Aðalráðstefna
Bjóðið Kristi að vera höfundur sögu ykkar
Aðalráðstefna október 2021


Bjóðið Kristi að vera höfundur sögu ykkar

Látið sögu ykkar verða trúarsögu, þar sem þið fylgið fyrirmynd ykkar, frelsaranum Jesú Kristi.

Ég byrja á því að leggja fram nokkrar spurningar til sjálfskoðunar.

  • Hvernig frásögn eruð þið að semja fyrir líf ykkar?

  • Er vegurinn sem þið lýsið í sögu ykkar beinn?

  • Hefst saga ykkar þar sem hún endar, á himnesku heimili ykkar?

  • Er einhver fyrirmynd í sögu ykkar – og er það frelsarinn Jesús Kristur?

Ég ber vitni um að frelsarinn er „[höfundur og fullkomnari] trúar okkar.“1 Munið þið bjóða honum að vera höfundur og fullkomnari sögu ykkar?

Hann þekkir upphafið frá endinum. Hann var skapari himins og jarðar. Hann vill að við snúum heim til hans og himnesks föður okkar. Hann hefur lagt allt í okkur og vill að við verðum farsæl.

Hvað haldið þið að komi í veg fyrir að við felum honum sögur okkar?

Kannski gæti þessi frásögn hjálpað ykkur í sjálfsskoðuninni.

Farsæll saksóknari veit að við yfirheyrslur ætti maður sjaldan að spyrja spurninga sem maður veit ekki svarið við. Að spyrja slíkra spurninga býður upp á að vitnið segi ykkur – og dómaranum og kviðdómnum – eitthvað sem þið vitið ekki þegar. Þið gætuð fengið svör sem koma ykkur á óvart og eru andstæð þeirri frásögn sem þið hafið þróað fyrir mál ykkar.

Þó að það sé mjög óskynsamlegt fyrir saksóknara að spyrja vitni spurninga sem þið vitið ekki svarið við, þá á hið andstæða við um okkur. Við getum spurt ástkæran himneskan föður, í nafni hins miskunnsama frelsara, og vitnið sem mun svara spurningum okkar er heilagur andi, sem svarar alltaf sannleikanum samkvæmt. 2 Vegna þess að heilagur andi starfar í fullkominni einingu við himneskan föður og Jesú Krist, vitum við að staðfestingar heilags anda eru áreiðanlegar. Hvers vegna hikum við þá stundum við að biðja um þess konar himneska aðstoð, sannleika sem heilagur andi staðfestir. Hvers vegna veigrum við okkur við að spyrja spurninga sem við vitum ekki svarið við, þegar vitnið er ekki bara vinveitt heldur segir ávallt sannleikann.

Kannski er það af því að við höfum ekki trú til að samþykkja það svar sem við gætum fengið. Kannski er það vegna þess að hin náttúrlegi karl eða kona hið innra, er hikandi við að leggja allt algjörlega í hendur Drottins og að treysta honum fyllilega. Kannski er það þess vegna sem við höldum okkur við frásögn sem við höfum skrifað fyrir okkur sjálf, þægilega útgáfu af sögu okkar sem meistarahöfundurinn hefur ekki lesið yfir. Við viljum ekki spyrja spurninga og fá svör sem passa ekki alfarið inn í þá sögu sem við erum búin að skrifa fyrir okkur sjálf.

Satt best að segja myndu mjög fá okkar skrifa þá erfiðleika inn í sögu okkar sem fága okkur. Erum við samt ekki hrifin af hápunkti þeirra sögu sem við lesum þegar aðalpersónan sigrast á baráttunni? Erfiðleikar eru sá hluti söguþráðarins sem gera uppáhalds sögur okkar spennandi, sígildar, trúarhvetjandi og þess virði að segja frá þeim. Hin dásamlega barátta sem rituð er í sögu okkar er sú sem færir okkur nær frelsaranum og fágar okkur, gerir okkur líkari honum.

Til þess að Davíð gæti sigrað Golíat, varð drengurinn að takast á við risann. Þægilega frásögnin hefði verið fyrir Davíð að snúa sér aftur að því að sinna sauðfénu. Í stað þess hugleiddi hann reynslu sína af því að bjarga lömbum frá ljóni og birni. Hann byggði á þessum hetjulegu afrekum, safnaði sér trú og hugrekki til að leyfa Guði að skrifa sögu sína og sagði: „Drottinn, sem bjargaði mér úr klóm ljóna og bjarna, mun einnig bjarga mér frá Filisteanum.“ 3 Með þrá til að láta Guð sigra, með eyra opið fyrir heilögum anda og fúsleika til að láta frelsarann vera höfund og fullkomnara sögu sinnar, þá sigraði Davíð Golíat og bjargaði fólki sínu.

Hið göfuga lögmál sjálfræðis leyfir okkur að sjálfsögðu að skrifa okkar eigin sögur – Davíð hefði getað farið heim, til að annast áfram sauðféð. Jesús Kristur er samt fús til að nota okkur sem guðleg verkfæri sín, beitta penna í hönd sinni, til að rita meistaraverk! Hann er náðarsamlegast fús til að nota mig, lélegan penna, sem verkfæri í hendi sinni, ef ég hef trú til að leyfa honum það, ef ég leyfi honum að vera höfund sögu minnar.

Ester en annað yndislegt dæmi um að leyfa Guði að ríkja. Hún iðkaði trú, helgaði sig algjörlega Drottni, frekar en að halda sig við varfærnislega frásögn sjálfsbjargarhvatar. Haman var að áætla útrýmingu allra Gyðinga í Persíu. Mordekaí, ættingi Esterar, komst að þessari áætlun, skrifaði henni og hvatti hana til að tala við konunginn fyrir hönd þjóðar hennar. Hún sagði honum þá frá því að sá sem nálgast konunginn án þess að vera kallaður til hans ætti yfir höfði sér dauðadóm. Í mikilli trú bað hún svo Mordekaí að safna Gyðingunum saman og fasta fyrir henni. „Eins munum við fasta, ég og þernur mínar,“ sagði hún, „síðan geng ég fyrir konung enda þótt það sé andstætt lögunum. Ef ég dey þá dey ég.“ 4

Ester var fús til að leyfa frelsaranum að skrifa sögu sína, jafnvel þó að endirinn hefði getað verið sorglegur, horft í gegnum sjóngler dauðlegs lífs. Blessunarlega þá tók konungur á móti Ester og Gyðingunum í Persíu var borgið.

Að sjálfsögðu er samskonar hugrekki og Ester hafði, sjaldan krafist af okkur. Það að láta Guð ríkja, að láta hann vera höfund og fullkomnara sögu okkar, krefst þess að við höldum borðorð hans og þá sáttmála sem við gerum. Það sem heldur samskiptarásinni opinni til að meðtaka opinberanir frá heilögum anda, er að halda boðorðin og sáttmálana okkar. Það er einnig með staðfestingu andans sem við finnum hönd meistarans rita sögu okkar með okkur.

Í apríl 2021 bað spámaður okkar, Russell M. Nelson forseti, okkur að hugleiða hvað við gætum gert ef við hefðum meiri trú á Jesú Krist. Með meiri trú á Jesú Krist, gætum við spurt spurninga sem við hefðum ekki svörin við – beðið himneskan föður, í nafni Jesú Krists, að senda svar með heilögum anda, sem ber vitni um sannleikann. Ef við hefðum meiri trú, myndum við spyrja spurninganna og vera svo fús að meðtaka það svar sem berst, jafnvel þótt það falli ekki að þægilegri frásögn okkar. Sú lofaða blessun sem mun hljótast við að sýna trú á Jesú Kristi í verki, er aukin trú á hann sem höfund og fullkomnara. Nelson forseti sagði: „Aukið við trú ykkar með því að gera eitthvað sem krefst meiri trúar.“ 5

Þannig að barnlaus hjón sem eiga við frjósemisvanda að stríða, gætu spurt í trú hvort þau ættu að ættleiða börn og vera fús til að meðtaka svarið, jafnvel þó að sagan sem þau höfðu skrifað fyrir sig fæli í sér kraftaverk fæðingar.

Eldri hjón gætu spurt hvort tími sé kominn fyrir þau til að þjóna í trúboði og verið fús til að fara, jafnvel þó að sagan sem þau hafa samið fyrir sig sjálf fæli í sér lengri tíma á vinnumarkaðinum. Kannski að svarið verði „ekki ennþá“ og þau muni komast að því í síðari köflum sögu sinnar hvers vegna þau þurftu að vera aðeins lengur heima við.

Táningsdrengur eða stúlka gæti spurt í trú hvort framtíð í íþróttum, bóknámi eða tónlist hafi mesta gildið og verið svo fús að fylgja hvatningu hins fullkomna vitnis, heilags anda.

Hvers vegna viljum við að frelsarinn sé höfundur og fullkomnari sögu okkar? Vegna þess að hann þekkir möguleika okkar fullkomlega, hann mun fara með okkur á staði sem við hefðum ekki getað ímyndað okkur sjálf. Hann kann að gera okkur að Davíð eða Ester. Hann mun fegra okkur og fága til að verða líkari sér. Það sem við munum áorka þegar við látum reyna meira á trúna er aukin trú á Jesú Krist.

Bræður og systur, fyrir einu ári síðan spurði ástkær spámaður okkar: „Ert þú fús til að láta Guð ríkja í lífi þínu? … Ert þú fús til að láta hvaðeina sem hann vill að þú gerir vera í forgangi alls annars metnaðar? 6 Ég bæti auðmjúklega við þessa spámannlegu spurningu: „Ert þú fús til að láta Guð vera höfund og fullkomnara sögu þinnar?“

Í Opinberunarbókinni lærum við að við munum standa frammi fyrir Guði og verða dæmd úr bók lífsins, eftir verkum okkar. 7

Við verðum dæmd eftir okkar eigin lífsinsbók. Við getum valið að skrifa þægilega frásögn fyrir okkur sjálf. Við getum líka leyft meistarahöfundinum og fullkomnara sögunnar að skrifa söguna með okkur og leyft því hlutverki sem hann ætlar okkur að vera í forgangi alls annars metnaðar.

Leyfið að Kristur verði höfundur og fullkomnari sögu ykkar.

Leyfið heilögum anda að vera vitni ykkar.

Skrifið sögu þar sem vegur ykkar er beinn og stefnir aftur heim til himnesks heimilis ykkar til að lifa í návist Guðs.

Leyfið að mótlætið og erfiðleikarnir sem fylgja öllum góðum sögum, verði ykkur leið til að komast nær og verða líkari Jesú Kristi.

Segið sögu þar sem þið gerið ykkur ljóst að himnarnir séu opnir. Spyrjið spurninga sem þið vitið ekki svarið við, vitandi að Guð er fús til að gera ykkur vilja sinn ljósann með heilögum anda.

Látið sögu ykkar verða trúarsögu, þar sem þið fylgið fyrirmynd ykkar, frelsaranum Jesú Kristi. Í nafni Jesú Krists, amen.