2019
Týnda úlpan
Apríl 2019


Týnda úlpan

Höfundur býr í Iowa, Bandaríkjunum.

„Ég, Drottinn, mun fyrirgefa þeim, sem ég vil fyrirgefa, en af yður er krafist, að þér fyrirgefið öllum mönnum“ (Kenning og sáttmálar 64:10).

Ljósmynd
The Missing Coat

„Mamma, úlpan mín er horfin!“ sagði Bragi. Það var kominn tími til að fara heim úr kirkju, en Bragi gat ekki fundið úlpuna sína í fatahenginu.

„Ertu viss um að þú hafir hengt hana upp þar.“ spurði mamma.

„Já. Hún var nákvæmlega hérna.“ Úlpa Braga var skærblá og rauð. Hún fór ekki framhjá neinum.

„Kannski færði hana einhver. Kíkjum um húsið,“ sagði pabbi.

Mamma, pabbi og Braga fóru sitt í hvora áttina til að skoða í mismunandi herbergi. Þau kíktu í óskilamunina í kirkjubyggingunni, í kennslustofu Braga í sunnudagaskólanum, í Barnafélagsherbergið og í öll fatahengin. Þau kíktu jafnvel inn í baðherbergin, en fundu ekki úlpuna.

„Einhver hefur bara tekið hana óvart. Ég er viss um að þau skila henni í næstu viku, um leið og þau gera sér grein fyrir að þau eigi hana ekki,“ sagði pabbi.

„Á meðan geturðu notað gömlu úlpuna þína,“ sagði mamma.

Bragi gretti sig. Hann kunni ekki vel við gömlu úlpuna sína. Hún var þunn, upplituð og of lítil á hann. Hann var svo hrifinn af því hvernig nýja rauðbláa úlpan lét hann líta út eins og ofurhetju.

„Einhver sá örugglega hvað úlpan mín var flott og stal henni,“ hugsaði Bragi. Hvernig gæti það gerst í kirkjunni? Þar áttu allir að vera heiðarlegir. Bragi ætlaði ekki að leyfa þjófnum að komast upp með þetta. Hann var með áætlun. Næsta sunnudag ætlaði hann að fylgjast vandlega með því hver væri í úlpunni hans. Þá ætlaði hann að hrifsa hana tilbaka og hrópa: „Stopp, þjófur!“ Þeir myndu sjá eftir því að hafa tekið hana.

Bragi gat varla beðið eftir næsta sunnudegi til að koma áætlun sinni í framkvæmd. Næsta sunnudag var hinsvegar of heitt fyrir úlpur og þar næsta sunnudag líka.

Sunnudaginn þar á eftir horfði Bragi tortrygginn um Barnafélagið á alla strákana og velti því fyrir sér hver hefði stolið úlpunni hans. Var það þessi hávaxni drengur? Kannski var það stelpa? Honum fannst hann ekki geta treyst neinum. Braga líkaði ekki sú tilfinning.

Eftir kirkju flýtti Bragi sér um bygginguna og horfði á fjölskyldur klæða sig í úlpurnar sínar. Hann sá hinsvegar úlpuna sína hvergi. Hann kíkti jafnvel aftur í óskilamunina … en engin úlpa. Hvar gat hún verið?

Á leiðinni heim hugsaði Bragi upp nýja áætlun. Hann myndi biðja. Hann vissi að himneskur faðir gæti fundið týnda hluti. Þá um kvöldið bað Bragi og sagði: „Himneskur faðir, viltu gjöra svo vel að segja mér hver tók úlpuna mína. Mig langar að fá hana aftur.“

Bragi beið eftir að nafn eða andlit þjófsins kæmi upp í huga hans. Brátt fór hann að hugsa um vin sinn, Karl. Hann sat yfirleitt við hliðina á Karl í Barnafélaginu. Þeir grínuðust og hlógu mikið saman. Karl hafði hins vegar ekki komið í kirkju í nokkrar vikur. Bragi saknaði hans.

Hvað ef Karl hafði tekið úlpuna hans? Kannski var Karl hræddur við að koma í kirkju nú, því að hann hélt að Bragi myndi ekki vilja vera vinur hans lengur. Bragi vildi að Karl kæmi aftur í kirkju. Ef Karl hefði tekið úlpuna hans, þá ákvað Bragi að hann skildi ekki hrópa á hann. Hann myndi fyrirgefa honum.

Bragi klifraði upp í rúmið sitt og leið betur.

Næsta sunnudag var Karl ekki í kirkju, en það var nýr drengur þar. Hann var með rautt og blátt, röndótt bindi.

„Flott bindi,“ sagði Bragi, þar sem hann sat við hliðina á nýja drengnum. „Það lætur þig líta út eins og ofurhetju,“

Drengurinn brosti.

Bragi brosti líka. Hann var ekki lengur að leita að þjófum. Hann var að leita að vinum. ●