Kenningar forseta
22. kafli: Öðlast þekkingu á eilífum sannleika


22. kafli

Öðlast þekkingu á eilífum sannleika

„Maðurinn frelsast ekki hraðar en hann vex að visku“

Úr lífi Josephs Smith

George Q. Cannon skrifaði: „Spámaðurinn Joseph Smith hafði unun af því að læra, hann hafði unun af þekkingu og hinum réttláta mætti hennar. Í þeim þrengingum sem umluktu hann, allt frá því að hann gerði hinum efablandna heimi ljós samskipti sín við himininn, var hann stöðugt að afla sér þekkingar og visku. Drottinn bauð honum að læra og hann hlýddi. … Hugur hans, sem heilagur andi lífgaði, meðtók fúslega allar hinar sönnu reglur og hann náði fullkomlega stjórn á þeim greinum, einni af annarri, og varð kennari í þeim.“1

Árið 1833 hlaut spámaðurinn og hópur hinna heilögu einstakt tækifæri til að læra fagnaðarerindið. Í janúar á sama ári stofnaði spámaðurinn samkvæmt boði Drottins (sjá K&S 88:127–41), Skóla spámannanna, til að kenna þeim sem höfðu prestdæmið þjónustuverk sín og búa þá undir að prédika fagnaðarerindið. Skólinn var til húsa í herbergi á annarri hæð í verslun Newels K. Whitney, þar sem spámaðurinn bjó. Um 25 bræður sóttu skólann, sumir þurftu að ferðast hundruð kílómetra til að hljóta þau forréttindi að læra fagnaðarerindið í herbergi sem aðeins var 3,30 x 4,20 metrar að stærð. Margir þessara manna urðu postular, hinir Sjötíu og aðrir leiðtogar kirkjunnar. Þótt spámaðurinn og hinir bræðurnir hafi endrum og eins lært málnotkun, einbeittu þeir sér fyrst og fremst að því að læra kenningar fagnaðarerindisins af kostgæfni, allt frá því snemma morguns til síðla kvölds. Skólinn stóð yfir í fjóra mánuði og álíka skólar voru síðar í Kirtland og einnig í Missouri, þar sem hundruð manna sótti þá.

Á fundi í skólanum, sem haldinn var 27. febrúar 1833, hlaut spámaðurinn mikilvæga opinberun. Á upphafsárum kirkjunnar var neysla á áfengi, tóbaki, kaffi og te almenn í samfélaginu og á meðal meðlima kirkjunnar. Spámaðurinn varð áhyggjufullur er hann sá bræðurna nota tóbak í skólanum. Brigham Young sagði: „Það fyrsta sem þeir gerðu eftir að þeir komu saman í herberginu að loknum morgunmat, var að kveikja í pípum sínum og meðan þeir reyktu þær ræddu þeir um stórkostlega hluti ríkisins. … Þegar spámaðurinn gekk inn í herbergið til að veita þeim fræðslu, var hann oft umlukinn tóbakssvælu. Það, og kvartanir eiginkonu hans yfir að þrífa ógeðslegt gólfið [vegna munntóbaksins], olli því að spámaðurinn tók að íhuga málið vandlega og spyrja Drottin um tóbaksneyslu öldunganna, sem síðan leiddi til opinberunarinnar sem nefnd er Vísdómsorðið.“2

Milljónir manna hafa fylgt leiðsögn þessarar opinberunar og hlotið stundlegar og andlegar blessanir, og þar að auki er þeim sem ganga í hlýðni við boðorð Guðs lofað því að hljóta „vísdóm og mikinn þekkingarauð“ (K&S 89:19).

Dýrmætri andlegri þekkingu var úthellt yfir þá bræður sem sóttu Skóla spámannanna og þeir tóku miklum framförum í skilningi á fagnaðarerindinu. Á fundi sem haldinn var í skólanum 18. mars 1833 voru þeir Sidney Rigdon og Frederick G. Williams settir í embætti sem ráðgjafar spámannsins í Æðsta forsætisráðinu. Að því loknu „hvatti spámaðurinn bræðurna til að halda boðorð Guðs af trúfesti og kostgæfni og veitti þeim tilsögn hinum heilögu til farsældar, með því loforði að hinir hjartahreinu myndu sjá himneska sýn. Og eftir að þeir höfðu beðist hljóðlega fyrir stutta stund, var loforðið staðfest, því andi Guðs lauk upp augum skilnings margra hinna viðstöddu og þeir sáu marga hluti. … Margir bræðranna sáu frelsarann í himneskri sýn, herskara engla og margt annað.“3

Spámaðurinn sagði: „Mikil gleði og ánægja ríkti í Skóla spámannanna, og meðal hinna heilögu, vegna þess sem opinberað var, og vegna framfara okkar í þekkingunni á Guði.“4

Kenningar Josephs Smith

Fagnaðarerindi Jesú Krists geymir allan sannleika; hinir trúföstu meðtaka þann sannleika sem Guð hefur opinberað og láta af röngum hefðum.

„Mormónismi er sannleikur, og allir þeir sem meðtaka hann upplifa sig frjálsa til að meðtaka sérhvern sannleika. Þar af leiðandi falla fjötrar hjátrúar, þröngsýni, fáfræði og prestaslægðar af hálsi þeirra, og augu þeirra ljúkast upp fyrir sannleikanum og sannleikurinn vinnur stóran sigur á prestaslægðinni. …

… Mormónismi er sannleikur, eða, með öðrum orðum, kenning hinna Síðari daga heilögu er sannleikur. … Fyrsta grundvallarkenning okkar helgu trúarbragða er sú, að við höfum trú á þeim rétti að geta meðtekið allan sannleikann, hvern þátt hans, án takmarkana eða hafta, eða banna frá trúarskoðunum hjátrúarfullra manna, eða vegna yfirráða annarra, sé sá sannleikur greinilegur og augljós í huga okkar og við höfum fyllstu sönnun á þeim sannleika.“5

Í janúar 1843 átti Joseph Smith samræður við ákveðið fólk sem ekki tilheyrði kirkjunni: „Ég sagði að það sem greindi hina Síðari daga heilögu frá öðrum trúarsöfnuðum væri sú afstaða hinna síðarnefndu að takmarka trú sína, sem svipti þá réttinum til að trúa einhverju sem ekki er í trúarjátningu þeirra, en Síðari daga heilagir … gangast fúslega við öllum sönnum kenningum, sem opinberaðar eru frá einum tíma til annars.“6

„Ég get ekki gengist undir nokkra trúarjátningu hinna ýmsu trúarsafnaða, vegna þess að í þeim öllum er eitthvað sem ég get ekki fallist á, þótt í þeim öllum sé einhvern sannleika að finna. Ég vil ganga inn til návistar Guðs og læra alla hluti, en þær trúarjátningar sem setja [takmarkanir] með því að segja: ,Hingað skaltu komast og ekki lengra‘ [Job 38:11], get ég ekki gengist undir.“7

„Ég segi við alla þá sem hneigjast til þess að setja almættinu skorður: Þið munuð ekki hljóta dýrð Guðs. Til að verða samarfar sonarins, verða menn að láta af öllum röngum hefðum.“8

„Það er stórkostlegt fyrir okkur að vita að við getum hlotið skilning á því sem Guð innleiddi fyrir grundvöllun heimsins. Hver veit það? Það er eðlislæg tilhneiging mannkyns að setja verki hins almáttuga skorður. … Það sem hulið hefur verið allt frá grundvöllun heimsins er opinberað börnum og brjóstmylkingum á hinum síðari dögum [sjá K&S 128:18].“9

„Þegar menn ljúka upp munni sínum gegn [sannleikanum] skaða þeir ekki mig, heldur sjálfa sig. … Þegar veikgeðja menn fara hugsunarlaust léttilega með eitthvað afar mikilvægt, vil ég sjá sannleikann í öllu sínu veldi og taka fagnandi á móti honum. Ég trúi öllu því sem Guð hefur opinberað og hef aldrei orðið þess áskynja að menn séu fordæmdir fyrir of mikla trú, en þeir sem vantrúaðir eru verða fordæmdir.“10

„Þegar Guð býður einhverjum blessun eða þekkingu og sá hinn sami neitar að taka á móti henni, kallar hann yfir sig fordæmingu. Ísraelsmenn báðu þess að Guð talaði til Móse en ekki til þeirra, sem varð til þess að hann setti þá undir holdleg boðorð.“11

„Ég hef ávallt notið þess að sjá sannleikann sigra villuna og myrkrið hörfa undan ljósinu.“12

Þekking á eilífum sannleika er nauðsynleg til sáluhjálpar.

„Þekking er nauðsynleg fyrir lífið og guðrækni. Vei sé þeim prestum og klerkum sem prédika að þekking sé ekki nauðsynleg til lífs og sáluhjálpar. Takið burtu postula, þekkingu, o. þ. h., og þið munuð komast að raun um að þið verðskuldið fordæmingu helju. Þekking er opinberun. Hlýðið allir bræður á þetta mikla lykilatriði: Þekking er kraftur Guðs til sáluhjálpar.“13

„Þekking eyðir myrkri, óvissu og vantrú, því það fær ekki þrifist í þekkingu. … Þekking er máttur. Guð er máttugri en allar aðrar verur, vegna þess að hann býr yfir meiri þekkingu, og hann veit því hvernig ríkja á yfir öðrum verum. Hann hefur mátt yfir öllu.“14

„Ef við fjarlægjumst Guð, munum við gefa okkur djöflinum á vald og missa þekkingu, og án þekkingar getum við ekki frelsast og séu hjörtu okkar full illsku, og við tileinkum okkur hið illa, er ekkert rúm fyrir hið góða í hjörtum okkar, eða að tileinka sér hið góða. Er Guð ekki góður? Þá skalt þú vera góður, ef hann er trúfastur, ver þú þá trúfastur. Bættu við trú þína dyggð, við dyggð þína þekkingu og leitaðu að öllu hinu góða [sjá 2 Pét 1:5].

… Maðurinn frelsast ekki hraðar en hann vex að visku, því ef hann hlýtur ekki þekkingu, verður hann ánauðugur illum öflum í hinum heiminum, þar sem illir andar þar munu búa yfir meiri þekkingu, og þar af leiðandi meiri mætti en margir þeirra manna sem á jörðinni eru. Við þörfnumst því opinberunar okkur til hjálpar og til að veita okkur þekkingu á því sem Guðs er.“15

Joseph Smith kenndi eftirfarandi í apríl 1843, sem síðar var skráð í Kenningu og sáttmála 130:18–19: „Hvert það vitsmunastig, sem við öðlumst í þessu lífi, mun fylgja okkur í upprisunni. Og hljóti einhver, fyrir kostgæfni sína og hlýðni, meiri þekkingu og vitsmuni í þessu lífi en annar, mun hann standa sem því nemur betur að vígi í komandi heimi.“16

Joseph Smith kenndi eftirfarandi í maí 1843, sem síðar var skráð í Kenningu og sáttmála 131:6: „Ógerlegt er að maðurinn frelsist í vanþekkingu.“17

Við hljótum þekkingu á eilífum sannleika með því að biðja og læra af kostgæfni.

Þegar George A. Smith þjónaði í Æðsta forsoetisráðinu sagði hann: „Joseph Smith kenndi að hver maður og kona ætti að leita til Drottins eftir visku, svo þeim veittist þekking frá honum, sem er uppspretta þekkingar. Og loforð fagnaðarerindisins, eins og þau hafa verið opinberuð, voru slík að þau veittu okkur heimild til að trúa því, að ef við héldum þá braut, þá næðum við takmarki okkar.“18

Spámaöurinn Joseph Smith skrifaði eftirfarandi til manns nokkurs sem nýlega hafði gengið í kirkjuna: „Minnstu vitnisburðarins sem ég bar í nafni Drottins Jesú, um hið stórkostlega verk sem hann hefur leitt fram á hinum síðari dögum. Þú þekkir tjáningu mína, hvernig ég greindi þér frá því, í veikleika og einfaldleika, sem Drottinn hefur leitt fram með þjónustu sinna helgu engla fyrir þessa kynslóð og með mínu tilstilli. Ég bið þess að Drottinn geri þér kleift að varðveita þetta í huga þínum, því ég veit að andi hans mun vitna fyrir öllum þeim sem af kostgæfni leita þekkingar hjá honum.“19

Spámaöurinn skrifaði eftirfarandi til manns nokkurs sem vildi læra meira um kirkjuna: „Lærðu Biblíuna, og eins margar af bókum okkar og þú getur. Biðstu fyrir til föðurins í nafni Jesú Krists, hafðu trú á loforðunum til forfeðranna og hugur þinn verður leiddur í sannleikann.“20

„Það sem er Guðs er afar mikilvægt, og þú getur aðeins komist að því með tíma, reynslu og vandlegri og djúpri íhugun. Hugur þinn, ó maður! Ef þú hyggst leiða sál til hjálpræðis, verður þú að ná til æðstu himna og kanna og íhuga myrkvasta hyldýpið og hina yfirgripsmiklu víðáttu eilífðarinnar – þú verður að ræða við Guð. Hversu miklu göfugri og lofsverðari eru hugsanir Guðs, en hinar hégómlegu ímyndanir mannshjartans! …

… Látum ráðvendni, hófsemi, einlægni, hátíðleika, dyggð, hreinleika, lítillæti og einfaldleika krýna höfuð okkar hvarvetna, og verðum að lokum sem lítil börn, án illgirni, svika eða hræsni. Og nú, bræður, ef þið gerið þetta eftir þrengingar ykkar, og biðjið af ákafa og iðkið ávallt trú fyrir augliti Guðs, mun hann veita ykkur þekkingu með heilögum anda, já, með hinni ólýsanlegu gjöf heilags anda [sjá K&S 121:26].“21

Við hljótum þekkingu á eilífum sannleika smátt og smátt; við getum lært allt eins fljótt og við fáum borið það.

„Það er ekki viska að við hljótum alla þekkingu í einu, heldur að við hljótum hana smátt og smátt, svo við fáum skilið.“22

„Þegar við göngum upp stiga verðum við að byrja neðst og stíga upp þrep af þrepi, uns við náum toppnum, og þannig er það með reglur fagnaðarerindisins – við verðum að byrja á þeirri fyrstu og halda áfram uns við höfum lært allar reglur upphafningar. En löng stund mun líða, eftir að við höfum farið gegnum huluna, áður en við höfum lært þær. Þær lærast ekki allar í þessum heimi. Okkar bíður mikið verk, að læra sáluhjálp okkar og upphafningu, jafnvel handan grafar.“23

Joseph Smith og ráðgjafar hans í Æðsta forsoetisráðinu veittu eftirfarandi leiðbeiningar hinum heilögu sem söfnuðust saman í Nauvoo: „Við biðjum þá sem … veitt geta aðstoð í þessu mikla verki að koma til þessa staðar. Geri þeir það, munu þeir ekki eingöngu aðstoða við að efla ríkið, því þeir munu einnig vera þar sem þeir fá notið leiðsagnar forsætisráðsins og annarra þeirra sem tilnefndir eru í kirkjunni og fá risið hærra og hærra á vitsmunasviðinu, þar til þeir ,[fá] ásamt öllum heilögum skilið, hve kærleikur Krists er víður og langur, hár og djúpur, og komist að raun um hann, sem [gnæfir] yfir alla þekkingu, og [ná] að fyllast allri Guðs fyllingu.‘ [Ef 3:18–19.]“24

„Guð hefur ekki opinberað Joseph neitt það sem hann mun ekki kunngjöra hinum Tólf, og jafnvel hinn sísti hinna heilögu mun fá að vita allt eins fljótt og hann fær borið það, því sá dagur hlýtur að koma að menn þurfa ekki að spyrja náunga sinn: Þekkir þú Drottin, því allir munu þekkja hann … bæði smáir og stórir [sjá Jer 31:34].“25

Ábendingar um nám og kennslu

Íhugið þessar hugmyndir er þið lærið þennan kafla eða búið ykkur undir kennslu. Sjá bls. vii–xii til frekari leiðsagnar.

  • Lesið síðustu málsgreinina á bls. 262. Íhugið venjur eða hugmyndir sem „setja verki hins almáttuga skorður“ í lífi okkar. Hvað teljið þið okkur þurfa að gera til að meðtaka allan þann sannleika sem Drottinn veitir okkur?

  • Lesið næstsíðustu málsgreinina á bls. 262. Hvenær hefur þekking þokað burtu myrkri og efa í lífi ykkar? Hvers vegna teljið þið að nauðsynlegt sé að öðlast þekkingu á sannleikanum til að hljóta sáluhjálp? (Sjá dæmi á bls. 262–63.)

  • Við sjáum af kenningum spámannsins Josephs, að Satan vill að við glötum þekkingu (bls. 262–63) og að Drottinn vill veita okkur þekkingu (bls. 264–66). Hvað getum við lært af þessum samanburði?

  • Hvað getum við gert til að auka þekkingu okkar á sannleikanum? (Sjá dæmi á bls. 259–61, 264–66.) Lesið þriðju málsgreinina á bls. 265. Veljið nokkra þeirra eiginleika sem fram koma í þessari málsgrein. Hvernig hjálpa þessir eiginleikar okkar að búa okkur undir að hljóta þekkingu?

  • Lesið fjórðu málsgreinina á bls. 265. Hvað getum við lært af því að líkja lærdómi okkar á reglum fagnaðarerindisins við það að ganga upp stiga? Hvað hafið þið gert til að auka stöðugt við þekkingu ykkar á fagnaðarerindinu?

  • Hverjar eru hugsanir ykkar og tilfinningar er þið íhugið síðustu málsgreinina í kaflanum?

Ritningargreinar tengdar efninu: Okv 1:7; 1 Tím 2:3–4; 2 Ne 28:29–31; Al 5:45–47; K&S 88:118

Heimildir

  1. George Q. Cannon, The Life of Joseph Smith, the Prophet (1888), bls. 189.

  2. Brigham Young, Deseret News: Semi-Weekly, 25. febr. 1868, bls. 2; stafsetning færð í nútímahorf.

  3. History of the Church, 1:334–35; úr fundagerðabók skóla spámannanna, haldin 18. mars 1833, í Kirtland, Ohio; skráð af Frederick G. Williams.

  4. History of the Church, 1:334; úr “History of the Church” (handrit), bók A-1, bls. 281, Skjalasafn kirkjunnar, Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, Salt Lake City, Utah.

  5. Bréf frá Joseph Smith til Isaacs Galland, 22. mars 1839, Libertyfangelsið, Liberty, Missouri, birt í Times and Seasons, febr. 1840, bls. 53–54; stafsetning færð í nútímahorf.

  6. History of the Church, 5:215; úr “History of the Church” (handrit), bók D-1, bls. 433, Skjalasafn kirkjunnar.

  7. History of the Church, 6:57; stafsetning færð í nútímahorf; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 15. okt. 1843, í Nauvoo, Illinois; skráð af Willard Richards.

  8. History of the Church, 5:554; greinaskilum bætt við; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 27. ágúst 1843, í Nauvoo, Illinois; skráð af Willard Richards og William Clayton.

  9. History of the Church, 5:529–30; greinaskilum bætt við; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 13. ágúst 1843, í Nauvoo, Illinois; skráð af Willard Richards.

  10. History of the Church, 6:477; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 16. júní 1844, í Nauvoo, Illinois; skráð af Thomas Bullock; sjá einnig viðauka, bls. 562, atriði 3.

  11. History of the Church, 5:555; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 27. ágúst 1843, í Nauvoo, Illinois; skráð af Willard Richards og William Clayton.

  12. Bréf frá Joseph Smith til Olivers Cowdery, 24. sept. 1834, Kirtland, Ohio, birt í Evening and Morning Star, sept. 1834, bls. 192.

  13. Vitnað í Martha Jane Knowlton Coray, skráður fyrirlestur sem Joseph Smith hélt 21. maí 1843, í Nauvoo, Illinois; Martha Jane Knowlton Coray, Notebook, Skjalasafn kirkjunnar.

  14. History of the Church, 5:340; stafsetning færð í nútímahorf; greinaskilum bætt við; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 8. apríl 1843, í Nauvoo, Illinois; skráð af Willard Richards og William Clayton.

  15. History of the Church, 4:588; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 10. apríl 1842, í Nauvoo, Illinois; skráð af Wilford Woodruff.

  16. Kenning og sáttmálar 130:18–19; fræðsla sem Joseph Smith veitti 2. apríl 1843, í Ramus, Illinois.

  17. Kenning og sáttmálar 131:6; fræðsla sem Joseph Smith veitti 16. og 17. apríl, í Ramus, Illinois.

  18. George A. Smith, Deseret News: Semi-Weekly, 29. nóv. 1870, bls. 2.

  19. History of the Church, 1:442; úr bréfi frá Joseph Smith til Moses Nickerson, 19. nóv. 1833, Kirtland, Ohio.

  20. History of the Church, 6:459; úr bréfi frá Joseph Smith til Washington Tucker, 12. júní 1844, Nauvoo, Illinois.

  21. History of the Church, 3:295–96; greinaskilum bætt við; úr bréfi frá Joseph Smith og fleirum til Edwards Partridge og kirkjunnar, 20. mars 1839, Liberty-fangelsið, Missouri; hluti þessa bréfs var sett í Kenningu og sáttmála 121, 122 og 123.

  22. History of the Church, 5:387; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 14. maí 1843, í Yelrome, Illinois; skráð af Wilford Woodruff.

  23. History of the Church, 6:306–72; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 7. apríl 1844, í Nauvoo, Illinois; skráð af Wilford Woodruff, Willard Richards, Thomas Bullock og William Clayton; sjá einnig viðauka, bls. 562, atriði 3.

  24. History of the Church, 4:186; úr bréfi frá Joseph Smith og ráðgjöfum hans í Æðsta forsætisráðinu til hinna heilögu, sept. 1840, Nauvoo, Illinois, birt í Times and Seasons, okt. 1840, bls. 179.

  25. History of the Church, 3:380; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 27. júní 1839, í Commerce, Illinois; skráð af Willard Richards.

Ljósmynd
School of Prophets

Á fundi í Skóla spámannanna, 27. febrúar 1833, hlaut spámaðurinn opinberun sem þekkt er sem Vísdómsorðið, er nokkrir af bræðrunum voru þar viðstaddir. Hann gekk inn í herbergið og las opinberunina fyrir bræðurna sem þar voru saman komnir.

Ljósmynd
young woman

„Ég veit að andi hans mun vitna fyrir öllum þeim sem af kostgæfni leita þekkingar hjá honum.“