2015
Bænir og dómkirkjur
Apríl 2015


Bænir og dómkirkjur

Höfundur býr í Utah, Bandaríkjunum.

„Þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars“ (Jóh 13:35).

Dani leit upp, en sá ekki efsta hluta hinnar fallegu dómkirkju. Fólk sem tilheyrði annarri kirkju sótti messu hér. Dani skildi ekki afhverju foreldrar hennar færu í kirkju á föstudegi, en pabbi hennar hafði sagt að þau hugðust fara á eitthvað sem kallað var aftansöngur.

„Hvað var það?“ spurði Dani.

„Það er samkoma þar sem fólk syngur, les í ritningunum og biður saman,“ hafði pabbi sagt. „Líkt og stór fjölskylda gerir í dagsins lok.“

Dani fannst það hljóma vel. Hún og fjölskylda hennar voru á ferðalagi í Englandi. Síðasta sunnudag höfðu þau farið í deild í borg sem hét York. Í Barnafélaginu höfðu börnin þekkt sömu ritningarversin og söngvana og Dani gerði. Hún vissi að deildin sem þau heimsóttu tilheyrði sannri kirkju Jesú, eins og deildin í heimalandi hennar.

Dómkirkjan var hins vegar ólík öllu sem hún þekkti. Hún tók eftir litlu borði með mörgum kertum. Dani horfði á dreng kveikja á kerti.

„Afhverju ertu að kveikja á kerti?“ spurði Dani hann.

Drengurinn brosti. „Ég kveiki á kerti þegar ég biðst yfir um eitthvað ákveðið. Ég vona að Guð heyri bæn mína, svo lengi sem logar á kertinu.“

Dani virtist kertin ósköp venjuleg. Hún varð svolítið ráðvillt en vildi vera kurteis. Hún brosti til drengsins.

Dani og foreldrar hennar settust niður og brátt byrjaði aftansöngurinn. Hún sá sama drenginn nokkrum bekkjarröðum frá sér. Henni varð þá ljóst að hún þekkti ekki söngvana sem fólkið söng. Þegar það baðst fyrir, las það upp úr lítilli bók. Allt virtist svo framandi og ólíkt því sem hún þekkti.

En tónlistin var falleg, þótt hún væri ekki kunnug henni. Eftir það stóð maður upp og las í ritningunum. Hann var í kufli í stað þess að vera í jakkafötum og með bindi, líkt og biskup Danis. Þegar hann byrjaði lesturinn, varð Dani ljóst að hún þekkti söguna! Hann las um Jesú að lækna líkþráu mennina tíu.

„Pabbi,“ hvíslaði Dani, „þessi saga er mér kær.“

Pabbi hennar brosti. „Mér líka.“

Maðurinn í kuflinum sagði síðan bænarorð. Hann bað Guð að blessa hina sjúku og nauðstöddu. Alveg eins og Dani hafði gert! Hann bað líka um sérstaka blessun fyrir leiðtoga kirkjunnar hans. Dani minntist þess hvernig fjölskyldan hennar hefði ávallt beðið himneskan föður um að blessa Thomas S. Monson forseta og ráðgjafa hans.

Dani fylltist ljúfri tilfinningu. Henni varð ljóst að himneskur faðir væri að segja henni að hann elskaði öll sín börn og hlustaði á allar bænir þeirra, jafnvel þótt þau væru í annarri kirkju og hefðu ekki fyllingu fagnaðarerindisins.

Þegar þau stóðu upp til að fara, leit pabbi hennar á símann sinn. Hann varð sorgmæddur er hann las skilaboðin þar. „Systir Monson var að deyja,“ sagði hann

„Ó nei!“ Dani flutti stutta bæn í hjarta sínu um að Monson forseti yrði í lagi.

„Er allt í lagi,“ spurði einhver. Það var drengurinn aftur. Hann hafði heyrt í Dani og virtist áhyggjufullur.

„Systir Monson var að deyja,“ sagði Dani. „Hún er eiginkona spámannsins okkar, Monsons forseta.“

„Það var leitt að heyra,“ sagði hann blíðlega. „Ég skal kveikja á kerti fyrir hann.“

Dani brosti og þakkaði honum fyrir. Henni fannst það fallegt af drengunum að flytja sérstaka bæn fyrir Monson forseta. Hún vissi að himneskur faðir myndi heyra bæn hennar og líka bæn drengsins.