Aðalráðstefna
Kraftaverk fagnaðarerindis Jesú Krists
Aðalráðstefna október 2021


Kraftaverk fagnaðarerindis Jesú Krists

Ég veit að fagnaðarerindið getur fært okkur von, frið og gleði, ekki aðeins núna, heldur mun það einnig blessa fjölda annarra af komandi kynslóðum.

Mabuhay! Ég færi ykkur elsku og hlý bros frá hinum yndislegu heilögu á Filippseyjum. Á þessu ári eru 60 ár liðin frá því að fyrstu trúboðarnir komu til eyjanna á Filippseyjum. Í dag eru þar 23 trúboð og rúmlega 800 þúsund meðlimir kirkjunnar í 123 stikum. Þar eru nú sjö musteri starfrækt, í byggingu eða fyrirhuguð. Þetta er sannarlega kraftaverk. Við erum vitni að uppfyllingu spádómsins í 2. Nefí 10:21: „En mikil eru fyrirheit Drottins til þeirra, sem á eylöndum sjávar eru.“

Ljósmynd
Hinckley forseti á Filippseyjum

Kraftaverk þetta er einnig uppfylling á spádómi í bæn Gordons B. Hinckley, sem þá var öldungur, í Manila árið 1961. Í þeirri bæn sagði öldungur Hinckley: „Við áköllum blessanir yfir íbúa þessa lands, að þeir verði vingjarnlegir og gestrisnir og gæskuríkir og velviljaðir þeim sem hingað koma, og að margir, já, Drottinn, við biðjum þess að [margar], margar þúsundir muni meðtaka þennan boðskap og hljóta blessanir hans. Vilt þú blessa þau með móttækilegum huga og skilningsríku hjarta og með trú til að meðtaka og með hugrekki til að lifa eftir reglum fagnaðarerindisins“ (vígslubæn í American War Memorial Cemetery, Filippseyjum, 28. apríl 1961).

Ljósmynd
Revillo-fjölskyldan

Fyrir utan þær mörgu þúsundir staðfastra heilagra, hefur fagnaðarerindið breytt landinu og fólkinu á jákvæðan hátt. Ég er lifandi vitni þess. Ég var sex ára þegar foreldrar mínir gengu í kirkjuna í Mindanao, eyjunni í suðri. Á þeim tíma var aðeins eitt trúboð í öllu landinu og engar stikur. Ég er eilíflega þakklátur fyrir hugrekki foreldra minna og kostgæfni við að fylgja frelsaranum. Ég heiðra þá, sem og alla frumherja í kirkjunni á Filippseyjum. Þeir ruddu veginn, þannig að komandi kynslóðir yrðu blessaðar.

Benjamín konungur í Mormónsbók sagði: „Og enn fremur langar mig til, að þér hugleiðið blessun og hamingju þeirra, sem halda boðorð Guðs. Því að sjá. Þeir njóta blessunar í öllu, jafnt stundlegu sem andlegu“ (Mósía 2:41).

Þegar við lifum eftir og hlýðum reglum og helgiathöfnum fagnaðarerindisins, erum við blessuð, umbreytt og einsetjum okkur að verða líkari Jesú Kristi. Það var þannig sem fagnaðarerindið umbreytti og blessaði hina filippseysku heilögu, þar með talið fjölskyldu mína. Fagnaðarerindið er sannarlega leiðin að hamingjusömu lífi í fullri gnægð.

Fyrsta frumregla fagnaðarerindisins er trú á Drottin Jesú Krist. Mörgum Filippseyingum er eðlislægt að trúa á Guð. Okkur reynist auðvelt að treysta Jesú Kristi og vita að við getum hlotið svör við bænum okkar.

Ljósmynd
Obedoza-fjölskyldan

Obedoza-fjölskyldan er gott dæmi um þetta. Bróðir Obedoza var greinarforseti minn er ég var ungur maður. Dýpsta þrá bróður og systur Obedoza var að verða innsigluð fjölskyldu sinni í Manila-musterinu. Þau áttu heima í General Santos City, 1.600 kílómetrum frá Manila. Það virtist útilokað fyrir níu manna fjölskyldu að gera sér ferð til musterisins. Líkt og kaupmaðurinn sem fór og seldi allar sínar eigur til að geta keypt eina dýrmæta perlu (sjá Matteus 13:45–46), þá ákváðu þessi hjón að selja húsið sitt til að greiða fyrir ferðina. Systir Obedoza var áhyggjufull, því þau höfðu ekkert heimili þegar þau kæmu til baka. Bróðir Obedoza fullvissaði hana hins vegar um að Drottinn myndi sjá fyrir þeim.

Árið 1985 voru þau innsigluð sem fjölskylda í musterinu, um tíma og eilífð. Í musterinu fundu þau ólýsanlega gleði – sína dýrmætu perlu. Líkt og bróðir Obedoza sagði, þá sá Drottinn fyrir þeim. Þegar þau komu frá Manila sáu kunningjar þeim fyrir stöðum til að dvelja á og að endingu eignuðust þau eigið heimili. Drottinn annast þá sem sýna trú á hann.

Önnur frumregla fagnaðarerindisins er iðrun. Iðrun er að segja skilið við synd og snúa sér til Guðs eftir fyrirgefningu. Það er umbreyting í huga og hjarta. Russell M. Nelson forseti kenndi að það væri að „[gera] betur og [vera] betri [dag hvern],“ („Við getum gert betur og verið betri,“ aðalráðstefna, apríl 2019).

Iðrun er mjög lík sápu. Ég starfaði í sápuverksmiðju á Filippseyjum sem ungur efnaverkfræðingur. Ég lærði að búa til sápu og hvernig hún virkar. Þegar olíum er blandað við basa og bætt er við bakteríudrepandi efni, þá skapar það öflugt efni sem getur útrýmt bakteríum og vírusum. Líkt og sápan er iðrun hreinsandi hvarfaefni. Hún gerir okkur mögulegt að losna við óhreinindi og afgangsefni, þannig að við verðum verðug að vera með Guði, því „ekkert óhreint [getur] erft ríki [Guðs]“ (Alma 11:37).

Með iðruninni hljótum við hreinsandi og helgandi kraft Jesú Krists. Hún er lykilþáttur í hinu trúarlega umbreytingarferli. Þetta er það sem gerðist hjá Antí-Nefí-Lehítum í Mormónsbók. Þeir voru Lamanítar sem snerust svo algjörlega, að þeir urðu „aldrei fráhverfir“ (sjá Alma 23:6–8). Þeir grófu stríðsvopn sín og tóku þau aldrei upp framar. Þeir vildu fremur deyja en að brjóta þennan sáttmála. Enda sönnuðu þeir það. Við vitum að fórnir þeirra gerðu kraftaverk; þúsundir sem börðust gegn þeim lögðu niður vopn sín og snerust til trúar. Mörgum árum síðar hlutu synir þeirra, sem við þekkjum sem hina miklu ungu stríðsmenn, vernd í orrustu, þvert á allar líkur!

Ljósmynd
Faðir öldungs Revillo

Fjölskyldan mín og margir filippseyskir heilagir gengu í gegnum svipað trúarlegt umbreytingarferli. Þegar við meðtókum fagnaðarerindi Jesú Krists og gengum í kirkjuna, breyttum við háttum okkar og menningu, svo það samræmdist fagnaðarerindinu. Við urðum að láta af mörgum röngum siðum. Ég sá þetta hjá föður mínum er hann lærði fagnaðarerindið og iðraðist. Hann var mikill reykingamaður, en fleygði sígarettunum og snerti þær aldrei aftur. Vegna ákvörðunar sinnar um að breytast, hafa fjórar kynslóðir frá honum hlotið blessanir.

Ljósmynd
Kynslóðir Revillo-fjölskyldunnar

Iðrun fær okkur til að gera og halda sáttmála með heilögum helgiathöfnum. Fyrsta helgiathöfn sáluhjálpar og upphafningar er skírn með niðurdýfingu til fyrirgefningar synda. Skírnin gerir okkur kleift að meðtaka gjöf heilags anda og gera sáttmála við Drottin. Við getum endurnýjað þennan skírnarsáttmála í hverri viku er við meðtökum sakramentið. Þetta er sömuleiðis kraftaverk!

Bræður og systur, ég býð ykkur að gera þetta kraftaverk að hluta af lífi ykkar. Komið til Jesú Krists og veljið að iðka trú á hann, iðrast og gera og halda sáttmála sem finna má í helgiathöfnum sáluhjálpar og upphafningar. Það gerir ykkur kleift að bindast Kristi og hljóta kraft og blessanir guðleikans (sjá Kenning og sáttmálar 84:20).

Ég vitna um raunveruleika Jesú Krists og að hann lifir og elskar sérhvert okkar. Ég veit að fagnaðarerindið getur fært okkur von, frið og gleði, ekki aðeins núna, heldur mun það einnig blessa fjölda annarra af komandi kynslóðum. Þetta er ástæðan fyrir fallegum og hlýjum brosum hinna filippseysku heilögu. Þetta er kraftaverk fagnaðarerindisins og kenningar Krists. Um þetta ber ég vitni, í hinu heilaga nafni Jesú Krists, amen.