Aðalráðstefna
Við erum börn hans
Aðalráðstefna október 2023


Við erum börn hans

Við höfum öll hinn sama guðlega uppruna og sömu takmarkalausu möguleika fyrir náð Jesú Krists.

Munið þið eftir reynslu Samúels spámanns þegar Drottinn sendi hann til húss Ísaí til að smyrja nýjan konung Ísraels? Samúel sá Elíab, frumburð Ísaí. Elíab var hávaxinn og hafði yfirbragð höfðingja. Samúel sá það og dró af því ályktun. Þetta reyndist síðar vera röng ályktun en Drottinn sagði við Samúel: „Horfðu ekki á hæð hans og glæsileik … [því] maðurinn sér hið ytra en Drottinn horfir á hjartað.“1

Munið þið eftir reynslu Ananíasar þegar Drottinn sendi hann til að blessa Sál? Orðstír Sáls hafði borist út og Ananías hafði heyrt hversu grimmilega Sál hafði ofsótt lærisveinana. Ananías hafði ályktað að kannski ætti hann ekki að veita Sál þjónustu. En það reyndist röng ályktun og Drottinn sagði við hann: „Far þú, því að þennan mann hef ég valið mér að verkfæri til þess að bera nafn mitt fram fyrir heiðingja, konunga og börn Ísraels.“2

Hvert var vandamálið hjá Samúel og Ananíasi í þessum tveimur tilvikum? Þeir sáu með augunum og heyrðu með eyrunum og dæmdu eftir ytra útliti og sögusögnum.

Hvað var það sem fræðimennirnir og farísearnir sáu er þeir litu konuna augum sem drýgt hafði hór? Siðspillta konu, syndara sem átti dauða skilið. Hvað sá Jesús þegar hann leit hana augum? Konu sem um stund hafði látið undan veikleikum holdsins, en sem með iðrun og friðþægingu hans gæti hlotið fyrirgefningu. Hvað sá fólkið þegar það leit hundraðshöfðingjann augum, hvers þjónn var lamaður, hvað sáu þeir? Ef til vill sá það einhvern óboðinn, útlending eða einhvern sem það fyrirleit. Hvað sá Jesús þegar hann leit hann augum? Mann sem hafði áhyggjur af velferð heimilismeðlims sem leitaði til Drottins af einlægni og trú. Hvað sá fólkið þegar það leit konuna augum sem hafði stöðug blóðlát? Ef til vill óhreina og útskúfaða konu sem bar að sniðganga. Hvað sá Jesús þegar hann leit hana augum? Sjúka, útskúfaða og einmana konu sem enga stjórn hafði á aðstæðum sínum og vonaði að hún læknaðist og tilheyrði aftur.

Í hverju tilviki sá Drottinn þessa einstaklinga eins og þeir voru og þjónaði hverjum þeirra eftir því. Eins og Nefí og bróðir hans Jakob sögðu:

„Hann býður þeim öllum sem einum að koma til sín, … svörtum og hvítum, ánauðugum og frjálsum, karli og konu og hann minnist heiðingjanna, og allir eru jafnir fyrir Guði.“3

„Í augum hans er hver vera jafn dýrmæt annarri.“4

Látum því ekki augu okkar, eyru okkar eða ótta afvegaleiða okkur, en verum opin í hjarta og huga og þjónum þeim sem umhverfis eru eins og hann gerði.

Fyrir allnokkrum árum fékk Isabelle eiginkona mín óvenjulega köllun í hirðisþjónustu. Hún var beðin um að heimsækja eldri ekkju í deildinni okkar, systur sem glímdi við heilsuleysi og einmanaleika sem hafði biturleika í för með sér í lífi hennar. Dregið var fyrir alla glugga og íbúðin var loftlaus. Hún vildi ekki láta heimsækja sig og sagði: „Það er ekkert sem ég get gert fyrir nokkurn mann.“ Án hiks svaraði Isabelle: „Jú víst! Þú getur gert eitthvað fyrir okkur með því að leyfa okkur að heimsækja þig.“ Isabelle fór því af trúmennsku.

Nokkru seinna þurfti þessi góða systir að gangast undir skurðaðgerð á fæti, sem krafðist þess að skipta þurfti um umbúðir á hverjum degi, nokkuð sem hún gat ekki gert sjálf. Dögum saman fór Isabelle heim til hennar, þvoði fætur hennar og skipti um umbúðirnar. Hún sá aldrei ljótleikann eða fann óþefinn. Hún sá bara fallega dóttur Guðs sem þurfti ást og umhyggju.

Í áranna rás hef ég og margir aðrir hlotið blessun af þeirri gjöf Isabelle að sjá eins og Drottinn sér. Hvort sem þú ert stikuforsetinn eða heilsari deildarinnar, hvort sem þú ert konungur Englands eða býrð í kofa, hvort sem þú talar hennar tungumál eða annað mál, hvort sem þú heldur boðorðin eða átt í erfiðleikum með sum þeirra, mun hún alltaf færa þér hina bestu máltíð með sínum besta borðbúnaði. Fjárhagsstaða, húðlitur, menningarlegur bakgrunnur, þjóðerni, réttlæti þitt, þjóðfélagsstaða eða hvað annað sem einkennir þig, skiptir hana engu máli. Hún sér með hjartanu, sér barn Guðs í öllum.

Russell M. Nelson forseti kenndi:

„Andstæðingurinn gleðst yfir auðkennum, því þau auðgreina okkur og takmarka hvernig við hugsum um okkur sjálf og hvert annað. Hve sorglegt er að heiðra auðkenni meira en hvert annað.“

„Auðkenni geta leitt til dómhörku og nafnleysis. Hver einasta misþyrming eða fordómar sem beint er gegn öðrum vegna þjóðernis, kynþáttar, kynhneigð, kyns, menntagráðu, menningar eða vegna einhvers annars afgerandi auðkennis, misbýður skapara okkar!“5

Frakki er ekki sá sem ég er. Frakkland er staðurinn sem ég fæddist á. Hvítur er ekki sá sem ég er. Það er húðliturinn minn eða skortur á húðlit. Prófessor er ekki það sem ég er. Það er það sem ég gerði til að sjá fyrir fjölskyldunni minni. Aðalvaldhafi Sjötíu er ekki sá sem ég er, heldur hvar ég þjóna í ríki Guðs að þessu sinni.

„Fyrst og fremst,“ eins og Nelson forseti minnti okkur á, er ég „barn Guðs“.6 Þið líka og allir aðrir í kringum okkur. Ég bið þess að við munum læra að meta þennan undursamlega sannleika. Það breytir öllu!

Við gætum hafa alist upp við mismunandi menningu, mismunandi efnahags- og félagslegar aðstæður; jarðnesk arfleið okkar, þar með talið þjóðerni, litarháttur, matarsmekkur, stjórnmálaskoðanir og svo framvegis, getur verið mjög ólík. En við erum börn hans, við öll, án undantekninga. Við höfum öll hinn sama guðlega uppruna og sömu takmarkalausu möguleika fyrir náð Jesú Krists.

C. S. Lewis sagði: „Það er alvörumál að dvelja í samfélagi mögulegra guða og gyðja og hafa í huga að litlausasta og lítt áhugaverðasta manneskjan sem þið kunnið að ræða við geti dag einn orðið sú vera, sem þið hefðuð mikla löngun til að tilbiðja. … Ekkert fólk er venjulegt. Þið hafið aldrei talað við manneskju sem einungis er dauðleg. Þjóðir, menning, listir, siðmenning – allt er þetta jarðneskt og lífskeið þess samanborið við okkar er sem lífskeið mýflugu. En þau eru ódauðleg sem við göntumst við, vinnum með, stofnum til hjónabands með, snuprum og notfærum okkur.“7

Fjölskyldan okkar hefur notið þeirra forréttinda að lifa í mismunandi löndum og menningarheimum; börnin okkar hafa verið blessuð af því að giftast fólki af öðrum þjóðernum. Ég hef komist að því að hið endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists er hinn mikli jöfnuður á milli manna. Er við virkilega meðtökum það, „[vitnar] sjálfur andinn … með anda okkar að við erum Guðs börn“.8 Þessi mikli sannleikur frelsar okkur og öll þau auðkenni og aðgreiningar sem annars myndu hrjá okkur og samband okkar við hvert annað, myndu einfaldlega „hverfa í fögnuði … Krists“.9 Það verður fljótt ljóst að við, sem og aðrir, „[erum] ekki framar gestir og útlendingar heldur [erum við] samþegnar hinna heilögu og heimamenn Guðs“.10

Ég heyrði nýlega greinarforseta einnar fjölmenningarlegrar greinar lýsa þessu eins og öldungur Gerrit W. Gong hefur gert, sem sáttmálsaðild.11 Hve dásamlegt hugtak! Við tilheyrum hópi fólks þar sem allir reyna að hafa frelsarann og sáttmálana við hann sem þungamiðju lífs síns og lifa í gleði fagnaðarerindisins. Þess vegna, fremur en að sjá hvert annað gegnum brenglað sjóngler jarðlífsins, eykur fagnaðarerindið sjónsvið okkar og við munum sjá hvert annað gegnum gallalaust og óbreytanlegt sjóngler hinna helgu sáttmála okkar. Þannig byrjum við á því að fjarlægja okkar náttúrlegu fordóma og hlutdrægni gagnvart öðrum, sem svo aftur hjálpar þeim að minnka þeirra fordóma og hlutdrægni gagnvart okkur,12 í yndislegri hringrás dyggðar. Við skulum einmitt fylgja því sem okkar ástæri spámaður hefur boðið okkur: „Kæru bræður og systur, það skiptir miklu máli hvernig við komum fram við hvert annað! Það skiptir miklu máli hvernig við tölum við og um aðra á heimilinu, í kirkjunni, á vinnustaðnum og á netinu. Í dag bið ég okkur að hafa samskipti við aðra á æðri og helgari hátt.“13

Þennan eftirmiðdag, í anda þessa boðs, vil ég bæta heiti mínu við heiti okkar frábæru Barnafélagsbarna:

Gangir þú ei sem fólk gerir flest,

fara munu’ ýmsir burt frá þér,

ekki ég, ei ég.

Talir þú ei sem fólk gerir flest,

þá gera ýmsir gys að þér,

ekki ég, ei ég.

Ég geng með þér og tala‘

og sýni með því, að ég elska þig.

Jesús engan yfirgaf,

hann öllum sína elsku gaf,

það vil ég, vil ég.14

Ég ber því vitni að hann, sem við nefnum föður á himnum, er í reynd faðir okkar, að hann elskar okkur, að hann þekkir hvert og eitt okkar náið, að hann ber djúpa umhyggju fyrir hverju okkar og að við erum öll eins í hans augum. Ég ber því vitni að framkoma okkar við hvert annað endurspeglar skilning okkar og þakklæti okkar á hinni miklu fórn og friðþægingu sonar hans, frelsara okkar, Jesú Krists. Ég bið þess að við megum, eins og hann, elska aðra vegna þess að það er rétt að gera það, en ekki vegna þess að þau eru að gera réttu hlutina eða passa í „réttu“ mótin. Í nafni Jesú Krists, amen.