2023
Hógværð konunnar frá Kanaanslandi
September 2023


„Hógværð konunnar frá Kanaanslandi“ Líahóna, sept. 2023.

Kraftaverk Jesú

Hógværð konunnar frá Kanaanslandi

Hvert er hlutverk trúar og hógværðar í leit okkar að þeim kraftaverkum sem við þörfnumst?

Ljósmynd
Jesús og kanverska konan

Kanverska konan, eftir Harold Copping, Bridgeman Images

Meðal hinna óteljandi samskipta sem Jesús Kristur hlýtur að hafa átt í hans jarðneska lífi, þá eru ein sem er auðvelt að hlaupa yfir vegna þess að þau eru svo stutt og stundum misskilin: þau við konuna frá Kanaanslandi í Matteus 15:21–28.

Í stærra samhengi, þá birtist okkur fallegur sannleikur þolinmæði og samúðar Jesú Krists er við könnum frekar þessa lítt umræddu konu sem sýndi einstaka trú og hógværð.

Samhengið

Í Matteus 14 lesum við að frelsarinn var meðvitaður um dauða Jóhannesar skírara, sem hafði verið hálshöggvinn að skipan Heródíasar. Þegar hann heyrði af dauða frænda síns, reyndi Jesús að draga sig afsíðis með skipi „á óbyggðan stað,“ kannski til að syrgja, en hópur fólks elti hann gangandi (sjá Matteus 14:13). Fullur samúðar, varði Kristur deginum með fólkinu og framkvæmdi jafnvel eitt stærsta kraftaverk sitt er hann mettaði þúsundir manna með fimm brauðhleifum og tveimur fiskum (sjá Matteus 14:15–21).

Það kvöld gerði hann annað merkilegt kraftaverk. Hann hafði farið „til fjalls“ til að biðjast fyrir. Lærisveinar hans fóru um borð í skip, sem varð umkringt af Galíleuvatni, þannig að lá við áföllum af öldum og vindi. „En … Jesús [kom] til þeirra, gangandi á vatninu,“ sem varð til þess að lærisveinar hans sögðu: „Sannarlega ert þú sonur Guðs.“ (Sjá Matteus 14:23–25, 33.)

Jesús ferðaðist næst norður frá Galíleu að ströndum Týrusar og Sídonar, sem í dag er Líbanon. Hann var eflaust í leit að „hvíld, einveru eða fullnægjandi tækifæri til að veita hinum tólf leiðsögn,“ sem hafði ekki tekist.1 „Þá kom kona nokkur kanversk úr þeim héruðum og kallaði: ‚Miskunna þú mér, herra, sonur Davíðs! Dóttir mín er mjög kvalin af illum anda‘“ (Matteus 15:22).

Ljósmynd
kort og myndir af Sídon og Týrus

Lækning dóttur kanversku konunnar fór fram einhvers staðar á svæðinu milli Sídonar og Týrusar, norður af Galíleu.

Sídon (sjá mynd að ofan). Til forna var hún ein af mikilvægustu borgum Föníku vegna viðskiptaverslunar.

Týrus (sjá ljósmynd að ofan): Önnur mikilvæg viðskiptaborg, um 35 km suður af Síon. Páll postuli heimsótti kirkjumeðlimi á þessum stað í þjónustu sinni (sjá Postulasöguna 21:3–7).

Myndskreyting af Sídon: Balage Balogh

Kanverska konan

Það var merkilegt að konan skyldi nálgast Jesús yfirhöfuð. Hún var kanversk, „af heiðnum uppruna“ en „Gyðingar höfðu sérstaka óbeit á Kanaanítum.“2 Samt hvatti trú hennar á kraft Jesú Krists og ást hennar á dóttur hennar, hana til að grátbiðja frelsarann um hjálp. Öldungur James E. Talmage (1862–1933), í Tólfpostulasveitinni, útskýrði þetta: „Sú staðreyn að hún hafi ávarpað Jesú sem son Davíðs, sýnir trú hennar á að hann væri Messías Ísraels.“3

Þó að við vitum mjög lítið um þessa móður sem var af Þjóðunum, getum við gengið út frá því að trú hennar hafi verið eins og annarra kvenna sem nefndar eru í Nýja testamentinu. Eins og konan sem hafði „blóðlát“ (Markús 5:25), María og Marta frá Betaníu og María Magdalena, þá lagði kanverska konan allt traust sitt á frelsarann. Hún hafði stöðugan og öruggan skilning á því hver hann væri.

Fyrst svaraði Jesús henni ekki. Lærisveinarnir hvöttu hann til að senda hana burt, þar sem hún var að ónáða þá, og þeir upplifðu það þannig að hún væri að ónáða hann í leitun hans að friði.4

Að lokum svaraði Jesús henni. Hann útskýrði fyrri þögn sína og sagði: „Ég er ekki sendur nema til týndra sauða af Ísraelsætt“ (Matteus 15:24).

Fullyrðing frelsarans gerir það enn merkilegra að þessi kona sem var af Þjóðunum, hafi komið til að leita blessunar fyrir dóttur sína. Hún var ekki ísraelsættar en samt vissi hún einhvern veginn að Jesús Kristur væri Messías, konungur. Þó að hann hafi gert henni það ljóst að hlutverk hans væri fyrir Gyðingana í Ísrael, þá hafði konan þá trú að hann myndi lækna dóttur hennar. Í hógværð sinni, féll hún að fótum hans í viðurkenningu á hátign hans og mætti (sjá Markús 7:25), „laut honum“ og bað hann aftur: „Drottinn, hjálpa þú mér“ (Matteus 15:25).

Hógværð og kraftaverk

Í svari sínu, sem nútíma lærisveinum gæti fundist hart, svaraði Jesú: „Ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana“ (Matteus 15:26). Biblíufræðingar hafa útskýrt þetta þannig að í þessari samlíkingu eru „börnin“ Gyðingarnir og „hundarnir“ eru Þjóðirnar.

Með öðrum orðum, þá var aðalskuldbinding Krists til Gyðinganna. Hann átti að næra þá – eða veita þeim fagnaðarerindið fyrst – og síðan myndu þeir næra eða kenna það sem eftir var af heiminum. Öldungur Talmage útskýrði: „Eins hörð og þessi orð kunna að hljóma fyrir okkur, þá skildi hún þau í anda þess sem Drottinn meinti. … Konunni sárnaði sannarlega ekki samlíkingin.“5

Svar þessarar góðu konu er enn á ný hjartnæmt, undravert og hógvært: „Satt er það, herra, þó eta hundarnir undir borðinu af molum barnanna“ (Matteus 15:27).

Þessi trúfasta kona var hvergi bangin. Frekar en að móðgast, valdi hún að bregðast við í trú. Svar hennar sýnir von, jafnvel í brauðmolunum. Þvílík trú, að trúa því að molar af borðum frelsarans væru nægilegir til að sigrast á hverju því sem hrjáði dóttur hennar. Svar þessarar trúföstu móður sýnir auðmýkt og hógværð.

Öldungur David A. Bednar, í Tólfpostulasveitinni, hefur útskýrt að hógværð sé „styrkleiki, ekki veikleiki; athafnasemi, ekki aðgerðaleysi; hugdirfska, ekki hugleysi.“5 Kanverska konan var sannarlega sterk, athafnasöm og hugdjörf er hún lýsti yfir trú sinni á að molar af mætti frelsarans yrðu nægilegir.

Ljósmynd
diskur með brauðmolum

Kanverska konan var sterk, athafnasöm og hugrökk í að lýsa yfir trú sinni á að molar af mætti frelsarans yrðu nægilegir.

Að lokum, svaraði Jesús Kristur með virkjandi og kunnuglegu svari: „Kona, mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt.“ Þessu dæmi, sem sýnir að hann metur og umfaðmar okkur öll á leið okkar til hans, lýkur í ritningunum með þeirri fullvissu að „dóttir hennar varð heil frá þeirri stundu“ (Matteus 15:28).

Hvað getum við lært?

Öldungur Talmage sagði: „Lofsverð ýtni konunnar byggðist á þeirri trú sem sigrast á sjáanlegum hindrunum og afber jafnvel þó aðstæður séu letjandi.“7

Slík staðföst trú á Jesú Krist er nákvæmlega það sem ástkær spámaður okkar, Russell M. Nelson forseti, hefur ráðlagt okkur að þroska með okkur: „Trú á Jesú Krist er mesti mátturinn sem okkur stendur til boða í þessu lífi. Allt er þeim mögulegt sem trúa.“8

Ég fagna kanversku konunni sem var sterk, athafnarsöm, hugrökk og ákveðin í að halda fram trú sinni á Jesú Krist sem frelsarann, Messías og konung. Hún er dæmi úr Nýja testamentinu sem sýnir þá trú og hógværð sem krafist er af öllum lærisveinum Jesú Krists. Óhrædd skulum við stefna ákveðin áfram í slíkri trú á „[æðsta prest] þeirra gæða sem komin eru“ (Hebreabréfið 9:11).

Heimildir

  1. Sjá James E. Talmage, Jesus the Christ (1916), 354.

  2. James E. Talmage, Jesus the Christ, 354.

  3. James E. Talmage, Jesus the Christ, 354.

  4. Sjá James E. Talmage, Jesus the Christ, 355.

  5. James E. Talmage, Jesus the Christ, 355.

  6. David A. Bednar, „Hógvær og af hjarta lítillátur,“ aðalráðstefna, apríl 2018.

  7. James E. Talmage, Jesus the Christ, 356.

  8. Russell M. Nelson, „Kristur er risinn; trú á hann mun færa fjöll úr stað,“ aðalráðstefna, apríl 2021.