Aðalráðstefna
Haldið ljósi yðar á lofti
Aðalráðstefna október 2021


Haldið ljósi yðar á lofti

Boð mitt í dag er einfalt: Miðlið fagnaðarerindinu. Verið þið sjálf og haldið ljósinu á lofti.

Þegar ég var í flugi til Perú fyrir nokkrum árum, sat ég við hlið sjálfskipaðs trúleysingja. Hann spurði mig hvers vegna ég trúði á Guð. Í ánægjulegu samtali okkar sem fylgdi, sagði ég honum að ég tryði á Guð vegna þess að Joseph Smith hefði séð hann – og bætti síðan við að þekking mín á Guði væri einnig upprunnin frá raunverulegri, andlegri upplifun. Ég miðlaði trú minni að „allir hlutir sýna fram á, að Guð er til“1 og spurði hann hverju hann tryði um það hvernig jörðin – þessi griðastaður lífs í tómarúmi himingeimsins – hafi orðið til. Hann sagði, með eigin orðum, að „tilviljunin“ gæti hafa orðið yfir óralangt tímabil. Þegar ég útskýrði hversu ólíklegt það væri að slík „tilviljun“ myndi leiða af sér slíka fegurð og skipulag, var hann þögull um stund og sagði síðan góðlátlega: „Þú náðir mér þar.“ Ég spurði hvort hann myndi vilja lesa Mormónsbók. Hann sagðist mundu gera það, því sendi ég honum eintak.

Mörgum árum síðar eignaðist ég nýjan vin á flugvellinum í Lagos, Nígeríu. Við kynntumst þegar hann skoðaði vegabréfið mitt. Ég spurði hann um trú sína og hann tjáði mér sterka trú á Guð. Ég miðlaði hamingju og lífsgleði hins endurreista fagnaðarerindis Jesú Krists og spurði hvort hann vildi læra meira af trúboðunum. Hann sagði já, var kennt og hann skírður. Einu eða tveimur árum síðar, þegar ég gekk um flugvöll í Líberíu, heyrði ég rödd kalla upp nafn mitt. Ég sneri mér við og þessi sami ungi maður nálgaðist með stórt bros á vörum sér. Við féllumst glaðir í faðma og hann sagði mér að hann væri virkur í kirkjunni og ynni með trúboðunum að því að kenna kærustu sinni.

Ég veit ekki hvort vinur minn, trúleysinginn, hafi yfir höfuð lesið Mormónsbók eða gengið í kirkjuna. Hinn vinur minn gerði það. Í báðum tilfellum var mín ábyrgð2 – eða tækifæri – hið sama; að halda á lofti ljósi fagnaðarerindisins – að elska, miðla og bjóða þeim báðum á eðlilegan og náttúrlegan máta.3

Bræður og systur, ég hef upplifað blessanir þess að miðla fagnaðarerindinu og þær eru einstakar. Hér eru nokkur dæmi:

Að miðla fagnaðarerindinu færir gleði og von

Sjáið til, þið og ég vitum að áður en við komum til jarðar, bjuggum við sem börn himnesks föður okkar4 og að jörðin var sköpuð í þeim tilgangi að veita öllum einstaklingum tækifæri að öðlast líkama, afla reynslu, læra og vaxa til að hljóta eilíft líf – sem er líf Guðs.5 Himneskur faðir vissi að við myndum þjást og syndga á jörðu, því sendi hann son sinn, en „stórbrotið lífsstarf“6 hans og algjör friðþæging7 gerir okkur mögulegt að vera fyrirgefið, við læknuð og gerð heil.8

Að þekkja þessi sannindi er lífsumbreytandi! Þegar einstaklingur lærir um dýrðlegan tilgang lífsins – kemst í skilning um að Kristur fyrirgefur og líknar þeim sem fylgja honum – og velur síðan að fylgja Kristi í skírnarvatnið, þá breytist lífið til hins betra, jafnvel þótt ytri kringumstæður lífsins breytist ekki.

Geislandi glöð systir, sem ég hitti í Onitsha, Nígeríu, sagði mér að frá þeim tíma sem hún lærði um fagnaðarerindið og lét skírast (og ég vitna í hana), hafi „allt verið dásamlegt hjá mér. Ég er hamingjusöm. Ég er í himnaríki.“9 Það kveikir gleði- og vonarneista í sál þeirra sem miðla fagnaðarerindinu, bæði þeim sem miðlar og þeim sem tekur á móti. „Hversu mikil skal þá gleði yðar verða“10 þegar þið miðlið fagnaðarerindinu! Að miðla fagnaðarerindinu er gleði á gleði ofan, von á von ofan.11

Að miðla fagnaðarerindinu færir kraft Guðs í líf okkar

Þegar við skírumst, gengur hvert okkar í ævarandi12 sáttmála við Guð um að „þjóna honum og halda boðorð hans,“13 sem felur í sér að „standa sem vitni [hans], alltaf, í öllu og allsstaðar, hvar sem þið kunnið að vera.“14 Þegar við „[erum] í“ honum, með því að halda sáttmálann, þá flæðir lífgandi, styrkjandi og helgandi kraftur guðleikans frá Kristi í líf okkar, á sama hátt og grein hlýtur næringu frá vínviðnum.15

Að miðla fagnaðarerindinu verndar okkur frá freistingum

Drottinn bauð:

„Haldið því ljósi yðar á loft, til að það lýsi heiminum. Sjá, ég er ljósið, sem þér skuluð halda á loft – það sama og þér hafið séð mig gjöra. …

Ég hef boðið … yður að koma til mín, svo að þér mættuð finna og sjá. Já, slíkt hið sama skuluð þér gjöra gagnvart heiminum. Og hver sá, sem brýtur þetta boðorð, lætur leiða sig í freistni.“16

Það val að halda ljósi fagnaðarerindisins ekki á lofti, færir okkur í skuggann þar sem líklegra er að við leiðumst í freistni. Mikilvægt er að andstæðan er sönn: Að velja að halda ljósi fagnaðarerindisins á lofti, færir okkur nær þessu ljósi og vörninni sem það veitir gegn freistingu. Hvílík blessun í heiminum nú á dögum!

Að miðla fagnaðarerindinu er læknandi

Systir Tiffany Myloan samþykkti boðið um að styðja við trúboðana þrátt fyrir afar mikla persónulega erfiðleika, sem fólu meðal annars í sér efasemdir um trú sína. Hún sagði mér nýlega að stuðningur við trúboðana hafi endurnýjað trú hennar og vellíðan. Hún sagði: „Trúboðsstarf er svo græðandi.“17

Gleði. Von. Styrkjandi kraftur frá Guði. Vernd frá freistingu. Lækning. Allt þetta – og meira (s.s. fyrirgefning synda)15 – fellur á okkur frá himni, þegar við miðlum fagnaðarerindinu.

Nú snúum við okkur að hinu mikla tækifæri sem við höfum

Bræður og systur, „enn eru margir … meðal allra … hópa, [trúarflokka] og trúfélaga … [sem] aðeins er haldið frá sannleikanum vegna þess að þeir vita ekki hvar hann er að finna.“19 Þörfin fyrir að halda ljósi okkar á lofti hefur aldrei verið meiri í mannkynssögunni. Sannleikurinn hefur aldrei verið aðgengilegri.

Jimmy Ton, sem ólst upp búddatrúar, hreifst af fjölskyldu sem miðlaði lífi sínu á YouTube. Þegar hann komst að því að þau væru meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, lærði hann upp á sitt einsdæmi um fagnaðarerindið á netinu, las Mormónsbók í smáforritinu og skírðist eftir að hafa hitt trúboðana í háskólanum.20 Öldungur Ton er núna sjálfur fastatrúboði.

Hann og trúboðsfélagar hans um gjörvallan heim eru liðssveit Drottins – svo ég vitni í spámann okkar.21 Þessir trúboðar standa gegn tísku heimsins: Á meðan skoðanakannanir benda til þess að Z-kynslóðin snúi sér frá Guði,22 þá snúa ungliðarnir,23 bæði öldungar og systur, fólki til Guðs. Sífellt fleiri meðlimir kirkjunnar vinna með trúboðunum í að miðla fagnaðarerindinu og hjálpa fleiri og fleiri vinum að koma til Krists og kirkju hans.

Okkar Síðari daga heilagir í Líberíu, hjálpuðu 507 vinum að stíga ofan í skírnarvatnið á þeim 10 mánuðum sem engir fastatrúboðar þjónuðu í þeirra landi. Þegar einn hinna dásamlegu stikuforseta þar í landi heyrði að fastatrúboðunum yrði leyft að snúa aftur, sagði hann: „Ó, gott. Nú geta þeir hjálpað okkur við okkar verk.“

Það er rétt hjá honum: Samansöfnun Ísraels – besti málstaður þessarar jarðar24er okkar ábyrgð vegna sáttmála okkar. Þetta er okkar tími! Boð mitt í dag er einfalt: Miðlið fagnaðarerindinu. Verið þið sjálf og haldið ljósinu á lofti. Biðjið fyrir liðsinni himins og fylgið andlegum innblæstri. Deilið lífi ykkar eðlilega og náttúrlega; bjóðið öðrum einstaklingum að koma og sjá, að koma og hjálpa og að koma og tilheyra.25 Fagnið svo þegar þið og ástvinir ykkar hljótið hinar fyrirheitnu blessanir.

Ég veit að með Kristi er gleðilegur boðskapur fluttur hinum fátæku; með Kristi eru þeir græddir sem hafa sundurmarin hjörtu; með Kristi er föngum boðin lausn; og með Kristi, aðeins með Kristi, er syrgjendum gefið höfuðdjásn í stað ösku.26 Því er þörfin mikil að gera kunnugt um þetta!27

Ég vitna að Jesús Kristur er höfundur og fullkomnari trúar okkar.28 Hann mun fullna, hann mun fullkomna trúariðkun okkar – sama hversu ófullkomin sem hún er – með því að halda ljósi fagnaðarerindisins á lofti. Hann mun vinna kraftaverk í lífi okkar og í lífi allra sem hann safnar saman, því hann er Guð kraftaverka.29 Í hinu undursamlega nafni Jesú Krists, amen.