Kenningar forseta
33. Kafli: Andlegar gjafir lækningar, tungutals, spádóms og greiningar anda


33. Kafli

Andlegar gjafir lækningar, tungutals, spádóms og greiningar anda

„Enginn maður getur verið þjónn Jesú Krists, nema hann eigi vitnisburð um Jesú Krist; og það er andi spádóms.“

Úr lífi Josephs Smith

EÍftir stutt tímaskeið í athvarfi Quincy, Illinois, tóku hinir heilögu að flytja á fyrstu mánuðum ársins 1839 um 80 kílómetra norður að byggðinni Commerce í Illinois. Eftir flótta sinn úr fangelsinu í Missouri tók spámaðurinn að kaupa landsvæði umhverfis Commerce, sem samansöfnunarstað fyrir þær þúsundir sem flúið höfðu frá Missouri og þörfnuðust nú staðar til að endurbyggja líf sitt á. Fyrir júlí 1839 höfðu hundruð hinna heilögu tjaldað og komið upp vögnum sínum austan megin Mississippi-fljótsins, en aðrir fundu sér athvarf í yfirgefnum herbröggum hinu megin fljótsins, í Montrose, Iowa. Í þessum nýju heimkynnum kepptust hinir heilögu við að að ryðja og þurrka mýrlendið við fljótið. Margir meðlima kirkjunnar urðu fyrir biti moskítóflugna og urðu alvarlega veikir af malaríu og öðrum sjúkdómum. Sumir hinna heilögu létust og aðrir voru nær dauða en lífi. Joseph og Emma Smith tóku svo marga að sér í bjálkahúsið til aðhlynningar, að spámaðurinn lét öðrum eftir rúm sitt og svaf úti í tjaldi.

Hinn 22. júlí, í öllum veikindunum sem hrjáðu svo marga hinna heilögu, urðu þeir vitni að því sem öldungur Wilford Woodruff kallaði „dag máttar Guðs.“1 Um morguninn stóð spámaðurinn upp, ákallaði Drottin í bæn, og hlúði síðan, fullur anda Drottins, að hinum veiku í húsinu, í garðinum og niður með árbakkanum. Hann fór yfir fljótið og vitjaði Brighams Young á heimili hans í Montrose, til að veita honum blessun lækningar. Að því loknu hélt hann áfram, í félagi við Sidney Rigdon, Brigham Young og fleiri meðlimi hinna Tólf, til að veita fleiri heilögum líknarþjónustu í Iowa. Öldungur Woodruff minntist minnisstæðustu lækningarinnar þann dag:

„Við gengum yfir almenningstorgið og inn í hús bróður [Elijah] Fordhams. Bróðir Fordham hafði verið nær dauða en lífi í rúma klukkustund, og við áttum von á að hann færi á hverri stundu. Ég fann fyrir anda Guðs sem var afar sterkur með spámanninum. Þegar við gengum inn í húsið, gekk bróðir Joseph til bróður Fordham og tók í hægri hönd hans. … Hann sá að augu bróður Fordham voru gljáandi og að hann fékk ekki mælt því hann virtist rænulaus.

Þegar [spámaðurinn] hafði tekið í hönd hans, leit hann niður á andlit hins deyjandi manns og sagði: ,Bróðir Fordham, þekkir þú mig ekki?‘ Í fyrstu svaraði hann ekki, en við sáum allir þau áhrif anda Guðs sem hvíldu á honum.

[Joseph] sagði á ný: ,Elijah, þekkir þú mig ekki?‘ Bróðir Fordham svaraði með lágu hvísli, ,Jú!‘ Þá sagði spámaðurinn: ,Hefur þú ekki trú til að læknast?‘

Hann svaraði örlítið skýrar en áður: ,Ég óttast að það sé um seinan. Ef þú hefðir komið fyrr, tel ég mig hafa haft þá trú.‘ Það var eins og hann væri að vakna eftir svefn. Það var svefn dauðans. Þá sagði Joseph: ,Trúir þú ekki að Jesús er Kristur?‘ Svar hans var: ,Ég trúi því, bróðir Joseph.‘

Eftir það mælti spámaður Guðs hárri röddu, líkt og af mikilleika Guðdómsins: ,Elijah, ég býð þér, í nafni Jesú frá Nasaret, að rísa upp og verða heill!‘

Orð spámannsins voru ekki sem orð manns, heldur sem rödd Guðs. Mér virtist húsið skjálfa á grunni sínum. Elijah Fordham spratt upp úr rúmi sínu, eins og maður sem reistur hafði verið upp frá dauðum. Heilnæmur litur kom á vanga hans og hann lifnaði greinilega allur við. Heitur [maísmjöl] bakstur hafði verið lagður við fætur hans. Hann sparkaði bakstrinum af fótum sér, og innihaldið dreyfðist um allt. Þessu næst bað hann um föt sín og klæddi sig í þau. Hann bað um brauð og mjólk, og át. Hann setti síðan á sig hatt sinn og fylgdi okkur út á götu til að vitja annarra sjúkra.“2

Á neyðarstundum nutu hinir heilögu ríkulega lækningar af hendi spámannsins.

Kenningar Josephs Smith

Hinir sjúku læknast fyrir trú og kraft prestdæmisins, að vilja Drottins.

„Hvert er tákn lækningar hinna sjúku? Handayfirlagning er það tákn eða sú aðferð sem Jakob greindi frá, og sú aðferð sem hinir heilögu beittu til forna, líkt og Drottinn bauð, og við getum ekki hlotið blessun með neinni annarri aðferð en þeirri sem Drottinn hefur tilnefnt [sjá Jakbr 5:14–15].“3

Joseph Smith skráði í júlí 1839, flegar hinir heilögu voru nýfluttir til Commerce, Illinois, og mikið var um veikindi meðal þeirra: „Mikil veikindi urðu meðal bræðranna, og einnig meðal íbúanna sem bjuggu þar, og því fór þessi vika og sú fyrri að mestu í að heimsækja hina sjúku og hlúa að þeim. Sumir höfðu næga trú til að læknast, en aðrir ekki. …

Sunnudagurinn 28. – Samkoma var haldin, eins og venjulega. … Ég talaði og áminnti meðlimi kirkjunnar, hvern fyrir sig, að koma reglu á hús sitt, hreinsa kerið að innan, og koma saman næsta hvíldardag til að neyta sakramentisins, og með hlýðni við helgiathöfnina yrði okkur kleift, með Guði, að sigra tortímandann, og hinir sjúku mundu læknast. Ég varði tíma mínum aðallega meðal hinna sjúku, sem flestir hafa öðlast styrk og eru á batavegi.“4

„Margir hinna réttlátu munu vart fá undan komist og verða fórnarlömb sjúkdóma, drepsótta, o. s. frv., vegna veikleika holdsins, en munu eigi að síður frelsast í ríki Guðs. Það er því ranglátt að segja að þessi eða hinn hljóti að hafa brotið af sér úr því að hann komst eigi hjá sjúkdómi eða dauða, því allt hold er háð dauða, og frelsarinn sagði: ,Dæmið ekki, svo að þér verðið ekki dæmdir.‘ [Sjá Matt 7:1.]“5

Tilgangur tungutalsgjafar er að kenna öðrum fagnaðarerindið.

Árið 1834 talaði spámaðurinn á ráðstefnu öldunganna: „Joseph gaf þá útskýringu, að gjöf tungutals væri einkum ætluð til prédikunar fagnaðarerindisins fyrir öðrum þjóðum og tungum, en ekki til að stjórna kirkjunni.“6

„Allt sem við getum sagt um gjöf tungutals, er að við höfum hlotið hana líkt og hinir fornu gerðu: Við viljum samt að þið séuð varkárir, svo þið látið ei blekkjast. … Ef þið eruð ekki varkárir, mun Satan án efa verða ykkur til armæðu hvað varðar gjöf tungutals. Þið getið hvorki verið of mikið á verði gegn honum, né beðist of mikið fyrir. Megi Drottinn veita ykkur visku í öllu.“7

„Ég las 13. kaflann í 1. Korintubréfi [á samkomu sem haldin var 26. desember 1841], og einnig hluta af 14. kaflanum, og benti á að tungutalsgjöf væri kirkjunni nauðsynleg; … Tungutalsgjöf í kirkjunni, fyrir kraft heilags anda, er þjónum Guðs til gagns við að prédika fyrir vantrúarmönnum, líkt og gert var á hvítasunnudeginum.“8

„Tungutal er veitt til þess að hægt sé að prédika fagnaðarerindið þar sem tungumál er ekki skilið, líkt og á hvítasunnudeginum o. s. frv., og ekki er nauðsynlegt að kenna kirkjunni tungutal, því hver sá maður sem hefur heilagan anda, getur mælt fram málefni Guðs á sinni eigin tungu jafnt og einhverri annarri tungu, því trú hlýst ekki með tákni, heldur með því að hlýða á orð Guðs.“9

„Verið ekki forvitin um tungutal, talið ekki tungum nema túlkur sé fyrir hendi. Tungutal skal, þegar öllu er á botninn hvolft, nota til að tala til útlendinga, og vilji einhver ákaft sýna eigin gáfur, skal hann mæla til slíkra á þeirra eigin tungu. Gjafir Guðs eru allar gagnlegar á sinn hátt, en sé þeim beitt á einhvern þann hátt sem Guð hefur ekki tilnefnt, reynast þær skaðlegar, og eru gildrur er leiða til fordæmingar í stað blessunar.“10

„Meðal okkar hafa einnig verið bræður og systur sem haft hafa falska tungutalsgjöf; sem tauta tilgerðarlegri röddu, í undarlegum líkamsstellingum … ; en ekkert er tilgerðarlegt í anda Guðs.“11

„Mælið ekki með tungutalsgjöf án skilnings eða túlkunar. Djöfullinn getur talað tungum, andstæðingurinn mun vinna verk sitt, hann er fær um að freista manna af öllum stéttum, og getur talað bæði ensku og hollensku. Leyfið engum að tala tungum, nema hann túlki, og með samþykki þess sem í forsæti er leyfist honum sjálfum, eða einhverjum öðrum, að túlka eða greina eitt frá öðru.“12

„Ef þið þurfið að koma einhverju máli á framfæri, skuluð þið gera það á ykkar eigin tungu. Leyfið ykkur ekki of mikla tungutalsgjöf, því djöfullinn mun notfæra sér hina saklausu og ógætnu. Ykkur er heimilt að tala tungum sjálfum ykkur til huggunar, en ég set fram sem reglu, að sé eitthvað kennt með tungutalsgjöf, skal það ekki viðurkennt sem kenning.“13

Þótt einn maður mæli sem spámaður kirkjunnar, geta allir fyrir spádómsandann vitnað um Jesú Krist.

„Enginn maður er þjónn Jesú Krist, án þess að vera spámaður. Enginn maður getur verið þjónn Jesú Krists, nema hann eigi vitnisburð um Jesú Krist, og það er spádómsandinn [sjá Op 19:10].“14

„Opinberarinn Jóhannes segir að vitnisburður um Jesú sé spádómsandi [sjá Op 19:10]. Hefur maðurinn ekki spádómsandann, ef hann á vitnisburð um Jesú? Ég spyr þá hvort maðurinn sé ekki spámaður, hafi hann spádómsandann? Og sé hann spámaður, mun hann þá ekki hljóta opinberun? Hver sá sem ekki hlýtur opinberun fyrir sig sjálfan, hlýtur að fordæmast, því vitnisburður um Jesú er spádómsandinn. Kristur býður: Biðjið, og þér munuð öðlast, og ég spyr: Ef hann hlýtur eitthvað, er það þá ekki opinberun? Og ef einhver maður á ekki vitnisburð um Jesú eða anda Guðs, er hann ekki hans, það er Krists. Og ef ekki hans, mun hann fordæmdur verða.“15

Gestur nokkur í Nauvoo skráði, að Joseph Smith hefði kennt eftirfarandi í samræðum þeirra á milli: „Spámaðurinn Joseph [sagði að] … sé maður þjónn Guðs, verði hann að vitna um Jesú, og til þess að vitna um Jesú verði hann að hafa spádómsandann, því að samkvæmt Jóhannesi er vitnisburður um Jesú spádómsandinn.

„Ef einhver telur sig vera þjón Jesú og hefur ekki spádómsandann, hlýtur hann að vera falskt vitni, því hann býr ekki yfir þeirri gjöf sem gerir hann hæfan til að gegna því embætti. Og sá munur er á [Joseph Smith] og prestastétt þessarar kynslóðar, að hann segist búa yfir þessum spádómsanda, sem gerir hann hæfan til að vitna um Jesú og fagnaðarerindi sáluhjálpar, en prestastéttin afneitar þessum anda, já, spádómsandanum, sem einn og sér gæti verið þeim sannsögult vitni, eða arfleiðandi Drottins Jesú, en eigi að síður halda þeir því fram að þeir séu sannir þjónar sáluhjálpar.“16

„Trú hlýst af því að hlýða á orð Guðs, fyrir vitnisburð þjóna hans. Sá vitnisburður er ætíð veittur með anda spádóms og opinberunar.“17

Sú gjöf að greina anda gerir hinum trúföstu kleift að greina áhrif góðra og illra anda.

Á upphafsárum hinnar endurreistu kirkju urðu meðlimir kirkjunnar og meðlimir annarra trúfélaga stundum fyrir áhrifum illra eða sviksamra anda, og trúðu að þeir væru undir áhrifum heilags anda. Spámaðurinn Joseph Smith kenndi: „Nýlegir atburðir sem gerst hafa meðal okkar gerir það að áríðandi skyldu minni að segja eitthvað varðandi anda sem menn láta hvetjast af.

Augljóst er af skrifum postulanna [í Nýja testamentinu], að margir falskir andar voru til á þeirra tímum, sem ,farið hafa um í heiminum,‘ og aðeins var hægt að greina falska anda með vitsmunum Guðs og sannreyna hvaða andar væru af Guði [sjá 1 Jóh 4:1–4]. Heimurinn hefur almennt verið afar fávís um þetta afmark aða efni, og hvers vegna ætti hann ekki að vera það – ,þannig hefur heldur enginn komist að raun um, hvað Guðs er, nema Guðs andi.‘ [Sjá 1 Kor 2:11.] …

Á öllum öldum virðist skorta skilning á þessu efni. Hvers kyns andar hafa á öllum öldum sýnt sig, og næstum meðal allra manna. … Allir hafa sína anda, allir hafa þeir yfirnáttúrulegan kraft, og allir halda því fram að andar þeirra séu af Guði. Hver mun ráða þá gátu? ,Reynið andana,‘ sagði Jóhannes [1 Jóh 4:1], en hver getur gert það? Hinn lærði, mælski, vitri, guðlegi og heimspekingurinn – eru allir fávísir. … Hver fær varpað ljósi á hulda leyndardóma falskra anda, sem svo oft gera vart við sig meðal hinna Síðari daga heilögu? Við svörum því til, að enginn er fær um það án prestdæmisins, eða án þess að þekkja lögmálin sem andar láta stjórnast af, og ,enginn veit hvað heyrir Guði til, nema fyrir anda Guðs,‘ því fær enginn maður þekkt anda djöfulsins, eða vald hans og áhrif, nema með vitsmunum sem æðri eru hinum mannlegu, og flett hafa ofan af leyndum verkum hans, fyrir tilstilli prestdæmisins. …

Menn verða að geta geint anda áður en þeir eru færir um að varpa ljósi á þessi illu áhrif og fletta ofan af þeim, í öllu því sálarspillandi, djöfullega og viðurstyggilega litrófi sem þau birtast. Því ekkert er skaðlegra mannanna börnum en að vera undir áhrifum falskra anda og telja sig hafa anda Guðs með sér. Þúsundir hafa skynjað áhrif þessa hræðilega og banvæna krafts. …

Líkt og við höfum áður bent á felst hinn mikli vandi í fáfræði manna á eðli anda, á þeim lögmálum sem þeir láta stjórnast af, og táknunum sem hægt er að þekkja þá af. Sé andi Guðs nauðsynlegur til að þekkja það sem Guðs er, og aðeins er hægt að fletta ofan af djöflinum með þeim hætti, þá leiðir það af sjálfu sér að sé ekki einhver, eða einhverjir, fyrir hendi sem eiga samskipti við Guð, eða hljóta opinberanir frá Guði, sem varpa ljósi á áhrif anda, verða menn að eilífu fávísir um þau lögmál. Því ég fullyrði, að sé einn maður ófær um að þekkja þessa hluti, nema fyrir anda Guðs, þá eru þúsundir manna ekki færir um það heldur. Það er því utan skilnings hinna lærðu, tungu hinna mælsku, afls hinna voldugu. Og við neyðumst að lokum til að komast að þeirri niðurstöðu, að við erum ekki fær um að þekkja eða skilja nokkuð það sem varðar Guð, eða djöfulinn, án opinberunar, hvaða skoðun sem við kunnum að hafa á opinberun. Hversu ófus sem heimurinn kann að vera að viðurkenna þetta, þá bera hinar fjölmörgu trúarkenningar og skoðanir vott um að skilningur manna er enginn á þessu máli, og jafn augljóst er að án guðlegra samskipta varir fáfræði þeirra áfram. …

Menn verða að hafa gjöf til að greina anda, líkt og áður sagði, til að skilja þessa hluti, og hvernig geta þeir hlotið þá gjöf, ef gjafir andans eru ekki fyrir hendi? Og hvernig er hægt að hljóta þessar gjafir án opinberunar? ,[Kristur] steig upp til hæða, … og gaf mönnunum gjafir. Og frá honum er sú gjöf komin, að sumir eru postular, sumir spámenn, sumir trúboðar, sumir hirðar og kennarar‘ [sjá Ef 4:8, 11]. Og hvernig voru postular, spámenn, trúboðar, hirðar og kennarar kjörnir? Með spádómi (opinberun) og með handayfirlagningu: – Með guðlegum samskiptum og guðlega tilnefndri vígslu – fyrir tilstilli prestdæmisins, skipulögðu að reglu Guðs, að himneskri skipan. Postularnir til fornahöfðu lykla þessa prestdæmis – að leyndardómum ríkis Guðs, og gátu því svipt hulunni af öllu því sem varðar sjórnun kirkjunnar, velferð samfélagsins, örlög manna í verðandi framtíð, og sjálfræði, og kraft og áhrif anda, og gátu því stjórnað þeim öndum að eigin geðþótta, boðið þeim að hverfa á braut í nafni Jesú, og varpað ljósi á skaðleg og leynd verk þeirra, í tilraunum þeirra til að smeygja sér inn í kirkjuna í búningi trúarbragða, og berjast gegn málefnum kirkjunnar og útbreiðslu sannleikans. …

… Frelsara okkar, postulunum og jafnvel meðlimum kirkjunnar voru gefnar þessar gjafir, því Páll sagði: ,[Einn fær] kraft til að framkvæma undur. Einn fær spádómsgáfu, annar hæfileika að greina anda, einn að tala tungum og annar að útleggja tungutal.‘ [Sjá 1 Kor 12:10.] Allt þetta er af sama anda Guðs, og eru gjafir Guðs. … Enginn maður, eða menn, fá greint milli þess hvort andi sé sannur eða falskur án þess að hafa til þess skipað vald, prestdæmið og gjöf til að greina anda.18

Lygaandar fara um á jörðinni. Andar munu sýna sig á mikilfenglegan hátt, bæði sannir og falskir. … Ekki er sérhver andi, sýn, vitrun eða tákn af Guði. … Gjöf til að greina anda mun gefin hinum ráðandi öldungi. Biðjið þess að hann megi hafa þá gjöf.“19

Ábendingar um nám og kennslu

Íhugið þessar hugmyndir er þið lærið þennan kafla eða búið ykkur undir kennslu. Sjá bls. vii–xii til frekari leiðsagnar.

  • Lesið frásögnina á bls. 379. Á hvaða hátt getur þessi frásögn hjálpað Melkísedeksprestdæmishöfum að búa sig undir að þjónusta hina sjúku? Á hvaða hátt getur hún hjálpað okkur þegar við þurfum á prestdæmisblessun að halda? Hvers vegna teljið þið að það hafi verið mikilvægt fyrir bróður Fordham að tjá trú sína á Jesú Krist við þetta tækifæri?

  • Lesið yfir kennslu spámannsins Josephs á bls. 381. Hvaða reynsla hefur hjálpað ykkur að öðlast skilning á krafti prestdæmisins hvað varðar lækningu hinna sjúku? Hvaða reglu ættum við að láta stjórnast af er við greinum frá reynslu okkar af lækningu hinna sjúku? Hvers vegna læknast sumir ekki, jafnvel þótt þeir lifi í trú og hljóti prestdæmisblessanir?

  • Joseph gaf þá útskýringu, að gjöf tungutals „væri einkum ætluð til prédikunar fagnaðarerindisins fyrir öðrum þjóðum og tungum“ (sjá bls. 381–83). Á hvaða hátt hefur þessi gjöf hjálpað til við útbreiðslu fagnaðarerindisins í heiminum? Hvernig hafið þið, eða einhver sem þið þekkið, hlotið tungutalsgjöf ykkur til hjálpar við að prédika fagnaðarerindið?

  • Lesið kenningar spámannsins um anda spádóms (bls. 383–84). Hvað þýðingu hefur sú vitneskja fyrir ykkur, að hver meðlimur kirkjunnar geti haft spádómsandann?

  • Lesið kenningar spámannsins um gjöf til að greina anda (bls. 384–86). Hvað er gjöf til að greina anda? Hvernig getum við komist hjá því að láta blekkjast af illum áhrifum? Hvernig hjálpar núverandi spámaður og aðrir leiðtogar kirkjunnar okkur að greina ill áhrif?

Ritningargreinar tengdar efninu: 1 Kor 12:1–31; 14:1–6, 22–28; Jakbr 5:14–15; Moró 10:8–17; K&S 46:1–33; 50:1–36, 40–44; 52:14–19

Heimildir

  1. Wilford Woodruff, dagbækur, 1833–98, dagbókarfærsla 22. júlí 1839, Skjalasafn kirkjunnar, Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, Salt Lake City, Utah.

  2. Wilford Woodruff, “Leaves from My Journal,“ Millennial Star, 17. okt. 1881, bls. 670; stafsetning færð í nútímahorf; greinaskilum bætt við.

  3. History of the Church, 4:555; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 20. mars 1842, í Nauvoo, Illinois; skráð af Wilford Woodruff.

  4. History of the Church, 4:3–5; greinaskilum bætt við; skáletri eytt; dagbókarfærsla Josephs Smith, 8.–10. og 28. júlí 1839, Commerce, Illinois.

  5. History of the Church, 4:11; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 29. sept. 1839, í Commerce, Illinois; skráð af James Mulholland.

  6. History of the Church, 2:162; úr fundagerðabók ráðstefnu öldunga sem haldin var 8. sept. 1834, í New Portage, Ohio; skráð af Oliver Cowdery.

  7. History of the Church, 1:369; úr bréfi frá Joseph Smith og ráðgjöfum hans í Æðsta forsætisráðinu til bræðranna í Missouri, 2. júlí 1833, Kirtland, Ohio.

  8. History of the Church, 4:485; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 26. des. 1841, í Nauvoo, Illinois; skráð af Willard Richards.

  9. History of the Church, 3:379; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 27. júní 1839, í Commerce, Illinois; skráð af Willard Richards.

  10. History of the Church, 5:31–32; úr “Gift of the Holy Ghost,“ ritstjórnargrein birt í Times and Seasons, 15. júní 1842, bls. 825-26; Joseph Smith var ritstjóri tímaritsins.

  11. History of the Church, 4:580; stafsetning færð í nútímahorf; úr “Try the Spirit,“ ritstjórnargrein birt í Times and Seasons, 1. apríl 1842, bls. 747; Joseph Smith var ritstjóri tímaritsins.

  12. History of the Church, 3:392; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt í júlí 1839 í Commerce, Illinois; skráð af Willard Richards.

  13. History of the Church, 4:607; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 28. apríl 1842, í Nauvoo, Illinois; skráð af Elizu R. Snow.

  14. History of the Church, 3:389; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt í júlí 1839 í Commerce, Illinois; skráð af Willard Richards.

  15. Tilvitnun James Burgess, í samantekt útdrátta úr fyrirlestrum Josephs Smith; dagbækur James Burgess, 1841–48, 2. bindi, Skjalasafn kirkjunnar.

  16. History of the Church, 5:407–8; stafsetning færð í nútímahorf; geinaskilum bætt við; úr fræðslu sem Joseph Smith veitti í kringum janúar 1843, Nauvoo, Illinois; skráð í bréf af óþekktum fréttaritara Boston Bee, 24. mars 1843, Nauvoo, Illinois, birt í Times and Seasons, 15. maí 1843, bls. 200.

  17. History of the Church, 3:379; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 27. júní 1839, í Commerce, Illinois; skráð af Willard Richards.

  18. History of the Church, 4:571–75, 580; stafsetning færð í nútímahorf; greinaskilum bætt við; úr “Try the Spirit,“ ritstjórnargrein birt í Times and Seasons, 1. apríl 1842, bls. 743–45, 747; Joseph Smith var ritstjóri tímaritsins.

  19. History of the Church, 3:391-92; greinaskilum bætt við; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt í kringum júlí 1839, í Commerce, Illinois; skráð af Willard Richards.

Ljósmynd
Joseph healing Elijah Fordham

Hinn 22. júlí 1839 vaknaði Elijah Fordham af „[svefni] dauðans,“ eftir að Joseph Smith hafði verið á heimili hans og sagt: „Elijah, ég býð þér, í nafni Jesú frá Nasaret, að rísa upp og verða heill!“

Ljósmynd
missionaries teaching

„Tungutalsgjöf í kirkjunni, fyrir kraft heilags anda, er þjónum Guðs til gagns við að prédika fyrir vantrúarmönnum.”