Kenningar forseta
41. Kafli: Verða frelsarar á Síonarfjalli


41. Kafli

Verða frelsarar á Síonarfjalli

„Hvernig verða þeir frelsarar á Síonarfjalli? Með því að reisa sér musteri, koma sér upp skírnarfontum, og taka á móti öllum helgiathöfnunum … fyrir ættmenn sína sem dánir eru.“

Úr lífi Josephs Smith

Staðgengilsverk í þágu látinna ættmenna var megin verkefni kirkjumeðlima sem bjuggu í Nauvoo árið 1840. Allt frá því að fyrsta staðgengilsskírnin var framkvæmd í þessari ráðstöfun, árið 1840, leituðu hinir heilögu heimilda um ættmenni sín, og margir þeirra stigu ofan í skírnarvatnið fullir eldmóði í þágu þessara látnu ástvina sinna.

Í fyrstu voru skírnir fyrir hina dánu framkvæmdar í Mississippi-fljótinu eða í nærliggjandi ám. En í janúar 1841, þegar hinir heilögu voru að leggja drög að Nauvoo-musterinu, sagði Drottinn: „Skírnarfontur er ekki til á jörðu, sem þeir, mínir heilögu, geti skírst í fyrir þá, sem dánir eru – Því að þessi helgiathöfn tilheyrir húsi mínu og getur ekki verið mér þóknanleg nema á fátæktardögum yðar, þegar þér eruð ekki færir um að reisa mér hús“ (K&S 124: 29–30).

Staðgengilsskírnir voru aflagðar í ám og fljótum 3. október 1841, með þessum orðum spámannsins: „Skírnir fyrir dána skulu aflagðar, þar til hægt verður að framkvæma þá helgiathöfn í húsi Drottins. …Því svo segir Drottinn!“1Hinir heilögu byggðu fljótlega bráðabirgðafont úr viði í hinum nýlega uppgrafna kjallara Nauvoo-musterisins. Skírnarfonturinn, sem smíðaður var úr furuviði, hvíldi á tólf uxum. Hann var vígður til notkunar 8. nóvember, „þar til musterið yrði fullklárað og annar varanlegri kæmi í hans stað.“2 Hinn 21. nóvember 1841 framkvæmdu sex meðlimir í Tólfpostulasveitinni skírnir fyrir 40 manns sem dánir voru, fyrstu skírnirnar sem framkvæmdar voru í fontinum.

Reynsla hinna heilögu af skírnum fyrir dána kenndi þeim fljótlega mikilvægi þess að varðveita heimildir í kirkju Drottins. Þótt staðgengilsskírnir hafi verið framkvæmdar í vatnsföllum staðarins, með réttu prestdæmisvaldi, höfðu þær ekki verið formlega skráðar. Þar af leiðandi þurfti að framkvæma þær skírnir aftur. Í ræðu sem spámaðurinn hélt 31. ágúst 1842 sagði hann: „Allir menn sem skírast fyrir hina dánu verða að hafa skrásetjara hjá sér, sem vera skal sjónarvottur og skrá og bera vitni um sannleiksgildi heimildanna. … Héðan í frá skal því vanda til skráningar og vottunar skírnar fyrir hina dánu.“3 Spámaðurinn fjallaði vandlega um þetta efni í bréfi sem hann ritaði til hinna heilögu daginn eftir og í öðru bréfi sem hann ritaði 6. september. Bréfin tvö eru nú hluti af köflum 127 og 128 í Kenningu og sáttmálum.

Í 127. kafla ritaði spámaðurinn eftirfarandi fyrirmæli frá Drottni: „Þegar einhver yðar lætur skírast fyrir yðar dánu, skal ritari vera viðstaddur og hann skal vera sjónarvottur að skírnum yðar. Hann skal heyra með eyrum sínum, svo að hann megi bera sannleikanum vitni, segir Drottinn – Svo að allar skýrslur yðar verði skráðar á himni. … Og enn, regla skal höfð á öllum skýrslum, svo að geyma megi þær í skjalasafni heilags musteris míns, og þær í minnum hafðar kynslóð fram af kynslóð“(K&S 127:6–7, 9,).

Eftir því sem hinum heilögu miðaði áfram í starfi þessu, „varð fljótlega ljóst að sumir höfðu margar skýrslur yfir ættmenni sem þeir vildu vinna staðgengilsverk fyrir,“ sagði George A. Smith, meðlimur í Tólfpostulasveitinni. Þetta virtist aðeins upphafið að gríðarmiklu verki, og að framkvæma allar helgiathafnir fagnaðarerindisins fyrir fjölda dáinna var ekki létt verk. Sumir hinna Tólf spurðu Joseph hvort ekki væri til eitthvert styttra ferli til að þjónusta svo marga. Joseph svaraði á þennan hátt: ,Lögmál Drottins eru óbreytanleg, við verðum að starfa í fullkomnu samræmi við það sem okkur hefur verið opinberað. Við getum ekki gert ráð fyrir að vinna þetta yfirgripsmikla verk fyrir hina dánu á stuttum tíma.‘ “4

Kenningar Josephs Smith

Kenningar sáluhjálpar um hina dánu bera vott um hina miklu visku og miskunn Guðs.

„Allir þeir sem ekki hafa fengið það tækifæri að hlýða á fagnaðarerindið njóta þjónustu innblásins manns í holdinu, verða að hljóta það eftir þetta líf, áður en mögulegt er að dæma þá endanlega.“5

„Það er ekkert ótrúlegra að Guð frelsi hina dánu, en að hann reisi upp hina dánu.

Það er aldrei of seint fyrir anda okkar að koma til Guðs. Hin náðarsamlega miskunn nær til allra, sem ekki hafa drýgt þá ófyrirgefanlegu synd, sem ekki er hægt að fyrirgefa, hvorki í þessum heimi, né í komandi heimi. Það er hægt að leysa anda hinna dánu, með krafti og valdi prestdæmisins – með því að binda og leysa á jörðu. Kenningin er dýrðleg, að því leyti að hún sýnir mikilleika guðlegrar miskunnar og góðvildina í ljósi sáluhjálparáætlunar mannsins.

Þessum dýrðlega sannleika er greinilega ætlað að útvíkka skilning okkar og efla sálina í erfiðleikum og raunum. Ímyndið ykkur, til útskýringar, tvo menn, bræður, jafna að vitsmunastigi, lærða, dyggðuga og ljúfa, heiðarlega og samviskusama, að svo miklu leyti sem þeim hefur tekist að greina á milli eigin ábyrgðar og mengaðra erfikenninga eða hins óljósa texta í bók náttúrunnar.

Annar þeirra deyr og er greftraður, án þess að hafa hlýtt á fagnaðarerindi sáttargjörðar; hinum er sent fagnaðarerindið, hann hlýðir á það og tekur á móti því, og verður erfingi eilífs lífs. Ætti hinn síðari að meðtaka dýrð, en hinn fyrri að uppskera vonlausa glötun? Er engin undankomuleið fyrir hann? Hinir þröngsýnu svara: ,Engin.‘ …

Kenning þessi varpar skýru ljósi á visku og miskunn Guðs, því hann hefur fyrirbúið helgiathafnir til sáluhjálpar hinum dánu, sem geta tekið á móti staðgengilsskírn, fengið nöfn sín skráð á himni og verið dæmdir samkvæmt verkum sínum í holdinu. Kenning þessi var þungamiðja ritninganna. Þeir heilögu sem vanrækja hana varðandi látna ættmenn sína, stofna eigin sáluhjálp í hættu.“6

Í desember 1840 ritaði spámaðurinn til meðlima Tólfpostulasveitarinnar og fleiri prestdoemisleiðtoga, sem þjónuðu í trúboði á Stóra-Bretlandi: „Ég geri ráð fyrir að ,skírn fyrir dána‘ hafi borist ykkur til eyrna og að vaknað hafi í huga ykkur spurningar varðandi það sama. Ég … get … sagt að hún var áreiðanlega framkvæmd af söfnuðunum til forna, og heilagur Páll reynir að sanna kenninguna um upprisuna út frá sömu forsendu, og segir: ,Til hvers eru menn annars að láta skírast fyrir hina dánu? Ef dauðir menn rísa alls ekki upp, hvers vegna láta menn þá skíra sig fyrir þá?‘ [1 Kor 15:29]

Ég minntist opinberlega fyrst á þessa kenningu, þegar ég flutti ræðu við útför bróður Seymours Brunson, og hef síðan þá gefið almennar leiðbeiningar í kirkjunni varðandi þetta mál. Hinir heilögu hafa þau forréttindi að láta skírast fyrir þá ættingja sína sem dánir eru . … Án þess að fara djúpt í þetta mál munuð þið án efa sjá samræmið og skynsemina í því, og það sýnir fagnaðarboðskap Krists sennilega á æðra sviði en nokkur hefur ímyndað sér hann.“7

Við verðum frelsarar á Síonarfjalli með því að framkvæma helgiathafnir fyrir hina dánu.

„Séu það forréttindi okkar að skíra menn með valdi prestdæmis sonar Guðs, í nafni föðurins, og sonarins, og hins heilaga anda, til fyrirgefningar syndanna, eru það ekki síður forréttindi okkar að geta verið erindrekar fyrir hina dánu og látið skírast til fyrirgefningar syndanna í þágu látinna ættmenna, sem ekki hafa hlýtt á fagnaðarerindið eða fyllingu þess.“8

„Í Biblíunni segir: ,Sjá, ég sendi yður Elía spámann, áður en hinn mikli og ógurlegi dagur Drottins kemur. Hann mun sætta feður við sonu og sonu við feður, til þess að ég komi ekki og ljósti landið banni.‘ [Mal 4:5–6..]

Hugtakið sætta ætti að túlka sem binda, eða innsigla. En hvert er viðfangsefni þessa mikilvæga verkefnis, eða hvernig ber að framfylgja því? Lyklarnir verða afhentir, andi Elía kemur, fagnaðarerindið verður endurreist, hinum heilögu verður safnað saman, Síon verður reist og hinir heilögu fara sem frelsarar upp til Síonarfjalls [sjá Óbadía 1:21].

En hvernig verða þeir frelsarar á Síonarfjalli? Með því að reisa musteri sín, skírnarfonta sína, og taka á móti öllum helgiathöfnunum, skírn, staðfestingu, laugun, smurningu, vígslu, innsiglun, í þágu ættmenna sinna, sem dáin eru, og endurleysa þau, svo að þau geti komið fram í fyrstu upprisunni og með þeim hlotið upphafningu til hásæta dýrðarinnar. Og í þessu eru hlekkirnir fólgnir, sem binda hjörtu feðranna við börnin og barnanna við feðurna, en það uppfyllir ætlunarverk Elía. …

Hinum heilögu gefst ekki ríflegur tími til að frelsa og endurleysa sína dánu, og safna saman sínum lifandi ættmennum, svo þau megi einnig frelsast, áður en jörðin verður lostin banni, og ákvörðuð tortíming kemur yfir heiminn.

Ég hvet alla hina heilögu til að gera allt sem þeir geta til að koma með öll sín lifandi ættmenni í [musterið], svo innsigla megi þau og frelsa, svo búa megi þau undir daginn er engill tortímingarinnar hefst handa. Og leggi kirkjan sig alla fram við að frelsa sína dánu, innsigla niðja sína, og safna saman sínum lifandi vinum, og eyði engum tíma í þágu heimsins, fær hún þó vart lokið verki sínu áður en nóttin skellur á, en þá er ekkert verk hægt að vinna.“9

„Það er skírn fyrir hina lifandi, o. s. frv., sem framkvæma þarf, og skírn fyrir hina dánu, sem dáið hafa án þekkingar á fagnaðarerindinu. … Ekki er aðeins nauðsynlegt að þið látið skírast í þágu hinna dánu, heldur verðið þið að framkvæma allar helgiathafnirnar fyrir þá, þær hinar sömu og þið hafið sjálf hlotið ykkur til frelsunar. …

“… Það ætti að vera til staður þar sem allar þjóðir geta komið á, endrum og eins, til að taka á móti gjöfum sínum frá upphæðum, og Drottinn hefur sagt að það skuli vera sami staður og skírnir fyrir hina dánu fara fram á. Sérhver sá sem látið hefur skírast og tilheyrir ríkinu, hefur rétt til að skírast í þágu þeirra sem farið hafa á undan; og um leið og þessir vinir þeirra hlíta lögmáli fagnaðarerindisins hér, og eru staðgenglar fyrir þá, hefur Drottinn fulltrúa þar til að leysa þá. Menn geta verið staðgenglar fyrir eigin ættmenni. Helgiathafnir fagnaðarerindisins, sem ákveðnar voru fyrir grundvöllun heimsins, hafa því uppfyllst í þeim, og við getum látið skírast fyrir þá sem tengst hafa okkur strerkum vinarböndum.“10

„Allir þeir sem deyja í trú fara í varðhald andanna til að prédika þar fyrir hinum líkamsdauðu, en þeir eru lifandi í andanum. Og þeir prédika fyrir öndunum [sem eru í varðhaldinu], svo þeir megi lifa Guði í andanum, og menn í holdinu veita þeim staðgengilsþjónustu; … og á þennan hátt fá þeir notið gleði [sjá 1 Pét 4:6]. Þeir sem skírast því fyrir sína dánu, eru frelsarar á Síonarfjalli, og þeir verða að taka á móti laugun og smurningu fyrir sína dánu, líkt og þeir gjöra fyrir sig sjálfa.“11

Guð hefur falið okkur þá mikilvægu ábyrgð að leita okkar dánu.

„Ég hyggst ljúka upp augum ykkar hvað varðar hina dánu. Allt sem Guð í óendanlegri visku sinni telur rétt og viðeigandi að opinbera okkur meðan við dveljum á jörðu, í dauðlegum líkama, er okkur opinberað óhlutbundið og óháð tengingu við þennan dauðlega líkama, en er opinberað öndum okkar einmitt eins og við værum alls ekki í líkama. Og þær opinberanir, sem frelsa munu anda okkar, munu frelsa líkama okkar. Guð opinberar okkur þær ekki í ljósi eilífra tengsla líkamans. Af þeim ástæðum hvílir á okkur sú ábyrgð, hin gríðarmikla ábyrgð, er varðar okkar dánu. Því að allir andar, sem ekki hafa hlítt fagnaðarerindinu í holdinu, verða að hlíta því í andanum, ella verða fordæmdir. Grafalvarleg hugsun – hræðileg hugsun! Er ekkert hægt að gera – engin úrræði – engin sáluhjálp fyrir ættmenni okkar og vini, sem dáið hafa án þess að hafa hlotið tækifæri til að hlíta skilmálum mannssonarins? …

Hvaða fyrirheit eru gefin er varða sáluhjálp hinna dánu? Og hvers konar manngerðir eru þeir sem geta vænst frelsunar, jafnvel þótt líkami þeirra sé að molna og rotna í gröfinni? Boðorð hans eru sett fram í ljósi eilífðarinnar, og Guð lítur á okkur í ljósi eilífðarinnar. Guð dvelur í eilífðinni og hefur ekki sömu sýn og við höfum.

Mikilvægasta ábyrgðin sem Guð hefur lagt á herðar okkar í þessum heimi er að leita okkar dánu. Postulinn sagði: ,Án vor skyldu þeir ekki fullkomnir verða‘ [sjá Hebr 11:40], því nauðsynlegt er að innsiglunarvaldið sé í okkar höndum, til að innsigla börn okkar og okkar dánu til fyllingar ráðstöfunar tímanna – ráðstöfunar til uppfyllingar á fyrirheitunum sem Jesús Kristur gaf fyrir grundvöllun heimsins manninum til sáluhjálpar.

“… Nauðsynlegt er að bæði þeir sem á undan okkur fara og eftir okkur koma hljóti sáluhjálp með okkur, og því hefur Guð gert manninum þetta skylt. Af þeim ástæðum sagði Guð: ,Sjá, ég sendi þér Elía spámann, áður en hinn mikli og ógurlegi dagur Drottins kemur. Hann mun sætta feður við sonu og sonu við feður, til þess að ég komi ekki og ljósti landið banni.‘ [Mal 4:5–6..]”12

Spámaöurinn Joseph Smith ritaöi eftirfarandi í bréfi til hinna heilögu, sem síðar var skráð í Kenningu og sáttmála 128:15–18, 22, 24: „Og nú, ástkæru bræður og systur, vil ég fullvissa yður um, að þetta eru reglur varðandi hina dánu og hina lifandi, sem ekki má auðveldlega ganga fram hjá, hvað sáluhjálp vora varðar. Því að þeirra sáluhjálp er nauðsynleg og óhjákvæmileg fyrir vora sáluhjálp, eins og Páll segir um feðurna – að þeir án vor geti ekki orðið fullkomnir – né heldur getum vér án okkar dánu orðið fullkomin.

Og varðandi skírn fyrir hina dánu, vil ég nú gefa yður aðra tilvitnun í Pál, 1 Korintubréf 15:29: Til hvers eru menn annars að láta skírast fyrir hina dánu, ef dauðir menn yfir höfuð rísa ekki upp. Hvers vegna láta menn þá skíra sig fyrir hina dánu?

Og enn, í sambandi við þessa tilvitnun vil ég gefa yður tilvitnun í einn spámannanna, sem beindi augum sínum að endurreisn prestdæmisins, þeirri dýrð, sem opinberuð yrði á síðustu dögum og á vissan hátt því dýrðlegasta alls, sem tilheyrir hinu ævarandi fagnaðarerindi, sem sé, skírn fyrir hina dánu. Því að Malakí segir í síðasta kapítula, 5. og 6. versi: Sjá, ég sendi yður Elía spámann áður en hinn mikli og ógurlegi dagur Drottins kemur. Og hann mun snúa hjarta feðranna til barnanna og hjarta barnanna til feðra sinna, til þess að ég komi ekki og ljósti landið banni.

Ég hefði getað sett fram skýrari þýðingu á þessu, en það er nægilega skýrt eins og það stendur til að þjóna tilgangi mínum. Það er nóg að vita, í þessu tilviki, að jörðin verður lostin banni, ef ekki myndast einhvers konar hlekkur milli feðra og barna, í einhvers konar mynd – og hver er sú mynd? Það er skírn fyrir hina dánu. Því að án þeirra getum við ekki orðið fullkomin, né heldur geta þau orðið fullkomin án okkar. …

“… Hjörtu ykkar fagni og gleðjist ákaft. Jörðin hefji upp söng. Hinir dánu syngi Immanúel konungi eilíft lof, honum, sem vígt hefur, áður en heimurinn varð til, það sem gjöra mun okkur kleift að leysa þá úr varðhaldi þeirra, því að fangarnir skulu frjálsir verða. …

“… Sem kirkja og einstaklingar og sem síðari daga heilagir, skulum við þess vegna færa Drottni fórn í réttlæti, og færa honum í heilögu musteri hans, þegar því er lokið, bók, sem geymir skrá yfir okkar dánu, sem verðugir eru fullrar móttöku.“13

Ábendingar um nám og kennslu

Íhugið þessar hugmyndir er þið lærið þennan kafla eða búið ykkur undir kennslu. Sjá bls. vii–xii til frekari leiðsagnar.

  • Lesið bls. 465–67 og veitið athygli hvernig Joseph Smith og hinir fyrri heilögu uxu að skilningi hvað varðar kenninguna um skírn fyrir hina dánu. Hugleiðið hvernig hinum heilögu hefur getað liðið þegar þeir heyrðu fyrst um sáluhjálp fyrir hina dánu. Hvernig leið ykkur þegar þið tókuð fyrst þátt í helgiathöfnum fyrir hina dánu?

  • Lesið þriðju og fjórðu málsgreinarnar á bls. 468. Hvernig sýnir kenningin um sáluhjálp fyrir hina dánu miskunnsemi Guðs? Á hvaða hátt er þessari kenningu ætlað að „útvíkka skilning okkar, og efla sálina“?

  • Hvað felst í því að vera frelsari á Síonarfjalli? (Sjá dæmi á bls. 469–71.) Hvers vegna teljið þið að ómögulegt sé fyrir látin ættmenni okkar að fullkomnast án okkar? Hvers vegna teljið þið að ómögulegt sé fyrir okkur að fullkomnast án þeirra?

  • Lesið einhverjar kenningar spámannsins Josephs Smith um hina mikilvægu ábyrgð okkar að „leita okkar dánu“ (bls. 471–73). Hver er reynsla ykkar af að fræðast um ættmenni ykkar? Hvernig hefur elskan sem þið berið til fjölskyldu ykkar og trú ykkar á Guð eflst þegar þið hafið lært um ættmenni ykkar? Hefur það haft áhrif á tilfinningar ykkar til ættmenna ykkar að framkvæma helgiathafnir musterisins fyrir þau?

  • Hvað getum við gert til að hjálpa börnum okkar að meta ættararfleifð sína? Hvað getum við gert til að hjálpa börnum okkar að taka þátt í musteris- og ættfræðistarfi?

Ritningargreinar tengdar efninu: Róm 14:9; K&S 128:8–11

Heimildir

  1. History of the Church, 4:426; úr fundargerð ráðstefnu kirkjunnar, haldinni 3. okt. 1841, í Nauvoo, Illinois, birt í Times and Seasons, 15. okt. 1841, bls. 578.

  2. History of the Church, 4:446-47; úr “History of the Church” (handrit), bók C-1, viðauki, bls. 44, Skjalasafn kirkjunnar, Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, Salt Lake City, Utah.

  3. History of the Church, 5:141; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 31. ágúst 1842, í Nauvoo, Illinois; skráð af Elizu R. Snow; sjá einnig viðauka, bls. 562, atriði 3.

  4. George A. Smith, fyrirlestur haldinn 25. des. 1874, í St. George, Utah; í St. George-stiku, General Minutes, 4. bindi, Skjalasafn kirkjunnar.

  5. History of the Church, 3:29; úr ritstjórnargrein í Elders’ Journal, júlí 1838, bls. 43; Joseph Smith var ritstjóri þessa tímarits.

  6. History of the Church, 4:425–26; úr fundargerð ráðstefnu kirkjunnar, haldin 3. okt. 1841, í Nauvoo, Illinois, birt í Times and Seasons, 15. okt. 1841, bls. 577–78.

  7. History of the Church, 4:231, greinaskilum bætt við; úr bréfi frá Joseph Smith til hinna Tólf, 15. des. 1840, Nauvoo, Illinois; bréfið er ranglega dagsett 19. okt. 1840, í History of the Church.

  8. History of the Church, 4:569; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 27. mars 1842, í Nauvoo, Illinois; skráð af Wilford Woodruff; sjá einnig viðauka, bls. 562, atriði 3.

  9. History of the Church, 6:183–84; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 21. jan. 1844, í Nauvoo, Illinois; skráð af Wilford Woodruff.

  10. History of the Church, 6:365–66; greinaskilum bætt við; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 12. maí 1844, í Nauvoo, Illinois; skráð af Thomas Bullock.

  11. Tilvitnun George Laub, í samantekt fyrirlestra Josephs Smith, um 1845; George Laub, Reminiscences and Journal Jan. 1845 – Apr. 1857, bls. 21, Skjalasafn kirkjunnar.

  12. History of the Church, 6:312–13; stafsetning færð í nútímahorf; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 7. apríl 1844, í Nauvoo, Illinois; skráð af Wilford Woodruff, Willard Richards, Thomas Bullock og William Clayton.

  13. Kenning og sáttmálar 128:15–18, 22, 24; bréf frá Joseph Smith til hinna heilögu, 6. sept. 1842, Nauvoo, Illinois.

Ljósmynd
Nauvoo Temple baptistry

Skírnarsalurinn í hinu endurgerða Nauvoo-musteri. Hinir heilögu framkvæmdu helgiathöfn skírnar fyrir hina dánu í skírnarfontum sem þessum.

Ljósmynd
family doing genealogy

„Mikilvægasta ábyrgðin sem Guð hefur lagt á herðar okkar íþessum heimi er að leita okkar dánu.“