Aðalráðstefna
Sjá fjölskyldu Guðs í gegnum yfirlitslinsu
Aðalráðstefna október 2023


Sjá fjölskyldu Guðs í gegnum yfirlitslinsu

Ég trúi því að við getum, með augum trúar, þysjað út og litið okkur sjálf og fjölskyldur okkar með von og gleði.

Þegar yngsta dóttir okkar, Berkeley var lítil byrjaði ég að nota lestrargleraugu – sem þysja allt inn og stækka allt. Dag einn er við sátum saman og vorum að lesa bók, leit ég á hana með kærleika, en einnig sorg, því allt í einu virtist hún orðin svo stór. Ég hugsaði með mér: „Hvert hefur tíminn farið? Hún er orðin svo stór!“

Þegar ég lyfti lestrargleraugunum mínum til að þurrka burt tár, fattaði ég svolítið. „Bíddu, hún er ekkert stærri, það eru bara þessi gleraugu! Ekkert til að hafa áhyggjur af þá!“

Stundum er það eina sem við getum séð, þessi nærmynd, þessi stækkaða mynd af þeim sem við elskum. Í kvöld býð ég ykkur að minnka stækkunina og horfa í gegnum aðra linsu, eilífa linsu sem horfir á stóru myndina, stóru sögu ykkar.

Á fyrstu árum mannkynsins í geimferðarmálum voru mannlausu geimflaugarnar gluggalausar. En þegar kom að ferð Apolló 8 til tunglsins voru geimfararnir með einn glugga. Þar sem þeir svifu í geimnum voru þeir slegnir yfir þeim áhrifamætti að sjá jörðina okkar og tóku þessa einstöku ljósmynd, sem greip athygli alls heimsins! Þessir geimfarar upplifðu tilfinningu sem var svo mögnuð að henni hefur verið gefið sitt eigið heiti: Yfirlitsáhrifin.

Ljósmynd
Jörðin séð utan úr geimnum

NASA

Yfirlit frá nýju sjónarhorni breytir öllu. Einn geimferðalangur sagði það „minnka hluti niður í stærð sem þú telur vera viðráðanlega. … Við getum þetta. Friður á jörðu – ekkert vandamál. Það gefur fólki þess konar orku … þess konar kraft.“

Sem mannkyn höfum við jarðneskt sjónarhorn en Guð sér heildaryfirlit himingeimsins. Hann sér alla sköpun, okkur öll og er uppfullur af von.

Er mögulegt að sjá eins og Guð sér, jafnvel er við búum á yfirborði þessarar plánetu, að finna þessa yfirlits tilfinningu? Ég trúi því að við getum, með augum trúar, þysjað út og litið okkur sjálf og fjölskyldur okkar með von og gleði.

Ritningarnar eru sammála. Moróni talar um þá sem áttu trú sem var „var svo sterk“ að þeir „sáu … í raun … með auga trúarinnar, og þeir glöddust.“2

Er þeir beindu augunum að frelsaranum fundu þeir gleði og þekktu þennan sannleika, vegna Krists þá gengur allt upp. Allt sem þú og þú og þú hafið áhyggjur af, það mun allt ganga upp! Og þeir sem horfa með augum trúar geta skynjað að það verður allt í lagi núna.

Ég fór í gegnum erfiðan tíma síðasta árið mitt í menntaskóla þegar ég var ekki að taka sem bestar ákvarðanir. Ég man eftir að hafa séð móður mína gráta og ég velti því fyrir mér hvort ég hefði valdið henni vonbrigðum. Á þeim tíma hafði ég áhyggjur af því að tár hennar þýddu að hún hefði misst alla von fyrir mig og ef hún hefði misst alla von fyrir mig þá var kannski engin leið til baka.

Faðir minn var hins vegar þjálfaðri í því að þysja út og horfa á yfirlitsmyndina. Hann hafði lært af reynslu að áhyggjum fylgja tilfinningar líkar kærleika, en það er ekki það sama.3. Hann notaði auga trúar til að sjá að allt myndi þetta ganga upp og vonarfyllt nálgun hans breytti mér.

Þegar ég útskrifaðist úr menntaskóla og fór til BYU, sendi pabbi mér bréf og minnti mig á hver ég væri. Hann varð klappstýran mín og allir þarfnast klappstýru, einhvers sem er ekki að segja: „Þú ert ekki að hlaupa nægilega hratt,“ sem segir þér ástúðlega að þú getur það.

Pabbi var táknmynd draums Lehís. Líkt og Lehí, þá vissi hann að þið hlaupið ekki á eftir ástvinum sem upplifa sig týnda. „Þú stendur þar sem þú ert og kallar til þeirra. Þú ferð að trénu, stendur við tréð, neytir áfram ávaxtarins með bros á vör, heldur áfram að veifa ástvinum þínum til þín og sýnir með fordæmi að það er ánægjulegt að neyta ávaxtarins!“4

Þessi sjónræna mynd hefur hjálpað mér á lægðarstundum þegar ég stend við tréð, neyti ávaxtarins og græt þar sem ég er áhyggjufull, en í alvörunni, hversu hjálplegt er það eiginlega? Í stað þessa, veljum frekar að vona, vona á skapara okkar og hvert annað og ýta undir getu okkar til að verða betri en við erum núna.

Skömmu eftir að öldungur Neal A. Maxwell lést, spurði fréttamaður son hans hvers hann saknaði mest. Hann sagði kvöldmáltíða heima hjá foreldrum hans, vegna þess að eftir þær leið honum alltaf eins og að pabbi hans tryði á hann.

Þetta var um svipaðan tíma og fullorðin börn okkar voru að byrja að koma heim til okkar í sunnudagsmáltíðir með maka sína. Yfir vikuna stóð ég mig að því að gera lista í huganum yfir það sem ég gæti minnt þau á, á sunnudeginum, eins og: „Reyndu kannski að hjálpa meira til með börnin þegar þú ert heima“ eða „ekki gleyma að vera góður hlustandi.“

Þegar ég las athugasemd bróður Maxwell, henti ég listunum og þaggaði niður í gagnrýnisröddinni, þannig að þegar ég sá fullorðin börn mín í þennan stutta tíma í hverri viku, lagði ég áherslu á þá mörgu jákvæðu hluti sem þau voru þegar að gera. Þegar elsti sonur okkar Ryan lést nokkrum árum seinna, minnist ég þess að vera þakklát fyrir að sá tími sem við áttum saman var ánægjulegri og jákvæðari.

Áður en við eigum samskipti við ástvini, getum við spurt okkur sjálf þessarar spurningar: „Er það sem ég er að fara að segja hjálplegt eða særandi?“ Orð okkar eru einn af ofurkröftum okkar og fjölskyldumeðlimir eru eins og mannlegar krítartöflur, beint fyrir framan okkur að segja „skrifaðu á mig það sem þér finnst um mig!“ Þessi skilaboð, hvort sem þau eru af ásetningi eða ekki, ættu að vera vonarfyllt og hvetjandi.5

Starf okkar er ekki að kenna einhverjum sem er að fara í gegnum erfiðleika að þeir séu slæmir eða valdi vonbrigðum. Í sjaldgæfum tilfellum gætum við fundið fyrir hvatningu til að leiðrétta, en flytjum oftast ástvinum okkar í töluðum og ótöluðum orðum þann boðskap sem þau þrá að heyra: „Fjölskylda okkar er heil og fullkomin vegna þess að þú ert í henni.“ Þú verður elskuð/elskaður það sem eftir varir lífs þíns, sama hvað.“

Stundum þörfnumst við frekar samkenndar en ráða, hlustunar frekar en fyrirlestra, einhvers sem heyrir og hugsar: „Hvernig þyrfti mér að líða til að segja það sem þau voru að segja?“

Munið að fjölskyldur eru Guðs gefnar tilraunastofur þar sem við erum að reyna að finna út úr hlutunum, þannig að misstig og rangir útreikningar eru ekki bara mögulegir heldur líklegir. Væri það ekki líka áhugavert ef, í lok lífs okkar gætum við séð að þessi sambönd, jafnvel erfiðu stundirnar, voru það sem hjálpaði okkur að verða líkari frelsaranum? Hver erfið samskipti eru tækifæri til að læra hvernig elska ætti á dýpra sviði – á guðlegu sviði.6

Þysjum út til að skoða fjölskyldusamskipti sem kraftmikinn miðil sem kennir okkur þær lexíur sem við komum hingað til að læra er við snúum okkur til frelsarans.

Viðurkennum að í föllnum heimi er engin leið til að verða hinn fullkomni maki, foreldri, sonur eða dóttir, barnabarn, leiðbeinandi eða vinur, heldur milljón leiðir til að vera góð í því.7 Höldum okkur við tréð, neytum af elsku Guðs og miðlum henni. Með því að lyfta fólkinu í kringum okkur, stígum við saman upp.

Því miður er minningin af því að neyta ávaxtarins ekki nægileg, við verðum að borða aftur og aftur til þess að endurstilla linsu okkar og tengja okkur við hina himnesku yfirlitsmynd með því að opna ritningarnar sem eru uppfullar af ljósi, til að hrekja í burt myrkrið, dvelja áfram á hnjánum þar til að hversdagsleg bæn okkar verður kröftug. Það er þá sem hjörtun mýkjast og við förum að sjá eins og Guð sér.

Á þessum síðustu dögum verður merkasta verk okkar ef til vill með ástvinum okkar – góðu fólki sem lifir í illum heimi. Von okkar breytir því hvernig þau sjá sig sjálf og hver þau í raun eru. Og í gegnum þessa kærleikslinsu munu þau sjá hver þau munu verða.

En andstæðingurinn vill ekki að við eða ástvinir okkar snúum aftur heim saman. Og vegna þess að við búum á plánetu sem er bundin af tíma og takmörkuðum fjölda ára,8 reynir andstæðingurinn að viðhalda raunverulegri hræðslutilfinningu í okkur. Það er erfitt að sjá þegar linsan er á mestri stækkun, að stefna okkar skiptir meira máli en hraðinn.

Munið að „ef þið viljið fara hratt, farið ein. Ef þið viljið fara langt, farið saman.“9 Sem betur fer er sá Guð sem við tilbiðjum, ekki takmarkaður af tíma. Hann sér hverjir ástvinir okkar eru og hver við erum raunverulega.10 Hann er því þolinmóður við okkur og vonar að við verðum þolinmóð við hvert annað.

Ég viðurkenni að það koma þær stundir þar sem jörðin, tímabundið heimili okkar, virðist vera sorgareyja – stundir þar sem ég er með annað augað á trúnni og hitt augað grætur.11 Þekki þið þessa tilfinningu?

Ég upplifði hana á þriðjudaginn.

Getum við í staðinn valið trúfasta afstöðu spámannsins þegar hann lofar kraftaverkum í fjölskyldum okkar? Ef við gerum svo mun gleði okkar aukast, jafnvel þó umrótið aukist. Hann er að lofa okkur að hægt sé að upplifa yfirlitsáhrifin núna, án tillits til aðstæðna okkar.12

Þetta trúarauga núna er endurspeglun, eða bergmál, þeirrar trúar sem við höfðum áður en við komum til þessarar jarðar. Það sér framyfir óvissu augnabliksins og leyfir okkur að „gjöra allt [með glöðu geði], sem í okkar valdi stendur, og síðan … [sýna stillingu].“13

Er eitthvað erfitt í lífi ykkar núna, eitthvað sem þið hafið áhyggjur að verði ekki hægt að leysa? Án auga trúar gæti það virst sem Guð hafi tapað yfirlitmyndinni, og er það satt?

Eða kannski er ótti ykkar meiri sá að þið munið fara í gegnum þessa erfiðleika alein og óstudd, en það myndi þýða að Guð hefði yfirgefið ykkur, er það satt?

Það er vitnisburður minn að frelsarinn hefur getuna, sökum friðþægingar hans, til að snúa hvaða martröð sem þið eruð að takast á við yfir í blessun. Hann hefur lofað okkur með „ófrávíkjanlegum sáttmála“ að er við leggjum okkur fram við að elska hann og fylgja, munu „allar þrengingar [okkar] … í heild verða [okkur] til góðs.“14 Allar.

Og vegna þess að við erum börn sáttmálans getum við beðið um þessa tilfinningu vonar núna!

Þrátt fyrir að fjölskyldur okkar eru ekki fullkomnar, getum við fullkomnað elsku okkar til hvers annars þar til hún verður að stöðugri, óbreytanlegri, skilyrðislausri elsku, þess konar elsku sem styður breytingar og gerir ráð fyrir vexti og ávöxtun.

Það er hlutverk frelsarans að flytja ástvini okkar aftur heim. Það er hans verk og hans tímasetning. Það er okkar verk að veita vonina og hjartað sem þau geti snúið aftur til. „Við höfum hvorki valdsumboð [Guðs] til að fordæma né vald hans til að endurleysa, en okkur hefur verið gefið umboð til að beita elsku hans.“15 Nelson forseti hefur einnig kennt að fólk þarfnist kærleika okkar meira en áfellisdóms okkar. „Þau þurfa að upplifa kærleika Jesú Krists sem endurspeglast í orðum [okkar] og gjörðum.“16

Kærleikur er það sem breytir hjörtum. Hann er hreinasti hvatinn og aðrir geta skynjað hann. Höldum okkur fast við þessi spámannlegu orð sem töluð voru fyrir 50 árum síðan: „Ekkert heimili er misheppnað nema að það hætti að reyna.“17 Sannarlega sigra þeir sem elska mest og lengst!

Í jarðneskum fjölskyldum erum við einfaldlega að gera það sem Guð hefur gert við okkur, að vísa leiðina og vona að ástvinir okkar muni fara í þá átt, vitandi að þau velja veginn sem þau fara.

Þegar þau svo koma í gegnum huluna og nálgast hið elskandi „þyngdarafl“ himnesks heimilis þeirra,18 trúi ég því að það verði kunnuglegt vegna elskunnar sem þau upplifðu þar áður.

Notum þessa yfirlitslinsu og sjáum fólkið sem við elskum og búum með sem samábúendur á þessari fallegu plánetu.

Þið og ég!? Við getum þetta! Við getum haldið okkur í og stokkið um borð! Við getum staðið við tréð, neytt af ávextinum með bros á vör og leyft ljósi Krists í augum okkar að verða eitthvað sem aðrir geta treyst á, á þeirra myrkustu stundum. Þegar þau sjá ljósið síðan birtast í andliti okkar, dragast þau að því. Við getum þá hjálpað þeim að beina athyglinni aftur að hinni upprunalegu uppsprettu kærleiks og ljóss, hinni „skínandi [morgunstjörnu],“ Jesú Kristi.19

Ég gef vitnisburð minn um að þetta, allt þetta, mun leysast á svo mikið betri veg en við gætum nokkru sinni ímyndað okkur! Með auga trúar á Jesú Krist getum við séð að allt verður í lagi að lokum, og skynjað að allt verði í lagi núna. Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Anousheh Ansari, frá „The Overview Effect and Other Musings on Earth and Humanity, according to Space Travelers,“ cocre.co.

  2. Eter 12:19; skáletrað hér.

  3. Sjá Jody Moore, „How to Say Hard Things,“ Better Than Happy (hlaðvarp) 18. sept., 2020, þáttur. 270.

  4. Ronald E. Bartholomew, notað með leyfi; sjá einnig 1. Nefí 8:10; 11:21–22.

  5. Sjá James D. MacArthur, „The Functional Family,“ Marriage and Families,16. bindi (2005), 14.

  6. Gert mögulegt er við „[biðjum] … til föðurins, …, af öllum hjartans mætti, að [við megum] fyllast þessari elsku,“ (Moróní 7:48).

  7. Umorðuð setning tileinkuð Jill Churchill.

  8. Sjá Richard Eyre, Life before Life: Origins of the Soul … Knowing Where You Came From and Who You Really Are (2000), 107.

  9. Hefðbundinn málsháttur.

  10. Sjá Kenning og sáttmálar 93:24, 26.

  11. Sjá Robert Frost, „Birches,“ úr Mountain Interval (1916), 39.

  12. Sjá Russell M. Nelson, „Gleði og andleg þrautsegja,“ aðalráðstefna, okt. 2016: sjá einnig Russell M. Nelson „Láta Guð ríkja,“ aðalráðstefna, okt. 2020.

  13. Kenning og sáttmálar 123:17.

  14. Kenning og sáttmálar 98:3; skáletrað hér.

  15. Wayne E. Brickey, Inviting Him In: How the Atonement Can Change Your Family (2003),144.

  16. See Russell M. Nelson, „Þörf er á friðflytjendum,“ aðalráðstefna, apríl 2023.

  17. Teachings of Presidents of the Church: Harold B. Lee (2000), 134.

  18. Sjá Paul E. Koelliker, „Hann elskar okkur sannarlega,“ aðalráðstefna, apríl 2012.

  19. Opinberunarbókin 22:16.