Aðalráðstefna
Mikillar náðar Drottins aðnjótandi alla mína ævi
Aðalráðstefna október 2021


Mikillar náðar Drottins aðnjótandi alla mína ævi

Hver eru viðbrögð okkar við raunum okkar? Erum við þakklát vegna þess að við einblínum á blessanir okkar frekar en vandamál?

KÓVID-19 heimsfaraldurinn hefur verið ein hinna mörgu rauna og áskorana sem börn Guðs hafa staðið frammi fyrir í sögu heimsins. Í upphafi þessa árs höfum við, fjölskylda mín, tekist á við mjög myrka daga. Heimsfaraldurinn og aðrar ástæður færðu dauða og sársauka inn í fjölskyldu okkar í gegnum fráfall nokkurra ástvina. Þrátt fyrir læknisþjónustu, föstu og bænir fóru bróðir minn Charly, systir mín Susy og mágur minn Jimmy í gegnum huluna á fimm vikna tímabili.

Stundum hef ég velt því fyrir mér hvers vegna frelsarinn grét þegar hann sá Maríu í hugarangist yfir dauða bróður hennar, Lasarusar, þótt hann hafi vitað hann hefði kraftinn til að reisa Lasarus upp og að hann myndi stuttu seinna nota þennan kraft til að reisa vin sinn upp frá dauðum. 1 Ég hrífst af samúð og samhyggð frelsarans gagnvart Maríu, hann skildi hinn ólýsanlega sársauka sem María upplifði vegna dauða bróður hennar, Lasarusar.

Við finnum þennan sama sársauka þegar við upplifum hinn tímabundna aðskilnað við ástvini okkar. Frelsarinn hefur fullkomna samúð með okkur. Hann ávítar okkur ekki fyrir skammsýni okkar, né fyrir að vera takmörkuð í því að sjá hina eilífu vegferð okkar. Þess í stað hefur hann samúð með sorg okkar og þjáningum.

Himneskur faðir og sonur hans Jesús Kristur óska okkur gleði. 2 Russel M. Neslon forseti hefur kennt okkur: „Gleðin sem við finnum hefur lítið að gera með okkar lífsins aðstæður, en þess meira með það sem við einblínum á í lífinu. Þegar við einblínum á Jesú Krist og fagnaðarerindi hans, þá getum við fundið gleði, þrátt fyrir það sem gerist – eða gerist ekki – í lífi okkar.“ 3

Ég minnist þess þegar ég, sem ungur trúboði, varð vitni að því að stórkostlegur trúboði, sem ég dáðist að, fékk hræðilegar fréttir. Móðir hans og yngri bróðir höfðu látið lífið í hræðilegu slysi. Trúboðsforsetinn bauð þessum öldungi upp á þann valkost að snúa heim fyrir jarðarförina. Eftir samtal við föður sinn ákvað þessi trúboði hins vegar að vera um kyrrt og klára trúboð sitt.

Ljósmynd
Heimsókn til trúboða á sjúkrahúsinu

Stuttu seinna þegar við vorum að þjóna á sama svæði, fengum við félagi minn neyðarsímtal, þjófar höfðu stolið reiðhjóli þessa sama trúboða og sært hann með hnífi. Hann og félagi hans urðu að ganga að næsta sjúkrahúsi þar sem ég og félagi minn hittum þá. Á leiðinni á sjúkrahúsið fann ég til hryggðist með þessum trúboða. Ég ímyndaði mér að honum liði illa og að hann myndi sannarlega vilja snúa heim eftir þessa hræðilegu upplifun.

Þegar við hins vegar komum á sjúkrahúsið sá ég trúboðann liggjandi í rúmi sínu, bíðandi eftir að fara í aðgerð – og hann var brosandi. Ég hugsaði með mér: „Hvernig gæti hann verið brosandi á svona stundu?“ Þegar hann var svo að jafna sig á sjúkrahúsinu, dreifði hann óðfús bæklingum og eintökum af Mormónsbók til læknanna, hjúkrunarfræðinganna og annarra sjúklinga. Þrátt fyrir þessa prófraun vildi hann ekki fara heim. Í stað þess þjónaði hann fram á síðasta dag trúboðs síns af trú, lífsorku, styrk og eldmóð.

Í upphafi Mormónsbókar segir Nefí: „Enda þótt ég hafi mátt þola miklar þrengingar á lífsleið minni, hef ég engu að síður orðið mikillar náðar Drottins aðnjótandi alla mína ævi.“ 4

Ég hugsa um þær mörgu prófraunir sem Nefí upplifði, sem margar má finna í ritum hans. Raunir hans hjálpa okkur að skilja að við eigum öll okkar myrku daga. Ein þessara rauna var þegar Nefí var boðið að snúa aftur til Jerúsalem til að ná í látúnstöflurnar sem Laban hafði í fórum sínum. Sumir bræðra Nefís voru trúlitlir og börðu Nefí jafnvel með staf. Nefí upplifði aðrar raunir þegar hann braut bogann sinn og gat ekki veitt sér og fjölskyldu sinni til matar. Seinna þegar Nefí var boðið að smíða skip, hæddu bræður hans hann og neituðu að hjálpa til. Þrátt fyrir þessar og aðrar raunir í lífi hans, viðurkenndi Nefí ávallt gæsku Guðs.

Ljósmynd
Nefí bundinn á skipinu

Þegar fjölskylda hans sigldi yfir hafið í áttina að fyrirheitna landinu, hófu sumir í fjölskyldu Nefís að „gjöra sér glaðan dag“ tala ruddalega og gleymdu að það var kraftur Drottins sem hafði varðveitt þau. Þegar Nefí ávítaði þau, móðguðust þau og bundu hann með reipi svo hann mátti sig hvergi hreyfa. Í Mormónsbók segir að bræður hans „léku [hann] grátt“ og úlnliðir hans og ökklar „voru einnig bólgnir og mjög sárir.“ 5 Nefí fylltist hryggð vegna forherðingar hjarta bræðra hans og stundum yfirbugaði sorgin hann. 6 „Engu að síður,“ sagði hann, „leit ég til Guðs míns, og ég söng honum lof allan liðlangan daginn. Og ég áfelldist ekki Drottin fyrir þrengingar mínar.“ 7

Bræður mínir og systur, hver eru viðbrögð okkar við raunum okkar? Möglum við frammi fyrir Drottni vegna þeirra? Eða finnum við fyrir þakklæti í orði, hugsun og gjörðum eins og Nefí og fyrrverandi trúboðsvinur minn, vegna þess að við einblínum meira á blessanir okkar en vandamál?

Frelsari okkar Jesús Kristur veitti okkur fordæmi í jarðneskri þjónustu sinni. Á erfiðleikastundum og í raunum er fátt sem færir okkur meiri frið og uppfyllingu en að þjóna náunga okkar. Í Matteusi segir frá því sem gerðist þegar frelsarinn heyrði að Heródes konungur hefði látið hálshöggva frænda hans, Jóhannes skírara, til að þóknast dóttur Heródíasar.

„Lærisveinar Jóhannesar komu, tóku líkið og greftruðu það og fóru síðan og sögðu Jesú frá.

Þegar Jesús heyrði þetta, fór hann þaðan á báti á óbyggðan stað og vildi vera einn. En fólkið frétti það og fór gangandi á eftir honum úr borgunum.

Þegar Jesús steig á land, sá hann þar margt manna, hann kenndi í brjósti um þá og læknaði þá er sjúkir voru.

Um kvöldið komu lærisveinarnir að máli við Jesú og sögðu: ,Hér er engin mannabyggð og dagur liðinn. Lát nú fólkið fara, svo að það geti náð til þorpanna og keypt sér vistir.‘

Jesús svaraði þeim: ,Fólkið þarf ekki að fara, gefið þeim sjálfir mat.‘“ 8

Jesús Kristur sýndi okkur að á tímum erfiðleika og mótlætis getum við borið kennsl á erfiðleika annarra. Við getum fyllst samúð og rétt fram höndina og lyft þeim. Þegar við gerum svo, lyftumst við einnig af kristilegri þjónustu okkar. Gordon B. Hinckley forseti sagði: „Besta mótefnið gegn áhyggjum er vinna. Besta meðalið við örvæntingu er þjónusta. Besta lækningin við þreytu er sú áskorun að hjálpa einhverjum sem er enn þreyttari.“ 9

Í þessari kirkju Jesú Krists, hef ég fengið mörg tækifæri til að þjóna náunga mínum. Það er á þeim stundum sem ég skynja að himneskur faðir léttir byrðar mínar. Russel M. Nelson forseti er spámaður Guðs á jörðunni; hann er stórkostlegt fordæmi um það hvernig við ættum að veita öðrum hirðisþjónustu á erfiðleikatímum. Ég sameina vitnisburð minn fjölmargra annarra heilagra um að Guð er ástríkur himneskur faðir okkar. Ég hef skynjað altæka elsku hans á mínum myrku dögum. Frelsari okkar Jesú Kristur skilur sársauka okkar og þrautir. Hann vill létta byrðar okkar og hugga okkur. Við verðum að fylgja fordæmi hans með því að þjóna þeim sem hafa jafnvel enn þyngri byrðar en við. Í nafni Jesú Krists, amen.