2015
Hin andlegu áhrif kvenna
Apríl 2015


Hin andlegu áhrif kvenna

Höfundur býr í Utah, Bandaríkjunum.

Þekkjum við okkar andlega styrk?

Ljósmynd
drawing of women with their arms around each other

DÆTUR GUÐDÓMSINS, EFTIR KATHLEEN PETERSON, ÓHEIMILT AÐ AFRITA

Margar dásamlegar og auðmjúkar konur í kirkjunni hafa veitt trúfasta þjónustu, án þess að hafa áttað sig á þeim miklu áhrifum sem þær hafa á aðra – sem fordæmi um stundlega þjónustu og líka sem arfleifð andlegs styrks. Amma mín, Cherie Petersen, er ein slík kona. Hún hefur þjónað trúfastlega og yfirlætislaust alla sína ævi. Hún myndi segja að hún hefði ekki mikið að gefa heiminum, ef þið spyrðuð hana. Ég veit samt, eftir að hafa lært um æviferil hennar, að hennar andlegi styrkur hefur haft mikil áhrif á mitt líf.

Foreldrar Cherie hættu að fara í kirkju og slitu samvistum þegar hún var mjög ung, svo hún ólst upp með móður sinn, Florence, sem var stöðugt útivinnandi. Florence hafði jafnvel sjálf verið enn umhirðulausari sem barn, því hún ólst upp í heimavistarskóla á meðan móðir hennar, Georgia, lifði sínu veraldlega lífi. Þrátt fyrir uppeldislegar áskoranir Cherie, þá hélt hún áfram að vera virk í fagnaðarerindinu og sótti kirkju staðfastlega, ásamt fjölskyldu langalangömmu sinnar, Elísubetar, eða með vinum sínum. Í þeirri fjölskyldu sá hún það sem hún óskaði sjálfri sér. Hún vissi ekki nákvæmlega hvernig fjölskylda ætti að vera, en hún vissi hvernig hún ætti ekki að vera, og var ákveðin í því að fjölskylda hennar yrði öðruvísi.

Eiginmaður Cherie – afi minn, Dell – sagði eitt sinn við mig: „Ef þú vilt vitnisburð, verðurðu að þrá hann. Cherie þráði alltaf vitnisburð.“ Þótt fyrri hjónabandsár þeirra hefðu einkennst af basli og striti, einsettu þau sér að vera sterk sem fjölskylda. Fyrsta hjónabandsárið voru þau lítt virk, vegna vinnutíma Dells, en þegar Cherie hlaut köllun til þjónustu í Barnafélaginu, tók hún að mæta aftur og Dell kom brátt með henni í kirkju sem leiðbeinandi djáknasveitar. Allt frá þessum tíma hafa þau verið virk og öflug í kirkjunni. Cherie var fús til að þjóna og ákveðin í því að rækta sterka fjölskyldu og það hjálpaði móður minni að verða sú sterka kona sem raun ber vitni, og fordæmi hennar hefur haft áhrif á líf mitt, einkum nú er ég stofna mína eigin fjölskyldu.

Við getum, sem konur, haft djúp og varanleg áhrif á þá sem umhverfis eru. Joseph Smith kenndi vissulega að hlutverk okkar væri „ekki aðeins að líkna fátækum, heldur líka að bjarga sálum.“1 Jesús Kristur hefur kallað konur þessarar kirkju sem lærisveina sína og til að vera andlega sterkar. Okkar andlegi styrkur og áhrif eru ómissandi í framvindu sáluhjálparstarfsins og við þurfum að leita tækifæra til að styrkja andlega þá sem umhverfis eru. Þegar við gerum það, munu trú og réttlæti okkar hafa miklu meiri áhrif en við fáum skilið eða áttað okkur á.

Kallaðar til að vera lærisveinar

Öldungur James E. Talmage (1862–1933) í Tólfpostulasveitinni, ritaði: „Heimsins mesti talsmaður kvenna og kvendóms, er Jesús Kristur.“2 Íhugið til að mynda kennslu hans til tveggja kvenlærisveina sinna í Nýja testamentinu, Mörtu og Maríu. Í ritinu Daughters in My Kingdom er útskýrt: „Lúkas 10 segir frá Mörtu og þeirri gestrisni sem hún sýndi Jesú. Hún þjónaði Drottni með því að annast hans stundlegu þarfir og María sat við fætur meistarans og lærði um kenningar hans.

„Á þessum tíma, er konum var almennt ætlað að þjóna aðeins við hið stundlega, kenndi frelsarinn Mörtu og Maríu að konur gætu líka tekið þátt í hinu andlega starfi í verki hans. Hann bauð þeim að verða lærisveinar sínir og taka á móti hjálpræðinu, ‚[hinu góða hlutskipti],‘ sem aldrei yrði frá þeim tekið.“3

Við getum stundum gert þau mistök að telja að megin hlutverk kvenna sé að reiða fram stundlega þjónustu, svo sem að tilreiða máltíðir, sauma og þrífa eftir aðra. Slík þjónusta er dýrmæt og góð og gild fórn, en Drottinn þarf meira á konum að halda sem búa að andlegum styrk, sem endurspeglar trú, réttlæti og kærleika, heldur en þeim sem geta saumað og eldað. Hann veit að hver okkar hefur svo mikið fram að færa. Jesús Kristur býður okkur öllum að þróa andlegan styrk og þá hæfni að geta tekið á móti og breytt samkvæmt opinberun, til að verk hans nái betur fram að ganga. Linda K. Burton, aðalforseti Líknarfélagsins, sagði við systurnar: „Þið hafið verið sendar til jarðar á þessum ráðstöfunartíma, vegna þess hverjar þið eruð og hvers konar undirbúning þið hafið hlotið! Hvað svo sem Satan reynir að sannfæra okkur um að við séum, þá vitum við að við erum lærisveinar Jesú Krists.“4

Ljósmynd
Drawing of Jesus with Mary and Martha

Drottinn þekkir okkur og aðstæður okkar og hann hefur verk fyrir okkur að vinna á þessari jörðu. Engin systir er of fáfróð eða of hæfileikalaus til að geta verið andlegur áhrifavaldur og leiða aðra til Krists. Gæddar þessum guðlegu hæfileikum, berum við ábyrð á að verða andlegir leiðtogar á heimilum okkar og í samfélögum okkar. Öldungur M. Russel Ballard í Tólfpostulasveitinni, sagði: „Sérhver systir í þessari kirkju sem hefur gert sáttmála við Drottin, hefur guðleg fyrirmæli um að hjálpa til við björgun sálna, til að hjálpa að leiða konur þessa heims, til að efla heimili Síonar og til að byggja upp ríki Guðs.“5

Við þurfum ekki að vera í mikilvægum embættum eða gera frumlega hluti til að hjálpa þeim sem umhverfis eru til að taka ákvarðanir sem færa þau nær Jesú Kristi – sem er okkar mikilvægasta skylda. Allt stórt og smátt sem við gerum fyrir eina eða tvær manneskjur, jafnvel í okkar eigin fjölskyldu, getur haft djúpstæð áhrif.

Konur í starfi sáluhjálpar

Í kærum sálmi segir: „Við byggjum upp, Drottinn, þinn bústað á jörðu. Við reisum þann fallna og réttum hann við.“6 Við höfum margt að gefa þeim sem við elskum. Öldungur Richard G. Scott í Tólfpostulasveitinni, sagði frá því hvernig tvær andlega sterkar konur höfðu áhrif á líf hans:

„Þegar ég var barn, þá var faðir minn ekki meðlimur kirkjunnar og móðir mín lítt virk. … Nokkrum mánuðum eftir að ég varð átta ára ferðaðist Whittle amma þvert yfir landið til að heimsækja okkur. Amma hafði áhyggjur af því að hvorki ég né eldri bróðir minn höfðum verið skírðir. Ég veit ekki hvað hún sagði við foreldra mína varðandi þetta, en ég veit að morgun einn fór hún með mig og bróður minn í almenningsgarð einn og deildi með okkur tilfinningum sínum um mikilvægi þess að skírast og að sækja kirkjusamkomur reglulega. Ég man ekki nákvæmlega hvað hún sagði, en orð hennar vöktu eitthvað í hjarta mér og fljótlega vorum við bræðurnir skírðir. …

Amma notaði rétt hlutföll af hugrekki og virðingu til að koma föður okkar í skilning um mikilvægi þess að aka okkur á kirkjusamkomur. Á sérhvern góðan hátt, hjálpaði hún okkur að skynja nauðsyn þess að hafa fagnaðarerindið í lífi okkar.“7

Annar andlegur áhrifavaldur öldungs Scotts var eiginkona hans, Jeanene. Á stefnumóti einu tóku þau að ræða um framtíðina. Jeanene, sem hafði alist upp á miklu trúboðsheimili, lét þá þrá í ljós að giftast manni í musterinu sem hefði þjónað í trúboði. Öldungur Scott, sem hafði ekki áður hugsað mikið um trúboð, varð fyrir miklum áhrifum. Ég fór heim og ekkert annað komst að í huga mínum. Ég vakti alla nóttina. … Eftir margar bænir, tók ég ákvörðun um að hitta biskupinn minn og byrja á að útfylla trúboðsumsókn mína.“8 Þótt Jeanene hafi veitt mér leiðsögn og nauðsynlega hvatningu, sagði öldungur Scott, þá bað hún mig aldrei að fara í trúboð fyrir sig. Hún elskaði mig nægilega heitt til að miðla mér sannfæringu sinni og veitti mér síðan svigrúm til að móta eigin lífsstefnu. Við þjónuðum bæði í trúboði og síðar vorum við innsigluð í musterinu. Hugrekki Jeanene og trúarhollusta breytti öllu í lífi okkar saman. Ég er sannfærður um að við hefðum ekki fundið þá hamingju sem við bjuggum að, án sterkrar trúar hennar á þeirri lífsreglu að þjóna Drottni fyrst. Hún var dásamlegt, réttlátt fordæmi!“9

Það voru andleg áhrif þessara kvenna sem hjálpuðu einum ungum manni – öldungi Scott – að gera upp hug sinn varðandi mikilvægustu ákvörðun lífs hans: Að láta skírast, að þjóna í trúboði og gifta sig í musterinu.

Við getum hvatt aðra með fordæmi okkar, verkum, orðum og persónulegu réttlæti, til að taka góðar ákvarðanir. Systir Carole M. Stephens, fyrsti ráðgjafi í aðalforsætisráði Líknarfélagsins, sagði: „Við erum sáttmálsdætur í ríki Drottins, og okkur gefst kostur á að vera verkfæri í höndum hans. … Við tökum dag hvern þátt í starfi sáluhjálpar, í litlum mæli og á einfaldan hátt – með því að vaka yfir, styrkja og kenna hver annarri.“10 Þegar við reiðum okkur á andann og sækjum fram af einlægri og auðmjúkri viðleitni, til að hjálpa þeim sem umhverfis eru að komast nær Kristi, munum við hljóta handleiðslu í því sem við getum gert og styrk til að gera það, og finna gleði í því að leiða börn Drottins til hans.

Ljósmynd
drawing of a mother and baby

Verða andlegur áhrifavaldur

Meðvitaðar um ábyrgð okkar, gætum við spurt líkt og lærisveinar til fornar: „Hvað eigum vér að gjöra“ (Post 2:37), til að verða andlegur áhrifavaldur? Á nýlegri aðalráðstefnu bauð systir Burton systrunum að „sjá fyrir [sér] nokkrar mögulegar auglýsingar um „aðstoð óskast,“ sem tengjast starfi sáluhjálpar:

  • Aðstoð óskast: Foreldrar óskast til að sjá um uppeldi barna sinna í ljósi og sannleika.

  • Aðstoð óskast: Dætur … , systur . … frænkur … , frændur, afar og ömmur og sannir vinir, til að þjóna sem kennarar og rétta hjálparhönd á sáttmálsveginum

  • Aðstoð óskast: Þeir sem geta hlustað á hvatningu heilags anda og framkvæmt samkvæmt því.

  • Aðstoð óskast: Þeir sem geta lifað eftir fagnaðarerindinu daglega í hinu einfalda og smávægilega.

  • Aðstoð óskast: Ættfræði- og musterisþjónar til að tengja fjölskyldur saman að eilífu.

  • Aðstoð óskast: Trúboðar og meðlimir til að breiða út „fagnaðarboðskapinn“ – fagnaðarerindi Jesú Krists

  • Aðstoð óskast: Björgunarmenn óskast til að finna þá sem hafa villst af leið.

  • Aðstoð óskast: Þeir sem geta haldið sáttmála sína til að vera staðfastir í sannleika og réttlæti.

  • Aðstoð óskast: Sannir lærisveinar Drottins Jesú Krists“11

Þetta er ekkert nýtt, en þegar við leitum tækifæra til að taka þátt í starfi sáluhjálpar, munum við auka hæfni okkar til að hjálpa þeim sem umhverfis eru. Öldungur Ballard sagði: „Ekkert í þessum heimi er jafn persónulegt, jafn endurnærandi, eða jafn lífsumbreytandi, og áhrif réttlátrar konu.“12 Þegar við þróum okkar andlega kraft með persónulegum bænum og ritningarnámi og staðfastri hlýðni og sáttmálshollustu, munum við verða slíkur áhrifavaldur.

Lengra en við fáum séð

Brigham Young forseti (1801–1877) sagði: „Getið þið lýst umfangi þess góða sem mæður og dætur í Ísrael geta komið til leiðar? Nei, það er ómögulegt. Það góða sem þær gera mun fylgja þeim um alla eilífð.“13

Réttlátar ákvarðanir ömmu minnar hafa haft áhrif á afkomendur hennar umfram það sem hún fékk séð sem ung kona. Hin andlegu áhrif kvenna meðal ættmenna minna ná jafnvel enn lengra aftur í tímann. Cherie hlaut mikið af sínum andlega styrk af því að fylgjast með langalangömmu sinni (fimmti ættliður frá mér) Elísabetu. Trúarfordæmi og vitnisburður Elísabetar hafði áhrif eftir óvirkni tveggja kynslóða og varð til að hjálpa barnabarnabarni hennar, Cherie, að fara aftur í kirkju og breyta munstri fjölskylduupplausnar.

Þegar við verðum þeim andlegur styrkur sem umhverfis eru, munu áhrif okkar ná lengra en við fáum skilið eða áttað okkur á. Gordon B. Hinckley forseti (1910–2008) sagði: „Við áköllum konur kirkjunnar um að standa saman í réttlæti. Þær verða að byrja á sínu eigin heimili. Þær geta kennt reglurnar í námsbekkjum sínum. Þær geta látið rödd sína hljóma í samfélaginu. …

„Ég sé þetta sem bjarta von í heimi sem er á leið til sjálfseyðingar.“14

Þegar við tökum þessu boði, mun verk Drottins sækja fram í heiminum umhverfis og það sem mikilvægara er, í fjölskyldum okkar og lífi þeirra sem við elskum.

Ljósmynd
Old photo of three women

Heimildir

  1. Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith (2007), 453.

  2. James E. Talmage, Jesus the Christ, 3. útg. (1916), 475.

  3. Daughters in My Kingdom: The History and Work of Relief Society (2011), 3–4.

  4. Linda K. Burton, „Aðstoð óskast: Hendur og hjörtu til að hraða verkinu,“ Aðalráðstefna, mar. 2014, 128.

  5. M. Russell Ballard, „Women of Righteousness,“ Ensign, apríl 2002, 70.

  6. „Við leitum þín, Drottinn,“ Sálmar, nr. 118.

  7. Richard G. Scott, „Ég hef gefið yður eftirdæmi,“ Aðalráðstefna, mar. 2014, 32.

  8. Richard G. Scott, „Ég hef gefið yður eftirdæmi,“ 33.

  9. Richard G. Scott, „Ég hef gefið yður eftirdæmi,“ 33.

  10. Carole M. Stephens, „Við höfum mikla ástæðu til að fagna,“ Aðalráðstefna, okt. 2013, 130.

  11. Linda K. Burton, „Aðstoð óskast: Hendur og hjörtu til að hraða verkinu,“ 124.

  12. M. Russell Ballard, „Mæður og dætur,“ Aðalráðstefna, mar. 2010, 21.

  13. Discourses of Brigham Young, valið af John A. Widtsoe (1954), 216.

  14. Gordon B. Hinckley, „Standing Strong and Immovable,“ Worldwide Leadership Training Meeting, 10. jan. 2004, 20, þýðing til á íslensku.