Aðalráðstefna
Lof syngið honum
Aðalráðstefna október 2023


Lof syngið honum

Hve ríkulega erum við blessuð að vita allt sem við vitum, vegna þess að við höfum Joseph Smith, spámann þessa síðasta ráðstöfunartíma.

Kæru bræður og systur, það er mér heiður að vera með ykkur þennan morguninn. Ég bið þess að Drottinn blessi mig.

Augu mín eru ekki eins og þau áður voru. Ég fór til augnlæknis og sagði: „Ég sé ekki á textavélina.“

Hún svaraði: „Augun þín eru orðin gömul. Þau eru ekki að fara að breytast.“

Svo ég mun gera mitt besta.

Mig langar að deila með ykkur nokkru sem hefur verið mér í huga. Ég virðist hafa haft spámanninn Joseph í huga síðustu mánuði. Ég sat og hugleiddi hans dýrðlegu ábyrgð að verða spámaður þessarar ráðstöfunar í fyllingu tímanna.

Ég hugsa um hversu þakklát við erum sem meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu fyrir að Joseph Smith, drengur sem þráði að vita hvað hann þurfti að gera til að hljóta fyrirgefningu synda sinna, fann hugrekki til að fara í trjálund nærri heimili sínu í Palmyra, New York, krjúpa þar í bæn og, að hans sögn, biðjast fyrir upphátt í fyrsta sinn (sjá Joseph Smith – Saga 1:14).

Af þessu tilefni, þegar Joseph kraup á kné á stað sem við köllum Lundinn helga, lukust himnarnir upp. Tvær persónur, bjartari en hádegissól, birtust honum. Önnur ávarpaði hann og sagði: „[Joseph], þetta er minn elskaði sonur. Hlýð þú á hann!“ (Joseph Smith – Saga 1:17). Þannig hófst endurreisn fyllingar fagnaðarerindis Jesú Krists.

Vegna þess að Jesús, frelsari okkar og lausnari, talaði til drengsins Josephs og innleiddi þennan ráðstöfunartíma sem við nú lifum á, syngjum við: „Lof syngið honum sem litið fékk Jahve!“ („Lofsyngið honum,“ Sálmar, nr. 11). Við þökkum Drottni fyrir Joseph Smith og fyrir hugrekki hans til að fara í trjálundinn árið 1820, nærri heimili hans í Palmyra, New York.

Ég hef verið að hugsa um allt það dásamlega sem við vitum og um allt sem við höfum. Ég ber ykkur vitni, ástkæru bræður og systur, um hve ríkulega blessuð við erum að vita allt sem við vitum, vegna þess að við höfum Joseph Smith, spámann þessa síðasta ráðstöfunartíma.

Við höfum skilning á tilgangi lífsins og því hver við erum.

Við vitum hver Guð er, við vitum hver frelsarinn er, vegna þess að við höfum Joseph sem fór í trjálundinn sem drengur til að hljóta fyrirgefningu synda sinna.

Ég tel þetta vera eitt það dýrlegasta og dásamlegasta sem hægt er að vita í heiminum, að himneskur faðir og Drottinn okkar Jesús Kristur hafi opinberað sig á þessum síðasta tíma og að Joseph hafi verið vakinn upp til að endurreisa fyllingu hins ævarandi fagnaðarerindis Jesú Krists.

Við höfum Mormónsbók. Mormónsbók er dásamleg og yndisleg gjöf fyrir meðlimi kirkjunnar. Hún er annað vitni, annar vitnisburður um að Jesús er Kristur. Við höfum hana því Joseph var verðugur þess að fá töflurnar í hendur, innblásinn frá himnum til að þýða þær með gjöf og krafti Guðs og færa heiminum hana.

Þótt boðskapur minn þennan morgun sé einfaldur, þá ristir hann djúpt og er fylltur elsku til spámannsins Josephs Smith og allra þeirra bræðra og systra sem studdu hann og voru fús til að styðja hann á ungdómsárum hans.

Ég vil einnig þennan morgun votta móður hans virðingu. Mér hefur alltaf þótt það yndislegt að móðir hans Lucy Mack Smith hafi trúað honum og því sem hafði gerst þegar hann kom heim úr Lundinum helga.

Ég er þakklátur fyrir föður hans, bræður, systur og fjölskyldu, sem studdu hann í þessari miklu ábyrgð sem Drottinn lagði á hann, að verða sá spámaður sem endurreisa átti fyllingu hins ævarandi fagnaðarerindis Jesú Krists á jörðunni.

Ég ber vitni þennan morgun um að ég veit að Jesús Kristur er frelsari og lausnari heimsins. Ég veit líka að himneskur faðir og Drottinn Jesús Kristur birtust honum og töluðu til Josephs og bjuggu hann undir að verða spámaður.

Ég undrast, og ég er viss um að þið gerið það líka, hve blessuð við erum að vita það sem við vitum um tilgang lífsins, hvers vegna við erum hér, hvað það er sem við ættum að vera að reyna að gera og áorka í okkar daglega lífi. Við erum í því ferli að undirbúa okkur, einn dag í senn, verða aðeins betri, verða aðeins gæskuríkari, verða aðeins betur undirbúin fyrir daginn sem vissulega mun koma, þegar við förum aftur í návist okkar himneska föður og Drottins okkar Jesú Krists.

Það fer að styttast í það hjá mér. Ég verð bráðum 95 ára. Börnin mín segja mér að þeim finnist ég miklu eldri en það suma daga, en það er í lagi. Ég geri mitt besta.

En í nærri 50 ár, bræður og systur, hef ég haft þau forréttindi að ferðast um heiminn í verkefnum sem aðalvaldhafi kirkjunnar. Það er dásamleg blessun. Ég held ég hafi farið nánast til allra heimshluta. Ég hef hitt meðlimi kirkjunnar um allan heim.

Ó, hve ég elska ykkur. Hve dýrðleg reynsla það hefur verið – að horfa framan í ykkur, vera í návist ykkar og finna elskuna sem þið berið til Drottins og endurreisnar fagnaðarerindis Jesú Krists.

Megi himneskur faðir vaka yfir okkur núna og blessa alla framvindu ráðstefnunnar. Megi andi Drottins vera í hjörtum okkar og megi sú elska aukast sem við berum til fagnaðarerindis Jesú Krists – okkar ástkæra frelsara, Drottins Jesú Krists – er við leitumst við að þjóna honum og halda boðorð hans og vera líkari honum; megi það verða ávöxtur af mætingu okkar á aðalráðstefnu. Hvar sem þið eruð í þessum heimi, megi Guð blessa ykkur. Megi andi Drottins vera með okkur. Megum við finna kraft himins er við tilbiðjum saman í þessum ráðstefnuhluta.

Ég gef ykkur minn vitnisburð um að ég veit að Jesús er Kristur. Hann er frelsari okkar, lausnari okkar. Hann er besti vinur okkar. Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.