominn á ról. Það bíða hans miklar annir í blómstrandi fyrirtæki hans. Hann byrjar á því að skera tómata og brauð. Síðan býr hann til sína sérstöku sósu.

Um klukkan 6 koma tveir starfsmenn honum til hjálpar og starfið gengur þá hraðar. Um klukkan 8 hefur hann búið til 300 samlokur, vafið þær allar plasti og sett í poka. Sex fleiri starfsmenn mæta til viðbótar og allir fara þeir út til að selja samlokur.

Um klukkan 9 eru allar samlokurnar seldar – nema þrjár eða fjórar – sem Teddy tók frá fyrir starfsmenn sína.

Viðskiptin blómstra hjá Teddy. Lífið hefur þó ekki alltaf reynst honum auðvelt. Síðustu fimm árin hefur honum í raun ekki tekist að verða sér úti um fasta vinnu á starfssviði sínu – sem lögmaður.

Svo hvernig söðlaði Teddy um frá því að vera ráðgjafi skjólstæðinga yfir í að selja samlokur? Það krafðist auðvitað mikillar vinnu af honum, en líka að tileinka sér vandlega þær reglur sem hann lærði í námi Sjálfsbjargarþjónustunnar.

Atvinnumissir

Fyrir fimm árum var líf Teddys frábært. Hann hafði gott starf sem lögmaður, var nýlega giftur og hafði skírt eiginkonu sína. „Það komu upp erfiðleikar,“ segir hann, „og ég missti atvinnuna.“

Næstu fjögur árin reyndi Teddy að verða sér úti um atvinnu. „Það var heilmargt sem ég gat gert, en enginn vildi borga neitt. Ég reyndi fyrir mér í hinum ýmsu störfum, en það gekk ekki upp.“

Eiginkona hans, Stephany, var í góðu starfi, en laun hennar nægðu ekki fyrir útgjöldum. Að því kom að þau eignuðust barn. Þau voru afar glöð, en við það þrengdist fjárhagurinn. Þau misstu húsið sitt, neyddust til að selja bílinn og gengu algjörlega á spariféð. Að endingu urðu þau að flytja í lítið hús sem móðir Stephany átti.

Teddy gafst þó ekki upp. Óvænt tækifæri leit dagsins ljós.

Áhrifamáttur þess að vera sjálfbjarga

Eftir margra ára basl, varð Teddy ljóst að taka þurfti af skarið.

„Ég ákveð að fara í sjálfsbjargarnám kirkjunnar,“ segir hann. „Ég hafði heyrt af því, en alltaf talið það ekki vera fyrir mig. Ég hélt það snérist bara um að gera eitthvað á eigin spýtur. Námið var frábært.“

Til að byrja með fór Teddy í áfangann Eigin fjármál. Síðan fór hann í áfangann Stofna og reka eigið fyrirtæki. Námið jók þekkingu Teddys á viðskiptum og stuðlaði líka að andlegum þroska hans.

„Að fara í þetta nám, breytti öllu,“ segir hann. „Ég ákvað að gera allt sem mér var kennt. Fjárhagurinn breyttist þegar í stað. Ég byrjaði á því að greiða fulla tíund, biðja daglega, læra ritningarnar og iðka trú. Allt breyttist – mér tókst að leggja fyrir og ég tók að halda hvíldardaginn heilagan. „Sérhver regla varð mér til blessunar.“

Í áfanganum Stofna og reka eigið fyrirtæki, lærði Teddy hvernig standa ætti að vali vöru sem gæti gagnast fólki þar sem hann bjó. Þegar hann lagði mat á hvað fólki vantaði, hlaut hann sterkan innblástur. Fólki á svæðinu þótti nýjar samlokur góðar, en það vildi líka geta pantað þær – og fengið þær heimsendar.

„Margir veitingastaðir búa til sérstaka sósu sem gerir matinn þeirra einstakan,“ segir Teddy. „Ég tók því að þróa mína eigin samlokusósu!“

Vaxandi viðskipti

Á fyrsta opnunardegi fyrirtækisins, bjó Teddy til 30 samlokur.

„Þrjátíu mínútum síðar var ég aftur kominn heim,“ segir hann. „Eiginkona mín varð áhyggjufull þegar hún sá mig í sófanum. Hún spurði af hverju ég kæmi heima svo snemma – átti ég ekki að vera að selja samlokur? Ég hafði þegar selt þær allar!“

Á næstu vikum hafði Teddy samband við fyrirtæki og skóla á svæðinu. Margir vildu ólmir kaupa samlokurnar hans og viðskiptin tóku að vaxa. Honum lærðist fljótt hvernig meðhöndla ætti grænmeti svo það héldist ferskt. Hann veit líka nákvæmlega hversu lengi sósan hans geymist. Hann pantar og sækir brauð á hverju kvöldi. Hann kaupir grænmeti á afslætti á laugardögum, sem kostar minna en er samt ferskt á mánudegi.

Að því kom að hjá honum voru pantaðar sérstakar tegundir af samlokum og jafnvel í miklu magni fyrir sérstök tilefni. Hann þurfti aðstoð og tók að ráða starfsfólk.

Með því að stuðla að jákvæðu sambandi við skóla og fyrirtæki á staðnum, tókst Teddy að koma upp stöðugri og virkri viðskiptavild. Innan fjögurra mánaðar hafði hann átta starfsmenn og seldi 300 samlokur á dag, fimm daga vikunnar. Söluteymið hans var svo árangursríkt að það seldi hverja einustu samloku, jafnvel á sumrin þegar skólar voru lokaðir. Teddy er nú tilbúinn að stækka aftur við sig.

Af því að hann fór í sjálfsbjargarnámið, fylltist hann andagift og fékk hugmyndina um samlokufyrirtækið. „Vegna þessarar handleiðslu kirkjunnar og blessananna sem ég hef hlotið,“ segir hann, „á ég afar sterkan vitnisburð um kirkjuna og Jesú Krist.“