2015
Hver er hetjan þín?
Apríl 2015


Hver er hetjan þín?

Höfundur býr í Kaliforníu, Bandaríkjunum.

Ellie átti sér hetju en þorði ekki að segja hver hún væri.

„Um hetjudáð og hetjulund nú herrann oss alla spyr“ (Barnasöngbókin, 85).

Ellie beit í þumalinn af taugaspennu. Fröken Fitz gekk meðfram borðaröðinni og spurði alla nemendurna, einn af öðrum:

„Hver er hetjan þín?“ Fröken Frits spurði Jeremy.

Jeremy svaraði án þess að hika: „Pabbi minn!“ svaraði hann hreykinn.

Fröken Fritz brosti. „Hver er hetjan þín, Sara?“

Hún svaraði líka um hæl: „Abraham Lincoln.“

Ellie fann hjartað hamast í brjósti sér, er fröken Fitz gekk meðfram borðunum. Þau höfðu rætt um hetjur allan daginn og allir áttu að tilgreina hetjuna sína – fyrir framan alla í bekknum!

Amber og Justin nefndu mömmu sína sem hetju. Walter sagði afa sinn vera sína hetju. Nokkrir nemendur sögðu einhvern konung eða forseta vera sína hetju.

Aðeins fáeinir nemendur voru eftir áður en að Ellie kæmi. Hún varð að nefna einhverja hetju – og það strax.

Ellie horfði vandræðaleg niður á skóna sína. Hinn raunverulegi vandi var ekki að ákveða hetjuna. Hún vissi alveg hver hetjan hennar var. Jesús Kristur var hetjan hennar. Hann hafði læknað sjúka, reist upp hina dánu og greitt gjaldið fyrir syndir allra. Hann var mesta hetja allra tíma! Hún var bara of óttasleginn að nefna hann.

Ellie beit aftur í þumalinn við þá tilhugsun að segja öllum í bekknum frá því að Jesús Kristur væri hetjan hennar. Hvað ef Jeremy færi að hlæja að henni? Hvað ef Sarah og Amber færu að pískra um hana í frímínútum.

Auðvitað vissi hún að Jesús Kristur væri hetjan sín. Allir aðrir þyrftu samt ekki að vita það.

Fröken Fritz stoppaði við borð Ellie og brosti. „Hver er hetjan þín, Ellie?“

Ellie leit snöggt af borðaröðinni við hliðina og á fröken Friz. „Abraham Lincoln,“ sagði hún lágt.

Fröken Fritz skælbrosti. „Gott!“ sagði hún um leið og hún gekk að næsta borði í röðinni.

Um leið og hún fór hjá, varpaði Ellie öndinni léttar. Mikið var gott að þetta var yfirstaðið. Það síðasta sem hún þurfti á að halda var að allir í bekknum vissu að hetjan hennar væri–

„Jesús Kristur,“ heyrði hún einhvern segja.

Augu Ellie lukust upp og hún skimaði yfir skólastofuna. Þarna – aðeins aftar í borðaröðinni – sat smávaxinn drengur með úfið hár. Hann var væskilslegur og feiminn og sat alltaf aftast í skólastofunni. Ellie þekkti hann jafnvel ekki með nafni. Hún minntist þess ekki að hafa heyrt hann segja eitt aukatekið orð – fyrr en núna.

Fáeinir nemendur snéru sér við, en hann virti þá ekki viðlits. Hann horfði bara beint framan í fröken Fritz og endurtók: „Jesús Kristur er hetjan mín.“

Fröken Fritz brosti breitt og hélt áfram eftir borðunum. Ellie horfði hins vegar á drenginn furðulostin. Hún hafði óttast að segja öllum hver hetjan hennar væri, en ekki hann. Hann sem var jafnvel ekki í hennar kirkju! Hann hafði vitað hve mikilvægt það var að sýna fordæmi til stuðnings Jesú Kristi, jafnvel þótt erfitt væri.

Ellie brosti til drengsins. Hún einsetti sér að óttast ekki framar að segja frá hetjunni sinni. Nú átti hún tvær hetjur.