Kenningar forseta
18 . kafli: Beyond the Veil: Life in the Eternities


18 . kafli

Handan hulunnar: Lífið í eilífðunum

„[Hinir réttlátu sem dáið hafa] munu rísa upp að nýju til dvalar í ævarandi Ijóma í ódauðlegri dýrð, án sorgar, þjáningar eða dauða, og fleir verða erfingjar Guðs og samarfar Jesú Krists.“

Úr lífi Josephs Smith

þýðingarstarf Josephs Smith á Biblíunni leiddi til afar merkilegrar sýnar yfir lífið í eilífðunum. Hinn 16. febrúar 1832 var spámaðurinn að þýða Biblíuna ásamt Sidney Rigdon, ritara sínum, á heimili Johns Johnson í Hiram, Ohio. Hann var að þýða Jóhannesarguðspjall. Spámaðurinn sagði: „Af hinum ýmsu opinberunum sem hlotist hafa er augljóst að mörg mikilvæg atriði hafa verið numin úr Biblíunni sem snerta sáluhjálp manna, eða hafa glatast áður en hún var sett saman. Það virðist augljóst af þeim sannleika sem eftir var skilinn, að ef Guð umbunaði öllum samkvæmt gjörðum þeirra í holdinu og ef hugtakið ,himinn‘ er ætlað hinum heilögu sem eilíft heimili, hljóta að vera fleiri ríki en eitt.“1

Spámaðurinn þýddi Jóhannes 5:29, sem lýsir því hvernig allir „[munu] ganga fram“ í upprisunni – „þeir, sem gjört hafa hið góða, munu rísa upp til lífsins, en þeir, sem drýgt hafa hið illa, til dómsins.“ Þegar hann og Sidney Rigdon íhuguðu þessa ritningargrein, laukst upp fyrir þeim stórkostleg sýn. Spámaðurinn skráði: „Með krafti andans lukust upp augu okkar og skilningur okkar upplýstist, til að sjá og skilja það sem Guðs er – Jafnvel það, sem var frá upphafi, áður en heimurinn varð til, og faðirinn vígði með eingetnum syni sínum, sem var við brjóst föðurins allt frá upphafi“ (K&S 76:12–13).

Í þessari stórkostlegu sýn sáu spámaðurinn og Sidney Rigdon son Guðs til hægri handar föðurnum og „[meðtóku] af fyllingu hans“ (K&S 76:20). Þeir sáu dýrðarríkin þrjú sem Guð hafði fyrirbúið börnum sínum og hlutu vitneskju um þá sem erfa ættu þessi ríki. Þeir sáu einnig Satan varpað úr návist Guðs og þjáningar þeirra sem létu yfirbugast af Satan.

Opinberun þessi varð síðar 76. kafli í Kenningu og sáttmálum. Spámaðurinn skýrði svo frá: „Ekkert gæti verið ánægjulegra hinum heilögu, er varðar reglu Guðs ríkis, en ljósið sem áðurnefnd sýn varpar á heiminn. Hvert lögmál, hvert boðorð, hvert loforð, hver sannleikur og hvert atriði er snertir örlög mannsins, frá 1. Mósebók til Opinberunarbókarinnar, þar sem hreinleiki ritninganna er óflekkaður af heimsku manna, … ber vitni um þá staðreynd að rit þetta er afrit af heimildum hins eilífa heims. Háleiti þessara hugmynda, hreinleiki málsins, svigrúmið til athafna, áframhaldandi gildistími til lyktana, til að erfingjar hjálpræðis fái viðurkennt Drottin og beygt kné sín; launin fyrir trúfesti og refsingarnar fyrir syndir, ná svo langt út fyrir hinn takmarkaða huga manna, að hver heiðarlegur maður finnur sig knúinn til að hrópa: ,Það er frá Guði.‘ “2

Kenningar Josephs Smith

Guð hefur fyrirbúið þrjár dýrðargráður fyrir börn sín.

„Texti minn er um upprisu hinna dánu, sem þið finnið í 14. kapítula Jóhannesar – ,Í húsi föður míns eru margar vistarverur.‘ [Jóh 14:2.] Hann ætti þó að hljóma – ,Í ríki föður míns eru mörg ríki,‘ svo þið getið orðið erfingjar Guðs og samarfar mínir. … Það eru vistarverur fyrir þá sem hlíta hinu himneska lögmáli og aðrar vistarverur fyrir þá sem hlíta ekki lögmálinu, hver maður hlýtur sinn stað.“3

„Einn segir: ,En ég trúi á einn algildan himin og helju, þangað sem allir fara, og allir eru eins, jafn vansælir eða jafn hamingjusamir.‘

Hvað! Þar sem öllum er hrúgað saman – þeim heiðvirðu og dyggðugu og morðingjum og frillulífsmönnum, þegar ritað er að þeir verði dæmdir samkvæmt verkum sínum í holdinu? En heilagur Páll greinir frá þremur dýrðargráðum og þremum himnum. Honum var kunnugt um mann sem hrifinn var upp til þriðja himins [sjá 1 Kor 15:40–41; 2 Kor 12:2–4]. … Jesús sagði við lærisveina sína: ,Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo, hefði ég þá sagt yður, að ég færi burt að búa yður stað? Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað, kem ég aftur og tek yður til mín, svo að þér séuð einnig þar sem ég er.‘ [sjá Jóh 14:2–3.]“4

„Farið og lesið sýnina í [Kenningu og sáttmálum 76]. Þar er dýrð á dýrð ofan glögglega útskýrð – dýrð sólarinnar er eitt, dýrð tunglsins er eitt og dýrð stjarnanna er eitt, því að stjarna ber af stjörnu í dýrð, svo ber og dýrð eins af öðrum í hinum jarðneska heimi og hver maður sem ríkir í himneska ríkinu er guð á eigin yfirráðasvæði. …

Páll segir: ,Eitt er ljómi sólarinnar og annað ljómi tunglsins og annað ljómi stjarnanna, því að stjarna ber af stjörnu í ljóma. Þannig er og um upprisu dauðra.‘ [1 Kor 15:41–42.]“5

Þeir sem hljóta vitnisburð um Jesú, taka á móti helgiathöfnum fagnaðarerindisins og sigra fyrir trú, munu erfa himneska ríkið.

Spámaðurinn Joseph Smith sá eftirfarandi í sýn, sem síðar var skráð í Kenningu og sáttmála 76:50–59, 62, 68–70: „Og enn berum við vitni – því að við sáum og heyrðum, og þetta er vitnisburðurinn um fagnaðarerindi Krists varðandi þá, sem koma munu fram í upprisu hinna réttvísu – Þetta eru þeir, sem veittu vitnisburðinum um Jesú viðtöku og trúðu á nafn hans og voru skírðir í líkingu við greftrun hans, greftraðir í vatninu í hans nafni, og það samkvæmt þeim fyrirmælum, sem hann hefur gefið – Svo að með því að halda boðorðin gætu þeir laugast og hreinsast af öllum syndum sínum og meðtekið hinn heilaga anda með handayfirlagningu þess, sem vígður er og innsiglaður þessu valdi – Og sem sigra fyrir trú og eru innsiglaðir heilögum anda fyrirheitsins, sem faðirinn úthellir yfir alla þá, sem eru réttvísir og sannir.

Þetta eru þeir, sem eru kirkja frumburðarins. Þetta eru þeir, sem faðirinn hefur lagt allt í hendur – Þetta eru þeir, sem eru prestar og konungar, sem meðtekið hafa af fyllingu hans og af dýrð hans – Og eru prestar hins æðsta, eftir reglu Melkísedeks, sem var eftir reglu Enoks, sem var eftir reglu hins eingetna sonar.

Þess vegna eru þeir guðir, eins og skrifað stendur, já, synir Guðs – Þess vegna eru allir hlutir þeirra, hvort heldur líf eða dauði, það sem er eða það sem koma skal, allt er þeirra og þeir eru Krists og Kristur er Guðs. …

Þeir munu dvelja í návist Guðs og Krists hans alltaf og að eilífu. . Þetta eru þeir, sem eiga nöfn sín skráð á himni, þar sem Guð og Kristur eru dómarar allra. Þetta eru þeir, sem eru réttvísir menn, fullkomnir gjörðir fyrir Jesú, meðalgöngumann hins nýja sáttmála, sem leiddi til lykta þessa fullkomnu friðþæginu með því að úthella sínu eigin blóði. Þetta eru þeir, sem eiga himneska líkama, og dýrð þeirra er sem sólarinnar, já, dýrð Guðs, hins æðsta alls, og sólin á festingunni er dæmigjörð um dýrð hans, eins og ritað er.“6

Spámaðurinn Joseph Smith kenndi eftirfarandi í maí 1843, síðar skráð í Kenningu og sáttmála 131:1–4: „Í hinni himnesku dýrð eru þrír himnar eða stig – Og til þess að ná því æðsta, verður maðurinn að ganga inn í þessa prestdæmisreglu [það er, hinn nýja og ævarandi hjúskaparsáttmála] – Og gjöri hann það eigi, getur hann ekki náð því. Hann getur gengið inn í hin, en lengra nær ríki hans ekki. Hann getur ekki bætt við sig.“7

„Hið eilífa líf er – að þekkja hinn eina vitra og sanna Guð, og sjálf verðið þið að læra hvernig á að vera guðir og vera konungar og prestar Guðs, . með því að fara frá einu lægra stigi á annað og frá lægri stöðu til hærri, frá náð til náðar, frá upphafningu til upphafningar, þar til þið náið upprisu hinna dánu og fáið dvalið í ævarandi ljóma og sitjið í dýrð, eins og þeir sem sitja í hásæti ævarandi máttar. .

… [Hinir réttlátu sem dáið hafa] munu rísa upp að nýju til dvalar í ævarandi ljóma í ódauðlegri dýrð, án sorgar, þjáningar eða dauða, og þeir verða erfingjar Guðs og samarfar Jesú Krists. Hvað merkir það? Að erfa sama mátt, sömu dýrð og sömu upphafningu, þar til þið náið stöðu guðs og rísið undir kórónu eilífs máttar, þeirrar sömu og þeir sem farið hafa á undan.“8

„Þeir sem hljóta dýrðlega upprisu frá dauðum verða upphafnir langt umfram tignir, völd, hásæti, herradóma og engla, og eru beinlínis lýstir erfingjar Guðs og samarfar Jesú Krists, og allir slíkir hljóta eilífan mátt [sjá Róm 8:17].“9

„Hinir heiðvirðu menn jarðarinnar,“ sem ekki eru hugdjarfir í vitnisburðinum umJesú, munu erfa yfirjarðneska ríkið.

Spámaðurinn Joseph Smith sá eftirfarandi í sýn, síðar skráð í Kenningu og sáttmála 76:71–79: „Og enn fremur sáum við hinn yfirjarðneska heim, og sjá og tak eftir. Þetta eru þeir, sem eru af hinu yfirjarðneska, en dýrð þeirra er önnur en kirkju frumburðarins, sem hlotið hefur fyllingu föðurins, já, eins og dýrð tunglsins er önnur en dýrð sólarinnar á festingunni.

Sjá, þetta eru þeir, sem dóu án lögmáls – Og einnig þeir, sem eru andar manna sem í varðhaldi eru, sem sonurinn vitjaði og prédikaði fagnaðarerindið fyrir, svo að þeir mættu dæmast eins og menn í holdinu – Sem meðtóku ekki vitnisburð um Jesú í holdinu, heldur hlutu hann síðar.

Þetta eru hinir heiðvirðu menn jarðarinnar, sem blindaðir voru af slægð mannanna. Þetta eru þeir, sem meðtaka af dýrð hans, en ekki af fyllingu hans. Þetta eru þeir, sem meðtaka af návist sonarins, en ekki af fyllingu föðurins.

Þess vegna eru þeir yfirjarðneskir líkamar, en ekki himneskir líkamar, og dýrð þeirra er önnur, á sama hátt og tunglið er frábrugðið sólinni. Þetta eru þeir, sem ekki eru hugdjarfir í vitnisburðinum um Jesú. Þess vegna hljóta þeir ekki kórónu Guðsríkis.“10

Hinir ranglátu, sem ekki meðtaka fagnaðarerindið eða vitnisburð um Jesú, munu erfa jarðneska ríkið.

Spámaðurinn Joseph Smith sá eftirfarandi í sýn, síðar skráð í Kenningu og sáttmála 76:81–85, 100–106, 110–12: „Og enn sáum við dýrð hins jarðneska, en dýrð þess er minni, já, á sama hátt og dýrð stjarnanna er önnur en dýrð tunglsins á festingunni.

Þetta eru þeir, sem hvorki meðtóku fagnaðarerindi Krists né vitnisburð um Jesú. Þetta eru þeir, sem afneita ekki hinum heilaga anda. Þetta eru þeir, sem varpað er niður til heljar. Þetta eru þeir, sem ekki losna undan djöflinum fyrr en í síðustu upprisunni, ekki fyrr en Drottinn, já, lambið Kristur, hefur lokið verki sínu. …

Þetta eru þeir, sem sumir segjast vera af einum, en sumir af öðrum – sumir Krists og aðrir Jóhannesar, sumir Móse og aðrir Elíasar, sumir Esaja, sumir Jesaja og aðrir Enoks – En tóku hvorki á móti fagnaðarerindinu né vitnisburði um Jesú, né spámönnunum, né heldur hinum ævarandi sáttmála.

Að lokum, allir þessir eru þeir, sem ekki verða sameinaðir hinum heilögu, til að verða hrifnir upp til kirkju frumburðarins, þar sem tekið verður á móti þeim á skýi uppi.

Þetta eru þeir, sem eru lygarar og töframenn og frillulífsmenn og hórkarlar, og allir þeir, sem elska lygi og iðka. Þetta eru þeir, sem þola heilaga reiði Guðs á jörðu. Þetta eru þeir, sem þola refsingu eilífs elds. Þetta eru þeir, sem varpað er niður til heljar og þola heilaga reiði hins almáttuga Guðs fram að fyllingu tímanna, þegar Kristur hefur lagt alla óvini sína að fótum sér og hefur fullkomnað verk sitt. …

Og [við] heyrðum rödd Drottins sem sagði: Allir þessir skulu beygja kné sín og sérhver tunga skal viðurkenna hann, sem situr í hásætinu, alltaf og að eilífu – Því að þeir munu dæmdir af verkum sínum og í samræmi við verk sín hlýtur hver maður sín eigin yfirráð í þeim híbýlum, sem fyrirbúin eru – Og þeir verða þjónar hins æðsta, en þangað sem Guð og Kristur dvelja, geta þeir aldrei að eilífu komist.“11

Kvöl hinna ranglátu er sú vitneskja, að þeim hafi mistekist að hljóta dýrðina sem þeir hefðu getað notið.

„Guð hefur fyrirskipað að allir þeir sem ekki hlýði rödd hans fái ekki umflúið fordæmingu heljar. Hvað er fordæming heljar? Að ganga til liðs við samfélag þeirra sem ekki hafa hlýtt fyrirmælum hans. … Ég veit að allir þeir menn munu fordæmdir, fari þeir ekki þann veg sem hann hefur opnað þeim, og þetta er sá vegur sem auðkenndur er af orði Drottins.“12

„Hin mikla kvöl hinna horfnu anda í andaheiminum, þangað sem þeir fara eftir dauðann, er sú vitneskja, að þeim hafi mistekist að hljóta dýrðina sem aðrir njóta og sem þeir sjálfir hefðu getað notið, og þeir eru sínir eigin ásakendur.“13

„Enginn sársauki er jafn skelfilegur og sá sem hlýst af óvissunni. Það er refsing hinna ranglátu. Vantrú þeirra, áhyggjur og óvissa veldur gráti, kveini og gnístran tanna.“14

„Maðurinn er sinn eigin kvalari og sinn eigin fordæmandi. Þess vegna er þeim fyrirbúinn staður í díkinu, sem logar af eldi og brennisteini [sjá Op 21:8]. Kvöl vonbrigða í huga mannsins verður jafn skelfileg og díki er logar af eldi og brennisteini. Ég segi: Svo er um kvöl mannsins. …

“… Sumir munu rísa upp til ævarandi ljóma Guðs, því Guð dvelur í ævarandi ljóma og sumir munu rísa upp til fordæmingar eigin sora, sem jafnast á við kvöl díkis er logar af eldi og brennisteini.“15

Ábendingar um nám og kennslu

Íhugið þessar hugmyndir er þið lærið þennan kafla eða búið ykkur undir kennslu. Sjá bls. vii–xii til frekari leiðsagnar.

  • Joseph Smith og Sidney Rigdon höfðu ígrundað vers í ritningunum þegar þeir hlutu opinberunina sem skráð er í Kenningu og sáttmálum 76 (bls. 215–16; sjá einnig K&S 76:15–19). Hvaða persónulega reynsla hefur veitt ykkur skilning á því að íhugun geti leitt til aukinnar vitneskju? Er þið nemið þennan kafla, líkt og aðra kafla, gefið ykkur þá tíma til að íhuga þann sannleika sem þið lesið.

  • Lesið Jóh 14:2–3 og 1 Kor 15:40–41. Hvernig hjálpar kennsla þessa kafla ykkur að skilja þessi vers?

  • Í lýsingu á þeim sem erfa munu himneska, yfirjarðneska og jarðneska dýrð, er orðtakið „vitnisburður um Jesú“ notað fimm sinnum (bls. 217–21). Hver eru einkenni þeirra sem eru „hugdjarfir í vitnisburðinum um Jesú“? Hvaða loforð eru þeim gefin sem eru hugdjarfir í vitnisburðinum um Jesú?

  • Lesið næst síðustu málsgreinina á bls. 217, athugið sérstaklega orðin „sigra fyrir trú.“ Hvað er það sem við gætum þurft að sigrast á? Hvernig gerir trú á Jesú Krist okkur kleift að sigrast á vanda þessa lífs?

  • Lesið næst síðustu málsgreinina á bls. 218. Hvers vegna haldið þið að við höfum þörf á að taka framförum „með því að fara frá einni minni dýrð til annarrar stærri,“ í okkar eilífu framþróun? Hvaða reynslu hafið þið hlotið sem skýrir þörf þess að læra og þroskast á þennan hátt?

  • Lesið fjórðu málsgreinina á bls. 219. Sem greinir frá því að sumt fólk muni erfa jarðneska ríkið. Hvernig getum við komist hjá því að verða „blinduð … af slægð manna“? Hvernig getum við hjálpað öðrum að komast hjá því að blindast af slægð manna?

  • Leitið orða og orðasambanda á bls. 221, þar sem Joseph Smith lýsir ástandi hinna ranglátu í komandi lífi. Hverju miðla þessi orð og orðasambönd ykkur? Hvernig getur maður verið „sinn eigin kvalari og sinn eigin fordæmandi“?

  1. History of the Church, 1:245; stafsetning færð í nútímahorf; úr “History of the Church” (handrit), bók A-1, bls. 183, Skjalasafn kirkjunnar, Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, Salt Lake City, Utah.

  2. History of the Church, 1:252–53; úr “History of the Church” (handrit), bók A-1, bls. 192, Skjalasafn kirkjunnar.

  3. History of the Church, 6:365; greinaskilum bætt við; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 12. maí 1844, í Nauvoo, Illinois; skráð af Thomas Bullock.

  4. History of the Church, 5:423–25; stafsetning færð í nútímahorf; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 11. júní 1843, í Nauvoo, Illinois; skráð af Wilford Woodruff og Willard Richards; sjá einnig viðauka bls. 562, atriði 3.

  5. History of the Church, 6:477–78; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 16. júní 1844, í Nauvoo, Illinois; skráð af Thomas Bullock; sjá einnig viðauka bls. 562, atriði 3.

  6. Kenning og sáttmálar 76:50–59, 62, 68–70; sýn veitt Joseph Smith og Sidney Rigdon 16. febr. 1832, í Hiram, Ohio.

  7. Kenning og sáttmálar 131:1–4; orð í sviga upprunaleg; fræðsla sem Joseph Smith veitti 16. og 17. maí 1834, í Ramus, Illinois.

  8. History of the Church, 6:306; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 7. apríl 1844, í Nauvoo, Illinois; skráð af Wilford Woodruff, Willard Richards, Thomas Bullock og William Clayton.

  9. History of the Church, 6:478; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 16. júní 1844, í Nauvoo, Illinois; skráð af Thomas Bullock; sjá einnig viðauka bls. 562, atriði 3.

  10. Kenning og sáttmálar 76:71–79; sýn veitt Joseph Smith og Sidney Rigdon 16. febr. 1832, í Hiram, Ohio.

  11. Kenning og sáttmálar 76:50–59, 100, 68–70; sýn veitt Joseph Smith og Sidney Rigdon 16. febr. 1832, í Hiram, Ohio.

  12. History of the Church, 4:554–55; greinaskilum bætt við; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 20. mars 1842, í Nauvoo, Illinois; skráð af Wilford Woodruff; sjá einnig viðauka, bls. 562, atriði 3.

  13. History of the Church, 5:425; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 11. júní 1843, í Nauvoo, Illinois; skráð af Wilford Woodruff og Willard Richards; sjá einnig viðauka bls. 562, atriði 3.

  14. History of the Church, 5:340; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 8. apríl 1843, í Nauvoo, Illinois; skráð af Willard Richards og William Clayton.

  15. History of the Church, 6:314, 317; stafsetning færð í nútímahorf; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 7. apríl 1844, í Nauvoo, Illinois; skráð af Wilford Woodruff, Willard Richards, Thomas Bullock og William Clayton.

Ljósmynd
John Johnson home

Endurbyggt heimili Johns Johnson í Hiram, Ohio Í febrúar 1832 sá spámaðurinn Joseph Smith sýn á heimili Johnsons um dýrðargráðurnar Þrjár sem Guð fyrirbjó börnum sínum.

Ljósmynd
clouds

Þeir sem erfa himneska ríkið eru „Þeir, sem eiga himneska líkama, og dýrð þeirra er sem sólarinnar, já, dýrð Guðs, hins æðsta alls.”