2015
Lágvær rödd andans barst mér
Apríl 2015


Lágvær rödd andans barst mér

Christina Albrecht Earhart, Washington, Bandaríkjunum

Ljósmynd
drawing of boys running

Teikning eftir Bradley H. Clark

„Hæ, strákar! Komið aftur!“ heyrðist hrópað örvæntingarfullt.

Ég snéri mér við og sá tvo stráka um 5 og 7 ára gamla hlaupa yfir bílastæði verslunarinnar hágrátandi. Afgreiðslumaðurinn sem hrópaði til þeirra virtist áhyggjufullur.

Þegar ég snéri mér aftur að bílnum mínum, hvíslaði andinn að mér: „Hér getur þú hjálpað.“ Röddin var lágvær, en þó svo skýr að andartaki síðar var ég hlaupandi yfir bílastæðið í átt að strákunum.

Ég sá þann eldri standa við brúna smárútu. Ég fór til hans og kraup við hlið hans.

„Hæ! Ég heiti Christina. Er eitthvað að?“

Hann grét enn meira við þessi orð mín og huldi andlitið í höndunum. Afgreiðslumaðurinn og yngri strákurinn komu til okkar.

„Ég held að þeir tali bara frönsku,“ sagði afgreiðslumaðurinn við mig. „Við sáum þá bara hlaupa rammvillta um verslunina.“

Ég endurtók orð mín til strákanna á frönsku. Franska var mitt fyrsta tungumál en ég hafði ekki talað hana frá því ég var ættleidd af enskumælandi fjölskyldu sem lítið barn. Yfirleitt tala ég afleita frönsku. Á þessari stundu varð mér þó ekki stirt um mál. Orðin komu skýrt út úr mér þegar ég huggaði drengina.

Á milli grátekkanna útskýrði sá eldri í einum orðaflaumi að hann og bróðir hans gætu hvergi fundið foreldra sína í versluninni og hefðu því hlaupið út til að leita þeirra. Á meðan ég hlustaði rann upp fyrir mér hve undarlegt það væri að ég talaði ekki aðeins reiprennandi frönsku við þá, heldur skildi ég líka allt það sem þeir sögðu og gat lægt ótta þeirra.

„Þeir hafa villst frá foreldrum sínum og vilja bíða hér við bílinn þeirra,“ sagði ég við afgreiðslumanninn. Yngri strákurinn sagði mér nafn foreldra sinna, sem ég sagði afgreiðslumanninum, svo hann gæti látið kalla þá upp. Nokkrum mínútum síðar sá strákurinn föður sinn koma út úr versluninni og hljóp í áttina að honum.

Þegar ég fylgdi stráknum til föður hans, komst ég að því að ég gat ekki einu sinni kvatt á frönsku. Ég reyndi án árangurs að segja eitthvað sem strákarnir gætu skilið, en gat ekki sagt neitt nema fáein orð út í bláinn. Ég skipti loks yfir í ensku og sagði við strákinn: „Bless, það var gaman að kynnast þér.“

Þegar ég yfirgaf strákana í faðmi foreldra sinna, fann ég til mikils þakklætis. Himneskur faðir hafði notað mig sem verkfæri til að hugga tvö af hans litlu börnum. Ég var full auðmýktar yfir að Drottinn hafði aukið við takmarkaða getu mína til uppfylla tilgang sinn. Ég var þakklát fyrir að upplifa nokkuð sem getur gerst þegar við bregðumst við kalli hans, jafnvel við ólíklegustu aðstæður.