Kenningar forseta
11. Kafli: Stofnun og hlutskipti hinnar sönnu og lifandi kirkju


11. Kafli

Stofnun og hlutskipti hinnar sönnu og lifandi kirkju

„Þið vitið ekki meira um örlög þessarar kirkju og ríkis en barn í kjöltu móður. Skilningur ykkar á þessu er enginn. … Kirkjan mun fylla Norður- og Suður-Ameríku – hún mun fylla alla jörðina.“

Úr lífi Josephs Smith

Í júní 1829 lauk spámaðurinn Joseph Smith við þýðingu Mormónsbókar. Spámaðurinn sagði: „Þegar þýðingunni var að ljúka fórum við til Palmyra í Wayne-sýslu, New York, tryggðum útgáfuréttinn og sömdum við Egbert B. Grandin um að prenta fimm þúsund eintök fyrir þrjú þúsund dollara.“1 Egbert B. Grandin var ungur maður, einu ári yngri en Joseph Smith, og átti prentsmiðju í Palmyra. Hann hafði nýlega keypt sér nýja prentvél með tækni sem flýtti talsvert prentunarferlinu. Það var undravert að spámanninum skyldi takast að finna prentara í uppsveitum Palmyra, sem var fær um að prenta jafn mikið upplag af svo stórri bók sem Mormónsbók er. Þar eð prentun Mormónsbókar var umfangsmikið og kostnaðarsamt verk veðsetti Martin Harris sveitabýli sitt til Grandin, til tryggingar á greiðslu fyrir prentunina.

Í lok sumars 1829 komu Joseph Smith og Martin Harris og nokkrir aðrir saman í prentsmiðjunni til þess að skoða uppsetningu á titilsíðu Mormónsbókar, sem var fyrsta síða bókarinnar sem prenta átti. Þegar spámaðurinn hafði staðfest að hann væri ánægður með útlit síðunnar, var prentuninni haldið áfram eins hratt og mögulegt var. Það tók um sjö mánuði að ljúka verkinu og 26. mars 1830 var Mormónsbók aðgengileg almenningi.

Þegar þýðingu og útgáfu Mormónsbókar var lokið, hélt Joseph Smith áfram að skipuleggja kirkjuna. Í opinberuninni í 20. kafla Kenningar og sáttmála benti Drottinn Joseph Smith „nákvæmlega á þann dag, sem við, samkvæmt vilja hans og fyrirmælum, skyldum stofna kirkju hans aftur hér á jörðu.“2 Sá ákveðni dagur var 6. apríl 1830.

Spámaðurinn sagði: „Við… sögðum bræðrunum að við hefðum fengið fyrirmæli um að stofna kirkjuna, og í þeim tilgangi komum við (sex manns) saman á heimili Peters Whitmer eldri, á þriðjudegi, sjötta degi aprílmánaðar, átján hundruð og þrjátíu e.Kr.“3 Nærri 60 manns komu saman í húsi Whitmers í Fayette, New York, og fylltu þar algjörlega tvö herbergi. Sex hinna viðstöddu voru formlegir stofnendur hinnar nýju kirkju, til að uppfylla lagaskilmála New York, en þeir voru spámaðurinn Joseph Smith, Oliver Cowdery, Hyrum Smith, Peter Whitmer yngri, Samuel Smith og David Whitmer.4

Þótt kirkjan hafi verið afar fámenn í upphafi, hlaut Joseph Smith spámannlegan skilning á mikilfenglegu hlutskipti hennar. Wilford Woodruff minntist þess að spámaðurinn hafi reynt að koma bræðrunum í skilning um framtíðarstöðu Guðs ríkis á jörðu á prestdæmisfundi sem haldinn var í Kirtland, Ohio, í apríl 1834:

„Spámaðurinn kallaði alla þá sem höfðu prestdæmið saman í litlum bjálkakofa, skóla er þar var. Húsið var aðeins um 16 fermetrar að stærð. En þar komust fyrir allir prestdæmishafar Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, sem þá voru í Kirtland. … Þegar við komum saman, bað spámaðurinn öldunga Ísraels að gefa með sér vitnisburð sinn um þetta verk. … Þegar þeir höfðu lokið því sagði spámaðurinn: ,Bræður, ég hef uppbyggst og fræðst heilmikið af vitnisburði ykkar hér í kvöld, en ég vil segja ykkur frammi fyrir Drottni, að þið vitið ekki meira um örlög þessarar kirkju og ríkis en barn í kjöltu móður. Þið náið ekki að skilja þau.‘ Ég varð fremur undrandi. Hann sagði: ,Hér í kvöld sjáið þið aðeins örfáa prestdæmishafa, en kirkjan mun fylla Norður- og Suður-Ameríku – hún mun fylla alla jörðina.‘ “5

Kenningar Josephs Smith

Hin sanna kirkja Jesú Krists var stofnuð af Joseph Smith í ráðstöfun fyllingar tímanna.

Joseph Smith skýrði frá atburðunum á fundinum sem haldinn var 6. apríl 1830 til stofnunar kirkjunnar: „Eftir að hafa byrjað fundinn með hátíðlegri bæn til himnesks föður, héldum við honum áfram, samkvæmt fyrri fyrirmælum, og báðum bræðurna að greina frá því hvort þeir samþykktu okkur sem kennara sína í ríki Guðs og væru sáttir við að halda áfram stofnun kirkjunnar, samkvæmt áðurgreindum fyrirmælum sem okkur höfðu verið veitt. Þeir samþykktu það með samhljóða atkvæðum.

Ég lagði hendur mínar á höfuð Olivers Cowdery og vígði hann sem öldung ,Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu;‘ og þar næst vígði hann mig einnig til embættis öldungs í þeirri sömu kirkju. Við tókum síðan brauð, blessuðum það, og brutum það með þeim; einnig vín, blessuðum það, og drukkum það með þeim. Við lögðum síðan hendur á höfuð sérhvers viðstadds meðlims kirkjunnar, svo að þeir mættu meðtaka gjöf heilags anda og verða staðfestir sem meðlimir kirkju Krists. Heilögum anda var úthellt yfir okkur afar ríkulega – og sumir spáðu, meðan við lofuðum öll Drottin, og fögnuðum ákaflega. …

Við héldum áfram að kalla og vígja aðra bræður í hin mismunandi embætti prestdæmisins, samkvæmt því sem andinn staðfesti okkur. Og eftir að við höfðum notið þessarar gleðistundar, upplifað kraft og blessanir heilags anda, sem veittist okkur fyrir náð Guðs, slitum við fundinum með þeirri ánægjulegu vitneskju að við værum nú viðurkennd af Guði sem meðlimir ,Kirkju Jesú Krists,‘ er stofnuð var samkvæmt þeim fyrirmælum og opinberunum sem hann veitti okkur á síðari dögum, og einnig samkvæmt skipulagi kirkjunnar, líkt og skráð er í Nýja testamentinu.“6

Á fyrstu aðalráðstefnu kirkjunnar, sem haldin var í Fayette, New York, hinn 9. júní 1830, var sakramentið þjónustað, nokkrir voru flar staðfestir sem meðlimir kirkjunnar, aðrir vígðir í emboetti prestdæmisins, og heilögum anda var úthellt yfir hina heilögu. Spámaðurinn Joseph Smith skráði: „Reynsla sem þessi fyllti hjörtu okkar af ómældri gleði og ótta og lotningu fyrir þessari almáttugu veru, en fyrir náð hennar vorum við kallaðir sem verkfæri við að færa mannanna börnum slíkar gleðilegar og dýrðlegar blessanir, sem þær er úthellt var yfir okkur á þessari stundu. Að fá að taka þátt í sama skipulagi og hinir fornu postular gerðu, að gera sér grein fyrir mikilvægi og hátíðaleika þeirrar framvindu, og sjá og upplifa sömu dýrðlegu staðfestinguna á krafti prestdæmisins, gjafir og blessanir heilags anda, og gæsku og lítillæti hins miskunnsama Guðs, allt vakti það með okkur þakklætissælu og fyllti okkur nýjum eldmóði og brennandi áhuga á málstað sannleikans.“7

Kirkja Krists er stofnuð samkvæmt reglu Guðs.

„Kristur var höfuð kirkjunnar, aðalhyrningasteinninn og hinn andlegi klettur sem kirkjan var byggð á, og máttur heljar skal ekki á henni sigrast [sjá Matt 16:18; Ef 2:20]. Hann byggði upp ríkið, valdi postula og vígði þá Melkísedeksprestdæminu og veitti þeim kraft til að þjóna í helgiathöfnum fagnaðarerindisins.“8

„ ,Og frá … [Kristi] er sú gjöf komin, að sumir eru postular, sumir spámenn, sumir trúboðar, sumir hirðar og kennarar‘ [Ef 4:11]. Og hvernig voru postular, spámenn, hirðar og trúboðar valdir? Með spádómi (opinberun) og með handayfirlagningu – með guðlegum samskiptum og guðlega tilnefndri helgiathöfn – fyrir tilstilli prestdæmisins, stofnað að reglu Guðs, að guðlegri skipan.“9

„[Mormónsbók] segir frá því er frelsari okkar birtist í þessari heimsálfu [Ameríku] eftir að hann var upprisinn; að hann hafi stofnsett þar fagnaðarerindið í allri fyllingu þess, auðlegð, mætti og blessun; að fólkið þar hafi haft postula, spámenn, hirða, kennara og trúboða, sömu regluna, sama prestdæmið, sömu helgiathafnirnar, gjafirnar og blessanirnar, og fólkið naut í Austurálfu.“10

„Guðspjallamaður er patríarki. … Hvar sem kirkja Krists er stofnsett á jörðinni, ætti patríarki að vera hinum heilögu til góðs, líkt og með Jakob er hann veitti sonum sínum patríarkablessun.“11

Trúaratriðin 1:16: „Vér höfum trú á sama skipulagi og var í frumkirkjunni, þ.e. postulum, spámönnum, hirðum, fræðurum, guðspjallamönnum og svo framvegis.“12

Kirkjan er leidd af Æðsta forsætisráðinu, Tólfpostulasveitinni og sveitum hinna Sjötíu.

„Ég hef staðfasta trú á spámönnum og postulum, með Jesú Krist sem aðalhyrningarstein, og þann sem kenndi líkt og sá er valdið hafði meðal þeirra, en ekki eins og fræðimennirnir.“13

„Forsetarnir, eða [Æðsta] forsætisráðið er yfir kirkjunni, og opinberanir um huga og vilja Guðs fyrir kirkjuna fær það forsætisráð. Þetta er regla himins og kraftur og forréttindi [Melkísedeks] prestdæmisins.“14

„Hvaða mikilvægi þáttur felst í köllun postulanna tólf, sem er ólíkur öðrum köllunum og embættum kirkjunnar? … Þeir eru postularnir tólf, sem kallaðir eru í embætti farand-háráðsins, sem er í forsæti kirkju hinna heilögu. … Þeir hafa lykla þessarar þjónustu, til að ljúka upp dyrum himnaríkis fyrir öllum þjóðum og prédika fagnaðarerindið fyrir öllum mönnum. Það er kraftur, vald, og eðli postuladóms þeirra.“15

Orson Pratt, sem þjónaði í Tólfpostulasveitinni, skýrði svo frá: „Drottinn … gaf fyrirmæli um að stofnsetja skyldi Tólfpostulasveitina, sem hefði það hlutverk að prédika fagnaðarerindið öllum þjóðum, fyrst til Þjóðanna og síðan Gyðinganna. Prestdæmið var kallað saman eftir að Kirtland-musterið var reist, og spámaðurinn Joseph Smith sagði, í tengslum við postulana tólf, að þeim væri veittur postuladómur, ásamt öllum krafti hans, rétt eins og postulunum til forna.“16

Wilford Woodruff, fjórði forseti kirkjunnar, skýrði svo frá: „Joseph kallaði tólf postula. Hverjir voru þeir? Drottinn sagði við hann: ,Og hinir tólf eru þeir, sem þrá munu af öllu hjarta að taka á sig nafn mitt. Og þrái þeir af öllu hjarta að taka á sig nafn mitt, þá eru þeir kallaðir til að fara út um allan heim og prédika fagnaðarboðskap minn hverri skepnu.‘ [K&S 18:27–28.] … Þegar spámaðurinn Joseph stofnsetti Tólfpostulasveitina, kenndi hann postulunum að vera einhuga. Hann bauð þeim að skilja, að þeir yrðu að vera eitt í hjarta og huga og taka að fullu á sig nafn Krists; að ef Guð gæfi þeim fyrirmæli um að gera eitthvað, yrðu þeir að gera það.“17

„Hinir Sjötíu mynda farand-sveitir er fara um alla jörðina, hvert sem postularnir tólf bjóða þeim að fara.“18

„Hinir Sjötíu eru ekki kallaðir til að þjóna fyrir borðum [sjá Post 6:1–2] … heldur til að prédika fagnaðarerindið og byggja upp [söfnuðina], og kalla aðra sem ekki tilheyra þessari sveit, sem eru háprestar, til að vera í forsæti [safnaðanna]. Hinum Tólf er einnig ætlað að … hafa lyklana að ríkinu fyrir allar þjóðir og ljúka upp dyrum fagnaðarerindisins fyrir þeim og kalla hina Sjötíu til að fylgja sér og liðsinna.“19

Þótt myrkravöldin leitist við að tortíma kirkjunni, „fær engin vanheilög hönd stöðvað framrás þessa verks.“

„Frá stofnun kirkju Krists, … hinn 6. apríl 1830, höfum við notið þeirrar ánægju að vera vitni að útbreiðslu sannleikans á mörgum svæðum í landi okkar, þó að óvinir hafi stöðugt reynt að stöðva verkið og framrás þess, þó að vondir og undirförulir menn hafi sameinast um að eyða hinum saklausu, … þrátt fyrir það breiðist hið dýrðlega fagnaðarerindi út í fyllingu sinni og snýr fólki dag hvern til trúar. Og bæn okkar til Guðs er sú, að verk þetta megi halda áfram og fjöldi fólks megi frelsast að eilífu.“20

„Merki sannleikans hefur verið reist. Engin vanheilög hönd fær stöðvað framrás þessa verks; ofsóknir kunna að herja, múgur sameinast gegn því, herir safnast saman, óhróður breiðast út, en sannleikur Guðs mun sækja fram óháður, ákveðinn og göfugur, þar til hann hefur farið um hvert meginland, vitjað hvers lands, þrætt hvert hérað og hljómað í hverju eyra, þar til tilgangi Guðs er náð og hinn mikli Jehóva segir að verkinu sé lokið.“21

„Og [frelsarinn] sagði þeim aðra dæmisögu, með skírskotun til ríkisins sem yrði stofnað rétt fyrir uppskerutímann eða samhliða honum, en þar segir: ,Líkt er himnaríki mustarðskorni, sem maður tók og sáði í akur sinn. Smæst er það allra sáðkorna, en nær það vex, er það öllum jurtum meira, það verður tré, og fuglar himins koma og hreiðra sig í greinum þess.‘ [Matt 13:31–32.] Við sjáum greinilega að þessi dæmisaga er gefin til tákns um það hvernig framrás kirkjunnar verður á síðustu dögum. Sjá, líkt er um það og himnaríki. En, hvað má líkja því við?

Líkjum Mormónsbók við mustarðskorn, sem maður nokkur gróðursetti á akri sínum og varðveitti í trú, að það mætti spretta upp á síðustu dögum, eða á tilsettum tíma. Gerum ráð fyrir að mustarðskornið, sem vissulega er talið minnst allra sáðkorna, taki að vaxa upp úr jörðinni og fari að spíra og mynda greinar, já, og verða að stóru, gróskumiklu og tignarlegu tré, og verða eins og mustarðskornið stærst allra jurta. Og það er sannleikur, að hún hefur sprottið úr jörðu, og réttlæti lítur niður af himni [sjá Sálm 85:12; HDP Móse 7:62], og Guð er þegar að senda niður kraft sinn, gjafir, og engla, er hreiðra um sig í greinum þess.

Líkt er himnaríki mustarðskorni. Sjá, er þetta þá ekki himnaríki, sem upp er að rísa á síðustu dögum í hátign Guðs, jafnvel kirkja hinna Síðari daga heilögu, líkt og óbifanlegur og fastur klettur í hinu djúpa hafi, berskjaldaður fyrir stormum og ofviðrum Satans, en fram til þessa hefur staðið af sér alla raun og býður enn fjallháum öldum mótlætis birginn, er láta stjórnast af skaðlegum illviðrisstormum og skella af ógnarafli hins löðrandi brims á óhagganlegu berginu, knúnar áfram af miklum ótta óvinar alls réttlætis?“22

Í vígslubæn Kirtland-musterisins, sem síðar var skráð í Kenningu og sáttmálum 109:72–76, sagði spámaðurinnJoseph Smith m. a: „Minnst þú allra safnaða þinna, ó Drottinn, ásamt öllum fjölskyldum þeirra og allra þeirra nánustu, ásamt öllum þeirra sjúku og aðþrengdu og öllum fátækum og hógværum á jörðunni, svo að ríkið, sem þú hefur reist án þess að mannshöndin snerti það, verði að stóru fjalli og fylli alla jörðina – Og kirkja þín komi út úr eyðimörk myrkursins og ljómi björt sem máninn og heið sem sólin, og ógnvekjandi sem her undir merkjum – Og verði prýdd sem brúður fyrir þann dag, þegar þú munt afhjúpa himnana og láta fjöllin hjaðna og dalina upphefjast við návist þína, og hamrana verða að dalgrundum, svo að dýrð þín fylli jörðina. Að þegar lúðurinn hljómar fyrir hina dánu, verðum vér hrifin burt í skýinu til móts við þig, að vér megum ætíð vera með Drottni – að klæði vor verði hrein, að vér megum íklæðast skikkjum réttlætisins, með pálma í höndum vorum og dýrðarkórónur á höfðum vorum, og fáum uppskorið eilífa gleði fyrir allar þjáningar vorar.“23

Við berum öll þá ábyrgð að efla kirkjuna og gera okkar hlut við að byggja upp ríki Guðs.

„Málstaður Guðs er sameiginlegur málstaður, þar sem hinir heilögu eiga allir jafna hagsmuni. Við tilheyrum öll einum líkama, erum meðtakendur sama anda, erum skírð einni skírn og búum yfir hinni sömu dýrðlegu von. Framvinda málstaðar Guðs og uppbygging Síonar er nokkuð sem varðar okkur öll jafnt. Sá eini munur er þar á, að ein manneskja er kölluð til að uppfylla ákveðna skyldu og önnur aðra. ,Og hvort heldur einn limur þjáist, þá þjást allir limirnir með honum, eða einn limur er í hávegum hafður, samgleðjast allir limirnir honum. Augað getur ekki sagt við [eyrað] … : Ég þarfnast þín ekki! né heldur höfuðið við fæturna: Ég þarfnast ykkar ekki!‘ Flokkadráttur, sérhagsmunir og einstaklingshyggja ættu ekki að þekkjast í hinum sameiginlega málstað, sem er öllum til heilla [sjá 1 Kor 12:21, 26].“24

„Bræður og systur, verið staðföst, verið kostgæfin, sækist í einlægni eftir þeirri trú sem eitt sinn var veitt hinum heilögu [sjá Júd 1:3]. Sjáið til þess að hver karl, kona og barn hljóti skilning á þessu mikilvæga verki og breyti líkt og velgengni þess væri aðeins undir þeirra eigin framtaki komin. Vekið áhuga allra á því og hugleiðið síðan að við njótum þess sama og lífgaði hjörtu konunga, spámanna og réttlátra manna sem uppi voru fyrir þúsundum ára – þess sama og blés þeim í brjóst ljúfustu söngvana og fegurstu sálmana, og fékk þá til að syngja þá lofgjörðarsöngva sem í ritningunum eru, og sem við svo oft finnum okkur knúin til að syngja með innblæstri –

,Drottinn hefur aftur fært oss Síon,

Drottinn hefur endurleyst þjóð sína, Ísrael.‘ [K&S 84:99.]“25

Líkt og Wilford Woodruff gat um, þá lýsti Joseph Smith yfir við hina Tólf, sem voru að fara í trúboð til Stóra Bretlands árið 1839: „Réttið úr bakinu og berið hvað eina sem yfir ykkur kann að koma, og styðjið ætíð og verjið hagsmuni kirkju og ríkis Guðs.“26

Ábendingar um nám og kennslu

Íhugið þessar hugmyndir er þið lærið þennan kafla eða búið ykkur undir kennslu. Sjá bls. vii–xii til frekari leiðsagnar.

  • Ímyndið ykkur hvernig það væri að hafa verið á prestdæmisfundinum sem getið er um á bls. 135. Hvernig teljið þið að ykkur hefði liðið við að heyra Joseph Smith spá því að dag einn myndi kirkjan fylla jörðina? Hverjar eru tilfinningar ykkar eða hugsanir, er þið hugleiðið uppfyllingu spádómsins nú?

  • Lesið bls. 136–37, og veitið athygli því sem gert var við stofnun kirkjunnar og á fyrstu aðalráðstefnunni. Joseph Smith sagði, „Reynsla sem þessi fyllti hjörtu okkar af ómældri gleði, og ótta og lotningu fyrir [Guði]“ (bls. 136). Hvenær hafið þið upplifað þá tilfinningu sem Joseph Smith lýsti?

  • Lesið kenningar Josephs Smith um kirkjuna á tímum Jesú og Mormónsbókar (bls. 136–37). Hvernig fylgir kirkjan sama munstri í dag?

  • Hvers vegna teljið þið að við þörfnumst þess að leiðtogar séu í forsæti heimskirkjunnar? (Sjá dæmi bls. 138–39.) Hvernig hafið þið notið blessana af Æðsta forsætisráðinu, Tólfpostulasveitinni, sveitum hinna Sjötíu og Yfirbiskupsráðinu?

  • Hverjar eru hugsanir ykkar eða tilfinningar þegar þið lesið spádóma Josephs Smith varðandi örlög kirkjunnar? (Sjá bls. 140–41.) Hvernig getum við tekið þátt í þessu verki? (Sjá dæmi á bls. 141–43.)

  • Joseph Smith kenndi: „Sjáið til þess að hver karl, kona og barn hljóti skilning á þessu mikilvæga verki, og breyti líkt og velgengni þess sé aðeins undir þeirra eigin framtaki komið“ (bls. 142). Hugleiðið hvernig þið getið tileinkað ykkur þessa leiðsögn.

  • Hvað segðuð þið, ef þið væruð spurð að því af hverju þið væruð meðlimir í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu?

Ritningargreinar tengdar efninu: Dan 2:31–45; Mósía 18:17–29; K&S 20:1–4; 65:1–6; 115:4–5

Heimildir

  1. History of the Church, 1:71; úr “History of the Church” (handrit), bók A-1, bls. 34, Skjalasafn kirkjunnar, Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, Salt Lake City, Utah.

  2. History of the Church, 1:64; úr “History of the Church“ (handrit), bók A-1, bls. 29, Skjalasafn kirkjunnar.

  3. History of the Church, 1:75–77; úr “History of the Church” (handrit), bók A-1, bls. 37, Skjalasafn kirkjunnar.

  4. Lög New York kröfðust þess að þrír til níu menn skipulegðu eða sinntu erindum kirkjunnar. Spámaðurinn valdi sex menn.

  5. Wilford Woodruff, í Conference Report, apríl 1898, bls. 57; stafsetning færð í nútímahorf.

  6. History of the Church, 1:77–79; greinaskilum bætt við; úr “History of the Church” (handrit), bók A-1, bls. 37–38, Skjalasafn kirkjunnar.

  7. History of the Church, 1:85–86; úr “History of the Church” (handrit), bók A-1, bls. 42, Skjalasafn kirkjunnar.

  8. Fyrirlestur sem Joseph Smith hélt 23. júlí 1843, í Nauvoo; Joseph Smith, Collection, Addresses, 23. júlí 1843, Skjalasafn kirkjunnar.

  9. History of the Church, 4:574; úr “Try the Spirit,” ritstjórnargrein birt í Times and Seasons, 1. apríl 1842, bls. 744–45; Joseph Smith var ritstjóri tímaritsins.

  10. History of the Church, 4:538; úr bréfi frá Joseph Smith, skrifað að beiðni Johns Wentworth og George Barstow, Nauvoo, Illinois, birt í Times and Seasons, 1. mars 1842, bls. 707–8.

  11. History of the Church, 3:381; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 27. júní 1839, í Commerce, Illinois; skráð af Willard Richards.

  12. Trúaratriðin 1:6.

  13. Bréf frá Joseph Smith til Isaac Galland, 22. mars 1839, Libertyfangelsi, Liberty, Missouri, gefið út í Times and Seasons, febr. 1840, bls. 53; stafsetning færð í nútímahorf.

  14. History of the Church, 2:477; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 6. apríl 1837 í Kirtland, Ohio; skráð af Messenger and Advocate, apríl 1837, bls. 487.

  15. History of the Church, 2:200; greinaskilum bætt við; úr fundagerðabók kirkjuráðs, frá 27. febr. 1835, í Kirtland, Ohio; skráð af Oliver Cowdery.

  16. Orson Pratt, Millennial Star, 10. nóvember 1869, bls. 732.

  17. Wilford Woodruff, Deseret Weekly, 30. ágúst 1890, bls. 306; stafsetning færð í nútímahorf.

  18. History of the Church, 2:202; úr “History of the Church” (handrit), bók B-1, bls. 577, Skjalasafn kirkjunnar.

  19. History of the Church, 2:431–32; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 30. mars 1836, í Kirtland, Ohio.

  20. History of the Church, 2:22; úr “The Elders of the Church in Kirtland, to Their Brethren Abroad,” 22. janúar 1834, birt í Evening and Morning Star, apríl 1834, bls. 152.

  21. History of the Church, 4:540; úr bréfi frá Joseph Smith, skrifað að beiðni Johns Wentworth og George Barstow, Nauvoo, Illinois, birt í Times and Seasons, 1. mars 1842, bls. 709.

  22. History of the Church, 2:268; lokaorð í sviga upprunaleg; stafsetning færð í nútímahorf; úr bréfi frá Joseph Smith til öldunga kirkjunnar, des. 1835, Kirtland, Ohio, gefið út í Messenger and Advocate, des. 1835, bls. 227.

  23. Kenning og sáttmálar 109:72–76; bæn flutt af Joseph Smith 27. mars 1836, við vígslu Kirtland-musterisins, Ohio.

  24. History of the Church, 4:609; úr “The Temple,” ritstjórnargrein birt í Times and Seasons, 2. maí 1842, bls. 776; Joseph Smith var ritstjóri tímaritsins.

  25. History of the Church, 4:214; úr bréfi frá Joseph Smith og ráðgjöfum hans í Æðsta forsætisráðinu, 4. okt. 1840, Nauvoo, Illinois, birt í Times and Seasons, okt. 1840, bls. 188.

  26. Tilvitnun Wilfords Woodruff, Deseret News: Semi-Weekly, 20. mars 1883, bls. 1.

Ljósmynd
printing press

Í lok sumars 1829 komu Joseph Smith og Martin Harris og nokkrir aðrir saman í prentsmiðjunni til þess að skoða uppsetningu á titilsíðu Mormónsbókar, sem var fyrsta síða bókarinnar sem prenta átti.

Ljósmynd
organization of Church

Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu var formlega stofnuð á heimili Peters Whitmer eldri af spámanninum Joseph Smith hinn 6. apríl 1830 í Fayette, New York. Hin síðari daga kirkja er skipulögð á sama hátt og kirkjan var á tíma frelsarans, með „postulum, spámönnum, hirðum, kennurum, trúboðum, o. s. frv. “

Ljósmynd
Sunday School

„Framvinda málstaðar Guðs og uppbygging Síonar er nokkuð sem varðar okkur öll jafnt. Sá eini munur er þar á, að ein manneskja er kölluð til að uppfylla ákveðna skyldu og önnur aðra.”