Aðalráðstefna
Græðandi kraftur frelsarans á eyjum sjávar
Aðalráðstefna október 2023


Græðandi kraftur frelsarans á eyjum sjávar

Frelsarinn læknar einstaklinga, fjölskyldur og þjóðir með musterisblessunum.

Á sjöunda áratugnum, kenndi faðir minn við háskóla kirkjunnar í Laie, Hawaii, þar sem ég fæddist. Eldri systur mínar sjö heimtuðu að foreldrar mínir nefndu mig „Kimo“, nafni frá Hawaii. Við bjuggum nærri Laie-musterinu á Hawaii þegar það þjónaði stórum hluta meðlima kirkjunnar á Kyrrahafssvæði Asíu, þar á meðal Japan.1 Í þá daga byrjuðu hópar japanskra heilagra að koma til Hawaii til að hljóta blessanir musterisins.

Einn þessara meðlima var systir frá eyjunni fögru, Okinawa. Sagan af ferðalagi hennar til Hawaii-musterisins er eftirtektarverð. Tveimur áratugum áður hafði hún gifst að hefðbundnum sið búddista í forvöldu hjónabandi. Nokkrum mánuðum síðar réðust Japanir á Perluhöfn í Hawaii, sem þrýsti Bandaríkjunum í stríð við Japan. Í ljósi orrusta eins og við Midway og á Iwo Jima, olli hernaðarbröltið því að japanski herinn var rekinn aftur á strendur eyjunnar Okinawa, síðustu varnarlínunnar á móti bandamönnum áður en kom að kjarnalandi Japans.

Orrustan á Okinawa geisaði í þrjá skelfilega mánuði árið 1945. Flotasveit 1.300 bandarískra herskipa umkringdu og vörpuðu sprengjum á eyjuna. Mannslát hermanna og óbreyttra borgara voru gríðarmörg. Á alvöruþrungnum minnisvarða á Okinawa eru skráð yfir 240.000 þekkt nöfn þeirra sem féllu í orrustunni.2

Í örvæntingarfullri tilraun til að flýja árásina, leituðu konan frá Okinawa, eiginmaður hennar og litlu börnin þeirra tvö skjóls í fjallshelli. Þau þraukuðu ólýsanlegt kvalræði næstu vikur og mánuði.

Á vonleysiskvöldi, er orrustan geisaði, þegar fjölskyldan var nálægt sulti og eiginmaður hennar meðvitundarlaus, íhugaði hún að binda endi á þjáningar þeirra með handsprengju sem yfirvöld höfðu veitt henni og öðrum í þeim tilgangi. Þegar hún bjóst til að gera það, varð hún fyrir innilegri, andlegri upplifun sem veitti henni ótvíræðan skilning um raunveruleika Guðs og elsku hans til hennar, sem veitti henni styrk til að halda áfram. Á næstu dögum vakti hún eiginmann sinn upp og mataði fjölskyldu sína með illgresi, hunangi frá villtu býflugnabúi og kvikindum sem hún veiddi í nálægum læk. Á ótrúlegan hátt þraukuðu þau sex mánuði í hellinum þar til þorpsbúar tilkynntu þeim að orrustunni væri lokið.

Þegar fjölskyldan sneri aftur heim og byrjaði að endurbyggja líf sitt, byrjaði þessi japanska kona að leita svara varðandi Guð. Hjá henni kviknaði smám saman trú á Jesú Krist og þörfin fyrir að skírast. Hún var þó áhyggjufull um ástvini sína sem höfðu dáið án þekkingar um Jesú Krist og skírn, þar á meðal móður hennar, sem lést við fæðingu hennar.

Hugsið ykkur gleði hennar þegar tveir systurtrúboðar Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu komu heim til hennar einn daginn og kenndu henni að fólk geti lært um Jesú Krist í andaheiminum. Hún var heilluð af kenningunni að foreldrar hennar gætu valið að fylgja Jesú Kristi eftir dauðann og tekið við skírn sem framkvæmd væri fyrir þeirra hönd á heilögum stöðum sem hétu musteri. Hún og fjölskylda hennar snerust til trúar á frelsarann og skírðust.

Fjölskylda hennar lagði hart að sér og tók að blómstra, þrjú börn bættust í hópinn. Þau voru trúföst og virk í kirkjunni. Svo fékk eiginmaður hennar fyrirvaralaust slag og lést, sem knúði hana til að vinna langa vinnudaga í mörgum störfum í mörg ár, til að sjá fyrir börnum sínum fimm.

Sumir innan fjölskyldu hennar og nágrenni gagnrýndu hana. Þeir kenndu ákvörðun hennar um að ganga í kristna kirkju um ófarir hennar. Hvergi bangin eftir mikinn harmleik og harkalega gagnrýni, hélt hún fast í trú sína á Jesú Krist, ákveðin að sækja fram og treysta því að Guð þekkti hana og að bjartari dagar væru fram undan.3

Nokkrum árum eftir ótímabæran dauða eiginmanns hennar, fékk trúboðsforseti Japans innblástur um að hvetja japanska meðlimi til að vinna að musterissókn. Trúboðsforsetinn var fyrrum bandarískur hermaður sem barðist í Okinawa-orrustunni, sem hafði valdið systurinni frá Okinawa og fjölskyldu hennar svo mikilli þjáningu.4 Þrátt fyrir þetta, sagði þessi auðmjúka systir þetta um hann: „Þá var hann einn af okkar hötuðu andstæðingum, en nú var hann hér með fagnaðarerindi elsku og friðar. Þetta fannst mér vera kraftaverk.“5

Þegar systirin heyrði boðskap trúboðsforsetans, þráði hún að innsiglast fjölskyldu sinni í musterinu einhvern daginn. Það var þó ómögulegt fyrir hana, vegna fjárhagsstöðu hennar og takmarkaðrar tungumálakunnáttu.

Þá komu í ljós nokkrar frumlegar lausnir. Kostnaðurinn yrði helmingaður ef meðlimirnir í Japan tækju heila flugvél á leigu til að fljúga til Hawaii á ládeyðutíma.6 Meðlimir tóku einnig upp vínylplötur og seldu, með yfirskriftinni Japanskir heilagir syngja. Sumir meðlimir seldu jafnvel heimili sín. Aðrir sögðu upp starfi sínu til að komast í ferðina.7

Hin áskorunin fyrir meðlimi var sú að musteriskynningin var ekki tiltæk á japönsku. Kirkjuleiðtogar kölluðu japanskan bróður til að ferðast til Hawaii-musterisins og þýða musterisgjafarathöfnina.8 Hann var fyrsti japanski trúskiptingurinn eftir stríðið, eftir að hafa hlotið kennslu og skírn hjá trúföstum bandarískum hermönnum.9

Þegar japanskir meðlimir búsettir á Hawaii, sem höfðu áður hlotið musterisgjöf, fyrst heyrðu þýðinguna, grétu þeir. Einn meðlimur sagði: „Við höfum farið mjög oft í musterið. Við höfum heyrt athafnirnar á ensku. [En] við höfum aldrei fundið eins vel fyrir anda musterisverksins og núna, þegar við [heyrðum það] á okkar tungumáli.“10

Síðar sama ár fóru 161 fullorðnir og börn af stað frá Tókýó til að ferðast til Hawaii-musterisins. Einn japanskur bróðir minntist ferðarinnar: „Þegar ég horfði út úr flugvélinni, sá Perluhöfn og minntist þess sem landið okkar hafði gert fólkinu 7. desember 1941, þá óttaðist ég í hjarta mínu. Munu þau samþykkja okkur? En mér til undrunar, sýndu þau okkur meiri kærleika og góðvild en ég hafði nokkru sinni upplifað í lífinu.“11

Ljósmynd
Japanskir heilagir boðnir velkomnir með blómakrönsum.

Við komu hinna japönsku heilögu, buðu hawaiískir meðlimir þau velkomin með óteljandi blómakrönsum og skiptust á sama tíma á faðmlögum og kossum á kinn, sið sem var framandi japanskri menningu. Eftir að dvelja tíu umbreytandi daga á Hawaii, kvöddu hinir japönsku heilögu er hinir hawaiísku heilögu sungu lagið „Aloha Oe“.10

Í næstu musterisferð japanskra meðlima var systirin frá Okinawa með í för. Hún tók sér þessa 16.000 km ferð fyrir hendur, þökk sé rausnarlegri gjöf frá trúboðum sem höfðu þjónað í greininni hennar og borðað margar máltíðir hjá henni. Í musterinu grét hún gleðitárum er hún sinnti hlutverki staðgengils fyrir skírn móður sinnar og var innsigluð látnum eiginmanni sínum.

Musterisferðir frá Japan til Hawaii voru farnar reglulega, þar til Tókýó-musterið í Japan var vígt árið 1980 og varð 18. musterið sem starfrækt var. Í nóvember á þessu ári verður 186. musterið vígt á Okinawa í Japan. Það er staðsett nærri hellinum, miðsvæðis á Okinawa, þar sem þessi kona og fjölskylda hennar fundu skjól.13

Þó að ég hafi aldrei hitt þessa dásamlegu systur frá Okinawa, þá lifir arfleifð hennar áfram í niðjum hennar, marga þeirra þekki ég og elska.14

Faðir minn, fyrrverandi hermaður í seinni heimsstyrjöldinni í Kyrrahafi, var í sjöunda himni þegar ég hlaut köllun til að þjóna sem trúboði í Japan. Ég kom til Japan stuttu eftir vígslu Tókýó-musterisins og sá með eigin augum elsku þeirra fyrir musterinu.

Musterissáttmálar eru gjöf frá himneskum föður okkar til trúfastra fylgjenda sonar hans, Jesú Krists. Með musterinu bindur himneskur faðir einstaklinga og fjölskyldur við frelsarann og við hvert annað.

Russell M. Nelson forseti sagði á síðasta ári:

„Sérhver einstaklingur sem gerir sáttmála í skírnarfonti og í musteri – og heldur þá – hefur aukinn aðgang að krafti Jesú Krists. …

Umbun þess að halda sáttmála við Guð, eru himneskur kraftur – kraftur sem styrkir okkur til að standast betur prófraunir okkar, freistingar og sorgir. Þessi kraftur gerir leiðina auðveldari fyrir okkur.“15

Frelsarinn læknar einstaklinga, fjölskyldur og þjóðir með musterisblessunum – jafnvel þótt þau höfðu verið hatrammir andstæðingar. Hinn upprisni Drottinn lýsti yfir við samfélag þjakað af átökum í Mormónsbók, að yfir þeim sem heiðruðu „nafn [hans], mun sonur réttlætisins rísa með lækningarmátt undir vængjum sínum“.16

Ég er þakklátur fyrir að vitna um yfirstandandi uppfyllingu fyrirheits Drottins um að „sá tími mun koma, er þekkingin á frelsara mun breiðast út til allra þjóða, kynkvísla, tungna og lýða“,17 þar á meðal „á eyjum sjávar“.18

Ég ber vitni um frelsarann Jesú Krist og um spámann hans og postula á þessum síðari dögum. Ég ber hátíðlegt vitni um himneska kraftinn sem bindur það á himni sem bundið er á jörðu.

Þetta er verk frelsarans og musterin eru heilög hús hans.

Ég lýsi þessum sannleika yfir af óhagganlegri sannfæringu, í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Laie-musterið á Hawaii var vígt árið 1919, af Heber J. Grant forseta. Sem postuli hafði hann opnað kirkjuna í Japan árið 1901. Þetta var fimmta starfrækta musterið og það fyrsta sem byggt var utan Bandaríkjanna.

  2. Þann 2. mars 2023 voru 241.281 nöfn letruð á minnisvarðann.

  3. Sjá Gordon B. Hinckley, „Keep the Chain Unbroken“ (trúarsamkoma í Brigham Young-háskóla, 30. nóv. 1999), speeches.byu.edu.

  4. Dwayne N. Andersen særðist í orrustunni á Okinawa. Hann þjónaði sem trúboðsforseti í Japan frá 1962 til 1965 og var fyrsti musterisforseti Tókýó-musterisins í Japan, frá 1980 til 1982.

  5. Ég hitti meðlimi fjölskyldu hennar þegar eiginkona mín og ég þjónuðum sem trúboðsleiðtogar í Tókýó. Þau veittu mér þessar upplýsingar úr persónulegum frásögnum í ættarsögu hennar.

  6. Sjá Dwayne N. Andersen: An Autobiography for His Posterity, 102–5, Sögusafn kirkjunnar, Salt Lake City.

  7. Sjá Dwayne N. Andersen, 104.

  8. Sjá Edward L. Clissold, „Translating the Endowment into Japanese,“ í Stories of the Temple in Lā‘ie, Hawai‘i, tekið saman af Clinton D. Christensen (2019), 110–13.

  9. Þýðandinn Tatsui Sato var skírður þann 7. júlí 1946 af bandarískum hermanni, C. Elliott Richards. Eiginkona Tatsuis, Chiyo Sato, var skírð samdægurs af Boyd K. Packer. Þar fyrir utan barðist Neal A. Maxwell í orrustunni á Okinawa og L. Tom Perry var í fyrstu bylgju landgönguliðs sjóhersins sem fór á land í Japan eftir friðarsamninginn. Öldungar Packer, Maxwell og Perry áttu eftir að verða meðlimir í Tólfpostulasveitinni.

  10. Í Clissold, „Translating the Endowment into Japanese,“ 112.

  11. Í Dwayne N. Andersen, „1965 Japanese Excursion,“ Stories of the Temple in Lā‘ie, Hawai‘i, 114.

  12. Sjá Andersen, „1965 Japanese Excursion,“ 114, 117.

  13. Síðar í þessum hluta í aðalráðstefnunni í október 2023, tilkynnti Russell M. Nelson forseti 20 ný musteri, þar á meðal Osaka-musterið í Japan, sem verður fimmta musterið í Japan.

  14. Á trúboði okkar í Tókýó frá 2018 til 2021, mitt í áskorunum Kóvid faraldursins, sýndi fjölskylda hennar mér og fjölskyldu minni kærleika og létu sér annt um okkur, sem ég mun ævinlega vera þakklátur fyrir.

  15. Russell M. Nelson, „Sigrast á heiminum og finna hvíld,“ aðalráðstefna, okt. 2022.

  16. 3. Nefí 25:2.

  17. Mósía 3:20.

  18. 2. Nefí 29:7.