Aðalráðstefna
Hin ævarandi samkennd frelsarans
Aðalráðstefna október 2021


Hin ævarandi samkennd frelsarans

Sú tjáning að hafa samúð með öðrum, er í raun kjarni fagnaðarerindis Jesú Krists.

Ein mest áberandi reglan sem frelsarinn kenndi í jarðneskri þjónustu sinni var að sýna öðrum samkennd. Við skulum íhuga þessa reglu og hagnýta notkun hennar, með frásögninni um heimsókn Jesú á heimili Símonar farísea.

Í Lúkasarguðspjalli segir að viss kona, sem var talin syndug, hafi komið inn á heimili Símonar meðan Jesús var þar. Í auðmjúkri iðrun nálgaðist konan Jesú, þvoði fætur hans með tárum sínum, þurrkaði með hárinu og kyssti og smurði þá með sérstöku smyrsli.1 Hinn stolti gestgjafi, sem taldi sig siðferðilega æðri konunni, hugsaði með sér með ávirðingu og hroka: „Væri þetta spámaður mundi hann vita hver og hvílík sú kona er sem snertir hann, að hún er bersyndug.“2

Það viðhorf faríseans að hann væri merkilegri en aðrir, leiddi hann til óréttláts dóms yfir bæði Jesú og konunni. Af alvisku sinni þekkti frelsarinn hug Símonar og af mikilli visku, bauð hann vanvirðingu Símonar byrginn og ávítaði hann fyrir skort á háttvísi við sinn sérstaka heimilisgest, sem frelsarinn var. Í raun þjónaði hin beinskeytta ádeila Jesú á faríseann sem vitni um að Jesús hefði sannlega spádómsgáfu og að hin auðmjúka og iðrandi kona, með sundurkramið hjarta, hefði hlotið fyrirgefningu.3

Eins og á við um svo marga aðra atburði í þjónustutíð Jesú, þá sannar þessi frásögn enn og aftur að frelsarinn sýndi öllum samkennd sem komu til hans – án þess að gera mannamun – og þá einkum þeim sem mest þurftu á hjálp hans að halda. Sú auðmýkt og sá lotningarfulli kærleikur sem konan sýndi Jesú voru merki um einlæga iðrun hennar og þrá til að hljóta fyrirgefningu synda sinna. Yfirlæti Símonar, og forhert hjarta hans,4 kom hins vegar í veg fyrir að hann hefði samkennd með hinni iðrandi sál og hann mælti jafnvel á skeytingarlausan og vanvirðandi máta um frelsara heimsins. Viðhorf hans bar vitni um lífsmáta sem var ekkert annað en að hlíta ströngum og innantómum reglum, og ytri birtingarmynd sannfæringar hans með sjálfshroka og fölskum heilagleika.5

Hin samúðarfulla og persónulega þjónusta Jesú í þessari frásögn, sýnir fullkomlega hvernig okkur ber að koma fram við samferðafólk okkar. Í ritningunum eru ótal dæmi um það hvernig frelsarinn, fylltur mikilli og innilegri samkennd, átti samskipti við fólk á hans tíma og hjálpaði hinum hrjáðu og þeim sem voru „umkomulausir eins og sauðir er engan hirði hafa.“6 Hann rétti fólki sína miskunnsömu hönd, til að létta því byrðar, bæði líkamlega og andlega.7

Samkennd Jesú á sér rætur í kærleika,8 einmitt í hinni hreinu og fullkomnu ást sem er kjarni friðþægingar hans. Að sýna samkennd, er grundvallareinkenni þeirra sem keppa að helgun og þessi eiginleiki samtvinnast öðrum kristnum eiginleikum, eins og að syrgja með syrgjendum og sýna öðrum samhygð, miskunn og góðvild.9 Sú tjáning að hafa samúð með öðrum, er í raun kjarni fagnaðarerindis Jesú Krists og greinanlegt merki um andlega og tilfinningalega nálægð við frelsarann. Hún sýnir enn fremur hversu mikil áhrif hann hefur á lífsmáta okkar og ber vitni um mikilleika anda okkar.

Mikilvægt er að átta sig á að það sem Jesús gerði af samúð voru ekki einstaka og tilskipaðar gjörðir, byggðar á verkefnalista sem þurfti að ljúka, heldur dagleg tjáning hinnar raunverulegu hreinu ástar hans til Guðs og barna hans og stöðug þrá til að hjálpa þeim.

Jesús gat greint þarfir fólks, jafnvel úr fjarlægð. Það kemur því til dæmis ekki á óvart að Jesús hafi þegar í stað, eftir að hafa læknað þjón ákveðins hundraðshöfðingja,10 farið frá Kapernaúm til borgar sem heitir Nain. Það var þar sem Jesús gerði eitt ljúfasta kraftaverk jarðneskrar þjónustu sinnar, þegar hann bauð að látinn ungur maður, einkasonur ekkju, skyldi rísa upp til lífs. Jesús skynjaði ekki aðeins mikla þjáningu þessarar fátæku móður, heldur líka erfiðar aðstæður hennar og hafði með henni innilega samúð.11

Á sama hátt og hin synduga kona og ekkjan í Nain, eru margir innan okkar áhrifahrings sem þrá huggun, athygli, viðurkenningu og alla þá hjálp sem við fáum veitt þeim. Við getum öll verið verkfæri í höndum Drottins og haft samúð með hinum nauðstöddu, á sama hátt og Jesús gerði.

Ég þekki litla stúlku sem fæddist með mjög klofnar varir og góm. Hún þurfti að fara í fyrstu aðgerð af mörgum á öðrum degi lífs síns. Af einlægri samúð með þeim sem hafa upplifað sömu erfiðleika, reyna þessi stúlka og foreldrar hennar að hjálpa þeim sem takast á við þennan flókna veruleika tilfinningalega og sýna stuðning og skilning. Þau skrifuðu mér nýlega og sögðu: „Vegna áskorunar dóttur okkar, gafst okkur tækifæri til að hitta yndislegt fólk sem þarfnaðist huggunar, stuðnings og hvatningar. Fyrir nokkru, talaði dóttir okkar, sem nú er 11 ára, við foreldra barns með sömu áskorun. Í því samtali, tók dóttir okkar augnablik af sér grímuna sem hún var með vegna faraldursins, svo foreldrarnir gætu séð að enn væri von, þótt barnið eigi enn langt í land á næstu árum til að laga það sem að var. Við erum afar þakklát fyrir það tækifæri að geta sýnt þeim samhygð sem þjást, eins og frelsarinn sýnir okkur. Okkur finnst draga úr sársauka okkar í hvert sinn sem við linum sársauka einhvers annars.“

Kæru vinir mínir, þegar við reynum af ásetningi að tileinka okkur eiginleika samúðar, að hætti frelsarans, verðum við næmari fyrir þörfum fólks. Sú aukna næmni, mun glæða öll okkar verk tilfinningum einlægs áhuga og elsku. Drottinn mun bera kennsl á viðleitni okkar og við munum örugglega blessuð með tækifærum til að vera verkfæri í höndum hans, til að mýkja hjörtu og lyfta „máttvana örmum.“12

Þegar Jesús ávítaði Símon farísea, gerði hann líka ljóst að við ættum aldrei að dæma samferðafólk okkar óvægið og harðlega, því við þurfum öll á skilning og miskunn okkar kærleiksríka himneska föður að halda, vegna eigin ófullkomleika. Var það ekki einmitt þetta sem frelsarinn kenndi við annað tækifæri, er hann sagði: „Hví sér þú flísina í auga bróður þíns en tekur ekki eftir bjálkanum í auga þínu?“13

Við þurfum að huga að því að ekki er auðvelt að skilja hvað gæti legið að baki viðhorfi eða viðbrögðum einhvers. Útlit getur verið blekkjandi og er oft ekki nákvæmt mat á breytni einhvers. Ólíkt mér og þér, er Kristur fær um að sjá skýrt allar hliðar tiltekinna aðstæðna.14 Þótt frelsaranum séu allir veikleikar okkar kunnugir, þá er hann ekki fljótur til að fordæma okkur, heldur sýnir hann okkur áfram samúð og vinnur með okkur yfir tiltekinn tíma og hjálpar okkur að fjarlægja bjálkann úr eigin auga. Jesús horfir alltaf á hjartað en ekki útlitið.15 Hann lýsti sjálfur yfir: „Dæmið ekki eftir útliti.“16

Íhugið nú viturlega leiðsögn frelsarans til nefísku lærisveinanna varðandi þessa spurningu:

„Og vitið, að þér verðið dómarar þessarar þjóðar samkvæmt þeirri dómgreind, sem ég gef yður og sem réttvís verður. Hvers konar menn ættuð þér því að vera? Sannlega segi ég yður, alveg eins og ég er.“17

„Þess vegna vil ég, að þér séuð fullkomnir, rétt eins og ég eða faðir yðar á himni er fullkominn.“18

Í þessu samhengi, setur Drottinn dóm til höfuðs þeim sem leyfa sér að dæma meinta annmarka annarra af óréttlæti. Til þess að verða hæf til að fella réttláta dóma, verðum við að reyna að líkjast frelsaranum og horfa á ófullkomleika einstaklinga með samúð, já, með augum hans. Með það í huga að við eigum enn langt í land til að ná fullkomnun, væri kannski betra að við sætum við fætur Jesú og bæðum okkur miskunnar, vegna eigin ófullkomleika, eins og iðrandi konan í húsi faríseans, og verðum ekki svo miklum tíma og orku í að horfa á ófullkomleika annarra.

Kæru vinir, ég ber vitni um, að þegar við leitumst við að tileinka okkur hið samúðarfulla fordæmi frelsarans, mun hæfni okkar aukast til að lofa dyggðir samferðafólks okkar og draga mun úr hinni eðlislægu hvöt til að leggja dóm á ófullkomleika þess. Samneyti okkar við Guð mun aukast og líf okkar verður vissulega ljúfara, tilfinningar okkar mildari og við munum finna varanlega hamingju. Við munum auðkennd sem friðflytjendur,19 sem mæla ljúf orð, sem dögg á vormorgni.

Ég bið þess að við verðum langlyndari og skilningsríkari við aðra og að miskunn Drottins muni, af mikilli mildi, sefa óþolinmæði okkar gagnvart ófullkomleika annarra. Þetta er boð Drottins til okkar. Ég ber vitni um að hann lifir. Hann er lærisveininum fullkomin fyrirmynd miskunnar og þolinmæði. Um þann sannleika ber ég vitni, í hinu heilaga nafni frelsarans Jesú Krists, amen.