Aðalráðstefna
Guðlegar uppeldislexíur
Aðalráðstefna október 2023


Guðlegar uppeldislexíur

Foreldrar ganga í samstarf við himneskan föður til að leiðbeina dýrmætum börnum sínum aftur til himins.

Hafið þið haldið á nýfæddu barni í örmum ykkar? Ljós streymir frá hverjum hvítvoðungi og ber með sér sérstaka kærleikstengingu sem getur fyllt hjörtu foreldra barnsins af gleði.1 Mexíkóskur rithöfundur skrifaði: „Ég hef komist að því að þegar nýfætt barn grípur í fyrsta skiptið í fingur föður síns, hefur það náð eilífu taki af honum.“2

Foreldrahlutverkið er ein undraverðasta upplifun lífsins. Foreldrar ganga í samstarf við himneskan föður til að leiðbeina dýrmætum börnum sínum aftur til himins.3 Í dag vil ég miðla nokkrum uppeldislexíum úr ritningunum og kenndum af lifandi spámönnum sem hjálpa okkur að skilja eftir okkar foreldaarfleifð.

Klifra upp á æðra plan menningar fagnaðarerindisins

Við verðum að klifra upp á æðra plan menningar fagnaðarerindisins með fjölskyldu okkar. Russell M. Nelson forseti sagði: „Fjölskyldur verðskulda leiðsögn frá himni. Foreldrar geta ekki ráðlagt börnum á fullnægjandi hátt út frá eigin reynslu, ótta eða samúð.“4

Þrátt fyrir að menningarbakgrunnur okkar, uppeldisaðferðir og persónuleg reynsla séu verðmæt fyrir foreldrahlutverkið, þá er þessi hæfni ófullnægjandi til að hjálpa börnum okkar að snúa aftur til himins. Við þurfum aðgengi að æðri „dyggðum og … hegðun“,5 menningu kærleiks og væntinga, þar sem við eigum samskipti við börn okkar „á æðri og helgari hátt“.6 Dallin H. Oaks forseti lýsti menningu fagnaðarerindisins sem „sérkennandi lífsháttum, dyggðum og væntingum og hegðun. … Þessi menning fagnaðarerindisins er upprunnin í sáluhjálparáætluninni, boðorðum Guðs og kenningum lifandi spámanna. Hún leiðbeinir okkur í uppeldi fjölskyldu okkar og hvernig við lifum sjálf lífinu“.7

Jesús Kristur er miðpunktur þessarar menningar fagnaðarerindisins. Það að tileinka sér menningu fagnaðarerindisins í fjölskyldu okkar er nauðsynlegt til að skapa frjótt umhverfi, þar sem sáðkorn trúar fær að blómstra. Til að klifra upp á æðra plan, býður Oaks forseti okkur að „hætta hvers kyns hefðum, persónulegum eða í fjölskyldunni, sem stangast á við kenningu kirkju Jesú Krists“.8 Foreldrar, ef við erum feimin við að koma á fót menningu fagnaðarerindisins, gæti það gert andstæðingnum mögulegt að ná fótfestu á heimili okkar eða það sem verra er, í hjörtum barna okkar.

Þegar við veljum að gera menningu fagnaðarerindisins að ríkjandi menningu í fjölskyldu okkar, þá munu núverandi uppeldisaðferðir okkar, hefðir og hegðun verða síaðar, endurraðaðar, fágaðar og bættar með kraftmiklum áhrifum heilags anda.9

Gera heimilið að miðstöð trúarfræðslu

Russell M. Nelson forseti hefur kennt að heimilið skuli vera „miðstöð trúarfræðslu“.10 Markmið trúarnáms er að „auka trúarlegan viðsnúning okkar að himneskum föður og Jesú Kristi og hjálpa okkur að verða líkari þeim“.11 Skoðum þrjár áríðandi uppeldisábyrgðir sem spámenn og postular hafa lýst, sem geta hjálpað okkur að koma á fót æðri menningu fagnaðarerindisins á heimili okkar.

Fyrsta: Fræðið óspart

Himneskur faðir leiðbeindi Adam um Jesú Krist og kenningu hans. Hann kenndi honum „að fræða börn [hans] óspart um þetta“.12 Með öðrum orðum, himneskur faðir kenndi Adam að hann ætti að fræða óspart, örlátlega og afdráttarlaust.13 Ritningarnar segja okkur: „Adam og Eva vegsömuðu nafn Guðs og fræddu syni sína og dætur um alla hluti.“14

Við kennum börnum okkar örlátlega þegar við verjum verðmætum tíma með þeim. Við kennum afdráttarlaust þegar við ræðum viðkvæm umfjöllunarefni eins og skjánotkun og notum þau úrræði sem kirkjan hefur gert aðgengileg.15 Við fræðum óspart þegar við nemum ritningarnar með börnum okkar og notum Kom, fylg mér og leyfum andanum að vera kennarinn.

Annað: Fyrirmyndar lærisveinar

Í Jóhannesarguðspjalli lesum við að þegar nokkrir gyðingar gagnrýndu frelsarann fyrir gjörðir hans, beindi Jesús athyglinni að fyrirmynd sinni, föður sínum. Hann kenndi: „Ekkert getur sonurinn gert af sjálfum sér. Hann gerir það eitt sem hann sér föðurinn gera. Því hvað sem hann gerir, gerir sonurinn einnig.“16 Foreldrar, þurfum við að tileinka okkur til að vera börnum okkar fyrirmynd? Lærisveinshlutverkið.

Við getum sem foreldrar kennt mikilvægi þess að setja Guð í fyrsta sæti þegar við ræðum æðsta boðorðið, en við erum fyrirmynd þesss þegar við setjum til hliðar truflanir heimsins og höldum hvíldardaginn heilagan í hverri viku. Við getum kennt um mikilvægi musterissáttmála með því að tala um kenningu himnesks hjónabands, en við erum fyrirmynd þeirra þegar við virðum sáttmála okkar og komum fram við maka okkar af virðingu.

Þriðja: Boð um að aðhafast

Trú á Jesú Krist ætti að vera kjarni vitnisburðar barna okkar og vitnisburðirnir þurfa að berast hverju barni með persónulegri opinberun.17 Til að aðstoða börn okkar við að byggja vitnisburð, hvetjum við þau til að nota sjálfræði sitt til að velja það sem rétt er18 og búa þau undir ævilanga veru á sáttmálsvegi Guðs.19

Það væri viturlegt að hvetja hvert og eitt barna okkar til að taka boði Nelsons forseta um að axla ábyrgð á eigin vitnisburði um Jesú Krist og fagnaðarerindi hans – að vinna fyrir honum, endurnæra hann svo hann styrkist, næra hann með sannleika og menga hann ekki með falskri heimspeki vantrúaðra karla og kvenna.20

Réttlátt, meðvitað uppeldi

Guðlegt ætlunarverk himnesks föður sem foreldris, var kunngert í opinberun til Móse: „Því að sjá. Þetta er verk mitt og dýrð mín – að gjöra ódauðleika og eilíft líf mannsins að veruleika.“21 Nelson forseti hefur bætt við: „Guð mun gera allt sem hann getur, að undanskildu því að brjóta á sjálfræði ykkar, til að hjálpa ykkur að missa ekki af mestu blessunum allrar eilífðar.“22

Við, sem foreldrar, erum fulltrúar Guðs þegar kemur að umsjá barna okkar.23 Við þurfum að gera allt sem við getum til að skapa umhverfi þar sem börn okkar geta fundið fyrir hans guðlegu áhrifum.

Himneskur faðir ætlaðist aldrei til þess að við sætum á hliðarlínunni sem foreldrar og horfðum á andlegt líf barna okkar þróast. Lof mér að útskýra þessa hugmynd um meðvitað uppeldi með persónulegri upplifun. Þegar ég var í Barnafélaginu í lítilli grein í Gvatemala, byrjuðu foreldrar mínir að kenna mér um virði patríarkablessana. Móðir mín tók sér tíma til að miðla upplifun sinni er hún hlaut dýrmæta patríarkablessunina. Hún kenndi mér kenninguna sem tengist patríarkablessunum og bar vitni um hinar fyrirheitnu blessanir. Meðvitað uppeldi hennar veitti mér þá þrá að hljóta eigin patríarkablessun.

Þegar ég var 12 ára, hjálpuðu foreldrar mínir mér að hefja leit að patríarka. Þetta var nauðsynlegt, því enginn patríarki bjó í umdæminu þar sem við bjuggum. Ég ferðaðist til patríarka í stiku sem var í 156 kílómetra fjarlægð. Ég man skýrt eftir því þegar patríarkinn lagði hendur sínar á höfuð mitt, til að blessa mig. Ég vissi án nokkurs vafa, með kraftmikilli, andlegri staðfestingu, að himneskur faðir þekkti mig.

Fyrir 12 ára dreng frá litlum bæ, var þetta afar þýðingarmikið fyrir mig. Hjarta mitt snerist til himnesks föður þennan dag, vegna meðvitaðs uppeldis móður minnar og föður og verð ég þeim eilíflega þakklátur.

Systir Joy D. Jones, fyrrverandi aðalforseti Barnafélagsins, kenndi: „Við getum ekki beðið eftir því að börn okkar einfaldlega snúist til trúar. Trúarumbreyting fyrir slysni fyrirfinnst ekki í fagnaðarerindi Jesú Krists.“24 Elska okkar og innblásin boð geta skipt sköpum í notkun barnanna á sjálfræði sínu. Nelson forseti lagði áherslu á þetta: „Ekkert annað er mikilvægara en réttlátt uppeldisstarf foreldra!“25

Lokaorð

Foreldrar, þessi heimur er fullur af heimspeki, menningu og hugmyndum sem keppast um athygli barnanna okkar. Hin stóra og rúmmikla bygging auglýsir félagsaðild sína daglega og notar til þess nýjustu rásir miðlanna. „En með því að gefa son sinn,“ kenndi spámaðurinn Moróní, „hefur Guð fyrirbúið enn betri leið.“26

Þegar við göngum í samstarf við Guð með sáttmálum og verðum fulltrúar hans í umsjá barna okkar, mun hann helga áform okkar, innblása kennslu okkar og milda boð okkar „svo að börn vor viti, til hvaða uppsprettu þau mega leita til fyrirgefningar synda sinna“.27 Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Sjá Sálmarnir 127:3.

  2. Johnny Welch, „The Puppet,“ endurskapað á inspire21.com/thepuppet; sjá einnig Johnny Welch, Lo que me ha enseñado la vida (1996).

  3. Þetta gæti virst óárennilegt verkefni, en eins og öldungur Jeffrey R. Holland sagði: „Með hjálp himnesks föður, getum við skilið eftir okkur meiri foreldraarfleifð en okkur grunar“ („The Hands of the Fathers,“ Liahona, júlí 1999, 18).

  4. Russell M. Nelson, „Thou Shalt Have No Other Gods,“ Ensign, maí 1996, 15.

  5. Dallin H. Oaks, „The Gospel Culture,“ Ensign, mar. 2012, 22.

  6. Russell M. Nelson, „Þörf er á friðflytjendum,“ aðalráðstefna, apríl 2023.

  7. Dallin H. Oaks, „The Gospel Culture,“ 22.

  8. Dallin H. Oaks, „The Gospel Culture,“ 22.

  9. Sjá Moróní 10:5.

  10. Russell M. Nelson, „Verðum fyrirmyndar Síðari daga heilagir,“ aðalráðstefna, okt. 2018.

  11. Trúarumbreyting er markmið okkar,“ í Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Nýja testamentið 2023, v.

  12. HDP Móse 6:58.

  13. Sjá American Dictionary of the English Language, „freely,“ webstersdictionary1828.com/Dictionary/freely.

  14. HDP Móse 5:12.

  15. Sjá „Taking Charge of Technology“ og Til styrktar ungmennum: Leiðarvísir að ákvörðunartökum (2022), Gospel Library.

  16. Jóhannes 5:19.

  17. Sjá „Matteus 16:17–18. Individual Revelation Needed for a Testimony of Jesus Christ,“ í New Testament Student Manual (2018), 52.

  18. Sjá Dale G. Renlund, „Kjósið þá í dag,“ aðalráðstefna, okt. 2018: „Uppeldismarkmið föður okkar á himnum er ekki að láta börn sín gera það sem rétt er, heldur að láta börn sín velja að gera það sem rétt er og að lokum verða eins og hann er.“

  19. Sjá „Viðauki: Búið börn ykkar undir ævilanga veru á sáttmálsvegi Guðs,“ í Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Nýja testamentið 2023, Gospel Library.

  20. Sjá Russell M. Nelson, „Sigrast á heiminum og finna hvíld,“ aðalráðstefna, okt. 2022.

  21. HDP Móse 1:39. Í þessu versi talar Jesús Kristur fyrir hönd himnesks föður.

  22. Sjá Russell M. Nelson, „Choices for Eternity,“ (heimslæg trúarsamkoma fyrir ungt fullorðið fólk), 15. maí 2022, Gospel Library.

  23. Sjá Russell M. Nelson, „Sáluhjálp og upphafning,“ aðalráðstefna, apríl 2008: „Reynið ekki að hafa stjórn á börnum ykkar. Hlustið þess í stað, hjálpið þeim að læra fagnaðarerindið, veitið þeim innblástur og leiðið þau í átt til eilífs lífs. Þið eruð fulltrúar Guðs við umsjá barna hans, sem hann hefur trúað ykkur fyrir. Látið hans guðlegu áhrif vara í hjarta ykkar er þið kennið og sannfærið.“

  24. Joy D. Jones, „Nauðsynleg samtöl,“ aðalráðstefna, apríl 2021.

  25. Russell M. Nelson, „Hvíldardagurinn er feginsdagur,“ aðalráðstefna, apríl 2015.

  26. Eter 12:11.

  27. 2. Nefí 25:26.