Aðalráðstefna
Hvatning andans
Aðalráðstefna október 2023


Hvatning andans

Stöðugt samfélag heilags anda er ein af mestu andlegu gjöfunum sem Síðari daga heilagir njóta.

Aðfaraorð

Nýlega voru augu íþróttaheimsins á heimsmeistaramóti kvenna 2023 í knattspyrnu, haldið í Ástralíu og Nýja-Sjálandi. Íþróttakonur á heimsmælikvarða sem eftir stóðu úr hópi yfir 200 landsliða um allan heim, sýndu þrautseigju, hollustu, hæfileika og hreysti er þær kepptu um æðsta heiður knattspyrnuheimsins.

Við dáumst að keppendum í hinum ýmsu íþróttagreinum og á öðrum sviðum, sem ná hæstu stigum listar sinnar. Við tölum um guðsgefna hæfileika þeirra eða náðargjafir. Þetta nær einnig til þeirra sem hafa hæfileika í dansi, fimleikum, tónlist, myndlist, leiklist, stærðfræði, vísindum og fleiru. Allar þessar persónur sýna guðsgefnar gjafir sem síðan eru fágaðar og slípaðar til með líftíma af dugnaði, lærdómi og æfingu. Guðsgefnar gjafir skapa hæfileikaríkt fólk.

Notkun andlegra gjafa

Horft í gegnum linsu fagnaðarerindisins, þá gæðir Guð börn sín ýmsum andlegum gjöfum og gerir þau að andlega hæfileikaríku fólki. Sáttmálstrúir meðlimir kirkjunnar eru gæddir gjöfum andans, þar á meðal gjöf vitnisburðar um Jesú Krist sem frelsara okkar, gjöf heilags anda, gjöf trúar til að lækna og læknast, gjöf dómgreindar, gjöf þess að meðtaka kraftaverk og gjöf visku og þekkingar.1 Drottinn býður okkur að leita einlæglega hinna bestu gjafa, jafnvel andlegra gjafa. Hann veitir andlegar gjafir til að blessa okkur og til að þær nýtist til að blessa aðra.2

Ef við hugum aftur að hliðstæðunni um hæfileikaríku keppendurna, þá er mikilvægt að hafa í huga að hæfileikinn einn og sér þýðir ekki að úr honum rætist. Þrátt fyrir sérstaka náttúrulega hæfileika, þá er það með vandvirkni og áreynslu í æfingu og framlagi sem flytjendur fága og slípa kunnáttu sína til, svo þeir fái náð hæsta stigi listfengis. Jafnvel gjöfum sem viðteknar eru og opnaðar, fylgir oft setningin ógnvekjandi, „samsetningar krafist“.

Sömuleiðis hef ég tekið eftir lærdómskúrvu hvað varðar andlegar gjafir. Notkun andlegra gjafa krefst andlegrar æfingar. „Að hafa leiðsögn heilags anda í lífi ykkar krefst andlegrar vinnu. Þessi vinna felur í sér heita bæn og stöðugt ritningarnám. Hún felur einnig í sér það að halda sáttmála ykkar og boðorð Guðs. … Hún felur í sér það að meðtaka sakramentið verðug í hverri viku.“3

Hverjir eru ávextir þess að nota andlegar gjafir? Meðal þeirra eru hvatning frá andanum sem hjálpar okkur að takast á við daglegar uppákomur og sýnir okkur hvað gera skal og segja og blessanir friðar og huggunar. Þegar við hlustum og breytum eftir andlegri hvatningu, eflir heilagur andi getu okkar og afkastagetu langt umfram það sem við getum áorkað á eigin spýtur. Þessar dýrmætu andlegu gjafir munu hjálpa okkur á öllum sviðum lífsins.4

Stöðugt samfélag heilags anda er ein af mestu andlegu gjöfum sem Síðari daga heilagir njóta.

Hversu mikilvæg er þessi gjöf? Russell M. Nelson forseti svaraði þessari spurningu afdráttarlaust þegar hann sagði að „á komandi tíð verður ekki mögulegt að komast af andlega, án þess að njóta stöðugrar handleiðslu, huggunar og áhrifa heilags anda“.5

Hvernig stuðla á að og bera kennsla á hvatningu andans

Ég hef í þjónustu minni skynjað þá almennu löngun meðal fólks að stuðla að og bera kennsl á hvatningu heilags anda. Hvatning andans er afar persónuleg og berst á mismunandi hátt. Við erum þó blessuð með því að orð spámannanna, bæði til forna og nú á tímum, veita okkur dýrmætan skilning á því hvernig hljóta á leiðsögn frá andanum.

Leyfið mér að nefna fjórar leiðbeinandi reglur sem geta liðsinnt ykkur er þið stuðlið að og berið kennsl á hvatningu andans.

Standið á heilögum stöðum

Sú fyrsta er að standa á heilögum stöðum.6 Ég tók nýlega þátt í opnu húsi Tókýó-musterisins í Japan. Viðbrögðin við formlegu boði til bæði fjölmiðla og sérstakra gesta fóru langt fram úr vonum. Mörg hundruð manns tóku þátt í leiðsögninni um musterið. Gestir voru djúpt snortnir af fegurð musterisins, þar á meðal vegna mynsturs og myndefnis sem áttu sér sterkar japanskar tengingar. Enn áhrifameiri voru þau lotningarfullu og virðingarfullu viðbrögð sem gestir sýndu þegar helgiathöfnum fyrir áa var lýst í herbergjunum þar sem þær myndu fara fram. En hjartnæmust voru áhrif andans.

Eitt slíkt augnablik með þekktum embættismanni er rist í huga mér. Eftir andartaks þögn til íhugunar í himneska herberginu, hvíslaði hann meyr og djúpt snortinn í eyra mér: „Jafnvel loftið sem ég anda að mér í þessu herbergi virðist öðruvísi.“ Ég skildi að hann var að reyna að lýsa nærveru heilags anda, sem dvelur jú á helgum stöðum. Ef þið vonist til þess að finna fyrir andanum, verið þá á stað þar sem andinn getur auðveldlega dvalið.

Musteri okkar og heimili eru helgust þessara útvöldu staða. Í þeim bjóðum við auðveldar andanum heim og berum kennsl á hann. Meðal annarra helgra staða eru samkomuhús, trúarskólabyggingar og sögustaðir kirkjunnar og gestamiðstöðvar. Standið á heilögum stöðum.

Standið með heilögu fólki

Í öðru lagi, standið með heilögu fólki. Ég lýsi annarri leiðbeinandi reglunni með annarri minningu.

Ég mun aldrei gleyma þátttöku minni í trúarsamkomu sem haldin var á vinsælum íþróttaleikvangi. Þessi leikvangur var yfirleitt fullur af groddalegum aðdáendum sem studdu heimaliðið sitt og hæddust ef til vill að andstæðingum sínum. En þetta kvöld var andrúmsloftið mjög frábrugðið. Leikvangurinn var fullur af þúsundum ungmenna, samankomnum til að heiðra og minnast lífs spámannsins Josephs Smith. Lotningarfullt, lágvært yfirbragð þeirra; þakklæti; og bænheit hjörtu fylltu leikvanginn með návist heilags anda. Ég sá það greinilega í andliti þeirra. Þetta var gjöf heilags anda í verki, sem staðfesti vitnisburðina sem vöknuðu um Joseph Smith og endurreisn fagnaðarerindisins.

Andanum getur ekki verið haldið frá fundi heilags fólks. Ef þið vonist til þess að finna fyrir andanum, verið þá með fólki sem andinn getur auðveldlega dvalið hjá. Frelsarinn sagði þetta svona: „Því að hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni þar er ég mitt á meðal þeirra.“7 Ungmenni, hugsið út í fundi ykkar með heilögu fólki – sveitir og námsbekki, FSY og trúarskóla, deildar- og stikuathafnir – jafnvel deildarkóra. Veljið að vera með fólki og fara á staði þar sem réttlæti er til staðar. Finnið styrk ykkar í fjöldanum. Finnið góða vini. Verið góðir vinir. Styðjið hvert annað, hvar sem þið eruð. Standið með heilögu fólki.

Vitnið um heilagan sannleika

Í þriðja lagi, berið vitni um heilagan sannleika eins oft og þið getið. Huggarinn lætur alltaf heyra í rödd sinni þegar við berum vitni með eigin rödd. Andinn ber vitni jafnt þeim sem prédikar og þeim sem meðtekur.

Ég man eftir 45 mínútna leigubílaferð í New York-borg. Eftir að hafa átt vingjarnlegar samræður um fagnaðarerindið við leigubílstjórann alla leið á flugvöllinn, greiddi ég henni fyrir farið og bjóst til að stíga úr leigubílnum. Þá áttaði ég mig á að ég hafði ekki gefið vitnisburð um það sem ég hafði miðlað. Ég stansaði, miðlaði stuttum og einföldum vitnisburði, sem bauð andanum heim og við táruðumst bæði.

Þegar þið leitið tækifæra og nýtið ykkur þau til að miðla vitnisburði ykkar með öðrum, munið þið skapa augnablik þar sem þið getið sjálf borið kennsl á andann.

Hlustið á heilagan anda

Lokareglan er að hlusta á heilagan anda. Hann getur verið okkur stöðugur förunautur, en hann talar með fíngerðum, hljóðum rómi. Spámaðurinn Elía komst að því að rödd Drottins var ekki í storminum, jarðskjálftanum eða eldinum, heldur var hún „þytur af þýðum blæ“.8 Hún er ekki „þrumuraust“ heldur „hljóðlát rödd, full af mildi, sem væri hún hvísl“ og þó getur hún „[smogið] inn í sjálfa sálina“.9

Boyd K. Packer sagði: „Andinn fangar ekki athygli okkar með hrópum eða með því að hrista okkur harkalega. Öllu heldur hvíslar hann. Hann snertir okkur svo blítt að ef við erum önnum kafin, gætum verið að við finnum ekki fyrir honum.“10 Ég hef tekið eftir því að stundum er rödd hans svo fíngerð eða ég svo upptekinn að ástvinur fangar hana fyrir mig. Í mörg skipti hefur hvatning heilags anda borist mér með hjálp eiginkonu minnar, Lesu. Réttlátir foreldrar eða leiðtogar gætu einnig meðtekið innblásna leiðsögn fyrir ykkur.

Hávaðinn, skarkalinn og ágreiningurinn sem ríkir í heiminum geta yfirgnæft hljóðlát, friðsæl hughrif heilags anda. Finnið kyrrlátan stað, heilagt rými þar sem þið getið sóst eftir að meðtaka leiðsögn andans.

Nokkur aðvörunarorð

Þegar þið íhugið þessi atriði til að bjóða heim andanum og bera kennsl á hann, hafið þá eftirfarandi aðvörunarorð í huga.11

Staðfestið andleg hughrif ykkar. Hughrif frá andanum mun til að mynda samræmast ritningunum og kenningum lifandi spámanna.

Verið viss um að tilfinningarnar sem þið hljótið séu í samræmi við verkefni ykkar. Hughrif frá andanum eru ekki gefin ykkur til að leiðbeina eða leiðrétta aðra, nema þið séuð kölluð til þess með réttu valdi.

Ekki er mögulegt að þvinga fram andleg málefni. Þið getið tileinkað ykkur viðhorf og umhverfi sem býður andanum heim, og þið getið undirbúið ykkur sjálf, en þið getið ekki stjórnað því hvernig eða hvenær innblástur kemur. Verið þolinmóð og treystið að þið hljótið það sem þið þurfið á tilsettum tíma.

Notið bestu dómgreind ykkar sjálfra. Stundum viljum við að andinn leiði okkur í öllu. Drottinn vill þó að við framkvæmum samkvæmt okkar bestu dómgreind og hegðum okkur í samræmi við bestan skilning okkar. Dallin H. Oaks forseti kenndi:

„Þrá til að verða leiddur af Drottni er styrkur, en henni þarf að fylgja skilningur á því að himneskur faðir lætur okkur um að taka margar persónulegar ákvarðanir. … Einstaklingar sem reyna að færa allar ákvarðanatökur yfir á Drottin og sárbiðja um opinberun í öllum aðstæðum, munu brátt komast að því að þegar þeir biðja um opinberun, þá munu þeir ekki hljóta hana. …

Við ættum að kanna það vel í huga okkar. … Síðan ættum við að biðja um leiðsögn og framkvæma í samræmi við hana. … Ef við hljótum ekki leiðsögn ættum við að breyta samkvæmt bestu vitund.“12

Lokaorð og boð

Niðurstaðan er sú að Síðari daga heilagir ættu að vera gjafa ríkur og sáttmálstrúr lýður. Engu að síður er það undir hverju okkur komið að leitast við að nota andlegar gjafir okkar og bjóða síðan andanum heim og bera kennsl á hvatningu hans. Fjórar leiðbeinandi reglur til að hjálpa okkur í þessu bráðnauðsynlega andlega verki eru:

  1. Standið á heilögum stöðum.

  2. Standið með heilögu fólki.

  3. Vitnið um heilagan sannleika.

  4. Hlustið á heilagan anda.

Geta ykkar til að bjóða heim andanum og bera kennsl á hvatningu hans, mun þróast eitt skref í einu. „Að verða betur innstillt á tungumál andans er eins og að læra annað tungumál. Það er stigvaxandi ferli sem krefst kostgæfins, þolinmóðs átaks.“13

Nú snúum við aftur þangað sem við byrjuðum, hafið það vinsamlega í huga að sem Síðari daga heilagir eruð þið hæfileikarík. Ímyndið ykkur þessa kunnuglegu senu á föstusunnudegi, sem var nýlega lýst fyrir mér. Ungt barn sem stóð upp á kolli, var varla sjáanlegt á bak við ræðupúltið. Faðir hennar stóð við hlið hennar, hvatti hana áfram og aðstoðaði með mildu hvísli í eyra hennar, er hún sagði stolt: „Ég er barn Guðs.“

Næsta vitnisburð flutti ungur einstaklingur sem hóf mál sitt með taugaóstyrkri, hnyttilegri athugasemd: „Ég vildi óska þess að ég hefði einhvern til að hvísla svona í eyrað á mér.“ Svo fékk hún skyndilegan innblástur og bar vitni: „Ég hef einhvern sem hvíslar svona í eyrað á mér – heilagan anda!“

Ég lýk máli mínu með boði, sérstaklega til allra ungmenna! Mörg ykkar hefjið daginn með því að standa fyrir framan spegil. Á morgun, í þessari viku, á þessu ári, alltaf, staldrið við er þið horfið á ykkur sjálf í speglinum. Hugsið með ykkur eða segið uppátt ef þið viljið: „Vá, sjáðu mig! Ég er frábær! Ég er barn Guðs! Hann þekkir mig! Hann elskar mig! Ég hef náðargáfu – gjöf heilags anda sem stöðugan förunaut!“

Ég veiti ykkur, gjafa ríku Síðari daga heilagir, vitnisburð minn um Guð föðurinn, Jesú Krist og heilagan anda, sem vitnar fyrir um þá. Í nafni Jesú Krists, amen.