Aðalráðstefna
Innsiglunarvaldið
Aðalráðstefna október 2023


Innsiglunarvaldið

Innsiglunarvaldið gerir mögulega altæka einstaklingsbundna sáluhjálp og upphafningu fjölskyldunnar fyrir börn Guðs.

Því hefur verið spáð hið minnsta allt frá dögum Jesaja1 að á síðari dögum mun hinum forna sáttmálalýð Drottins, Ísraelsætt, „safnað saman af eylöndum sjávar og úr öllum heimshornum“2 og hún endurreist „til erfðalanda sinna.“3 Russell M. Nelson forseti hefur oft og kröftuglega talað um þessa samansöfnun og sagt hana „það mikilvægasta sem á sér stað á jörðinni í dag.“4

Hver er tilgangur þessarar samansöfnunar?

Með opinberun til spámannsins Josephs Smith, benti Drottinn á einn tilgang sem væri að vernda sáttmálslýð sinn. Hann sagði: „Samansöfnunin á landi Síonar og í stikum hennar megi verða vörn og athvarf fyrir storminum og hinni heilögu reiði, þegar henni verður skilyrðislaust úthellt yfir gjörvalla jörðina.“5 „Reiði“ má í þessu samhengi skilja sem eðlilegar afleiðingar víðtækrar óhlýðni við lögmál og boðorð Guðs.

Mikilvægast er að samansöfnunin er gerð í þeim tilgangi að færa öllum blessanir sáluhjálpar og upphafningar sem við þeim vilja taka. Það er á þann hátt sem sáttmálsloforðin sem Abraham voru gefin verða að veruleika. Drottinn sagði við Abraham að í gegnum niðja hans og prestdæmið „[myndu] allar ættkvíslir jarðar verða blessaðar, já, með blessunum fagnaðarerindisins, sem eru blessanir sáluhjálpar, já, eilífs lífs.“6 Nelson forseti sagði þetta á þennan hátt: „Þegar við meðtökum fagnaðarerindið og erum skírð, tökum við á okkur hið heilaga nafn Jesú Krists. Skírnin er hliðið sem leiðir til þess að menn verða samarfar allra þeirra fyrirheita sem Drottinn gaf Abraham, Ísak, Jakob og afkomenda þeirra til forna.“7

Árið 1836 birtist Móse spámanninum Joseph Smith í Kirtland musterinu og „fól … lyklana að samansöfnun Ísraels frá hinum fjórum heimshlutum.“8 Af þessu sama tilefni, birtist Elías og „fól okkur ráðstöfun fagnaðarboðskapar Abrahams, sagði að með okkur og niðjum okkar verði allar kynslóðir eftir okkur blessaðar.“9 Með þessu valdi berum við nú út fagnaðarerindið um Jesú Krist – fagnaðarerindið um endurlausn fyrir hann – til allra heimshluta og þjóða jarðar og söfnum öllum sem vilja saman í sáttmála fagnaðarerindisins. Þau verða „niðjar Abrahams, og kirkjan og ríkið og hinir kjörnu Guðs.“10

Af sama tilefni í Kirtland musterinu, birtist þriðji himneski boðberinn Joseph Smith og Oliver Cowdery. Ég á hér við Elía spámann og það er valdið og lyklarnir sem hann endurreisti sem ég vil ræða um í dag.11 Krafturinn til að löggilda allar helgiathafnir prestdæmisins og gera þær bindandi bæði á jörðu og á himni – innsiglunarvaldið – er lykilatriði við samansöfnun og undirbúning sáttmálslýðs beggja vegna hulunnar.

Árum áður hafði Moróní gert Joseph Smith ljóst að Elía myndi koma með nauðsynlegt prestdæmisvald: „Með hendi spámannsins Elía opinbera ég yður prestdæmið.“12 Joseph Smith útskýrði síðar: „Hvers vegna að senda Elía? Vegna þess að hann hefur lykla valdsins til að framkvæma allar helgiathafnir prestdæmisins og ekki er mögulegt að framkvæma helgiathafnir í réttlæti [nema] valdið sé veitt.“13Sem er að helgiathafnirnar yrðu ekki bindandi um tíma og eilífð.14

Í kennslu, sem nú er ritning í Kenningu og sáttmálum, sagði spámaðurinn: „Sumum kann að virðast þetta mjög djörf kenning, sem við tölum um – vald, sem skráir eða bindur á jörðu og bindur á himni. Á öllum öldum heimsins hefur Drottinn þó, hvenær sem hann hefur gefið ráðstöfun prestdæmisins til eins manns eða fleiri með raunverulegri opinberun, ávallt veitt þetta vald. Allt, sem þessir menn því gjörðu með valdi Drottins og í nafni hans, og gjörðu það trúverðuglega og samviskusamlega, og héldu sannar og trúverðugar skýrslu um, það varð lögmál á jörðu og á himni, og gat ekki orðið ógilt, samkvæmt ákvörðun hins mikla Jehóva.“15

Okkur hættir til að hugsa um að innsiglunarvaldið eigi aðeins við um ákveðnar helgiathafnir musterisins, en það vald er nauðsynlegt til að gera allar helgiathafnir gildar og bindandi handan dauða.16 Innsiglunarvaldið veitir skírn ykkar lögmætistimpil, til að mynda, svo að það verði viðurkennt hér og á himnum. Endanlega eru allar helgiathafnir prestdæmisins framkvæmdar með lyklum forseta kirkjunnar, og eins og Joseph Fielding Smith forseti útskýrði: „Hann [forseti kirkjunnar] hefur falið okkur vald, hann hefur sett innsiglunarvaldið í prestdæmið okkar, vegna þess að hann hefur þessa lykla.“17

Það er annar mikilvægur tilgangur með samansöfnun Ísraels sem hefur sérstaka merkingu þegar við tölum um innsiglun á jörðu og á himni – hann er að byggja og starfrækja musteri. Spámaðurinn Joseph Smith útskýrði: „Hver er tilgangur þess að safna … fólki Guðs saman á hvaða veraldartíma sem er? … Megin tilgangurinn er sá að reisa Drottni hús þar sem hann getur opinberað fólki sínu helgiathafnir húss síns og dýrð ríkis síns og kennt því leið sáluhjálpar; því að ákveðnar helgiathafnir og reglur er aðeins mögulegt að kenna og iðka í húsi sérstaklega byggðu í þeim tilgangi.“18

Lögmætið sem innsiglunarvaldið veitir helgiathöfnum prestdæmisins, felur að sjálfsögðu í sér staðgenglahelgiathafnir sem framkvæmdar eru á þeim stað sem Drottinn hefur tilnefnt til þess – í musteri hans. Hér sjáum við hátign og helgi innsiglunarvaldsins – það gerir aðgengilega sáluhjálp einstaklinga og upphafningu fjölskyldna fyrir öll börn Guðs, hvar og hvenær sem þau kunna að hafa lifað á jörðinni. Engin önnur guðfræði eða heimspeki eða vald fær jafnast á við slíkt altækt tækifæri. Þetta innsiglunarvald er fullkomin birtingarmynd réttlætis, miskunnar og kærleika Guðs.

Með aðgangi að innsiglunarvaldinu, snúa hjörtu okkar að sjálfsögðu til þeirra sem á undan eru farin. Síðari daga samansöfnun í sáttmála nær gegnum huluna. Í fullkominni skipan Guðs geta hinir lifandi ekki upplifað eilíft líf í fyllingu þess, án þess að varanlegir hlekkir séu myndaðir við „feðurna,“ áa okkar. Sömuleiðis verður framþróun þeirra sem þegar eru handan hulunnar, eða eiga eftir að fara gegnum hulu dauðans, án þess að njóta ávinnings innsiglana, ófullgerð þar til helgiathafnir staðgengla binda þau okkur, afkomendum þeirra og okkur við þau í hinni guðlegu reglu.19 Skuldbindinguna um að aðstoða hvert annað gegnum huluna mætti flokka sem sáttmálsloforð, hluta af hinum nýja og ævarandi sáttmála. Með orðum Josephs Smith þá viljum við „innsigla okkar dánu, til að koma fram [með okkur] í fyrstu upprisunni.“20

Æðsta og helgasta birtingarmynd innsiglunarvaldsins er hin eilífa sameining karls og konu í hjónabandi og tenging mannkyns gegnum allar kynslóðir þeirra. Vegna þess að valdið til að starfa við þessar helgiathafnir er svo heilagt, hefur forseti kirkjunnar persónulega umsjón með úthlutun þess til annarra. GordonB. Hinckley forseti sagði eitt sinn: „Oftsinnis hef ég sagt að ef ekkert kæmi út úr allri sorg, erfiðleikum og sársauka endurreisnarinnar annað en innsiglunarvald hins heilaga prestdæmis, til að binda fjölskyldur saman að eilífu, þá hefði það verið virði alls þessa.“21

Án innsiglanna sem mynda eilífar fjölskyldur og tengja saman kynslóðir hér og hér eftir, værum við eftir skilin í eilífðinni róta- og greinalaus – sem er engir áar og engir afkomendur. Annars vegar væri það ástand frjáls-flæðandi, ótengdra einstaklinga og hins vegar ástand sem stangast á við hjónabandið og fjölskyldusambönd sem Guð hefur tilnefnt,22 sem myndi koma í veg fyrir sjálfan tilgang sköpunar jarðar. Ef það yrði að venju myndi það jafngilda því að jörðin yrði helguð banni eða hún „gjöreydd“ við komu Drottins.23

Við fáum séð af hverju „hjónaband milli karls og konu er vígt af Guði og að fjölskyldan er kjarninn í áætlun skaparans um eilíf örlög barna hans.“24 Á sama tíma er okkur ljóst að í hinni ófullkomnu nútíð, er þetta ekki raunveruleikinn eða jafnvel raunhæfur möguleiki fyrir suma. En við eigum von í Kristi. Meðan við bíðum eftir Drottni, minnir M. Russell Ballard forseti okkur á að „ritningar og spámenn síðari daga [staðfesta] að allir sem halda sáttmála fagnaðarerindisins af trúmennsku fái tækifæri til upphafningar.“25

Sumir hafa upplifað óhamingjusamar og óheilbrigðar fjölskylduaðstæður og hafa litla þrá eftir eilífu fjölskyldusambandi. Öldungur David A. Bednar sagði þetta: „Þið sem hafið upplifað sársauka við skilnað í fjölskyldu ykkar eða sársauka vegna tryggðarrofs, hafið hugfast [að fjölskyldumynstur Guðs] hefst aftur á ykkur! Einn hlekkur í kynslóðakeðju ykkar gæti hafa verið rofinn, en hinir réttlátu hlekkirnir og það sem eftir er af keðjunni er engu að síður af eilíflegu mikilvægi. Þið getið styrkt keðjuna ykkar og jafnvel hjálpað við að endurheimta brotnu hlekkina. Það verk verður unnið einum af öðrum.“26

Í útför systur Pat Holland, eiginkonu öldungs Jeffrey R. Holland, í júlí síðastliðnum, kenndi Russell M. Nelson forseti: „Á tilsettum tíma munu Patricia og Jeffrey sameinast aftur. Þau munu síðar fá til sín börn sín og afkomendur þeirra sem halda sáttmálana, til að upplifa fyllingu gleðinnar sem Guð hefur í hyggju fyrir trúföst börn sín. Sú vitneskja veitir okkur þann skilning að mikilvægasti dagurinn í lífi Patriciu var ekki fæðingardagur hennar eða dánardagur. Mikilvægasti dagurinn hennar var 7. júní 1963, þegar hún og Jeff voru innsigluð í St. George musterinu. … Af hverju er þetta svo mikilvægt? Vegna þess að ástæðan fyrir því að jörðin var sköpuð var einmitt sú að fjölskyldur gætu myndast og innsiglast hver annarri. Sáluhjálp er bundin einstaklingnum, en upphafning er bundin fjölskyldunni. Enginn getur einsamall hlotið upphafningu.“

Ekki er langt síðan ég og eiginkona mín sameinuðumst kærri vinkonu í innsiglunarherbergi í Bountiful musterinu í Utah. Ég hitti þessa vinkonu fyrst þegar hún var barn í Córdoba í Argentínu. Ég og trúboðsfélagi minn vorum að heimsækja fólk í hverfi sem aðeins er húsaröð frá trúboðsskrifstofunni og hún kom til dyra þegar við komum heim til hennar. Að ákveðnum tíma loknum gengu hún og móðir hennar og systkini í kirkjuna og þau hafa verið trúir meðlimir síðan. Hún er nú dásamleg kona og dag þennan vorum við í musterinu til að innsigla látna foreldra hennar hvort öðru og síðan innsigla hana þeim.

Hjón sem í áranna rás hafa orðið nánir vinir voru fulltrúar foreldra hennar við altarið. Þetta var tilfinningaþrungin stund sem jafnvel varð enn ljúfari þegar þessi argentínska vinkona okkar var innsigluð foreldrum sínum. Við vorum aðeins sex viðstödd á rólegu síðdegi fjarri heiminum, en samt var það að gerast sem er eitt það mikilvægasta á jörðinni. Ég var ánægður með að hlutverk mitt og aðkoma væru komin heilan hring, frá því að ég bankaði upp á hjá henni sem ungur trúboði til þessarar stundar, svo mörgum árum síðar, við að framkvæma helgiathafnir innsiglunar sem tengdu hana foreldrum sínum og fyrri kynslóðum.

Þetta er sviðsetning sem á sér stöðugt stað um allan heim í musterum. Þetta er hið endanlega skref samansöfnunar sáttmálslýðsins. Þetta eru æðstu forréttindi aðildar okkar að kirkju Jesú Krists. Ég lofa að þegar þið sækist eftir þeim forréttindum af trúmennsku, mun þau örugglega á tilsettum tíma verða ykkar um tíma eða eilífð.

Ég ber vitni um að kraftur og vald innsiglunar, sem endurreist var á jörðu fyrir tilstilli Josephs Smith, eru raunveruleg, að það sem með því er bundið á jörðu er sannlega bundið á himnum. Ég ber vitni um að Russell M. Nelson er, sem forseti kirkjunnar, eini maðurinn á jörðinni í dag sem með lyklum sínum stjórnar úthlutun og notkun þessa himneska valds. Ég ber vitni um að friðþæging Jesú Krists hefur tryggt ódauðleika og gert möguleikann á upphafningu fjölskyldusambanda að veruleika. Í nafni Jesú Krists, amen.