Aðalráðstefna
Eilífur sannleikur
Aðalráðstefna október 2023


Eilífur sannleikur

Þörf okkar fyrir að viðurkenna sannleikann hefur aldrei verið mikilvægari!

Bræður og systur, þakka ykkur fyrir hollustu ykkar við Guð föðurinn og son hans, Jesú Krist, og þakka ykkur fyrir kærleika ykkar og þjónustu við hvert annað. Þið eruð sannlega undraverð!

Aðfaraorð

Eftir að ég og Anne, eiginkona mín, höfðum fengið símtal um að þjóna sem leiðtogar í fastatrúboði, ákvað fjölskyldan okkar að læra nafn hvers trúboða áður en við kæmum á akurinn. Við fengum myndir, bjuggum til minnismiða og tókum að skoða andlitin og leggja nöfnin á minnið.

Þegar við komum héldum við kynningarráðstefnur með trúboðunum. Þegar við komum saman, heyrði ég níu ára son okkar segja:

„Gaman að hitta þig, Sam!“

„Rachel, hvaðan ertu?“

„Vá, David, þú ert hávaxinn!“

Ég fór til sonar okkar með viðvörun og hvíslaði: „Hæ, mundu að ávarpa trúboðana sem öldung eða systur.“

Hann leit á mig spyrjandi og sagði: „Pabbi, ég hélt að við ættum að leggja nöfnin þeirra á minnið. Sonur okkar gerði það sem hann taldi rétt miðað við skilning sinn.

Hver er skilningur okkar á sannleikanum í heiminum í dag? Á okkur dynja stöðugt fullt af sterkum skoðunum, hlutdrægum skýrslum og ófullnægjandi gögnum. Samhliða verða heimildirnar fleiri og upplýsingaflæðið eykst hratt. Þörf okkar fyrir að viðurkenna sannleikann hefur aldrei verið mikilvægari!

Sannleikurinn er nauðsynlegur fyrir okkur til styrkja sambandið við Guð, finna frið og gleði og ná guðlegum möguleikum okkar. Við skulum hugleiða eftirfarandi spurningar í dag:

  • Hvað er sannleikur og hvers vegna er hann mikilvægur?

  • Hvernig finnum við sannleika?

  • Hvernig getum við miðlað sannleika þegar við höfum fundið hann?

Sannleikur er eilífur

Drottinn hefur kennt okkur að „sannleikurinn er þekking á hlutum eins og þeir eru, eins og þeir voru og eins og þeir munu verða“ (Kenning og sáttmálar 93:24). Hann var „[ekki skapaður eða gjörður]“ (Kenning og sáttmálar 93:29) og hefur „engan endi“ (Kenning og sáttmálar 88:66).1 Sannleikurinn er algjör, fastur og óumbreytanlegur. Með öðrum orðum, þá er sannleikur eilífur.2

Sannleikur hjálpar okkur að forðast blekkingar,3 greina gott frá illu,4 hljóta vernd5 og finna huggun og lækningu.6 Sannleikur getur líka verið leiðandi í breytni okkar,7 gert okkur frjáls,8 helgað okkur9 og leitt okkur til eilífs lífs.10

Guð opinberar eilífan sannleika

Guð opinberar okkur eilífan sannleika gegnum netkerfi opinberunarsambands þar sem hann sjálfur, Jesú Kristur, heilagur andi, spámenn og við sjálf eigum hlut að máli. Við skulum ræða hin aðskildu en samtengdu hlutverk sem hver þátttakandi gegnir í þessu ferli.

Fyrsta: Guð er uppspretta eilífs sannleika.11 Hann og sonur hans, Jesú Kristur, eru eitt12 hafa fullkominn skilningi á sannleika og breyta alltaf í samhljómi við sannar reglur og lögmál.13 Þessi kraftur gerir þeim mögulegt að skapa og ríkja yfir heimum14 og elska, leiða og næra hvert okkar fullkomlega.15 Þeir vilja að við skiljum og tileinkum okkur sannleika, svo við fáum notið blessananna sem þeir njóta.16 Þeir gætu miðlað sannleika í eigin persónu eða í gegnum boðbera eins og heilagan anda, engla eða lifandi spámenn.

Annað: Heilagur andi vitnar um allan sannleika.17 Hann opinberar okkur sannleika milliliðalaust og vitnar um sannleika sem aðrir kenna. Tilfinningar frá andanum koma venjulega sem hugsanir í huga okkar og tilfinningar í hjörtum okkar.18

Þriðja: Spámenn meðtaka sannleika frá Guði og miðla okkur þeim sannleika.19 Við lærum sannleikann af fyrri spámönnum í ritningunum20 og af lifandi spámönnum á aðalráðstefnu og gegnum aðrar almennar rásir.

Að lokum: Ég og þið gegnum mikilvægu hlutverki í þessu ferli. Guð væntir þess að við leitum, berum kennsl á og tileinkum okkur sannleika. Hæfni okkar til að meðtaka og tileinka okkur sannleika er háð styrkleika sambands okkar við föðurinn og soninn, viðbrögð okkar við áhrifum heilags anda og samstillingu okkar við spámenn síðari tíma.

Við þurfum að hafa í huga að Satan vinnur að því að halda okkur frá sannleika. Hann veit að án sannleika getum við ekki öðlast eilíft líf. Hann blandar saman sannleika og veraldlegri heimspeki til að rugla og afvegaleiða okkur frá því sem Guð miðlar.21

Leita, bera kennsl á og tileinka sér eilífan sannleika

Þegar við leitum eilífs sannleika22 geta eftirfarandi tvær spurningar hjálpað okkur að átta okkur á því hvort hugmynd kemur frá Guði eða á sér annan upprunna:

  • Er hugmyndin kennd stöðugt í ritningunum og í orðum lifandi spámanna?

  • Er hugmyndin staðfest með vitni heilags anda?

Guð opinberar eilífan sannleika með spámönnum sínum og heilagur andi staðfestir þann sannleika fyrir okkur og hjálpar okkur að tileinka okkur hann.23 Við verðum að leita og búa okkur undir að meðtaka slík andleg hughrif þegar þau berast.24 Við erum næmust fyrir vitni andans þegar við erum auðmjúk,25 biðjumst einlæglega fyrir, lærum orð Guðs26 og höldum boðorð hans.27

Þegar heilagur andi hefur staðfest ákveðinn sannleika fyrir okkur dýpkar skilningur okkar þegar við lifum eftir þeirri reglu. Þegar við lifum stöðugt eftir þeirri reglu, öðlumst við örugga þekkingu á þeim sannleika með tímanum.28

Ég hef til að mynda gert mistök og séð eftir miður góðum ákvörðunum. En með bæn, námi og trú á Jesú Krist, hlaut ég vitni um reglu iðrunar.29 Þegar ég hélt áfram að iðrast jókst skilningur minn á iðrun. Mér fannst ég vera nær Guði og syni hans. Ég veit núna að synd er hægt að fyrirgefa fyrir tilstilli Jesú Krists, því ég upplifi blessanir iðrunar á hverjum degi.30

Treysta Guði þegar sannleikur er ekki enn opinberaður

Hvað ber okkur þá að gera þegar við leitum í einlægni að sannleika sem enn hefur ekki verið opinberaður? Ég hef samúð með þeim okkar sem þrá svör sem virðast ekki koma.

Drottinn leiðbeindi Joseph Smith: „Ver rólegur þar til ég tel rétt að kunngjöra … allt … um þetta mál“ (Kenning og sáttmálar 10:37).

Hann útskýrði fyrir Emmu: „Kvarta ekki vegna þess, sem þú hefur ekki séð, því að um tíma er það hulið þér og heiminum, samkvæmt visku minni“ (Kenning og sáttmálar 25:4).

Ég hef líka leitað svara við hjartans spurningum. Mörg svör hafa borist og sum ekki.31 Þegar við höldum áfram – treystum visku og kærleika Guðs, höldum boðorð hans og treystum á það sem við þó vitum – hjálpar hann okkur að finna frið þar til hann opinberar sannleika allra hluta.32

Skilja kenningu og reglu

Þegar leitað er að sannleika, hjálpar það að skilja muninn á kenningu og reglu. Kenning vísar til eilífs sannleika, svo sem eðlis Guðdómsins, sáluhjálparáætlunarinnar og friðþægingarfórnar Jesú Krists. Regla er spámannleg beiting kenningar, byggð á núverandi aðstæðum. Reglur gera okkur mögulegt að stjórna kirkjunni á reglubundinn hátt.

Þótt kenningar breytist aldrei, breytist regla af og til. Drottinn starfar í gegnum spámenn sína að því að halda uppi kenningu sinni og breyta reglum kirkjunnar í samræmi við þarfir barna hans.

Því miður blöndum við stundum saman reglu og kenningu. Ef við skiljum ekki muninn, eigum við á hættu að verða vonsvikin þegar reglur breytast og gætum farið að efast um visku Guðs eða opinberunarhlutverk spámanna.33

Kenna eilífan sannleika

Þegar við hljótum sannleika frá Guði hvetur hann okkur til að miðla þeirri þekkingu með öðrum.34 Þetta gerum við þegar við kennum námsbekk, leiðbeinum barni eða ræðum við vin um sannleika fagnaðarerindisins.

Markmið okkar er að kenna sannleika á þann hátt sem býður upp á umbreytandi kraft heilags anda.35 Leyfið mér að miðla nokkrum einföldum boðum frá Drottni og spámönnum hans sem geta hjálpað.36

  1. Einblínið á himneskan föður, Jesú Krist og grundvallarkenningu þeirra.37

  2. Haldið ykkur fast við ritningarnar og kenningar síðari daga spámanna.38

  3. Treystið á kenningu sem sett er fram með mörgum opinberum vitnum.39

  4. Forðist vangaveltur, persónulegar skoðanir eða veraldlegar hugmyndir.40

  5. Kennið kenningaratriði í samhengi við tengdan sannleika fagnaðarerindisins.41

  6. Notið kennsluaðferðir sem stuðla að áhrifum andans.42

  7. Eigið samskipti á skýran hátt til að forðast misskilning.43

Leita sannleika í kærleika

Hvernig við kennum sannleika skiptir miklu máli. Páll hvatt okkur til að mæla „sannleikann í kærleika“ (sjá Efesusbréfið 4:14–15). Sannleikur getur best blessað aðra þegar hann er fluttur af kristilegum kærleika.44

Sannleikur kenndur án kærleika, getur vakið tilfinningar dómhörku, vonbrigða og einmanaleika. Það leiðir oft til gremju og sundrungar – jafnvel átaka. Á hinn bóginn er kærleikur án sannleika holur og skortir fyrirheit um vöxt.

Bæði sannleikur og kærleikur eru nauðsynlegir fyrir andlega framþróun okkar.45 Sannleikurinn kemur fram með kenninguna, reglurnar og lögmálin fyrir eilíft líf, en kærleikurinn vekur þá hvatningu sem þarf til að taka á móti og bregðast við því sem er sannleikur.

Ég er ævinlega þakklátur þeim sem kenndu mér af þolinmæði eilífan sannleika með kærleika.

Lokaorð

Að lokum vil ég miðla eilífum sannleika sem hefur orðið akkeri sálar minnar. Ég hef komist til þekkingar á þessum sannleika með því að fylgja reglunum sem rætt er um í dag.

Ég veit að Guð er faðir okkar á himnum.46 Hann er alvitur,47 almáttugur48 og fullkomlega kærleiksríkur.49 Hann gerði áætlun fyrir okkur til að öðlast eilíft líf og verða eins og hann er.50

Hann sendi son sinn, Jesú Krist, okkur til hjálpar, sem hluta af áætlun sinni.51 Jesús kenndi okkur að gera vilja föðurins52 og elska hvert annað.53 Hann friðþægði fyrir syndir okkar54 og gaf líf sitt á krossinum.55 Hann reis upp að þremur dögum liðnum.56 Fyrir Krist og náð hans, munum við rísa upp,57 okkur getur verið fyrirgefið58 og við getum hlotið styrk gegnum þrengingar.59

Jesús Kristur stofnaði kirkju sína í sinni jarðneskri þjónustu.60 Í tímans rás var þeirri kirkju breytt og sannleikur glataðist.61 Jesús Kristur endurreisti kirkju sína og hinn einfalda og dýrmætan sannleika fagnaðarerindisins fyrir tilstilli spámannsins Josephs Smith.62 Kristur heldur áfram að leiða kirkju sína í dag með lifandi spámönnum og postulum.63

Ég veit að þegar við komum til Krists, getum við náð því marki að „[verða] fullkominn í Kristi“ (Moróní 10:32), öðlast „fylling gleði“ (Kenning og sáttmálar 93:33) og öðlast „allt, sem [faðirinn] á“ (Kenning og sáttmálar 84:38). Um þennan sannleika ber ég vitni, í hinu heilaga nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Sjá einnig Sálmarnir 117:2; Kenning og sáttmálar 1:39.

  2. „Andstætt efasemdum einhverra, þá er rétt og rangt raunverulega til. Alger sannleikur – eilífur sannleikur – er raunverulegur. Ein af plágum okkar tíma er að of fáir vita hvert þeir eiga að snúa sér til að fá sannleikann“ (Russell M. Nelson, „Hreinn sannleikur, hrein kenning og hrein opinberun,“ aðalráðstefna, október 2021).

  3. Sjá Joseph Smith – Matteus 1:37.

  4. Sjá Moróní 7:19.

  5. Sjá 2. Nefí 1:9; Kenning og sáttmálar 17:8.

  6. Sjá Jakob 2:8.

  7. Sjá Sálmarnir 119:105; 2. Nefí 32:3.

  8. Sjá Jóhannes 8:32; Kenning og sáttmálar 98:8.

  9. Sjá Jóhannes 17:17.

  10. Sjá 2. Nefí 31:20.

  11. Sjá Kenning og sáttmálar 88:11–13; 93:36.

  12. Sjá Jóhannes 5:19–20; 7:16; 8:26; 18:37; HDP Móse 1:6.

  13. Sjá Alma 42:12–26; Kenning og sáttmálar 88:41.

  14. Sjá HDP Móse 1:30-39.

  15. Sjá 2. Nefí 26:24.

  16. Sjá Kenning og sáttmálar 82:8–9.

  17. Sjá Jóhannes 16:13; Jakob 4:13; Moróní 10:5; Kenning og sáttmálar 50:14; 75:10; 76:12; 91:4; 124:97.

  18. Sjá Kenning og sáttmálar 6:22–23; 8:2–3.

  19. Sjá Jeremía 1:5, 7; Amos 3:7; Matteus 28:16–20; Moróní 7:31; Kenning og sáttmálar 1:38; 21:1–6; 43:1–7. Spámaður er „Maður sem er kallaður af Guði og talar fyrir Guð. Sem boðberi Guðs fær spámaður boð, spádóma og opinberanir frá Guði. Ábyrgð hans er að kunngjöra mönnum vilja Guðs og hið sanna eðli hans og sýna tilganginn í samskiptum hans við þá. Spámaður fordæmir syndina og segir fyrir um afleiðingar hennar. Hann er boðberi réttlætis. Við sérstök tækifæri kann spámanni að vera blásið í brjóst að spá um framtíðina mannkyni til blessunar. Fremsta skylda hans er samt sem áður að bera vitni um Krist. Forseti Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu er í dag spámaður Guðs á jörðu. Meðlimir Æðsta forsætisráðsins og postularnir tólf eru studdir sem spámenn, sjáendur og opinberarar“ (Leiðarvísir að ritningunum, „Spámaður,“ Gospel Library). Dæmi um þessar reglur má finna í lífi Adams (sjá HDP Móse 6:51–62), Enoch (sjá HDP Móse 6:26–36), Nóa (sjá HDP Móse 8:19, 23–24), Abrahams (sjá 1. Mósebók 12:1–3; Abraham 2:8–9), HDP Móse (sjá 2. Mósebók 3:1–15; HDP Móse 1:1–6, 25–26), Péturs (sjá Matteus 16:13–19) og Josephs Smith (sjá Kenning og sáttmálar 5:6–10; 20:2; 21:4–6).

  20. Sjá 2. Tímóteusarbréf 3:16.

  21. Sjá Jóhannes 8:44; 2. Nefí 2:18; Kenning og sáttmálar 93:39; HDP Móse 4:4.

  22. Sjá 1. Nefí 10:19. Dallin H. Oaks forseti kenndi: „Við þurfum að gæta að okkar er við leitum sannleika [Guðs] og veljum heimildir í þeirri leit. Við ættum ekki að gera ráð fyrir að veraldleg frægð eða valdastöður séu góðar sannleiksheimildir. … Þegar við leitum að trúarlegum sannleika, ættum við að nota til þess andlegar aðferðir sem hæfa þeirri leit: Bæn, vitni heilags anda og ígrunda ritningarnar og orð nútíma spámanna“ („Sannleikur og áætlunin,“ aðalráðstefna, október 2018).

  23. Öldungur D. Todd Christofferson kenndi: „Postular og spámenn … boða orð Guðs, en auk þess trúum við að karlar og konur almennt og jafnvel börn geti lært af og notið leiðsagnar guðlegs innblásturs sem svar við bæn og námi í ritningunum. … Meðlimum Kirkju Jesú Krists er gefin gjöf heilags anda, sem auðveldar áframhaldandi samskipti við himneskan föður þeirra. … Þetta er ekki þar með sagt að sérhver meðlimur tali fyrir hönd kirkjunnar eða geti skilgreint kenningar hennar, heldur að hver og einn geti fengið guðlega leiðsögn til að takast á við áskoranir og tækifæri lífs síns“ („Kenning Krists,“ aðalráðstefna, apríl 2012, athugasemd 2).

  24. Sjá 2. Nefí 33:1–2.

  25. Sjá Kenning og sáttmálar 1:28.

  26. Sjá Moróní 10:3–5; Kenning og sáttmálar 9:7–9; 84:85.

  27. Sjá Kenning og sáttmálar 5:35; 63:23; 93:27–28. Þrátt fyrir einlæga viðleitni okkar, gætu sum okkar enn átt í erfiðleikum með að finna andann vegna geðrænna áskorana. Þunglyndi, kvíði og aðrir taugasjúkdómar geta gert okkur erfiðara með að bera kennsl á heilagan anda. Í slíkum tilvikum býður Drottinn okkur að halda áfram að lifa eftir fagnaðarerindinu og hann mun blessa okkur (sjá Mósía 2:41). Við getum gætt að fleiri verkefnum – eins og að hlusta á helga tónlist, taka þátt í þjónustu eða verja tíma í náttúrunni – sem hjálpar okkur að finna ávexti andans (sjá Galatabréfið 5:22–23) og styrkja tengsl okkar við Guð.

    Öldungur Jeffrey R. Holland sagði: „Hvernig bregðist þið best við, ef huglægir eða tilfinningalegir erfiðleikar hrjá ykkur eða ástvini ykkar? Framar öllu, glatið aldrei trú ykkar á himneskan föður, sem elskar ykkur meira en þið fáið skilið. … Iðkið staðfastlega þá trúrækni sem sannreynd er af tímans tönn, og færir anda Drottins inn í líf ykkar. Leitið leiðsagnar þeirra sem hafa lykla að andlegri velferð ykkar. Biðjið um prestdæmisblessanir og hafið þær í metum. Takið sakramentið í viku hverri og haldið ykkur fast að loforðum friðþægingar Jesú Krists um fullkomnun. Trúið að kraftaverk gerist. Ég hef séð svo mörg verða að veruleika, þegar allt annað hefur þrotið og engin von er eftir. Vonin glatast aldrei“ („Sem ónýtt ker,“ aðalráðstefna, október 2013).

  28. Sjá Jóhannes 7:17; Alma 32:26–34. Endanlegur tilgangur Guðs er sá að við öðlumst sannleika „orð á orð ofan og setning á setning ofan,“ þar til við skiljum allt (sjá Orðskviðirnir 28:5; 2. Nefí 28:30; Kenning og sáttmálar 88:67; 93:28).

  29. Sjá 1. Jóhannesarbréf 1:9–10; 2:1–2.

  30. Russell M. Nelson forseti hefur kennt: „Ekkert er jafn frelsandi, göfgandi eða nauðsynlegt framþróun okkar sjálfra, en að einblína á iðrun daglega og reglubundið. Iðrun er ekki atburður; hún er ferli. Hún er lykill að hamingju og hugarró. Fari iðrun og trú saman, greiðir hún okkur aðgang að krafti friðþægingar Jesú Krists“ (Russell M. Nelson, „Við getum gert betur og orðið betri,“ aðalráðstefna, apríl 2019).

  31. Ég veit ekki allar ástæður þess að Guð heldur frá okkur einhverjum eilífum sannleika, en öldungur Orson F. Whitney veitti áhugaverða innsýn: „Það er blessað að trúa án þess að sjá, þar sem með iðkun trúar veitist andleg framþróun, eitt af mikilvægustu viðfangsefnum jarðneskrar tilveru mannsins; en þekking, sem eyðir trúnni, kemur í veg fyrir iðkun hennar og hindrar þannig framþróun. ,Þekking er máttur‘; og allt skal vitað á sínum tíma. En ótímabær þekking – að vita á röngum tíma – er banvæn bæði fyrir framfarir og hamingju“ („The Divinity of Jesus Christ,“ Improvement Era, jan. 1926, 222; sjá einnig Liahona, des. 2003 14–15).

  32. Sjá Kenning og sáttmálar 76:5–10. Drottinn ráðlagði líka Hyrum Smith: „Reyndu ekki að boða orð mitt, reyndu heldur fyrst að öðlast orð mitt. … Hald ró þinni [og] lær orð mitt“ (Kenning og sáttmálar 11:21–22). Alma gefur fordæmi að því að meðhöndla ósvaraðar spurningar: „En mér hafa ekki að fullu verið kunngjörðir þessir leyndardómar. Ég mun þess vegna sýna umburðarlyndi“ (Alma 37:11). Hann útskýrði líka fyrir syni sínum, Kóríanton: „Nú afhjúpa ég fyrir þér leyndardóm, en engu að síður eru margir leyndardómar geymdir, sem enginn veit neitt um nema Guð einn“ (Alma 40:3). Ég hef líka fundið styrk í svari Nefís þegar hann var spurður spurningar sem hann gat ekki svarað: „Ég veit, að [Guð] elskar börn sín. Samt þekki ég ekki merkingu allra hluta“ (1. Nefí 11:17).

  33. Á sama hátt eru menningarhefðir ekki kenning eða stefna. Þær geta verið gagnlegar ef þau hjálpa okkur að fylgja kenningum og reglum, en þær geta líka hindrað andlegan vöxt okkar ef þær eru ekki byggðar á sönnum reglum. Við ættum að forðast hefðir sem hvorki byggja upp trú okkar á Jesú Krist né hjálpa okkur að þróast í átt að eilífu lífi.

  34. Sjá Kenning og sáttmálar 15:5; 88:77–78.

  35. Sjá Kenning og sáttmálar 50:21–23.

  36. Aðlagað úr skjalinu „Principles for Ensuring Doctrinal Purity,“ samþykkt af Æðsta forsætisráðinu og Tólfpostulasveitinni í febrúar 2023.

  37. Sjá 1. Nefí 15:14. Drottinn bauð þjónum sínum að forðast að einblína á kenningar eða hugmyndir sem ekki eru kjarni í fagnaðarerindi hans: „Og þú skalt ekki ræða kennisetningar, heldur boða iðrun og trú á frelsarann og fyrirgefningu syndanna með skírn og með eldi, já, sjálfum heilögum anda“ (Kenning og sáttmálar 19:31).

    Öldungur Neil L. Andersen útskýrði: „Við skulum einblína á frelsarann Jesú Krist og gjöf friðþægingarfórnar hans. Það merkir ekki að við getum ekki sagt frá eigin lífsreynslu eða miðlað hugsunum annarra. Þegar umræðuefni okkar snýst um fjölskyldur eða þjónustu eða musteri eða nýlokið trúboð, þá ætti allt … að hafa Drottin Jesú Krist að þungamiðju,“(„Við tölum um Krist,“ aðalráðstefna, október 2020).

  38. Sjá Kenning og sáttmálar 28:2–3, 8. Spámaðurinn Alma benti þeim á sem kenndu fagnaðarerindið að „þeir skyldu ekkert annað kenna en það, sem hann hafði kennt og hinir heilögu spámenn hefðu mælt af munni“ (Mósía 18:19).

    Henry B. Eyring forseti lýsti yfir: „Við verðum að kenna grundvallarkenningar kirkjunnar eins og þær eru í hinum stöðluðum helgiritum og kennslu spámannanna, sem bera ábyrgð á að boða kenninguna“ („The Lord Will Multiply the Harvest“ [kvöldstund með aðalvaldhöfum, 6. febrúar, 1998], í Teaching Seminary: Preservice Readings [2004], 96).

    Öldungur D. Todd Christofferson vitnaði: „Í kirkjunni í dag, alveg eins og til forna, er uppbygging kenningar Krists eða leiðrétting á frávíkjandi kenningum spurning um guðlega opinberun til þeirra sem Drottinn felur hið postullega vald“ („Kenning Krists“).

  39. Sjá 2. Korintubréf 13:1; 2. Nefí 11:3; Eter 5:4; Kenning og sáttmálar 6:28. Öldungur Neil L. Andersen sagði: „Fáeinir efast í trú sinni þegar þeir finna áratugagamla yfirlýsingu kirkjuleiðtoga sem virðist ekki samræmast kenningum okkar. Mikilvæg regla er í gildi varðandi kenningu kirkjunnar. Kenningin er kennd af öllum 15 meðlimum Æðsta forsætisráðsins og Tólfpostulasveitarinnar. Hún er ekki falin í óljósri málsgrein í einni ræðu. Sannar reglur eru kenndar oft og af mörgum. Það er ekki erfitt að finna kenningu okkar“ („Eldraun trúar yðar,“ aðalráðstefna, október 2012).

    Öldungur Christofferson kenndi álíka: „Jafnframt verður að hafa í huga að ekki fela allar yfirlýsingar kirkjuleiðtoga, fyrr og nú, endilega í sér kenningu. Það er almennur skilningur í kirkjunni að yfirlýsing frá einum leiðtoga í eitt skipti felur oft í sér persónulega, en samt vel útfærða, skoðun sem ekki er ætlað að vera bindandi fyrir kirkjuna í heild“ („Kenning Krists“).

  40. Sjá 3. Nefí 11:32, 40. Gordon B. Hinckley forseti sagði: „Ég hef áður talað um mikilvægi þess að halda kenningu kirkjunnar hreinni. … Ég hef áhyggjur af þessu. Lítil frávik í kennslu kenningar geta leitt til mikilla illra lyga“ (íTeachings of Gordon B. Hinckley [1997], 620).

    Dallin H. Oaks forseti varaði við því að það séu sumir „sem velja nokkrar setningar úr kenningum spámanns og nota þær til að styðja stjórnmálaskoðanir sínar eða annan persónulegan tilgang. … Að snúa orðum spámanns til að styðja einkaskoðanir, stjórnmálalegar eða fjárhagslegar eða á annan hátt, er að reyna að hagræða orð spámannsins, ekki fylgja honum“ („Our Strengths Can Become Our Downfall“ [kvöldvaka í Brigham Young háskóla, 7. júní, 1992], 7, speeches.byu.edu).

    Henry B. Eyring forseti varaði við: „Kenning öðlast kraft sinn þegar heilagur andi staðfestir að hún sé sönn. … Vegna þess að við þurfum á heilögum anda að halda, verðum við að vera varkár og gæta þess að ganga ekki lengra en að kenna sanna kenningu. Heilagur andi er andi sannleikans. Við löðum að staðfestingu hans með því að forðast vangaveltur eða persónulega túlkun. Það getur verið erfitt að gera það. … Það er freistandi að prófa eitthvað nýtt eða tilkomumikið. En við löðum að samfélag við heilagan anda þegar við gætum þess að kenna aðeins sanna kenningu. Ein öruggasta leiðin til að forðast að jafnvel komast í tæri við falska kenningu, er með því að velja einfaldleika í kennslu okkar. Öryggi fæst með þessum einfaldleika og lítið glatast“ („The Power of Teaching Doctrine,“ Liahona, júlí 1999, 86).

    Dale G. Renlund kenndi: „Það að leita frekari skilnings er mikilvægur hluti af andlegri þróun okkar, en farið varlega. Rökhyggja getur ekki komið í stað opinberunar. Vangaveltur munu ekki leiða til meiri andlegri vitneskju, en þær geta leitt til blekkinga eða beint athygli okkar frá því sem opinberað hefur verið“ („Guðlegt eðli ykkar og eilíf örlög,“ aðalráðstefna, apríl 2022).

  41. Sjá Matteus 23:23. Joseph F. Smith forseti aðvaraði: „Það er mjög óskynsamlegt að taka brot af sannleikanum og meðhöndla hann eins og hann væri allt málið. … Allar opinberaðar reglur fagnaðarerindis Krists eru mikilvægar og nauðsynlegar í sáluhjálparáætluninni.“ Hann útskýrði ennfremur: „Það er hvorki góð stefna né holl kenning að taka eitthvað eitt af þessu, einangra það út úr allri áætlun um sannleika fagnaðarerindisins, gera það að sérstöku áhugamáli og treysta á það til sáluhjálpar og framþróunar. … Þetta er allt nauðsynlegt“ (Gospel Doctrine, 5. útgáfa [1939], 122).

    Öldungur Neal A. Maxwell útskýrði: „Reglur fagnaðarerindisins … krefjast samstillingar. Þegar þær eru slitnar í sundur hver frá annarri eða einangraðar, gætu túlkanir og útfærslur manna á þessum kenningum orðið villtar. Kærleikurinn gæti orðið holdlegur ef sjöunda boðorðið kæmi ekki í veg fyrir það. Hin lofsverða áhersla fimmta boðorðsins kveður á um að heiðra foreldra og ef ekki væri hugað að fyrsta boðorðinu, gæti leitt til skilyrðislausrar tryggðar við foreldra sem hefðu rangt fyrir sér, frekar en Guð. … Þolinmæði er jafnvel höfð í réttum mæli með því að ‚vanda um tímanlega með myndugleik, þegar heilagur andi hvetur til þess‘ [Kenning og sáttmálar 121:43]“ („Behold, the Enemy Is Combined,“ Ensign, maí 1993, 78–79).

    Marion G. Romney forseti útskýrði: „Að kanna [ritningarnar] í þeim tilgangi að komast að því sem þær kenna, eins og Jesús bauð, er langt frá því það sama og að kanna þær í þeim tilgangi að finna kafla sem hægt væri að nota til að styðja fyrirframákveðna niðurstöðu“ („Records of Great Worth,“ Ensign, sept. 1980, 3).

  42. Sjá 1. Korintubréf 2:4; Moróní 6:9. Öldungur Jeffrey R. Holland lagði áherslu á nauðsyn þess að miðla fagnaðarerindi Jesú Krists á þann hátt sem leiðir til andlegrar uppbyggingar með krafti heilags anda: „Drottinn hefur aldrei gefið kirkjunni mikilvægara ráð en að við eigum að kenna fagnaðarerindið‚ með andanum, já, huggaranum, sem sendur var til að kenna sannleikann.‘ Kennum við fagnaðarerindið ,með anda sannleikans?‘ Hann hefur spurt. Eða kennum við það ‚á einhvern annan hátt? Og sé það á einhvern annan hátt,‘ aðvarar hann, ‚er það ekki frá Guði‘ [Kenning og sáttmálar 50:14, 17–18]. … Ekkert eilíft nám getur átt sér stað án þessarar lífgunar andans frá himnum. … Það er það sem meðlimir okkar vilja virkilega. … Þeir vilja styrkja trú sína og endurvekja von sína. Þeir vilja í stuttu máli vera nærðir hinu góða orði Guðs, styrkjast af krafti himins“ („A Teacher Come from God,“ Ensign, maí 1998, 26).

  43. Sjá Alma 13:23. Russell M. Nelson forseti talaði um himneskan föður og vitnaði: „Það sem frá honum kemur er einfalt, kyrrlát og svo grípandi og hreinskilið að við fáum ekki misskilið“ („Hlýð þú á hann,“ aðalráðstefna, apríl 2020).

  44. Sjá Sálmarnir 26:3; Rómverjabréfið 13:10; 1. Korintubréf 13:1–8; 1. Jóhannesarbréf 3:18.

  45. Sjá Sálmarnir 40:11.

  46. Sjá Rómverjabréfið 8:16.

  47. Sjá 1. Samúel 2:3; Matteus 6:8; 2. Nefí 2:24; 9:20.

  48. Sjá 1. Mósebók 17:1; Jeremía 32:17; 1. Nefí 7:12; Alma 26:35.

  49. Sjá Jeremía 31:3; 1. Jóhannesarbréf 4:7–10; Alma 26:37.

  50. Sjá 2. Nefí 9; Kenning og sáttmálar 20:17–31; HDP Móse 6:52–62.

  51. Sjá Jóhannes 3:16; 1. Jóhannesarbréf 4:9–10.

  52. Sjá Jóhannes 8:29; 3 Ne 27:13.

  53. Sjá Jóhannes 15:12; 1. Jóhannesarbréf 3:11.

  54. Sjá Lúkas 22:39–46.

  55. Sjá Jóhannes 19:16–30.

  56. Sjá Jóhannes 20:1–18.

  57. Sjá 1. Korintubréf 15:20–22; Mósía 15:20–24; 16:7–9; Kenning og sáttmálar 76:16–17.

  58. Sjá Postulasagan 11:17–18; 1. Tímóteusarbréf 1:14–16; Alma 34:8–10; Moróní 6:2–3, 8; Kenning og sáttmálar 19:13–19.

  59. Sjá Matteus 11:28–30; 2. Korintubréfið 12:7–10; Filippíbréfið 4:13; Alma 26:11–13.

  60. Sjá Matteus 16:18–19; Efesusbréfið 2:20.

  61. Sjá Matteus 24:24; Postulasagan 20:28–30.

  62. Sjá Kenning og sáttmálar 20:1–4; 21:1–7; 27:12; 110; 135:3; Joseph Smith – Saga 1:1–20.

  63. Sjá Kenning og sáttmálar 1:14, 38; 43:1–7; 107:91–92.