Aðalráðstefna
Fylgja vegi skyldunnar
Aðalráðstefna október 2023


Fylgja vegi skyldunnar

Þið sem í dag fylgið vegi skyldu ykkar, eruð styrkur hinnar endurreistu kirkju frelsarans.

Ég bið einlæglega um hjálp heilags anda þegar ég tjái elsku mína, aðdáun og þakklæti til meðlima Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu um allan heim.

Þau í síðasta vagninum

Árið 1947 voru 100 ár liðin frá því að fyrstu brautryðjendur Síðari daga heilagra komu til Saltvatnsdalsins. Margar minningarhátíðir voru haldnar á því ári og ótal þakklætiskveðjur voru færðar fyrir dygga lærisveina Jesú Krists sem greiddu leiðir, byggðu íbúðarhús, gróðursettu plöntur í hrjóstrugri eyðimörkinni og settust að í samfélögum.

J. Reuben Clark forseti, fyrsti ráðgjafi í Æðsta forsætisráðinu, vottaði þessum trúföstu brautryðjendum eina eftirminnilegustu og áhrifamestu virðingu á aðalráðstefnunni í október 1947.

Í boðskap sínum auðkenndi Clark forseti stuttlega hina þekktu leiðtoga sem stjórnuðu fólksflutningnum vestur á bóginn, eins og Brigham Young, Heber C. Kimball, Wilford Woodruff, Parley P. Pratt og marga aðra. Hins vegar var megintilgangur hans ekki að segja frá afrekum þessara athyglisverðu einstaklinga. Hann beindi fremur orðum sínum að hinum traustu sálum sem hvorki eru þekktar né opinberlega skráðar í kirkjusögunni. Lærdómsríkur titill boðskapar hans er: „Þau í síðasta vagninum.“1

Clark forseti lýsti mjög ítarlega einkennum og áskorunum sem farandfólkið stóð frammi fyrir, sem ferðaðist í síðasta yfirbyggða vagninum í hverri þeirra löngu vagnalesta sem fóru yfir slétturnar. Hann hrósaði þessum nafnlausu og óþekktu hetjum sem dag eftir dag, viku eftir viku og mánuð eftir mánuð önduðu að sér rykinu sem allir vagnarnir sem óku fyrir framan þyrluðu upp – og sigruðust á hinum viðstöðulausu hindrunum sem þau mættu á leiðinni.

Clark forseti lýsti því yfir: „Þau í síðasta vagninum sóttu fram, úrvinda og þreytt, fótsár, stundum næstum buguð, borinn uppi af trú sinni á að Guð elskaði þau, að hið endurreista fagnaðarerindi væri sannleikur og að Drottinn leiddi bræðurna áfram sem fór fyrir hópnum.“2

Hann lauk boðskap sínum með þessum áhrifamiklu orðum: „Þessum auðmjúku sálum, miklar í trú, miklar í starfi, miklar í réttlátu lífi, miklar í því að móta ómetanlega arfleifð okkar, votta ég auðmjúklega ást mína, virðingu mína, lotningu mína.“3

Ekki síður hjálplegir

Árið 1990 flutti Howard W. Hunter forseti, þáverandi forseti Tólfpostulasveitarinnar, boðskap um ómissandi framlag ótal kirkjumeðlima sem þjóna af kostgæfni og trúmennsku og fá litla sem enga opinbera viðurkenningu eða lof.

Hunter forseti útskýrði:

„Sagt var [um hinn unga og hugrakka Moróní yfirforingja]:

‚Ef allir menn hefðu verið, væru og mundu ætíð verða eins og Moróní, sjá, þá hefði sjálfu valdi vítis verið ógnað að eilífu. Já, djöfullinn mundi aldrei hafa vald yfir hjörtum mannanna barna‘ (Alma 48:17).

Hvílík lofgjörð í þágu frægs og öflugs manns. … Tveimur versum síðar er yfirlýsing um Helaman og bræður hans, sem gegndu síður áberandi hlutverki en Moróní, sem hljóðar svo:

,En sjá. Helaman og bræður hans voru ekki síður hjálplegir þjóðinni en Moróní‘ (Alma 48:19).”

Hunter forseti hélt áfram: „Með öðrum orðum, jafnvel þótt Helaman hafi ekki verið eins áberandi og Moróní, þá var hann jafn hjálplegur; sem er að hann var jafn hjálpsamur eða gagnlegur og Moróní.“4

Hunter forseti hvatti okkur síðan til að vera ekki síður hjálpleg. Hann sagði: „Ef ykkur finnst margt af því sem þið gerið á þessu ári eða á komandi árum ekki gera ykkur mjög fræg, látið það ekki á ykkur fá. Flest besta fólkið sem lifað hefur var heldur ekki mjög frægt. Þjónið og vaxið, trúfastlega og hljóðlega.“5

Fylgja vegi skyldunnar

Ég er þakklátur fyrir milljónir kirkjumeðlima sem í dag koma til frelsarans6 og sækja fram á sáttmálsveginum í síðustu vögnum nútímavagnalesta okkar – og eru sannlega ekki síður hjálpleg. Sterk trú ykkar á himneskan föður og Drottin Jesú Krist og látlaust, helgað líf ykkar hvetur mig til að verða betri maður og lærisveinn.

Ég elska ykkur. Ég dáist að ykkur. Ég þakka ykkur. Og ég hrósa ykkur.

Yfirlýsing í Mormónsbók frá Samúel Lamaníta dregur best saman tilfinningar mínar til ykkar.

„Og ég vildi, að þér sæjuð, að meiri hluti þeirra fylgir vegi skyldunnar og gengur gætilega frammi fyrir Guði, og þeir gæta þess að halda boðorð hans, reglur og ákvæði. …

Já, ég segi yður, að meiri hluti þeirra gjörir svo, og þeir kappkosta af óþreytandi elju að leiða aðra bræður sína til þekkingar á sannleikanum.“7

Ég trúi að orðtakið að „fylgja vegi skyldunnar“ sé lýsandi fyrir eftirtektarsama bræður og systur sem leita að og sitja við hlið fólks sem er eitt á kirkjusamkomum og við ýmsar aðrar aðstæður. Þau leitast stöðugt við að hugga þá sem þurfa huggunar við,8 án þess að vænta viðurkenningar eða hróss.

Orðtakið að „fylgja vegi skyldunnar“ er lýsandi fyrir maka og börn sem styðja félaga, foreldri eða barn sem þjónar í leiðtogastöðu í hinni endurreistu kirkju Drottins. Hin viðvarandi og hljóðlátu áhrif þeirra sem oftast fara fram hjá flestum, gera mögulegar blessanir margra einstaklinga og fjölskyldna á þann hátt sem einungis verður fyllilega viðurkennt í eilífðinni.

Orðtakið að „fylgja vegi skyldunnar“ er lýsandi fyrir einstaklinga sem, eftir að hafa snúið frá Guði, koma auðmjúklega til hans aftur,9 iðrast synda sinna og leita að hreinsandi og læknandi krafti friðþægingar frelsarans. Að koma til Krists10 með því að snúa aftur á sáttmálsveginn frá syndugum hjáleiðum og „forboðnum vegum“11 er andlega nauðsynlegt og bjargtraust réttlæti. Þegar þau sækja fram í trú og þreytast ekki á að gera gott, leggja þau grunn að miklu verki í lífi sínu,12 „[fyrir] alla ættliði og að eilífu“.13

Orðtakið að „fylgja vegi skyldunnar“ er lýsandi fyrir réttláta einstaklinga sem þrá að binda ok sitt við frelsarann með réttmætum sáttmálum og helgiathöfnum fagnaðarerindis hans – en sem kunna að vera meinað það vegna þátta sem þeir hafa ekki stjórn á. Ég lofa að persónulegri angist ykkar verði aflétt og hlýðni ykkar og trúmennska til að lúta vilja Guðs með þolinmæði verður umbunað „þegar Drottni [þóknast]“.14 „Að kveldi gistir oss grátur en gleðisöngur að morgni.“15

Orðtakið að „fylgja vegi skyldunnar“ er lýsandi fyrir innblásna þýðendur og túlkendur um allan heim sem þjóna Drottni með því að hjálpa vinum og meðlimum að „heyra fyllingu fagnaðarerindisins á sinni eigin tungu og á sínu eigin máli“.16 Raddir þeirra, úthlutað tungumál og þýdd skjöl flytja eilífan sannleika, en þó þekkja fæst okkar nöfn þeirra eða tjá nokkurn tíma þakklæti. Með gjöf tungutals, sem þau hafa verið blessuð með, þjóna þýðendur og túlkar af kostgæfni, ósérhlífni og oftast nafnlaust við að hjálpa fólki að hljóta andlega gjöf trúar með því að lesa og heyra orð Guðs.17

Orðtakið að „fylgja vegi skyldunnar“ er lýsandi fyrir trúfasta gifta karla og konur sem virða þá sáttmálaskyldu sína að margfalda og uppfylla jörðina og sem eru blessuð með styrk og þreki til að glíma við börn sín á sakramentissamkomum. Í sífellt ruglaðri heimi sem er þjakaður af hörmungum og rangri forgangsröðun, gefa þessar hugrökku sálir ekki gaum að hinum veraldlegu röddum sem upphefja sjálfhverfni; þau virða heilagleika og mikilvægi lífsins í hamingjuáætlun himnesks föður fyrir börn sín.

Mörg hjón treysta líka á Guð þegar réttlátar langanir hjarta þeirra verða ekki að veruleika þegar og á þann hátt sem þau höfðu vonað og dreymt. Þau „setja traust sitt á Drottin“18 og gera ekki kröfu um að hann standi við þeirra eigin jarðnesku tímamörk. „Því að frá upphafi veraldar hafa menn ekki haft spurnir af og ekkert eyra heyrt og ekkert auga séð, ó Guð, utan þú, hversu stórfenglega hluti þú hefur fyrirbúið þeim, sem væntir þín.“19

Orðtakið að „fylgja vegi skyldunnar“ lýsir hinum mörg þúsund leiðtogum og kennurum barnastofu og Barnafélags sem elska og leiðbeina börnum kirkjunnar á hverjum hvíldardegi.

Hugleiðið hin eilífu áhrif þeirrar þjónustu sem þessir dyggu lærisveinar veita – og hinar dásamlegu blessanir sem þeim er lofað sem þjóna börnum.

„Og [Jesús] tók lítið barn, setti það meðal þeirra, tók það sér í faðm og sagði við þá:

,Hver sem tekur við einu slíku barni í mínu nafni tekur við mér og hver sem tekur við mér tekur ekki aðeins við mér heldur og við þeim er sendi mig.‘“20

Orðtakið „fylgja vegi skyldunnar“ lýsir dyggum börnum sem annast aldraða foreldra af alúð, svefnvana móður sem huggar hrætt barn, meðan hún stendur vörð sem „ljónynja við hlið“ heimilis síns,21 kirkjumeðlimum sem koma snemma og fara seint til að raða upp og ganga frá stólum og innblásnum einstaklingum sem bjóða fjölskyldu, vinum og samferðafólki að koma og sjá, koma og hjálpa og koma og dvelja áfram.22

Ég hef aðeins lýst nokkrum völdum dæmum um sáttmálstrygga og trúfasta lærisveina Jesú Krists eins og ykkur sem hafið „fylgt vegi skyldu ykkar“. Finna má milljónir fleiri dæma um Síðari daga heilaga sem leggja fram fyrir Guð „sálir [sínar] óskiptar“23 á Kristsmiðuðum heimilum og í kirkjudeildum um allan heim.

Þið elskið og þjónið, hlustið og lærið, annist og huggið og kennið og vitnið með krafti heilags anda. Þið fastið og biðjist oft fyrir, verðið sífellt styrkari í auðmýkt ykkar og stöðugt ákveðnari í trúnni á Krist, „þar til sálir [ykkar fyllast] gleði og huggun, já, sem [hreinsar og helgar hjörtu ykkar], þeirri helgun, sem fæst með því að [þið gefið hjörtu ykkar] Guði“.24

Loforð og vitnisburður

Þau í síðasta vagninum, allir sem ekki eru síður hjálplegir og þið sem í dag fylgið vegi skyldu ykkar, eruð styrkur hinnar endurreistu kirkju frelsarans. Eins og Drottinn lofaði: „Öll hásæti, herradómar, tignir og völd skulu opinberuð verða og veitast öllum þeim, sem hugdjarfir hafa staðið stöðugir í fagnaðarerindi Jesú Krists.“25

Ég ber fagnandi vitni um að himneskur faðir og ástkær sonur hans lifa og loforð þeirra eru örugg, í hinu heilaga nafni Drottins Jesú Krists, amen.