2023
Þakklát fyrir að „hlýða á hann“
September 2023


„Þakklát fyrir að ‚[hlýða] á hann,‘“ Líahóna, sept. 2023

Þakklát fyrir að „hlýða á hann“

Ég hef átt erfitt með að heyra í kirkju en þessi saga úr Nýja testamentinu hjálpaði mér að sjá aðstæður mínar á annan hátt.

Ljósmynd
maður stendur í ræðustól

Allt mitt líf hef ég átt við mikla heyrnarskerðingu að stríða og get einungis skilið um 20 prósent af því sem sagt er í ræðustólnum á flestum kirkjusamkomum. Stundum veldur heyrnarskerðing mín því að mér finnst ég ein og aðskilin, eins og þegar söfnuðurinn hlær að fyndinni athugasemd ræðumannsins en ekki ég, því ég heyri hana ekki. Og ég var ekki sú eina. Eldri meðlimir trúðu mér fyrir því að þeir ættu einnig erfitt með að heyra.

Stundum, þegar ég hef átt erfitt með að skilja mjúkmæltan ræðumann tala á sakramentissamkomu eða þegar sunnudagaskólakennari lýsir því yfir að það sé ekki þörf fyrir hljóðnema þar sem allir geti heyrt, velti ég því fyrir mér hvers vegna ég fari yfirhöfuð í kirkju þar sem ég heyri svo illa. Væri tíma mínum ekki betur varið heima að lesa lexíur í Kom, fylg mér eða að læra í ritningunum?

Samt langaði mig að vera hlýðin og halda áfram að mæta með fjölskyldu minni til að endurnýja skírnarsáttmála mína og minnast frelsarans með því að meðtaka sakramentið. Það var alltaf blessun að finna andann og mér fannst ég alltaf upplyft af því sem ég gat heyrt.

Ljósmynd
Jesús og konan með blóðlátið

Einn sunnudaginn talaði háráðsmaður á sakramentissamkomu og hann var með eina af þessum háu, skýru röddum sem berast vel til eyrna. Hann ræddi frásögnina úr Nýja testamentinu um konuna sem hafði verið með blóðlát í 12 ár og hafði trú á að hún gæti læknast ef hún gæti bara teygt sig og snert klæði Jesú er hann gekk hjá (sjá Lúkas 8:43–48).

Ræðumaðurinn lagði þá fram áhrifaríkt sjónarhorn sem snerti mig djúpt. Hann útskýrði að vegna veikinda hennar hefði þessi kona talist óhrein og líklega ekki verið leyft að fara til kirkju. Í 12 ár!

Afleiðingar þessa gerði mig orðlausa. Þó að hún væri veik, þá var var hún líklega ekki svo illa haldin að hún gæti ekki mætt í kirkju, að minnsta kosti öðru hverju. Vegna samfélagslegra venja þess tíma var henni ekki leyft að mæta. Það er hræðilegt fyrir trúaðan einstakling!

Á meðan ég hugleiddi hve sárt henni hlýtur að hafa fundist það að geta ekki tilbeðið Guð með trúarsystkinum sínum vegna síns líkamlega ástands – eitthvað sem hún hafði enga stjórn á – þá opnaði andinn augu mín fyrir því hverjar hennar aðstæður voru í samanburði við mínar. Ég fékk skilning á því að þótt ég gæti ekki tekið fullan þátt, þá hafði ég að minnsta kosti þau forréttindi að mæta í kirkju og heyra það sem ég gat. Þessi kona hafði ekki þetta val. Ég skammaðist mín fyrir þau skipti sem ég, í eitt augnablik, hafði hugleitt að vera heima.

Guð talaði samstundis til hjarta míns og lét mig vita að hann vildi ekki að ég hefði sektarkennd. Hann vildi að ég væri þakklát– þakklát fyrir forréttindi þau að fara til kirkju og öðlast styrk af því að vera í samskiptum við trúfasta lærisveina Krists. Jafnvel þótt ég gæti ekki heyrt allt, þá gæti ég skilið sumt – og allt blessaði það líf mitt. Það voru einnig sértstakar stundir þar sem andinn hjálpaði mér að skilja þá hluti sem ég heyrði ekki.

Ég var þakklát fyrir það frelsi að tilbiðja Guð og njóta blessana þess að fara í hús hans. Andinn bar mér vitni um að það væri talsvert betra fyrir mig að vera á kirkjusamkomum, meðtaka sakramentið og læra það sem ég gæti, heldur en að mæta alls ekki.

Þennan dag breyttist viðhorf mitt. Í stað þess að vera leið yfir takmörkunum mínum, þá fylltist hjarta mitt friði og ég ákvað að einblína á blessanir þess að sækja kirkju. Ég ákvað að leggja mig sérstaklega fram um að vera þakklát fyrir það sem ég gat heyrt í stað þess að vera vondauf vegna þess sem ég gat ekki heyrt.

Öldungur Dieter F. Uchtdorf, í Tólfpostulasveitinni, sagði: „Að vera þakklát á ógæfutímum merkir ekki að við séum ánægð með aðstæður okkar. Það merkir að með auga trúar sjáum við lengra núverandi áskorunum okkar.“1 Konan sem teygði sig til að snerta klæði Jesú var dásamleg áminning fyrir mig um að hafa nægilega trú á Drottin til að sjá framar takmörkunum mínum og nægilegt traust á Guð til að vita að hann mun blessa mig til að rísa ofar líkamlegum annmörkum mínum.

Lífið kemur með alls kyns áskoranir sem taka á okkur andlega, tilfinningalega eða líkamlega en jafnvel á álagstímum erum við hvött til að vera þakklát fyrir þær blessanir sem við njótum. Drottinn sagði:

„Vinir mínir: Óttist ei, látið huggast. Já, gleðjist ævinlega og færið þakkir í öllu. …

… Og allar þrengingar yðar munu í heild verða yður til góðs og nafni mínu til dýrðar“ (Kenning og sáttmálar 98:1, 3).

Höfundur býr í Utah, Bandaríkjunum.

Heimildir

  1. Dieter F. Uchtdorf, „Þakklát í öllum aðstæðum,“ aðalráðstefna, apríl 2014.