Aðalráðstefna
Hús sem fylgir reglubundinni atburðarás
Aðalráðstefna október 2021


Hús sem fylgir reglubundinni atburðarás

„Reglubundin atburðarás“ er einföld, eðlileg og árangursrík leið fyrir Drottin til að kenna okkur, börnum hans, mikilvægar reglur.

Í atvinnulífinu og í þjónustu minni í kirkjunni, hef ég gert þetta í þúsundir skipta – en aldrei áður fyrir framan þá 15 menn sem sitja beint fyrir aftan mig. Ég finn fyrir ykkar bænum og þeirra.

Bræður og systur, ég fæddist í konungsríkinu Tonga í Suður-Kyrrahafi, en ólst upp í Norður-Ameríku. Faraldurinn hefur haldið mörg hundruð, kannski mörg þúsund ungum tongverskum trúboðum, sem þjóna um allan heim, frá því að snúa aftur til heimalands síns vegna lokaðra landamæra. Sumir tongverskir öldungar hafa verið þrjú ár í trúboði og sumar systur í yfir tvö ár! Þau bíða þolinmóð í þeirri trú sem við erum þekkt fyrir. Ekki láta ykkur bregða ef einhver þeirra sem þjóna í deildum ykkar og stikum, verði líkari mér í millitíðinni – gömul og grá. Við erum þakklát trúboðum hvarvetna fyrir dygga þjónustu þeirra, jafnvel þegar hún er lengri eða styttri en búist var við, vegna faraldursins.

Sunnudag nokkurn, þegar ég var djákni, var ég í anddyrinu með vatnsbakka að útdeila sakramentinu, þegar kona gekk inn í bygginguna. Ég fór til hennar af skyldu og rétti að henni bakkann. Hún kinkaði kolli, brosti og tók vatnsbolla. Hún hafði komið of seint til að meðtaka brauðið. Stuttu eftir þessa upplifun kenndi Ned Brimley, heimiliskennari minn, mér að mörg atriði og blessanir fagnaðarerindisins væru veitt okkur eftir reglubundinni röð eða atburðarás.

Síðar í vikunni komu Ned og félagi hans heim til okkar og kenndu eftirminnilega lexíu. Ned minnti okkur á að Guð hefði skapað jörðina eftir ákveðinni röð eða reglu. Drottinn útskýrði Móse ítarlega í hvaða röð hann hefði skapað jörðina. Fyrst byrjaði hann á því að greina ljósið frá myrkrinu, síðan vötnin frá þurrlendinu. Hann bætti við gróðri og dýrum, áður en hann kom sinni æðstu sköpun fyrir á hinni nýmynduðu plánetu: mannkyninu, sem hófst með Adam og Evu.

„Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd. Hann skapaði hann eftir Guðs mynd. Hann skapaði þau karl og konu. …

Og Guð leit allt sem hann hafði gert, og sjá, það var harla gott“ (1. Mósebók 1:27, 31).

Drottinn var ánægður. Hann hvíldist á hinum sjöunda degi.

Sú reglubundna atburðarás sköpunar jarðar veitir okkur ekki einungis skilning á því sem er Guði mikilvægast, heldur líka af hverju og fyrir hverja hann skapaði jörðina.

Ljósmynd
Ned Brimley og fjölskylda

Ned Brimley lauk hvetjandi lexíu sinni með einfaldri setningu: „Vai, hús Guðs er hús reglu. Hann væntir þess að þú hafir reglu á lífi þínu. Fylgir reglubundinni atburðarás. Hann vill að þú þjónir í trúboði áður en þú giftir þig.“ Leiðtogar kirkjunnar kenna, varðandi þetta atriði, að „Drottinn væntir þess að sérhver piltur búi sig undir að þjóna. … Stúlkur … sem þrá að þjóna skulu einnig búa sig undir það“ (General Handbook: Serving in The Church of Jesus Christ of Latter-day Saints, 24.0, ChurchofJesusChrist.org). Bróðir Brimley hélt áfram: „Guð vill að þú giftir þig áður en þú eignast börn. Hann vill að þú haldir áfram að þroska hæfileika þína, er þú menntar þig.“ Ef þið veljið að lifa ekki lífinu eftir reglubundinni atburðarás, mun lífið vera erfiðara og óreiðukenndara.

Bróðir Brimley kenndi okkur líka að með friðþægingarfórn sinni, hjálpar frelsarinn okkur að koma reglu á þá óreiðu eða óreglu í lífi okkar sem hefur myndast vegna slæmra ákvarðana okkar sjálfra eða annarra.

Frá þeirri stundu hefur „reglubundin atburðarás“ verið mér hugleikin. Ég vandi mig á að leita að atburðarásarmynstri í lífinu og fagnaðarerindinu.

Öldungur Bednar kenndi þessa reglu: „Atburðarásin veitir oft aukinn skilning þegar við lærum um og lifum eftir fagnaðarerindi Jesú Krists. Íhugið til að mynda það sem við lærum um andlega forgangsröðun af megin atburðarásinni sem átti sér stað þegar fagnaðarerindið var endurreist á þessum síðari dögum.“

Öldungur Bednar raðaði Fyrstu sýn og upphaflegri vitjun Morónís til Josephs Smith á þann hátt að fyrst var drengnum – spámanninum – kennt um eðli og eiginleika Guðs, síðan um hlutverk Mormónsbókar og Elía í samansöfnun Ísraels beggja vegna hulunnar á þessum síðasta ráðstöfunartíma.

Öldungur Bednar kemst að þessari niðurstöðu: „Þessi innblásna atburðarás veitir skilning á andlegri forgangsröðun Guðdómsins („Hjörtu barnanna munu snúast,“ aðalráðstefna, október 2011).

Ég hef veitt því athygli að „reglubundin atburðarás“ er einföld, eðlileg og árangursrík leið fyrir Drottin til að kenna okkur, börnum hans, mikilvægar reglur.

Við komum til jarðar til að læra og öðlast reynslu sem við hefðum ekki getað gert að öðrum kosti. Vöxtur okkar er einstaklingsbundinn og nauðsynlegur þáttur í áætlun himnesks föður. Líkamlegur og andlegur vöxtur gerist í þrepum og er hægfara þróun bundin reynslu og röð atburða.

Alma flytur kraftmikla prédikun um trú – hann notar samlíkinguna um sáðkornið sem, ef hlúð er að því og það nært á réttan hátt, tekur að spíra og vaxa í græðling og fullvaxið, þroskað tré sem gefur af sér ljúffengan ávöxt (sjá Alma 32:28–43). Lexían er sú að trú ykkar mun aukast þegar þið gefið sáðkorninu rúm og nærið það – eða orði Guðs – í hjarta ykkar. Trú ykkar mun aukast þegar orð Guðs byrjar að „þenjast út í brjóstum ykkar“ (vers 28). Það er bæði sjónrænt og lærdómsríkt að það „þenst út og spírar og tekur að vaxa“ (vers 30). Þetta fylgir líka reglubundinni atburðarás.

Drottinn kennir okkur einstaklingsbundið miðað við lærdómsgetu okkar og hvernig við lærum. Vöxtur okkar er háður vilja okkar, eðlislægri forvitni, trúarstyrk og skilningi.

Nefí var kennt það sem Joseph Smith átti eftir að læra í Kirtland, Ohio, yfir 2.300 árum síðar: „Svo segir Drottinn Guð: Ég mun gefa mannanna börnum orð á orð ofan og setning á setning ofan, örlítið hér, örlítið þar. Og blessaðir eru þeir, sem hlusta á setningar mínar og ljá ráðum mínum eyra, því að þeir munu öðlast visku“ (2. Nefí 28:30).

Að við lærum „orð á orð ofan og setning á setning ofan, örlítið hér, örlítið þar,“ fylgir aftur reglubundinni atburðarás.

Hugleiðið eftirfarandi setningar sem við höfum heyrt í gegnum lífið: „Hafa rétta röð á hlutunum“ eða „gefa þeim mjólk áður en þau fá fasta fæðu.“ Hvað með: „Við þurfum að ganga áður en við hlaupum?“ Hver þessara grundvallarreglna lýsir einhverju sem fylgir reglubundinni atburðarás.

Framkvæmd kraftaverka fylgir ákveðinni atburðarás. Kraftaverk gerast eftir að við höfum sýnt trú. Trúin kemur á undan kraftaverkinu.

Piltar eru líka vígðir í embætti Aronsprestdæmisins eftir ákveðinni atburðarás, miðað við aldur þess sem vígist: djákni, kennari og svo prestur.

Helgiathafnir sáluhjálpar og upphafningar fylgja eðlislægri reglubundinni atburðarás. Við skírumst áður en við hljótum gjöf heilags anda. Helgiathafnir musterisins fylgja á svipaðan hátt ákveðinni atburðarás. Sakramentið fylgir auðvitað ákveðinni atburðarás, líkt og vinur minn Ned Brimley kenndi mér af visku – brauðið er fyrst og síðan vatnið.

„Þá er þeir mötuðust tók Jesús brauð, gerði þakkir, braut það og gaf lærisveinunum og sagði: ‚Takið og etið, þetta er líkami minn.‘

Og hann tók kaleik, gerði þakkir, gaf þeim og sagði: ‚Drekkið allir hér af.

Þetta er blóð mitt, blóð sáttmálans, úthellt fyrir marga til fyrirgefningar synda‘“ (Matteus 26:26–28).

Í Jerúsalem og í Ameríku innleiddi frelsarinn sakramentið í nákvæmlega sömu röð.

„Sjá, hús mitt er hús reglu, segir Drottinn Guð, en ekki hús glundroða“ (Kenning og sáttmálar 132:8).

Iðrun fylgir ákveðinni atburðarás. Hún hefst með trú á Jesú Krist, þó ekki væri nema örlítilli. Trú krefst auðmýktar, sem er nauðsynlegur hluti þess að hafa „sundurkramið hjarta og sáriðrandi anda“ (2. Nefí 2:7).

Fjórar fyrstu frumreglur fagnaðarerindis fylgja ákveðinni atburðarás. „Vér trúum, að frumreglur og helgiathafnir fagnaðarerindisins séu: Í fyrsta lagi trú á Drottin Jesú Krist; í öðru lagi iðrun; í þriðja lagi skírn með niðurdýfingu til fyrirgefningar synda; í fjórða lagi handayfirlagning til veitingar á gjöf heilags anda“ (Trúaratriðin 1:4).

Benjamín konungur kenndi þjóð sinni þennan mikilvæga sannleika: „Og sjáið um, að allt þetta sé gjört með visku og reglu, því að ekki er ætlast til að maðurinn hlaupi hraðar en styrkur hans leyfir. Hins vegar er honum ráðlegast að starfa af kappi og vinna þannig til verðlaunanna. Þess vegna skal allt gjörast með reglu“ (Mósía 4:27).

Megum við hafa reglu á lífi okkar og leitast við að fylgja þeirri atburðarás sem Drottinn hefur markað fyrir okkur. Við verðum blessuð þegar við leitum að og fylgjum því mynstri og þeirri röð sem Drottinn kennir að sé honum mikilvægast. Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.