Aðalráðstefna
Dýrmætasta eignin
Aðalráðstefna október 2021


Dýrmætasta eignin

Sérhverju okkar ber að koma til Krists heilskipt í hollustu við fagnaðarerindi hans.

Ritningarnar greina frá ríkum, ungum manni sem hljóp til Jesú, féll á kné við fætur hans og spurði meistarann af sannri einlægni: „Hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?“ Eftir að hafa farið í gegnum langan lista af boðorðum sem þessi maður hafði staðfastlega haldið, sagði Jesús honum að selja allar eigur sínar, gefa andvirðið fátækum, taka upp kross sinn og fylgja sér. Þetta beinskeytta boð olli því að unga manninum fannst skórinn kreppa að – þrátt fyrir hina dýru sandala sína – og hann fór burtu hryggur, eins og segir í ritningunni: „Enda átti hann miklar eignir.“1

Þetta er greinilega mikilvæg aðvörunarsaga varðandi meðferð auðs og þarfir hinna fátæku. En á endanum er þetta saga um einlæga, óskipta hollustu við guðlegar ábyrgðarskyldur. Með eða án auðs, verður sérhvert okkar að koma til Krists heilskipt í hollustu við fagnaðarerindi hans, eins og vænst var af þessum unga manni. Á máli unga fólksins í dag, þá ættum við að „gefa allt“ í þetta.2

Í hinu eftirminnilega skáldverki sínu, ímyndar C. S. Lewis sér að Drottinn segi við okkur eitthvað þessu líkt: „Ég vil ekki … tímann þinn … [eða] aurana þína … [eða] framlagið þitt, [jafn mikið] og ég vil [bara] þig sjálfan. [Þetta tré sem þú ert að sniðla.] Ég vil ekki sneiða af grein hér eða grein þar, ég vil … fá [það] allt niður. [Og tönnin.] Ég vil ekki bora í [hana] eða setja yfir hana krónu eða [fylla] í hana. [Ég vil] fá hana út. [Reyndar vil ég að þú réttir mér] hinn náttúrlega mann. … [Og] ég vil gefa þér nýjan mann í staðin. Reyndar vil ég gefa þér mig sjálfan; að minn … vilji verði [þinn vilji].“3

Allir sem tala til okkar á þessari aðalráðstefnu munu allir, með einum eða öðrum hætti, segja það sem Kristur sagði við þennan ríka, unga mann: „Kom þú til frelsara þíns. Kom algjörlega og heilskiptur. Taktu upp kross þinn, hversu þungur sem hann kann að vera, og fylgdu honum.“4 Þau munu segja þetta, vitandi að í Guðs ríki er enginn hálfkæringur, ekkert hálfkák, engin viðsnúningur. Við þá sem báðu um leyfi til að grafa látið foreldri eða í það minnsta kveðja önnur skyldmenni, sagði Jesús krefjandi og ótvírætt: „[Láttu öðrum það eftir],“ sagði hann. „Enginn sem leggur hönd á plóginn og horfir aftur er hæfur í Guðs ríki.“5 Þegar við erum beðin að gera krefjandi hluti, jafnvel það sem andstætt er löngun hjarta okkar, hafið þá hugfast að sú hollusta sem við heitum málstað Krists á að vera í algjöru fyrirrúmi í lífi okkar. Þótt Jesaja fullvissi okkur um að það sé hægt „án silfurs og endurgjaldslaust“6 – og það er hægt – þá verðum við að vera viðbúin því, svo ég noti texta T. S. Eliots, að gjaldið verði „ekki minna en allt.“7

Vitanlega höfum við ýmsar venjur eða annmarka eða eigin lífssögu sem getur komið í veg fyrir að við sökkvum okkur algjörlega andlega niður í verkið. En Guð er faðir okkar og er einkar góður í því að fyrirgefa og gleyma syndum sem við höfum látið af, ef til vill vegna þess að við veitum honum svo mörg tækifæri til að gera það. Alla vega stendur hverju okkar til boða guðlegt liðsinni, hvenær sem við viljum breyta einhverju varðandi hegðun okkar. Guð gaf Sál „[umbreytt] hjarta.“8 Esekíel bauð öllum Ísrael til forna að segja skilið við fortíðina og hljóta „nýtt hjarta og nýjan anda.“9 Alma kallaði eftir „gjörbreyting[u]“10 sem myndi útvíkka sálina og Jesús sjálfur kenndi að „enginn getur komist inn í Guðs ríki nema hann fæðist af vatni og anda.“11 Sá möguleiki að breytast og lifa á æðra sviði hefur greinilega ætíð verið ein af gjöfum Guðs til þeirra sem leita hennar.

Vinir, á okkar líðandi stundu eru deilur almennar og innan hópa af öllum stærðum og gerðum, rafrænum og pólitískum, er engin skortur á fjandskap. Við gætum spurt okkur sjálf hvort líf á „æðri og helgari hátt,“12 svo notuð séu orð Russells M. Nelson forseta, sé eitthvað sem við gætum keppt að? Þegar við gerum það, væri gott að hafa í huga hið hrífandi tímabil í Mormónsbók, er fólkið spurði þessarar spurningar og svaraði henni á jákvæðan hátt:

„Og svo bar við, að ekkert sundurlyndi var meðal fólksins um gjörvallt landið … vegna elsku Guðs, sem bjó í hjörtum fólksins.

Og engin öfund var, né erjur, … eða nokkurt lauslæti. Og vissulega gat ekki hamingjusamara fólk á meðal allra þeirra, sem Guð hafði skapað.

Engir ræningjar voru, né morðingjar, né voru þar Lamanítar eða yfirleitt nokkrir -ítar; heldur voru allir eitt, börn Krists og erfingjar að Guðsríki.

Og hversu blessuð þau voru.13

Hver er lykillinn að þessu breytta ásátta og gleðiríka lífi? Hann má finna í einni setningu í textanum: „Vegna elsku Guðs, sem bjó í hjörtum fólksins.“14 Þegar elska Guðs er ríkjandi í eigin lífi, í samskiptum við hvert annað og loks hvað tilfinningar okkar varðar til alls mannkyns, þá mun fara að draga úr gömlum aðgreiningum, takmarkandi auðkenningum og tilbúnum flokkaskiptingum og friður mun aukast. Þetta er nákvæmlega það sem átti sér stað í dæminu í Mormónsbók. Þar voru engir Lamanítar eða Jakobítar eða Jósefítar eða Sóramítar. Þar voru alls engir „-ítar.“ Fólk hafði einungis tekið sér eitt æðra auðkenni. Það var, eins og skrifað stendur, betur þekkt sem „börn Krists.“15

Auðvitað erum við hér að tala um æðsta boðorð gefið mannkyni – að elska Guð algjörlega, án undanbragða eða málamiðlunar, sem er af öllu okkar hjarta, mætti, huga og styrk.16 Þessi elska Guðs er fyrsta og æðsta boðorð alheims. Fyrsti og æðsti sannleikur alheims, er þó sá að Guð elskar okkur einmitt þannig – algjörlega, án undanbragða og málamiðunar, af öllu sínu hjarta, mætti, huga og styrk. Og þegar þessi hjartansstyrkur hans og okkar mætist óheftur, þá verður sannkölluð sprenging andlegs, siðferðilegs kraftar. Þá mun „maðurinn í annað sinn í veraldarsögunni hafa uppgötvað eldinn,“ eins og Teilhard de Chardin ritaði.17

Það er þá, og eingöngu þá, sem við getum í raun haldið annað boðorðið á þann hátt að það sé hvorki yfirborðskennt né léttvægt. Ef við elskum Guð nógu mikið til að reyna að vera honum fullkomlega trú, mun hann veita okkur hæfileika, getu, vilja og leið til að elska náunga okkar og okkur sjálf. Ef til vill getum við þá sagt enn á ný: „Vissulega gat ekki hamingjusamara fólk á meðal allra þeirra, sem Guð hafði skapað.“18

Bræður og systur, ég bið þess að okkur muni takast það sem unga, ríka manninum tókst ekki, að við tökum upp kross Krists, hversu krefjandi sem hann kann að vera, hvert sem viðfangsefnið og gjaldið er. Ég ber vitni um, að þegar við lofum að fylgja honum, mun leið okkar á einn eða annan hátt liggja fram hjá þyrnikórónu og vægðarlausum rómverskum krossi. Hversu auðugur sem ríki, ungi maðurinn okkar var, þá dugaði auður hans ekki til að kaupa sig frá því að eiga mótsstað við þessi tákn og það getum við ekki heldur gert. Fyrir þá blessun hljóta dýrmætustu auðæfi allra – gjöf eilífs lífs – er það harla lítið að vera beðin þess að vera sterk og fylgja æðsta presti viðfangsefnis okkar, morgunstjörnu okkar, málsvara okkar og konungi. Ég vitna, ásamt hinum lítt þekkta Amaleki til forna, að sérhvert okkar verði að „[leggja] fram sálir [okkar] óskiptar sem fórn til hans.“19 Um slíka einbeitta og staðfasta hollustu syngjum við:

Lofið fjallið; ég stend fastur á því:

Fjall endurleysandi elsku þinnar. …

Hér er mitt hjarta, ó, innsigla það þér;

innsigla það himins hæðum.20

Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.