2023
Tilvísanir í fangelsi
September 2023


„Tilvísanir í fangelsi,“ Líahóna, sept. 2023.

Fyrirmyndir trúar

Tilvísanir í fangelsi

Í fangelsinu missti systir Llanos aldrei sjónar á tilgangi sínum sem fulltrúi Jesú Krists og kenndi klefafélögum sínum um guðlega sjálfsmynd þeirra og hvernig skuli biðja.

Ljósmynd
systurtrúboði með trúboðsforseta og konu hans

Ljósmyndir: Amelia Lyon

Systir Aketzaly Llanos var fyrirmyndartrúboði með öflugan vitnisburð. Henni var upphaflega úthlutað verki í austurtrúboðinu í San José, Kosta Ríka, en hún þjónaði með konu minni, Janeen, og mér í Aguascalientes-trúboðinu í Mexíkó í eitt ár, áður en hún fékk vegabréfsáritun til Kosta Ríka.

Í apríl 2022 veifuðum við til hennar er systir Llanos fór um borð í flugvél á leið til Mexíkóborgar þar sem hún myndi ná tengiflugi til Kosta Ríka. Minna en 24 tímum eftir að við kvöddum hana, hringdi hins vegar lögreglan í Mexíkóborg í okkur.

„Við höfum handtekið Aketzaly Llanos á flugvellinum fyrir að vera með hernaðarlega byssukúlu,“ sögðu þeir. „Þetta er alríkisbrot og hún verður saksótt.“

Ég hafði samstundis samband við lögfræðiskrifstofu kirkjunnar og þeir réðu lögfræðing til að leitast eftir lausn systur Llanos. Þessi lögfræðingur var ekki meðlimur kirkjunnar. Hann tók að sér að hjálpa okkur en var ekki vongóður. Hann útskýrði að bara það að hafa hernaðarlega byssukúlu í fórum sér, verandi ekki hermaður, sé alvarlegt brot, sama hver tilgangur einstaklingsins er.

Seinna sagði systir Llanos að hún hefði tekið byssukúluna upp af götunni á síðasta svæði sínu. Hún hugsaði það sem minjagrip. Byssukúlan var, þrátt fyrir allt, mjög svipuð lyklakippum sem voru seldar sem minjagripir fyrir utan silfurnámu í einu af fyrri svæðum hennar. Opinberir rannsakendur komu hins vegar fram við hana eins og hryðjuverkamann. Innan nokkurra daga var systir Llanos færð frá flugvellinum í öryggisfangelsi, þar sem verstu kvenfangarnir voru hýstir.

Trúarbænir

Bænir fyrir skjótri lausn systur Llanos fóru strax af stað. Janeen og ég buðum þeim 115 trúboðum sem þjónuðu í trúboði okkar að iðka trú á kraftaverk, ef það væri vilji Drottins. Ég hafði samband við trúboðsforsetana í Mexíkóborg, austurtrúboðinu í San José, Kosta Ríka, og trúarskólanum í Mexíkó, og þeir buðu trúboðum sínum að sameinast okkur í bæn.

Ljósmynd
systurtrúboði

Innan fangelsisveggjanna missti systir Aketzaly Llanos aldrei sjónar á tilgangi sínum sem fulltrúi Jesú Krists.

Innan fangelsisveggjanna missti systir Llanos aldrei sjónar á tilgangi sínum sem fulltrúi Jesú Krists. Hún kenndi klefafélögum sínum níu að biðja með því að fara með hópbænir kvölds og morgna hvern dag. Hún kenndi þeim einnig um guðlega sjálfsmynd sína.

Ein af klefafélögum hennar sagði: „Ég er virkilega slæm persóna fyrir það sem ég gerði til að vera hér og Guð hatar mig.“ Systir Llanos horfði í augu hennar og sagði: „Nei. Þú ert ekki slæm persóna. Þú ert einhver sem gerðir slæman hlut. Þú ert samt dóttir Guðs og hann elskar þig!“

Annar klefafélagi sagði frá draumi sem hún hafði haft nokkrum vikum áður en systir Llanos var handtekin. Hana dreymdi að quetzal-fugl hefði flogið inn í fangaklefann til að hjálpa henni. Áður en systir Llanos hafði gengið í kirkjuna, hafði hún látið húðflúra quetzal-fugl á bak sér. Þegar klefafélagi systur Llanos sá húðflúrið, vissi hún að hún ætti að hlusta á trúboðsboðskap hennar.

Systir Llanos kenndi henni um endurreisn fagnaðarerindis Jesú Krists og gaf henni sitt eintak af Mormónsbók, sem hún hafði komið með sér í fangelsið – sama eintak og systurtrúboðarnir höfðu gefið systur Llanos fimm árum áður, þegar hún kannaði kirkjuna.

Bráðabirgðaréttarhöld voru skipulögð í Mexíkóborg. Janeen og ég fórum til að bera vitni á staðnum. Þegar við hittum lögfræðiteymið fyrir utan dómshúsið, var lögfræðingurinn greinilega taugaóstyrkur og fram og til baka eftir gangstéttinni.

Ég tók hann til hliðar og sagði: „Í dag átt þú eftir að upplifa meiri ró og frið en þú hefur nokkru sinni upplifað í dómssal. Leyfðu mér að segja þér af hverju. Meira en 500 trúboðar og fjölskyldur þeirra eru að biðja fyrir þér og þinni velgengni í dag. Þau eru einnig að biðja fyrir því að hjarta dómarans muni mildast og að hann muni sleppa systur Llanos úr fangelsi.“

Augu lögfræðingsins fylltust af tárum og hann tjáði mér þakklæti sitt fyrir trú og bænir svo margra í hans garð.

Klukkan 10:00 hófust réttarhöldin, en ég þurfti að bíða fyrir utan þar til kom að mér að bera vitni. Tvær langar klukkustundir liðu. Þá kom dómsvörðurinn út og sagði að dómarinn þyrfti ekki að heyra vitnisburð minn – hann hefði þegar gert upp hug sinn.

Órólegur gekk ég inn í dómssalinn og dómarinn tók til máls. Hann minntist á þau lög sem systir Llanos hefði brotið og um hve alvarlegum ásökunum hún stæði frammi fyrir.

„Burt séð frá því,“ hélt hann áfram „trúi ég að sönnunargögn hafi verið lögð fram sem sýna fram á manngæsku systur Llanos.“ Hann vitnaði því næst í óþekktan hluta lagana sem leyfði honum að veita miskunn og hann leysti hana þegar úr haldi.

Ljósmynd
systurtrúboði og kona trúboðsforseta

Systir Llanos með systur Janeen Redd, sem tók systur Llanos í fangið eftir lausn hennar úr fangelsi.

„Guð mér við hlið“

Þetta var kraftaverkið sem við höfðum leitast eftir! Í stað þess að vera dæmd í fjögurra eða fimm ára fangelsisvist, var systir Llanos frjáls ferða sinna. Eftir áheyrnina sagði lögfræðingur hennar að þessi dagur hefði verið einn sá merkasti á starfsferli hans.

„Ég fann sannarlega Guð mér við hlið,“ sagði hann. „Mig langar að læra meira um trú ykkar.“

Ég bauð honum í gestamiðstöð Mexíkóborgarmusterisins í Mexíkó. „Þú munt hitta aðra trúboða þar, jafn góða og systur Llanos,“ sagði ég við hann. „Þú munt sjá glampa í augum þeirra og spyrja sjálfan þig hvers vegna.“

Tólf klukkutímum seinna var systir Llanos leyst úr haldi, enn í fangelsisfötum sínum. Hún féll í fang Janeen. Þegar við höfðum öll hætt að gráta nægilega mikið til að tala, sagði systir Llanos: „Forseti, ég fékk nokkrar tilvísanir í fangelsinu!“

Öll þessi reynsla staðfesti að „Guð hefur ekki hætt að vera Guð kraftaverka“ (Mormón 9:15). Ég efast ekki um að trú og bænir margra góðra einstaklinga hjálpuðu lögfræðingi að flytja mál sitt og milduðu hjarta dómarans.

Vegna þess að systir Llanos var handtekin, öðluðust margar konur í fangelsi von í gegnum fagnaðarerindi Jesú Krists, lögfræðingur spíraði sáðkorni trúar og við vorum styrkt í sannfæringu okkar um að Guð getur notað okkur til að hrinda fram verki hans, sama hvar við erum.

Ljósmynd
systurtrúboði stendur framan við musteri

Systir Llanos við Tijuana-musterið í Mexíkó.