2015
Loforðið hans um ætíð
Apríl 2015


Loforðið hans um ætíð

Robyn Casper, Utah, Bandaríkjunum

Ljósmynd
drawing of a broken bike

Teikning eftir Bradley H. Clark

Þegar ég sat á sakrementissamkomu og íhugaði bænina yfir brauðinu, hljómuðu þessi orð stöðugt í huga mér: „Svo að andi hans sé ætíð með þeim“ (Moró 4:3; K&S 20:77).

„Ætíð“ var staðhæft – en ekki á ákveðnum stundum. Afhverju höfðum við, ég og eiginmaður minn, þá ekki fengið hugboð um að vernda hinn 11 ára gamla son okkar áður en hann lést í reiðhjóla-bílslysi? Afhverju vakir himneskur faðir ekki „ætíð“ yfir okkur og aðvarar okkur?

Ég hafði lært í Barnafélaginu og trúði að heilagur andi verndaði okkur. Að með sinni kyrrlátu og hljóðu rödd vekti hann yfir okkur og leiðbeindi og aðvaraði okkur gegn hættum. Þessi hugsun hafði verið með mér frá láti Bens. Ég saknaði hans afar mikið og þráði aukinn skilning og frið.

Hvar var mín aðvörunarrödd? Hvar var heilagur andi? Mér fannst við gera okkar besta til að vera réttlát. Við greiddum tíund, sóttum samkomur og þjónuðum þegar við vorum beðin þess. Við vorum langt frá því að vera fullkomin en við höfðum fjölskyldukvöld og ritningarnám. Við reyndum eins og gátum.

Um þetta leyti var ég á fundi Líknarfélagsins þegar kennarinn sagði sögu um konu sem var skyld henni. Konan beið við stöðvunarljós með börnin sín og fann sig knúna til að bíða áfram þótt ljósið breyttist í grænt. Hún hlustaði á hugboðið og næstum um leið kom stór flutningabíll æðandi yfir gatnamótin á rauðu ljósi. Ef hún hefði ekki heyrt röddina og farið eftir henni, hefði hún og börn hennar slasast, ef ekki beðið bana.

Sagan hafði mikil áhrif á mig og þar sem ég sat í stólnum í tárum, að því komin að standa upp og fara, fylltist ég mikilli huggun. Ég fann frið og vissi að heilagur andi hefði vissulega verið með mér. Í mínu tilviki hafði hann ekki verið mér rödd aðvörunar, heldur huggari.

Frá því að Ben hafði lent í slysinu, hafði ég fundið styrk, umfram minn eigin, og notið huggunar og kærleika himnesks föður. Ég hafði stundum ekki skilið ástæðu þess að ákveðnir hlutir gerðust en ég hafði aldrei efast um kærleika hans.

Ég trúi að Guð viti alla hluti og skilji mig aldrei eftir án huggunar. Heilagur andi hefur ýmis hlutverk í lífi okkar. Hann getur verndað okkur en líka leiðbeint og huggað okkur og kennt og veitt okkur skilning og fleiri blessanir.

Ég lærði að himneskur faðir stendur vissulega við loforð sín. Hann hafði „ætíð“ verið með mér.