2015
Eiginleikar Jesú Krists: Falslaus og án hræsni
Apríl 2015


Boðskapur heimsóknarkennara

Eiginleikar Jesú Krists: Falslaus og án hræsni

Kynnið ykkur efnið sem hér er í bænaranda og leitið að því sem miðla á. Hvernig getur skilningur á lífi og starfi frelsarans aukið trú ykkar á hann og blessað þær konur sem þið vakið yfir með heimsóknarkennslu? Frekari upplýsingar má finna á reliefsociety.lds.org.

Trú, fjölskylda, líkn

Ljósmynd

Það hjálpar okkur að reyna að fylgja fordæmi Jesú Krists af kostgæfni, ef við skiljum að hann var falslaus og án hræsni. Öldungur Joseph B. Wirthlin (1917–2008) í Tólfpostulasveitinni, sagði: „Fals er að blekkja eða leiða afvega. … Sá sem er falslaus býr yfir sakleysi, heiðarleika og sönnum ásetningi og lagar sig að reglum ráðvendni, sem sést á einfaldri daglegri breytni hans. … Ég trúi að meðlimum kirkjunnar sé nauðsynlegt að ástunda falsleysi og að það sé brýnna nú en áður, því margir í heiminum skilja greinilega ekki mikilvægi þessarar dyggðar.“1

Dieter F. Uchtdorf forseti, annar ráðgjafi í Æðsta forsætisráðinu, sagði: „Ekkert okkar er jafn kristilegt og við vitum að við ættum að vera. Við þráum samt einlæglega að sigrast á annmörkum okkar og tilhneigingu til syndar. Við þráum af hjarta og sálu að verða betri með hjálp friðþægingar Jesú Krists.“2

Við vitum að „við verðum dæmd af verkum okkar og hjartans þrám, og af því hvernig menn við höfum orðið.“3 Við verðum hreinni með stöðugri iðrun – og „sælir eru hjartahreinir, því að þeir munu Guð sjá“ (Matt 5:8).

Viðbótarritningagreinar

Sálm 32:2; Jakbr 3:17; 1 Pét 2:1–2, 22

Úr ritningunum

Lítil börn eru falslaus. Jesús Kristur sagði: „Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi, því að slíkra er Guðs ríki. … Og hann tók þau sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau“ (Mark 10:14, 16).

Kristur þjónaði líka börnunum í Ameríku eftir krossfestingu sína. Hann bauð að fólkið færði honum litlu börnin og „[setti] þau á jörðina umhverfis hann, og Jesús stóð mitt á meðal þeirra. …

… Og … hann … grét … og mannfjöldinn bar því vitni, og hann tók litlu börnin þeirra, hvert af öðru, og blessaði þau og bað til föðurins fyrir þeim. …

Og þegar fólkið leit upp til að sjá, beindi það augum sínum til himins og sá … engla stíga niður af himni eins og umlukta eldsloga, og þeir komu niður og umkringdu litlu börnin, og eldur lék um þau, og englarnir þjónuðu þeim“ (3 Ne 17:12, 21, 24).

Heimildir

  1. Joseph B. Wirthlin, „Without Guile,“ Ensign, maí 1988, 80, 81.

  2. Dieter F. Uchtdorf, „Komið og gangið til liðs við okkur,“ Aðalráðstefna, okt. 2013, 23.

  3. Handbook 2: Administering the Church (2010), 1.2.1.