2023
Samtal um dýrmætar frásagnir
Mars 2023


Samtal um dýrmætar frásagnir

Öldungur Soares: Í mörgum Suður-Amerískum fjölskyldum eru minningarnar skapaðar við kvöldverðarborðið – og þannig var það í minni fjölskyldu Hvert tækifæri var gripið til að koma saman og borða ótrúlegan mat. Afmælum, hátíðisdögum og jafnvel sunnudögum var varið saman sem fjölskylda. Það var hefð sem gekk í erfðir og jafnvel þegar við stofnuðum okkar eigin fjölskyldu með þremur börnum okkar, heimsóttum við fjölskyldu mína hvern sunnudag – við elduðum saman, neyttum máltíða saman og áttum ótal margar stundir saman í kærleika og veittum stuðningi.

Systir Soares: Þessar ættmenna- og fjölskyldufrásagnir og hefðir eru hluti af því hver við erum. Sumar þessara saga og hefða hafa erfst og sumar uppgötvast Þegar við vinnum saman í ættarsögu okkar og uppgötvum meira um þá sem komu á undan, getum við fundið kraft í þeim uppgötvunum – kraft sem leiðir okkur til betri skilnings á því hver við erum og hvar við tilheyrum.

Öldungur Soares: Hvaða ættmenna- og fjölskyldufrásagnir veita ykkur styrk? Hvaða hefðum haldið þið á lofti? Látið ekki hugfallast, ef ykkur dettur ekkert í hug. Við hvetjum ykkur til að uppgötva þær. Munið líka að ættarsaga hefur ekki bara að gera með fjarlæga fortíð. Þið getið horft til nýrra upplifana ykkar og frásagna eða sögu sem mótast hér í nútímanum. Þið getið mótað ykkar eigin hefðir. Það er sambland af hinu liðna og nútímanum sem mótar ykkur sem einstaka persónu.

Frásagnir úr æsku

Öldungur Soares: Ég átti bróður sem var tveimur árum eldri en ég og hann var heyrnarskertur. Hann átti mjög erfitt með samskipti og ég man hvernig ég varð í raun aðstoðarmaður hans, að hjálpa honum að gera eitt og annað og eiga í samskiptum við fólk. Ég varð að læra að tjá mig með táknmáli í kirkju. Til dæmis fékk hann eitt sinn það verkefni að flytja ræðu.í kirkju. Hann gat hins vegar ekki talað. Ég sat samt með honum, talaði við hann með táknum og aðstoðaði hann við að skrifa ræðu. Á sakramentissamkomu stóð hann við hlið mér við ræðupúltið er ég las ræðuna sem hann undirbjó.

Foreldrar mínir voru mjög trúföst og trúskipti þeirra breytti lífi þeirra um alla eilífð. Það skapaði nýtt samhengi fyrir mig, því þau unnu hörðum höndum til þess að líf mitt gæti verið öðruvísi í framtíðinni. Þau fundu svo mikla gleði vegna fagnaðarerindis Jesú Krists, að þau hófu að bjóða nágrönnum sínum að koma og hlusta á lexíur trúboðanna heima hjá okkur strax eftir skírn sína.

Systir Soares: Faðir minn og aðrir á heimili okkar voru ekki trúaðir. Faðir minn fór samt alltaf með bænir á hverju kvöldi á hnjánum og ég horfði á hann allt frá því að ég var mjög lítil. Hann kenndi mér ekki með orðum, en hann kenndi mér með gjörðum. Þegar ég var lítil, minnist ég þess einnig að hafa stundum lagt nafn Guðs við hégóma. Ég vissi ekki að ég væri að gera eitthvað rangt og móðir mín kenndi mér að ég ætti ekki að tala svona. Hún var ekki trúuð en vissi muninn á réttu og röngu. Þegar ég var níu ára gömul bauð stúlka í hverfinu, sem var líka níu ára, mér að koma með sér í Barnafélagið í fyrsta sinn.

Öldungur Soares: Þú ólst upp í kirkjunni án foreldra þinna í kirkjunni og samt byggðir þú trú þína á fagnaðarerindinu og nú hefur þú ákveðið að helga líf þitt því að kenna börnum okkar þá sömu trú.

Frásagnir af því að skapa fjölskyldu

Öldungur Soares: Ég kynntist systur Soares á kirkjudansleik, eftir að ég kom heim af trúboði mínu. Hún hafði einnig nýlega komið heim af trúboði.

Systir Soares: Ég sá að þú horfðir á mig og eitthvað innra með mér fór af stað líka. Um leið og tónlistin hætti komst þú til mín og bauðst mér upp í dans.

Öldungur Soares: Við héldum áfram sem vinir, en það var þetta kvöld sem augu okkar opnuðust. Við sáum hvort fyrir sig trúfastan Síðari daga heilagan og möguleikann á sambandi. Tveimur vikum seinna tókum við að fara á stefnumót. Þetta var fyrir 41 ári síðan.

Ég minnist þess hve erfitt þetta var fyrstu fimm árin eftir hjónavígsluna, þegar við vorum að reyna að eignast börn.

Systir Soares: Það voru mjög erfið ár. Ég náði ekki að verða barnshafandi.

Öldungur Soares: Við áttum í miklum heilsuvanda eftir svo mikið erfiði. Það var þá sem við fengum prestdæmisblessun. Seinna fórst þú í aðgerð og nokkrum mánuðum seinna …

Systir Soares: Rættist draumur okkar.

Öldungur Soares: Þú varðst barnshafandi.

Systir Soares: Við treystum svo mikið á Drottin og við bárum kennsl á áþreifanlegar blessanir. Það var ekki auðvelt fyrir okkur tvö, sem vorum svo óreynd, en það hefur einnig verið stórkostlegt.

Öldungur Soares: Þegar við vorum að takast á við lífið, sá Drottinn fyrir andlegum þörfum okkar, veitti okkur frið þegar við þurftum, huggun og getu til að vinna, halda áfram, að ljúka menntun okkar. Það var mikilvægur tími í lifi okkar sem breytti algjörlega stefnu alls þess sem við héldum að við myndum vera að gera.

Börn Guðs og musterið

Öldungur Soares: Það er mikilvægt að minnast menningar okkar, arfleifðar og hefða. Það, í tengslum við þá lífsreynslu sem mótar sögu lífs okkar, eykur skilning okkar á því hver við erum. Þið getið samt ekki fyllilega skilið vídd þess sem þið eruð án þess að skilja hvers þið eruð! Skiljið þið það að þið eruð bókstaflega börn Guðs? Hafið þið uppgötvað hvað sú guðlega arfleifð merkir fyrir ykkur? Fyrir mig þá hófst sú uppgötvun – upphaf vitnisburðar míns – á unga aldri en hefur haldið áfram að þroskast og styrkjast í gegnum lífsgöngu mína.

Systir Soares: Það getur hjálpað hverju að tengjast andlegum rótum okkar að fara endurtekið í musterið. Það er þar sem þið getið lært og lært á ný um áætlun Guðs fyrir okkur. Það er þar sem þið getið flúið háværar raddir sem reyna í örvæntingu að draga athygli ykkar frá því hver þið eruð í raun. Það er þar sem við höfum tækifæri til að aðstoða við hinn mest málstað, samansöfnun þeirra skyldmenna okkar sem fengu aldrei tækifæri til að meðtaka helgiathafnir í lífi sínu.

Öldungur Soares: Þessi orð má finn á hverju musteri Síðari daga heilagra um gjörvallan heim. Heilagleiki til Drottins, hús Drottins. Þegar þið gangið inn um dyrnar á musterinu eruð þið í húsi hans og þið eruð því nærri honum og föðurnum. Allt sem fer fram innan þessara helgu veggja snýst um það að færa alla örugglega heim til hans, sem við köllum föður.

Systir Soares: Ég veit að það eru margir sem setja von sína á Drottin, að fá tækifæri til að sameinast sem hjón eða vera innsigluð foreldrum sínum eða börnum um tíma og eilífð.

Ég hef einnig von um það dásamlega tækifæri að fá að sameinast ástkærum foreldrum mínum eilíflega í húsi Drottins Það er enginn annar staður á jörðu þar sem tengingin við Guð og Jesú Krist er eins áþreifanleg og auðskilin og innan veggja musterisins.

Skilningur á því hver við erum, hvaðan við komum, getur fært hina miklu tilfinningu friðar, samhengis og tilgangs í líf okkar.

Öldungur Soares: Það er í musterinu sem þið getið ekki bara uppgötvað hver þið eruð og hvers þið eruð, heldur einnig hver ætlast er til að þið verðið. Það er áhugavert að sjá að þó að það undirstriki einstaklingsbundna eiginleika okkar að vita hver við erum, þá undirstrikar það hvernig við erum eins þegar við vitum hvers við erum. „Allir eru jafnir fyrir Guði“ (2. Nefí 26:33), og sama hversu ólík við erum, þá hefur hvert og eitt okkar sömu guðlegu arfleifðina og jafna möguleika á dýrðlegum himneskum örlögum.

Systir Soares: Þessar uppgötvanir sem við tölum um geta haft kraftmikil, varanleg áhrif, ekki bara á einstaklingsbundið líf okkar heldur einnig á líf þeirra sem við deilum arfleifð með. Við leikum öll mikilvægt hlutverk í að láta ættmenna- og fjölskyldusögur okkar, arfleifð, menningu og hefðir ganga áfram. Sérhvert okkar er hlekkur sem tengir fortíð og nútíð við framtíð, með því að yfirfæra á hina upprennandi kynslóð þessa mikilvægu þætti varðandi hver við erum og hvers við erum, sem getur styrk hana er hún þarf mest á því að halda.

Mikilvægasta frásögnin

Öldungur Soares: Það að láta vitnisburði okkar um Jesú Krist og vitnisburði okkar um hann og friðþægingu hans berast áfram, er jafn mikilvægt, ef ekki mikilvægara því að láta menningu og arfleifð okkar berast áfram. Arfleifð trúar sem erfist frá kynslóð til kynslóðar, er hin æðsta arfleifð sem við getum yfirfært á kynslóðir framtíðar.

Sem meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, ætti þessi regla ekki að koma okkur á óvart. Mormónsbók var, þrátt fyrir allt, skrifuð í þágu barna okkar, svo þau viti „til hvaða uppsprettu þau mega leita til fyrirgefningar synda sinna. Og vér tölum … til þess að börn vor megi … [horfa] fram til þess lífs, sem er í Kristi“ (2. Nefí 25:26–27).

Foreldrar, miðlið arfleifð ykkar svo að börn ykkar megi vita hver þau eru og hvers þau eru! Það getur verið eins einfalt og vitnisburður, frásögn, hefð eða jafnvel máltíð.

Hátt uppi á fjallinu Corcovado stendur Kriststyttan Cristo Redentor. Hin tignalega stytta sem sýnir frelsarann með arma sína útrétta hefur orðið ein þekktasta táknmynd Brasilíu.

Það eru dagar þar sem þið getið séð þetta minnismerki rísa yfir borginni, en það eru líka tímar þar sem skýin hrannast upp og fela styttuna. Á þeim stundum þarf að rísa hærra til að sjá. Til þess að sjá, er nauðsynlegt að klífa upp á við. Hve satt það er í tengslum við frelsara okkar, Jesú Krist. Til að uppgötva hann, til að vita hver hann er, krefst þess af okkur að við rísum upp og klifrum upp á við.

Vegurinn til að uppgötva hver hann er, er sannarlega einstaklingsbundin og hefur sínar hæðir og lægðir. Sú uppgötvun mun samt endanlega og vafalaust leiða til hreinleika og friðar, samhengis og tilgangs og kraftar og staðar í fjölskyldu Guðs.

Við lesum um líf hans, fullkomið fordæmi hans og boðorð hans. Að uppgötva þessa þætti varðandi hver hann er, setur upp hina altæku staðla sem við ættum að lifa eftir, fordæmið sem við ættum að setja og boðorðin sem við ættum að fylgja. Í því viðfangsefni að verða eins og hann er, uppgötvum við hve háð við erum honum og friðþægingu hans. Það er í gegnum friðþægingu Jesú Krists sem við getum fundið hreinleika og frið er við vinnum að því að beygja vilja okkar undir vilja föðurins, eins og frelsarinn gerði.

Að koma til hans, leiðir til samhengis og tilgangs, jafnvel á myrkustu stundum. Á einu harmþrungnasta tímabili lífs míns, missti ég föður minn, er hann fékk óvænt hjartaáfall. Það sem jók við þann harm var yfirvofandi fráfall bróður míns og stuttu seinna annars bróður. Á þessum erfiða tíma, tókumst ég og eiginkona mín líka á við missi tveggja barna – annað var fyrirburi og lifði það ekki af og í hitt skiptið missti hún fóstur. Á þessum myrku stundum – augnablikum sorgar og sársauka missis og örvæntingar, stundum rauna og þjáninga – getur það að koma til Krists fært aftur ljóstýru sem getur vaxið innra með ykkur, smátt og smátt, og með tímanum leitt til vonar og lækningar.

Þegar þið kynnist honum getið þið uppgötvað að kraftur og staður í fjölskyldu Guðs, er ykkur mögulegur. Hann mun taka ykkur eins og þið eruð og þegar þið komið til hans og lærið um hann, getið þið og munið þið verða enn líkari honum.

Hluti af því að líkjast honum, felur í sér að taka þátt í verki samansöfnunarinnar, beggja vegna hulunnar. Ritningarnar kenna sérstaklega varðandi musteris- og ættarsögustarfið, að þegar þið hjálpið Drottni að „gjöra ódauðleika og eilíft líf mannsins að veruleika“ (HDP Móse 1:39), verðið þið bókstaflega frelsarar á Síonarfjalli (sjá Óbadía 1:21). Hvað þýðir það samt í raun? Á sama hátt og frelsarinn fórnaði lífi sínu fyrir allt mannkyn, þá verðum við, að litlu leyti, frelsarar þeirra sem hafa enga leið til að meðtaka helgiathafnir sáluhjálpar og upphafningar án aðstoðar frá okkur sem erum hér á jörðu. Í raun þá hjálpar það okkur í því viðfangsefni okkar að verða líkari Jesú Kristi að taka þátt í þessu verki.

Ég lofa því að þegar þið takið þátt með honum í að vinna verk föður okkar, að hjálpa þeim sem hafa aldrei fengið tækifæri til að taka á móti honum að feta sig áfram á sáttmálsveginum, þá munið þið fara að sjá hann eins og hann er. Þið verðið eins og hann og munið uppgötva hver þið eruð og hve stórkostleg þið getið verið!