Aðalráðstefna
Hugsið himneskt!
Aðalráðstefna október 2023


Hugsið himneskt!

Val ykkar í dag ákvarðar hvar þið munið lifa um alla eilífð, í hvernig líkama þið munið rísa upp í og með hverjum þið munið lifa til eilífðarnóns.

Kæru bræður og systur, ég er innilega þakklátur fyrir að tala til ykkar í dag. Á mínum aldri ber hver dagur með sér dásamlega óvænta atburði, en einnig erfiða. Fyrir þremur vikum, meiddist ég á bakvöðva. Þótt ég hafi flutt yfir 100 aðalráðstefnuræður standandi, ákvað ég að gera það sitjandi í dag. Ég bið þess að andinn megi koma boðskap mínum til skila í hjörtu ykkar í dag.

Ég hélt nýlega upp á 99 ára afmælið mitt og er því kominn á hundraðasta æviárið. Oft er ég spurður um leyndarmálið að baki langlífsins. Betri spurning væri: „Hvað hef ég lært á næstum eins aldar skeiði?“

Tímaskorðurnar í dag gera mér ekki kleift að svara þeirri spurningu fyllilega, en vil ég gjarnan miðla einni mikilvægustu lexíunni sem mér hefur lærst.

Ég hef lært að áætlun himnesks föður fyrir okkur er dásamleg, að það sem við gerum í lífinu skiptir raunverulega máli og að friðþæging frelsarans er það sem gerir áætlun föðurins mögulega.1

Þegar ég hef glímt við ákafan sársauka eftir meiðslin sem ég varð fyrir nýlega, hef ég fundið jafnvel enn dýpra þakklæti fyrir Jesú Krist og óskiljanlega gjöf friðþægingar hans. Hugleiðið hana! Frelsarinn leið „alls kyns sársauka, þrengingar og freistingar“2 svo hann gæti huggað okkur, læknað okkur, bjargað okkur á erfiðleikatímum.3 Jesús Kristur lýsti upplifun sinni í Getsemane og á Golgata: „Þjáningu, sem varð þess valdandi, að ég, sjálfur Guð, æðstur allra, skalf af sársauka og blóð draup úr hverri svitaholu.“4 Meiðslin mín hafa knúið mig til að íhuga aftur og aftur „mikilleik hins heilaga Ísraels“.5 Í bataferli mínu, hefur Drottinn sýnt guðlegan kraft sinn á friðsælan og óyggjandi hátt.

Vegna óendanlegrar friðþægingar Jesú Krists, er áætlun himnesks föður fullkomin áætlun! Skilningur á dásamlegri áætlun Guðs afhjúpar leyndardóma lífsins og eyðir óvissunni um framtíð okkar. Hún gerir hverju okkar kleift að velja hvernig við viljum lifa hér á jörðu og hvar við munum lifa til eilífðarnóns. Það tilhæfulausa viðhorf að við eigum að „[eta, drekka og vera kát], því á morgun deyjum vér, og oss mun farnast vel“6 er einhver fráleitasta lygi alheimsins.

Hér eru góðu fréttirnar í áætlun Guðs: Þeir hlutir sem munu gera jarðlíf ykkar eins og það best getur orðið, eru einmitt sömu hlutirnir og munu gera líf ykkar í allri eilífðinni eins og það best getur orðið! Í dag, til að hjálpa ykkur við að verða hæf fyrir hinar ríkulegu blessanir sem himneskur faðir geymir okkur, býð ég ykkur að venja ykkur á að „hugsa himneskt!“7 Að hugsa himneskt, þýðir að vera andlega sinnaður. Við lærum af spámanninum Jakob í Mormónsbók að „eilíft líf [er] að vera andlega sinnaður“.8

Jarðlífið er meistarakúrs í að læra að velja það sem hefur mesta eilífa vægið. Allt of margir lifa eins og þetta líf sé það eina. Hvað sem því líður, þá ákvarðar val ykkar í dag þrennt: hvar þið munið lifa um alla eilífð, í hvernig líkama þið munið rísa upp í og með hverjum þið munið lifa til eilífðarnóns. Hugsið því himneskt.

Í fyrsta ávarpi mínu sem forseti kirkjunnar hvatti ég ykkur til að skoða endinn í upphafi. Þetta þýðir að gera himneska ríkið að eilífu markmiði ykkar og íhuga svo vandlega til hvaða staðar ákvarðanir ykkar hér á jörðu munu leiða ykkur í næsta heimi.9

Drottinn hefur kennt af skýrleika að einungis karlar og konur sem eru innsigluð í musterinu, sem eiginmaður og eiginkona, og halda sáttmála sína, munu vera saman um allar eilífðir. Hann sagði: „Allir sáttmálar, samningar, bönd, skyldur, eiðar, heit, framkvæmdir, sambönd, tengsl eða vonir, sem ekki eru gjörð, stofnað til og innsigluð, … með heilögum anda fyrirheitsins, … lýkur við dauða mannanna.“10

Ef við því ákveðum óviturlega að lifa núna eftir jarðneskum lögmálum, erum við að velja að rísa upp í jarðneskum líkama. Við veljum að lifa ekki eilíflega með fjölskyldu okkar.

Kæru bræður og systur, hvernig og hvar og með hverjum viljið þið lifa til eilífðarnóns? Valið er ykkar.11

Þegar þið veljið, býð ég ykkur að horfa á stóru myndina – hafa eilífa yfirsýn. Setjið Jesú Krist í forgang, því eilíft líf ykkar er háð trú ykkar á hann og friðþægingu hans.12 Þetta er líka háð hlýðni ykkar við lögmál hans. Hlýðni ryður braut að gleðiríku lífi í dag og mikilli, eilífri umbun á morgun.

Þegar þið eruð í ógöngum, hugsið þá himneskt! Þegar ykkar er freistað, hugsið þá himneskt! Þegar lífið eða ástvinir valda ykkur vonbrigðum, hugsið þá himneskt! Þegar einhver deyr ótímabært, hugsið þá himneskt. Þegar einhver dregur fram líftóruna í átakanlegum veikindum, hugsið þá himneskt. Þegar álag lífsins er óbærilegt, hugsið þá himneskt! Þegar þið náið heilsu eftir slys eða meiðsli, eins og ég geri núna, hugsið þá himneskt!

Væntið þess að mæta mótspyrnu þegar þið einblínið á að hugsa himneskt.13 Fyrir mörgum áratugum gagnrýndi samstarfsmaður mig fyrir að hafa „of mikið af musterinu“ í mér og fleiri en einn yfirmaður hegndi mér vegna trúar minnar. Ég er samt fullviss um að himnesk hugsun hafi auðgað starfsferil minn.

Þegar þið hugsið himneskt, munu hjörtu ykkar breytast jafnt og þétt. Þið munuð vilja biðjast fyrir oftar og einlægar. Látið ekki bænir ykkar hljóma eins og innkaupalista. Yfirsýn Drottins nær út fyrir ykkar jarðnesku visku. Viðbrögð hans við bænum ykkar gætu komið ykkur á óvart og munu hjálpa ykkur að hugsa himneskt.

Íhugið svar Drottins til Josephs Smith, þegar hann sárbað um hjálp í Liberty-fangelsinu. Drottinn kenndi spámanninum að hin ómannúðlega meðferð myndi veita honum reynslu og yrði honum til góðs.14 „Ef þú stenst það vel,“ lofaði Drottinn, „þá mun Guð upphefja þig í upphæðum.“15 Drottinn kenndi Joseph himneska hugsun og að sjá fyrir sér eilífa umbun, frekar en að einblína á óbærilega erfiðleika dagsins. Bænir okkar geta verið – og ættu að vera – lifandi samræður við himneskan föður.

Þegar þið hugsið himneskt, munið þið komast að því að þið forðist allt sem rænir ykkur sjálfræðinu. Hvers kyns fíkn – tölvuleikir, fjárhættuspil, skuldir, eiturlyf, áfengi, reiði, klám, kynlíf eða jafnvel matur – misbýður Guði. Af hverju? Vegna þess að þráhyggja ykkar verður guð ykkar. Þið leitið í hana frekar en til hans til að hljóta hugarró. Ef þið glímið við fíkn, leitið þá þeirrar andlegu og faglegu hjálpar sem þið þarfnist. Látið ekki þráhyggju ræna ykkur frelsinu til að fylgja dásamlegri áætlun Guðs.

Himnesk hugsun mun einnig hjálpa ykkur við að hlýða skírlífislögmálinu. Fátt mun flækja líf ykkar fljótar en að brjóta þetta guðlega lögmál. Fyrir þá sem hafa gert sáttmála við Guð, er ósiðsemi ein af fljótustu leiðunum til að glata vitnisburðinum.

Mörgum þrálátustu freistingum andstæðingsins er beint gegn siðferðislegum hreinleika. Einu forréttindi guðdóms sem himneskur faðir leyfir dauðlegum börnum sínum að nota, er krafturinn til að skapa líf. Guð setur því skýrar reglur um notkun þessa lifandi, guðlega kraftar. Líkamleg nánd er einungis ætluð karli og konu sem eru gift hvort öðru.

Mestur hluti heims trúir þessu ekki, en almenningsálitið er ekki boðberi sannleika. Drottinn hefur lýst yfir að enginn óskírlífur einstaklingur muni komast í himneska ríkið. Þegar þið takið ákvarðanir varðandi siðferði, gætið þess þá að hugsa himneskt. Og ef þið hafið verið óskírlíf, sárbið ég ykkur að iðrast. Komið til Krists og meðtakið fyrirheit hans um algjöra fyrirgefningu, er þið iðrist synda ykkar að fullu.16

Þegar þið hugsið himneskt, munuð þið sjá erfiðleika og mótlæti í nýju ljósi. Þegar einhver sem þið elskið mælir gegn sannleika, hugsið þá himneskt og efist ekki um vitnisburð ykkar. Páll postuli spáði að „á síðustu tímum muni sumir ganga af trúnni og gefa sig að villuöndum og lærdómum illra anda“.17

Enginn endir er á blekkingum andstæðingsins. Verið undirbúin. Farið aldrei að ráðum þeirra sem ekki trúa. Leitið ráða hjá röddum sem eru traustsins verðar – frá spámönnum, sjáendum og opinberurum og frá hinni lágværu rödd heilags anda, sem „mun … sýna yður allt, sem yður ber að gjöra“.18 Leggið á ykkur þá andlegu vinnu sem gerir ykkur hæfari til að hljóta persónulega opinberun.19

Þegar þið hugsið himneskt, mun trú ykkar aukast. Þegar ég var ungur maður í starfsnámi, voru tekjur mínar 15 dollarar á mánuði. Eitt kvöldið spurði eiginkona mín Dantzel hvort ég greiddi tíund af þessu fátæklega framfærslufé. Það gerði ég ekki. Ég iðraðist snarlega og byrjaði að greiða aukalega 1,5 dollara í mánaðarlega tíund.

Breyttist kirkjan eitthvað vegna þessarar aukningar í tíundargreiðslum okkar? Auðvitað ekki. Að greiða fulla tíund breytti þó mér. Einmitt þá komst ég að því að greiðsla tíundar snýst algjörlega um trú, ekki peninga. Þegar ég tók að greiða fulla tíund, tóku gáttir himins að opnast fyrir mér. Ég tengi nokkur starfstækifæri sem komu í kjölfarið trúföstum tíundargreiðslum okkar.20

Það krefst trúar að greiða tíund og það eflir líka trú á Guð og ástkæran son hans.

Að velja að lifa dyggðugu lífi í kynferðislega sinnuðum, pólitískum heimi eflir trú.

Að verja auknum tíma í musterinu eflir trú. Og þjónusta ykkar og tilbeiðsla í musterinu mun hjálpa ykkur að hugsa himneskt. Musterið er staður opinberunar. Þar er ykkur sýnt hvernig framþróun á sér stað til himnesks lífs. Þar eruð þið færð nær frelsaranum og ykkur gefinn aukinn aðgangur að krafti hans. Þar hljótið þið leiðsögn úrlausnar lífsvanda ykkar, jafnvel hinna flóknustu vandamála.

Helgiathafnir og sáttmálar musterisins eru af eilífu mikilvægi. Við byggjum áfram fleiri musteri til að gera þessa helgu möguleika að raunveruleika í lífi hvers ykkar. Við erum þakklátir fyrir að tilkynna áætlanir okkar um að byggja musteri á þessum tuttugu stöðum:

  • Savai’i, Samóa

  • Cancún, Mexíkó

  • Piura, Perú

  • Huancayo, Perú

  • Viña del Mar, Síle

  • Goiânia, Brasilíu

  • João Pessoa, Brasilíu

  • Calabar, Nígeríu

  • Cape Coast, Gana

  • Lúanda, Angóla

  • Mbuji-Mayi, Austur-Kongó

  • Laoag, Filippseyjum

  • Osaka, Japan

  • Kahului, Maui, Hawaii

  • Fairbanks, Alaska

  • Vancouver, Washington

  • Colorado Springs, Koloradó

  • Tulsa, Oklahoma

  • Roanoke, Virginíu

  • Úlan Bator, Mongólíu

Drottinn leiðir okkur til að byggja þessi musteri okkur til hjálpar við að hugsa himneskt. Guð lifir. Jesús er Kristur. Kirkja hans hefur verið endurreist til blessunar allra barna Guðs. Um það vitna ég í hinu heilaga nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Sjá Jóhannes 6:38.

  2. Alma 7:11.

  3. Sjá Alma 7:12.

  4. Kenning og sáttmálar 19:18.

  5. 2. Nefí 9:40.

  6. 2. Nefí 28:7.

  7. Það gæti reynst auðveldara að iðrast og vinna að andlegri framþróun hér, á meðan andi okkar er sameinaður líkamanum, heldur en í næsta heimi, milli þess tíma sem við deyjum og rísum upp. Líkt og Amúlek kenndi hinum fráhverfu Sóramítum: „Þetta líf er tími … til að búa sig undir að mæta Guði“ (sjá Alma 34:32–35).

  8. 2. Nefí 9:39.

  9. Sjá Mósía 4:30, þar sem Benjamín konungur áminnti þjóð sína: „Ef þér gætið yðar eigi, hugsana yðar, orða yðar og gjörða, og virðið ekki boðorð Guðs og haldið ekki áfram í trú á það, … þá hljótið þér að farast.“

  10. Kenning og sáttmálar 132:7; leturbreyting hér.

  11. Sjálfræði ykkar getur auðvitað ekki ógilt sjálfræði annarra og afleiðingar þess. Ég vildi óðfús innsiglast foreldrum mínum. Ég þurfti þó að bíða þangað til þau ákváðu að innsiglast þegar þau voru yfir 80 ára gömul. Þá voru þau innsigluð hvort öðru sem eiginmaður og eiginkona og við, börnin þeirra, vorum innsigluð þeim.

  12. Ritningarnar vitna endurtekið um að gjöf eilífs lífs sé aðeins möguleg fyrir verðleika, miskunn og náð frelsarans Jesú Krists (sjá til dæmis Moróní 7:41; sjá einnig 2. Nefí 2:6–8, 27).

  13. Sjá 2. Nefí 2:11.

  14. Sjá Kenning og sáttmálar 122:7.

  15. Kenning og sáttmálar 121:8.

  16. Sjá Jesaja 1:16–18; Kenning og sáttmálar 58:42–43.

  17. 1. Tímóteusarbréf 4:1. Næsta vers heldur áfram: „Hræsnisfullir lygarar sem eru brennimerktir á samvisku sinni“ (vers 2). Páll lýsti líka yfir að allir sem „lifa … guðrækilega í Kristi Jesú [verða ofsóttir]“ (2. Tímóteusarbréf 3:12).

  18. 2. Nefí 32:5; leturbreyting hér. Ef við spyrjum, getum við hlotið „opinberun á opinberun ofan, þekking á þekking ofan“ (Kenning og sáttmálar 42:61).

  19. Sjá Russell M. Nelson, „Opinberun fyrir kirkjuna, opinberun fyrir eigið líf,“ aðalráðstefna, apríl 2018.

  20. Hér er ekki verið að ýja að sambandi orsakar og afleiðingar. Sumir sem aldrei greiða tíund fá starfstækifæri á meðan aðrir sem greiða tíund fá þau ekki. Fyrirheitið er að gáttir himins munu opnast tíundargreiðandanum. Eðli blessananna er breytilegt.