Aðalráðstefna
„Elskar þú mig meira en þessir?“
Aðalráðstefna október 2021


„Elskar þú mig meira en þessir?“

Hvað getið þið gert til að sýna að þið elskið Drottin fyrst?

Í nóvember 2019 fórum ég og vinur minn til Landsins helga. Meðan við vorum þar, lærðum við og ígrunduðum ritningarvers um líf Jesú Krists. Morgun einn stóðum við á norðvesturströnd Galíleuvatns, á stað sem Jesús gæti hafa hitt lærisveinana eftir upprisu sína.

Eftir upprisu Jesú, eins og við lesum í Jóhannes, kapítula 21, þá reyndu Pétur og hinir lærisveinarnir að veiða fisk alla nóttina án árangurs.1 Að morgni sáu þeir mann standandi á ströndinni, sem sagði þeim að kasta út netinu hinum megin við bátinn. Þeim til furðu fylltist netið á undraverðan hátt.2

Þeir könnuðust þá þegar við manninn sem Drottin og flýttu sér að heilsa upp á hann.

Þegar þeir drógu netið að ströndinni, fullt af fiski, sagði Jesú: „Komið og matist.“3 Jóhannes segir frá því að „þegar þeir höfðu matast sagði Jesús við Símon Pétur: ,Símon Jóhannesson, elskar þú mig meira en þessir?‘“4

Þar sem ég stóð á þessari sömu ströndu, varð mér ljóst að þessi spurning frelsarans væri ein sú mikilvægasta sem hann gæti spurt mig einhvern daginn. Ég heyrði næstum rödd hans spyrja: „Russell, elskar þú mig meira en þessir?“

Vitið þið til hvers Jesús var að vísa þegar hann spurði Pétur: „Elskar þú mig meira en þessir?“

Væri þessari spurningu beint til okkar sjálfra á okkar tíma, þá gæti Drottinn verið að spyrja að því hversu upptekin við erum og um áhrif hina mörgu jákvæðu og neikvæðu hluta sem keppa um athygli og tíma okkar. Hann gæti verið að spyrja okkur hvort við elskum hann meira en það sem heimsins er. Þetta gæti verið spurning um hvað í lífinu okkur finnst í raun einhvers virði, hverjum við fylgjum og hvernig við sjáum sambönd okkar við fjölskyldumeðlimi og samferðafólk. Ef til vill er hann að spyrja hvað það í raun sé, sem veitir okkur gleði og hamingju.

Veitir það sem heimsins er okkur þá gleði, hamingju og frið sem frelsarinn bauð lærisveinum sínum og sem hann býður okkur? Aðeins hann getur veitt okkur sanna gleði, hamingju og frið ef við elskum hann og lifum eftir kenningum hans.

Hvernig myndum við svara spurningunni: „Elskar þú mig meira en þessir?“

Þegar við skiljum fyllstu merkingu þessarar spurningar, getum við orðið betri fjölskyldumeðlimir, náungar, borgarar, kirkjumeðlimir og synir og dætur Guðs.

Á mínum aldri, hef ég sótt margar útfarir. Ég er viss um að mörg ykkar hafið tekið eftir því sama og ég. Þegar við minnumst látins skyldmennis eða vinar, er sjaldgæft að ræðumaður tali um stærð húss hans, fjölda bíla eða upphæðir á bankareikningi. Þeir tala venjulega ekki um innlegg á samfélagsmiðlum. Í flestum útförum sem ég hef farið í er rætt um sambönd ástvina, þjónustu sem þeir veittu öðrum, lexíur og upplifanir lífsins og elsku þeirra til Jesú Krists.

Misskiljið mig ekki. Ég er ekki að segja að rangt sé að eiga fallegt heimili eða góðan bíl eða slæmt sé að nota samfélagsmiðla. Það sem ég er að segja, er að hvað sem öllu líður, þá skipta þessir hlutir afar litlu máli í samanburði við elsku okkar til frelsarans.

Þegar við elskum hann og fylgjum honum, trúum við á hann. Við iðrumst. Við fylgjum fordæmi hans og erum skírð og meðtökum heilagan anda. Við stöndumst allt til enda og höldum okkur á sáttmálsveginum. Við fyrirgefum fjölskyldumeðlimum og samferðafólki og látum af allri óvild. Við reynum af einlægni að halda boðorð Guðs. Við gerum allt sem við getum til að hlýða. Við gerum og höldum sáttmála. Við heiðrum föður okkar og móður. Við hunsum veraldleg áhrif. Við búum okkur undir síðari komu hans.

Í „Hinn lifandi Kristur: Vitnisburður postulanna,“ lesum við: „[Jesús mun] dag einn snúa til jarðarinnar á ný. … Hann mun ráða og ríkja sem konungur konunganna og Drottinn drottnanna og hvert kné mun beygja sig og hver tunga mæla í lofgjörð frammi fyrir honum. Sérhvert okkar mun hljóta dóm hans í samræmi við verk okkar og þrá hjartans.“5

Sem einn postulanna er undirritaði „Hinn lifandi Kristur,“ þá get ég sagt að sú vitneskja að Jesús „er ljós, líf og von heimsins,“6 veitir mér dýpri þrá til að elska hann meira dag hvern.

Ég ber vitni um að himneskur faðir og Jesús Kristur lifa. Ég ber vitni um að þeir elska okkur. Ritningarnar kenna að „svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.“7 Ritningarnar kenna líka að Jesús „elskaði svo heiminn, að hann gaf líf sitt, svo að allir þeir, sem trúa myndu, gætu orðið synir [og dætur] Guðs.“8

Himneskur faðir elskaði okkur svo heitt að hann gerði áætlun sáluhjálpar, með frelsarann sem þungamiðju. Jesús elskaði okkur svo heitt á stórþingi himins, að þegar himneskur faðir spurði: „Hvern á ég að senda?“ Svaraði Jesús, sem fæddist fyrstur allra andabarna föðurins: „Hér er ég, send mig.“9 Hann sagði við föðurinn: „Faðir, verði þinn vilji og þín sé dýrðin að eilífu.“10 Jesús bauð sig sjálfviljugur fram til að verða frelsari okkar og lausnari, svo við gætum orðið líkari þeim og snúið aftur í návist þeirra.

Þessi ritningarvers kenna líka að til þess að komast aftur í návist þeirra, þurfum við að trúa. Við þurfum að trúa á Jesú og á sæluáætlun Guðs. Að trúa, er að elska og fylgja frelsara okkar og halda boðorðin, jafnvel mitt í þrautum og þrengingum.

Heimurinn á okkar tíma er óstöðugur. Þar eru vonbrigði, ágreiningur, ógæfa og truflanir.

Dallin H. Oaks forseti sagði eftirfarandi í ræðu árið 2017: „Þetta eru krefjandi tímar, fylltir miklum áhyggjum – með hernaði og ófriðartíðindum, mögulegum faröldrum smitsjúkdóma, þurrkum, flóðum og jarðarhlýnun.”11

Við megum ekki glata elsku okkar til og vonar okkar á Jesú, jafnvel þótt áskoranir okkar virðist yfirþyrmandi. Himneskur faðir og Jesús Kristur munu aldrei gleyma okkur. Þeir elska okkur.

Í október síðastliðnum, kenndi Russell M. Nelson forseti okkur mikilvægi þess að hafa himneskan föður og Jesú Krist í fyrirrúmi í lífi okkar. Nelson forseti kenndi að ein merking orðsins Ísrael væri „lát Guð ríkja.“12

Hann spurði síðan sérhvert okkar þessarar spurningar: „Ert þú fús til að láta Guð ríkja í lífi þínu? Ert þú fús til að láta Guð vera áhrifaríkastan alls í lífi þínu? Vilt þú leyfa að orð hans, boðorð hans og sáttmálar hans, ráði þínum daglegu gjörðum? Vilt þú leyfa að rödd hans sé í fyrirrúmi allra annarra? Ert þú fús til að láta hvaðeina sem hann vill að þú gerir vera í forgangi alls annars metnaðar? Ert þú fús til að gefa eftir vilja þinn og láta innbyrðast í vilja hans?“13

Við verðum stöðugt að hafa hugfast að sönn hamingja er háð sambandi okkar við Guð, við Jesú Krist, og við hvert annað.

Ein leið til að sýna elsku okkar, er með því að gera litla hluti með fjölskyldu, vinum og samferðafólki, til að þjóna hvert öðru betur. Gera það sem gerir þennan heim að betri stað.

Hvað getið þið gert til að sýna að þið elskið Drottin fyrst?

Þegar við einblínum á að elska náunga okkar, eins og hann elskar þá, munum við sannlega fara að elska þá sem umhverfis eru.14

Ég spyr aftur, hvernig mynduð þið svara þessari spurningu Drottins: „Elskar þú mig meira en þessir?“

Þegar þið ígrundið þessa spurningu, eins og ég hef gert, þá bið ég þess að þið megið svara eins og Pétur gerði forðum: „Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig“15 og síðan sýna það með því að elska og þjóna Guði og þeim sem umhverfis eru.

Ég ber vitni um að við erum blessuð að hafa fagnaðarerindi Jesú Krists, til að sýna okkur hvernig okkur ber að lifa og breyta við aðra. Í honum uppgötvum við að sérhver dóttir og sonur Guðs er honum dýrmæt.

Ég ber vitni um að Jesús Kristur er ástkær frelsari okkar. Hann er hinn eingetni sonur Guðs. Ég gef þennan vitnisburð af auðmýkt, í nafni Jesú Krists, amen.