Aðalráðstefna
Jesús Kristur er fjársjóðurinn
Aðalráðstefna október 2023


Jesús Kristur er fjársjóðurinn

Einblínið á Jesú Krist. Hann er frelsari okkar og lausnari, „merkið“ sem við ættum að líta til og okkar mesti fjársjóður.

Árið 1907 flutti vellauðugur Englendingur að nafni George Herbert, fimmti jarlinn af Carnarvon,1 til Egyptalands og fékk áhuga á fornleifafræði. Hann leitaði til þekkts Egyptasérfræðings, Howards Carter, og lagði til samstarf. Carter myndi hafa umsjón með fornleifauppgreftri þeirra og Carnarvon myndi veita fjármagnið.

Saman könnuðu þeir ýmsa staði með góðum árangri. Þeir fengu síðan leyfi til að grafa upp í Konungsdalnum, sem staðsettur er nálægt nútíma Lúxor, þar sem grafir margra faraóa höfðu fundist. Þeir ákváðu að leita að grafhýsi Tútankamons konungs. Tútankamon hafði sest í hásæti Egyptalands meira en þrjú þúsund árum áður og ríkt í tíu ár áður en hann lést óvænt.2 Vitað var að hann hafi verið grafinn í Konungsdalnum,3 en ekki var vitað hvar gröf hans var.

Carter og Carnarvon vörðu fimm árum í leit að grafhýsi Tútankamons án árangurs. Að lokum tilkynnti Carnarvon Carter að hann hefði lokið hinum árangurslausa uppgreftri. Carter bað um einn uppgröft í viðbót og Carnarvon féllst á það og að fjármagna hana.

Carter áttaði sig á að allt svæðið í Konungsdalnum hafði verið grafið upp – nema svæðið sem grunnbúðir þeirra voru á. Innan fárra daga, eftir að hafa grafið þar, fundu þeir fyrstu tröppurnar niður að gröfinni.4

Þegar Carter gægðist loks inn í forherbergið í gröf Tútankamons sá hann gull alls staðar. Eftir næstum þriggja mánaða skráningu á innihaldi forherbergisins opnuðu þeir innsiglaða grafhólfið í febrúar 1923 – fyrir 100 árum. Þetta var langfrægasti fornleifafundur tuttugustu aldar.

Á þessum árum árangurslausrar leitar hafði Carter og Carnarvon yfirsést það sem bókstaflega var undir fótum þeirra. Um fimm öldum fyrir fæðingu frelsarans, vísaði spámaðurinn Jakob í Mormónsbók til þess að taka sem sjálfsögðum hlut eða vanmeta það sem væri í nálægð okkar með því að „horfa yfir markið.“ Jakob sá fyrir að íbúar Jerúsalem myndu ekki viðurkenna hinn fyrirheitna Messías þegar hann kæmi. Jakob spáði því að þeir myndu „[fyrirlíta] einföld og afdráttarlaus orð … og [sækjast] eftir því, sem þeir skildu ekki. Og vegna blindu sinnar, blindu sem [myndi hljótast] af því að horfa yfir markið, hlutu þeir að falla.“5 Með öðrum orðum, að þeir myndu hrasa.

Spá Jakobs reyndist rétt. Í jarðneskri þjónustu Jesú horfðu margir yfir markið, framhjá honum. Þeir litu framhjá frelsara heimsins. Í stað þess að viðurkenna það hlutverk hans að uppfylla áætlun himnesks föður, fordæmdu þeir hann og krossfestu hann. Þeir leituðu og væntu þess að einhver annar færði þeim hjálpræði.

Eins og Jerúsalembúarnir og eins og Carter og Carnarvon, getum við líka hneigst til þess að horfa yfir markið. Við þurfum að varast þessa tilhneigingu svo við missum ekki af Jesú Kristi í lífi okkar og fáum ekki þekkt margar blessanir sem hann býður okkur. Við þörfnumst hans. Við erum hvött til að treysta „á verðleika hans, sem máttinn hefur til að frelsa.“6

Hann er markið okkar. Ef við ímyndum okkur ranglega að það sé þörf fyrir eitthvað umfram það sem hann býður, höfnum við eða drögum úr því umfangi og krafti sem hann getur haft í lífi okkar. Hann hefur krafist réttar síns til miskunnar og veitir okkur þá miskunn.7 Hann er hin endanlega „[uppspretta sem við getum leitað til fyrirgefningar synda okkar].“8 Hann er málsvari okkar hjá föðurnum og stendur vörð um það sem faðirinn hefur alla tíð viljað: að við snerum aftur til hans sem erfingjar í ríki hans. Við þurfum, svo notuð séu orð spámannsins Alma, að „[líta] í kringum [okkur] og [fara] að trúa á son Guðs, að hann komi til að endurleysa fólk sitt, og að hann muni þjást og deyja til að friðþægja fyrir syndir þess. Að hann muni aftur rísa frá dauðum, sem gjörir upprisuna að veruleika.“9 Jesús Kristur er fjársjóðurinn okkar.

Frelsarinn hefur séð okkur fyrir mörgum leiðum til að einblína meðvitað á sig, þar á meðal dagleg tækifæri til að iðrast. Stundum vanmetum við hversu dásamleg þessi blessun er sem hann býður. Þegar ég var átta ára var ég skírður af föður mínum. Á eftir hélt ég um hönd hans þegar við hugðumst fara yfir fjölfarna götu. Ég var ekki að fylgjast með og steig út af kantsteininum um leið og stór vörubíll kom skröltandi framhjá. Faðir minn kippti mér til baka af götunni og inn á gangstéttina. Hefði hann ekki gert það hefði ég orðið fyrir vörubílnum. Meðvitaður um eigið ótuktareðli, hugsaði ég: „Kannski hefði verið betra fyrir mig að vera drepinn af vörubílnum, því ég verð aldrei eins hreinn og ég er núna eftir skírnina mína.“

Átta ára gamall hafði ég ranglega talið að skírnarvatnið hreinsaði burtu syndir. Þannig er það ekki. Á árunum frá skírn minni hef ég lært að syndir eru hreinsaðar fyrir kraft Jesú Krists með friðþægingarfórn hans þegar við gerum og höldum skírnarsáttmálann.10 Við getum síðan með gjöf iðrunar verið áfram hrein. Ég hef líka lært að sakramentið færir í líf okkar öflugt dyggðarferli, sem gerir okkur kleift að viðhalda fyrirgefningu synda okkar.11

Rétt eins og fjársjóðurinn sem var undir fótum Carter og Carnarvon, standa hinar dýrmætu blessanir sakramentisins okkur til boða í hvert sinn sem við sækjum sakramentissamkomu. Okkur er lofað að heilagur andi verði stöðugur félagi okkar, ef við nálgumst sakramentið á sama hátt og nýr trúskiptur nálgast skírn og staðfestingu, með sundurkrömdu hjarta og sáriðrandi anda og staðráðinn í því að lifa eftir skírnarsáttmálanum. Heilagur andi blessar okkur með helgandi krafti, svo að við getum alltaf viðhaldið fyrirgefningu synda okkar, viku fyrir viku.12

Andlegur grundvöllur okkar er styrktur með iðrun og með því að undirbúa okkur og meðtaka sakramentið af samviskusemi. Aðeins með sterkum andlegum grunni getum við tekist á við myndræna regnið, vindinn og flóðin sem blasa við okkur í lífinu.13 Aftur á móti veikist andlegur grunnur okkar þegar við sleppum sjálfviljug sakramentissamkomu eða þegar við einblínum ekki á frelsarann meðan á sakramentinu stendur. Við getum óviljandi „[dregið okkur] frá anda Drottins, þannig að hann hefur ekkert svigrúm í [okkur] til að leiða [okkur] á vegum viskunnar, [svo við njótum] blessunar, velmegunar og varðveislu.“14

Þegar við höfum heilagan anda með okkur, munum við fá innblástur og leiðsögn til að gera og halda aðra sáttmála, eins og þá sem við gerum í musterum. Með því að gera það dýpkar samband okkar við Guð.15 Þið gætuð hafa veitt athygli að mörg ný musteri hafa verið tilkynnt á undanförnum árum, sem færir musteri sífellt nær meðlimum.16 Það er þversagnakennt, að eftir því sem musteri verða aðgengilegri getum við auðveldlegar hneigst til þess að verða frjálslegri í musterissókn. Þegar musteri eru fjarlæg skipuleggjum við tíma okkar og fjármagn til að ferðast til musterisins til að tilbiðja þar. Við setjum þessar ferðir í forgang.

Með musteri sér við hönd getur verið auðvelt að láta hið smávægilega standa í vegi musterissóknar og segja við okkur sjálf: „Jæja, ég fer bara seinna.“ Að búa nálægt musteri veitir meiri sveigjanleika í tímasetningu í musterinu, en slíkur sveigjanleiki getur gert það auðveldara að taka musterið sem sjálfsögðum hlut. Þegar við gerum það „missum við marks“, vanmetum tækifærið til að nálgast frelsarann í hans heilaga húsi. Skuldbinding okkar til musterissóknar ætti hið minnsta að vera jafn sterk þegar musterið er nálægt og þegar það er fjarlægt.

Eftir að Carter og Carnarvon höfðu grafið upp annars staðar í Konungsdalnum í leit að grafhýsi Tútankamons , áttuðu þeir sig á yfirsjón sinni. Við þurfum ekki að vinna til einskis, eins og þeir gerðu um tíma, til að finna fjársjóðinn okkar. Við þurfum heldur ekki að leita leiðsagnar gegnum framandi heimildir, leggja mat á nýjabrum heimildarinnar og halda að slík leiðsögn verði upplýstari en sú sem við getum fengið frá auðmjúkum spámanni Guðs.

Eins og skráð er í Gamla testamentinu, þegar Naaman leitaði sér lækningar við holdsveiki sinni, varð hann reiður yfir því að vera beðinn um að dýfa sér sjö sinnum í nálægt vatnsfljót. En hann lét sannfærast um að fylgja leiðsögn Elísa, fremur en að reiða sig á eigin fyrirfram ákveðnar hugmyndir um hvernig kraftaverkið ætti að gerast. Þess vegna varð Naaman heill.17 Þegar við treystum spámanni Guðs á jörðu í dag og fylgjum leiðsögn hans, munum við finna hamingju og getum líka læknast. Við þurfum ekki að leita lengra.

Bræður og systur, ég hvet ykkur til að hafa Jesú Krist ávallt í huga og einblína á hann. Hann er frelsari okkar og lausnari, „merkið“ sem við ættum að líta til og okkar mesti fjársjóður. Þegar þið komið til hans verður ykkur umbunað með styrk til að takast á við áskoranir lífsins, hugrekki til að gera það sem er rétt og getu til að uppfylla hlutverk ykkar í jarðlífinu. Varðveitið tækifærið til að iðrast, forréttindin til að meðtaka sakramentið, blessunina til að gera og halda musterissáttmála, gleðina af því að tilbiðja í musterinu og gleðina af því að eiga lifandi spámann.

Ég ber mitt hátíðlega og örugga vitni um að Guð, hinn eilífi faðir, er himneskur faðir okkar og að hann lifir; Jesús er Kristur; Hann er okkar góði, vitri himneski vinur18 og þetta er endurreist kirkja hans. Þakka ykkur fyrir trú ykkar og bænir. Ég bið þess að þið verðið blessuð og njótið farsældar og verndar, í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Fullt nafn fimmta jarlsins af Carnarvon er George Edward Stanhope Molyneux Herbert.

  2. Tölvusneiðmynd sem gerð var árið 2005 benti til þess að Tútankamon konungur gæti hafa orðið fyrir samsettu beinbroti á öðrum fótlegg, sem hefði getað leitt til sýkingar og dauða.

  3. Flestir faraóar Nýja konungsríkisins í Egyptalandi voru grafnir í Konungsdalnum. Flestar grafirnar fundust og voru rændar í fornöld.

  4. Þessi frásögn um uppgötvun grafar Tútankamons er fyrst og fremst byggð á Erics H. Cline, „King Tut’s Tomb,“ í Archaeology: An Introduction to the World‘s Greatest Sites (2016), 60–66.

    Fjölmargir þættir áttu þátt í vali Carters og Carnarvon um hvar grafa ætti upp – og hvar ekki – í Konungsdalnum. Svæðið umhverfis grunnbúðirnar var ekki þegar í stað aðlaðandi fyrir uppgröft. Þríhyrningslaga svæðið veitti gestum aðgang að grafhýsi Ramsesar VI, þannig að uppgröftur þar yrði sérstaklega truflandi. Svæðið var þakið, eins og Carter orðar það, „nokkrum grófbyggðum verkamannakofum, sem líklega voru notaðir af verkamönnum í gröf Ramsesar[,] … [og] þriggja feta jarðvegi sem lá undir þeim.“ Ekki virtist líklegt að kofar hefðu verið byggðir ofan á innganginn að grafhýsi (sjá Howard Carter og A. C. Mace, The Tomb of Tut-ankh-Amen: Discovered by the Late Earl of Carnarvon and Howard Carter, bindi 1 [1923], 124-28, 132).

    Fyrir aðrar frásagnir af uppgötvun grafhýsi Tutankhamons, sjá Zahi Hawass, Tutankhamun and the Golden Age of the Pharaohs (2005); Nicholas Reeves, The Complete Tutankhamun: The King, the Tomb, the Royal Treasure (1990), 80–83; og Nicholas Reeves og Richard H. Wilkinson, The Complete Valley of the Kings: Tombs and Treasures of Egypt’s Greatest Pharaohs (1996), 81–82.

  5. Jakob 4:14.

  6. 2. Nefí 31:19.

  7. Sjá Moróní 7:27–28.

  8. 2. Nefí 25:26.

  9. Alma 33:22.

  10. Sjá Kenning og sáttmálar 76:52.

  11. Sjá David A. Bednar, „Teach to Build Faith in Jesus Christ“ (ræða flutt á námskeiði fyrir nýja trúboðsleiðtoga, 23. júní 2023); Rachel Sterzer Gibson, „Teach to Build Faith in Jesus Christ, Elder Bednar Instructs,“ Church News, 23. júní 2023, thechurchnews.com.

  12. Sakramentið var hins vegar ekki stofnað sem sérstök leið til að tryggja fyrirgefningu synda okkar (sjá James E. Talmage, The Articles of Faith, 12. útgáfa [1924], 175). Einstaklingur getur ekki syndgað af ásettu ráði á laugardagskvöldi og ætlast til þess að það eina sem hann eða hún þurfi að gera séð að eta brauðbita og drekka bolla af vatni á sunnudegi og verða síðan hreinsaður eins og með töfrum. En helgandi áhrif heilags anda geta hreinsað alla sem iðrast af einlægu hjarta og raunverulegum ásetningi.

  13. Sjá 3. Nefí 18:12–13.

  14. Mósía 2:36.

  15. Russell M. Nelson forseti sagði: „Guð elskar þann einstakling sérstaklega sem gerir sáttmála við hann í skírnarvatni. Og þessi guðlega elska dýpkar þegar fleiri sáttmálar eru gerðir og haldnir af trúmennsku“ (Russell M. Nelson, „Choices for Eternity“ [heimslæg trúarsamkoma fyrir ungt fólk, 15. maí 2022], Gospel Library). Hinir mörgu sáttmálar á sáttmálsveginum eru ekki bara raðbundnir, heldur eflandi og jafnvel samverkandi. Þeir auðvelda nánari og sterkari tengsl við Guð. Slík tenging gerir okkur kleift að umbreytast að því marki að ímynd hans sést í ásjónu okkar og hjörtu okkar hafa varanlega gjörbreyst (sjá Alma 5:14).

  16. Nelson forseti útskýrði að Drottinn „væri að gera musteri sín aðgengilegri. Hann er að flýta fyrir því að við byggjum musteri. Hann er að auka getu okkar til að hjálpa við samansöfnun Ísraels. Hann er líka að auðvelda hverju okkar að verða andlega fágaðri“ („Einblínið á musterið,“ aðalráðstefna, nóv. 2022).

  17. Sjá 2. Konungabók 5:9–14.

  18. Sjá „Ég veit minn lifir lausnarinn,“ Sálmar, nr. 36.