Kenningar forseta
21. kafli: Síðari koman og Þúsundáraríkið


21. kafli

Síðari koman og Þúsundáraríkið

„Við skulum … fylgjast vel með táknum tímanna á lífsferð okkar, svo að dagur Drottins ,komi ekki yfir yður eins og þjófur á nóttu.‘ “

Úr lífi Josephs Smith

Í september 1832 fluttu Joseph og Emma Smith og sextán mánaða dóttir þeirra, Julia, frá sveitabýli Johnsons í Hiram, Ohio, aftur til Kirtlands. Þar fluttu þau í verslun sem Newel K. Whitney átti og bjuggu þar í rúmt ár. Smith-fjölskyldan bjó á annarri hæð verslunarinnar og að hluta til á fyrstu hæðinni, sem ekki var nýtt undir rekstur. Sonur Josephs og Emmu, Joseph Smith III, fæddist er fjölskyldan bjó í versluninni. Spámaðurinn hlaut einnig margar opinberanir þar.

Eina slíka opinberun hlaut hann á jóladag árið 1832. Spámaðurinn varði hluta dagsins heima fyrir, í djúpum hugleiðingum um hin alvarlegu vandamál þjóða heims á þeim tíma. „Vandamál meðal þjóðanna urðu meira áberandi á þessari árstíð, en þau höfðu verið áður en kirkjan hóf ferð sína úr auðninni,“ að sögn spámannsins.1 Atburðir í Bandaríkjunum voru að leiða til borgarastríðs og faraldrar banvænna sjúkdóma voru almennir í heiminum. Þegar spámaðurinn „baðst fyrir um málið af einlægni,“2 hlaut hann opinberun sem nú er í 87. kafli Kenningar og sáttmála. Drottinn opinberaði Joseph, að fyrir síðari komuna yrði stríði úthellt yfir allar þjóðir og náttúruhamfarir myndu aga fólkið:

„Og þannig munu íbúar jarðarinnar trega vegna sverðsins og blóðsúthellingar, og með hungursneyð, plágu, jarðskálfta og þrumum himins og einnig kröftugum og ógurlegum eldingum munu íbúar jarðar finna heilaga og réttláta reiði, og agandi hönd almáttugs Guðs, þar til hin fyrirbúna eyðing hefur bundið enda á allar þjóðir. … Standið þess vegna á heilögum stöðum og haggist ekki, þar til dagur Drottins kemur, því að sjá, hann kemur skjótt, segir Drottinn“ (K&S 87:6, 8).

Hinn 27. desember, tveimur dögum síðar, hlaut spámaðurinn aðra opinberun sem hafði fjölmargt að geyma um síðari komuna. Á þeim degi komu háprestar saman til ráðstefnu í ,þýðingarherbergi‘ spámannsins, sem var í verslun Whitneys, þar sem Joseph vann mest allt verk sitt að þýðingu Biblíunnar. Þetta var skráð á ráðstefnunni: „Bróðir Joseph reis á fætur og sagði okkur nauðsynlegt að beina hugsunum til Guðs, efla trú okkar og verða eitt í hjarta og huga, til að hljóta opinberanir og blessanir frá himnum. Hann hvatti því alla viðstadda til að biðjast fyrir upphátt til Drottins, hver fyrir sig, svo að [hann] opinberaði okkur vilja sinn varðandi uppbyggingu Síonar og hag hinna heilögu.“

Hver háprestanna „kraup niður frammi fyrir Drottni“ og greindi síðan frá tilfinningum sínum og staðfestu við að halda boðorð Guðs.3 Stuttu eftir það hlaut spámaðurinn opinberun frá Guði, sem síðar varð 88. kafli Kenningar og sáttmála. Opinberun þessi geymir nokkur hinna ítarlegustu ritningarversa er varða spádóma um komu Drottins og uppbyggingu hins þúsund ára friðartímabils (sjá K&S 88:86–116).

Drottinn opinberaði marga spádóma um síðari komuna með spámanninum Joseph Smith, Þúsundáraríkið og þann ólgutíma sem verður undanfari þeirra atburða. Þessi mikla úthelling opinberana er vitnisburður um að Joseph Smith hafi sannlega verið sjáandi, reistur upp af Guði. Líkt og Mormónbók vitnar: „En sjáandi getur vitað jafnt um orðna hluti sem óorðna, og með [honum] mun allt opinberast eða réttara sagt hið leynda opinberast, hið hulda kemur fram í ljósið og hið óþekkta munu þeir kunngjöra, og auk þess munu þeir kunngjöra það, sem annars mundi ekki kunnugt verða“ (Mósía 8:17).

Kenningar Josephs Smith

Táknin um komu frelsarans eru að koma fram; hinir trúföstu munu þekkja þessi tákn og öðlast frið á örðugum tíðum.

„Við skulum … fylgjast vel með táknum tímanna á lífsferð okkar, svo að dagur Drottins ,komi ekki yfir yður eins og þjófur á nóttu.‘ [Sjá K&S 106:4–5].”4

„Ég spái því að táknin um komu mannssonarins séu þegar að koma fram. Hver plágan af annarri mun í auðn leggja. Stríð og blóðsúthellingar munu brátt hefjast. Tunglið mun breytast í blóð. Ég vitna um þetta, og að koma mannssonarins sé nærri, jafnvel fyrir dyrum. Hugi sálir okkar og líkamar ekki að komu mannssonarins, og ef við horfum ekki fram, verðum við meðal þeirra, eftir dauða okkar, sem óska þess að fjöll og hamrar hrynji yfir sig [sjá Op 6:15–17].“5

„Kæru bræður, við sjáum að örðugar tíðir hafa runnið upp, líkt og vitnað var um [sjá 2 Tím 3:1]. Við getum því í fullkominni vissu vænst uppfyllingar alls þess sem ritað hefur verið, og litið upp til hinnar björtu sólar og sagt í hjörtum okkar af meiri trú en áður: Brátt munt þú hylja þína björtu ásjónu. Sá sem sagði ,verði ljós!‘og það varð ljós [sjá 1 Mós 1:3], hefur mælt þetta. Og enn á ný, þú tunglið, hið minna ljós, þú lýsandi himintungl næturinnar, munt breytast í blóð.

Við sjáum að allt er að uppfyllast, og sá tími mun brátt koma að mannssonurinn kemur í skýjum himins.“6

„Jörðin mun brátt uppskorin – það er, að hinum ranglátu verður brátt eytt af jörðinni, því að Drottinn hefur sagt það, og hver fær hnikað hönd Drottins, eða hver fær líkt eigin styrk við styrk hins almáttuga, því að himnarnir og jörðin munu að boði hans undir lok líða. Sá dagur kemur brátt er endurreisn allra hluta mun uppfyllast, sem hinir heilögu spámenn hafa spáð fyrir um, já, jafnvel samansöfnun húss Ísraels. Þá mun það meðal annars rætast, að ljónið mun leggjast við hlið lambsins o. s. frv.

En bræður, látið ekki hugfallast er við greinum ykkur frá örðugum tíðum, því þær verða brátt að koma, sverðið, hungursneyðin og farsóttin nálgast. Mikil eyðing mun verða á yfirborði þessa lands og gerið því ekki ráð fyrir að nokkur stafkrókur í spádómum allra hinna helgu spámanna rætist ekki, og enn eiga margir spádómar eftir að uppfyllast. Drottinn hefur sagt, að hann muni ljúka verki sínu skjótt og hinum réttlátu mun verða bjargað, jafnvel þótt það verði með eldi [sjá Róm 9:28; 1 Ne 22:17].“7

„Að því er komið að ritningin uppfyllist sem segir mikil stríð, hungursneyðir, farsóttir, neyð, dóma o. s. frv. standa fyrir dyrum og koma yfir íbúa jarðarinnar.“8

„Við sjáum að örðugar tíðir hafa sannlega orðið og það sem við höfum lengi vænst er loks að hefjast, en þegar þið sjáið lauf fíkjutrésins taka að springa út, þá vitið þið að sumarið er í nánd [sjá Matt 24:32–33]. Verkið á jörðinni mun standa stutt yfir. Það er nú þegar hafið. Ég geri ráð fyrir að brátt muni ringulreið ríkja hvarvetna á jörðinni. Látið ekki hugfallast í hjarta þegar slíkt gerist, því það verður að gerast, ella getur orðið ekki uppfyllst.“9

„Ég hef spurt Drottin um komu hans, og er ég spurði Drottin, veitti hann mér tákn og sagði: ,Á tíma Nóa setti ég boga á himininn til tákns um að Drottinn kæmi ekki á því ári sem boginn væri sýnilegur, en á því ári ætti að sá og uppskera. En alltaf þegar þú sérð bogann burtu tekinn, skal það verða til tákns um að hungursneyð og farsóttir verði, og miklar hörmungar meðal þjóðanna, og að ekki sé langt í komu Messíasar.‘ “10

„Júda verður að snúa aftur, Jerúsalem verður að endurreisa, og musterið, og vatnið að renna niður undan musterinu, og vatnið í Dauðahafinu að verða heilnæmt [sjá Esek 47:1–9]. Einhvern tíma tekur að endurreisa múra borgarinnar og musterisins, o. s. frv., en allt þetta verður að gerast áður en mannssonurinn birtist. Það munu verða stríð og hernaðartíðindi spyrjast, tákn á himnum uppi og á jörðu niðri, sólin mun bregða birtu og tunglið verða blóðrautt, jarðskjálftar verða á ýmsum stöðum, bönd sjávar munu bresta. Þá mun mikið tákn birtast á himni um mannssoninn. En hvað mun heimurinn taka til bragðs? Þar mun sagt að um plánetu sér að ræða, halastjörnu o. s. frv. En mannssonurinn mun koma eins og táknið um komu mannssonarins, sem verða mun líkt og sólarupprisa verði í austri [sjá Joseph Smith – Matt 1:26].“11

„[Ég] hef útskýrt komu mannssonarins, og einnig að það sé rangt að hinir heilögu muni komast hjá öllum dómum, meðan hinir ranglátu þjást. Því allt hold er undir þjáningu sett, og ,hinir heilögu fá einnig vart undan komist‘ [sjá K&S 63:34], en margir hinna heilögu munu fá undan komist, því hinir réttlátu munu lifa í trúfesti [sjá Hab 2:4]. Margir hinna heilögu munu þó einnig verða fórnarlömb sjúkdóma, farsótta, o. s. frv., sökum veikleika holdsins, en samt frelsast í ríki Guðs. Það er því vanheilög regla að segja hinir og þessir hafi syndgað, hafi þeir orðið sjúkdómi eða dauða að bráð, því allt hold er háð dauða, og frelsarinn sagði: ,Dæmið ekki, svo að þér verðið ekki dæmdir.‘ [Sjá Matt 7:1].“12

Drottinn mun ekki koma fyrr en allt hefur verið uppfyllt er varðar komu hans.

„Koma mannssonarins verður ekki – og mun ekki verða fyrr en dómunum sem getið er um fyrir þennan tíma verður úthellt: Hvaða dómar eru þegar hafnir? Páll sagði: ,En þér … eruð ekki í myrkri, svo að dagurinn geti komið yfir yður sem þjófur. Þér eruð allir synir ljóssins og synir dagsins.‘ [Sjá 1 Þess 5:4–5.] Það er ekki ætlun almættisins að koma til jarðarinnar til að kremja hana og mylja mélinu smærra, en hann mun opinbera komu sína þjónum sínum, spámönnunum [sjá Amos 3:7].“13

„Jesús Kristur hefur aldrei opinberað nokkrum manni nákvæmlega hvenær hann mun koma [sjá Matt 24:36; K&S 49:7]. Kannið ritningarnar, og þið munuð ekkert finna sem tilgreinir nákvæmlega hvenær hann mun koma, og allir sem segja eitthvað annað eru falskennarar.“14

Spámaðurinn Joseph Smith sagði varðandi mann nokkurn sem sagðist hafa séð tákn mannssonarins: „Hann hefur ekki séð táknið um mannssoninn, líkt og Jesús sagði fyrir um, það hefur enginn maður gert, og enginn mun gera það, fyrr en eftir að sólin bregður birtu sinni og tunglið verður blóðrautt. Drottinn hefur ekki sýnt mér neitt slíkt tákn, og líkt og spámaðurinn sagði, því þannig verður það að vera – ,Nei, Drottinn Guð gjörir ekkert án þess að hann hafi opinberað þjónum sínum, spámönnunum, ráðsályktun sína.‘ (Sjá Amos 3:7.) Hlusta því nú, ó, jörð: Drottinn mun ekki koma til að ríkja yfir hinum réttlátu í þessum heimi árið 1843, ekki fyrr en allt er reiðubúið fyrir brúðgumann.“15

Þeir sem eru vitrir og trúfastir verða viðbúnir þegar Drottinn kemur aftur.

„Þegar ég íhuga hve hratt hinn mikli og dýrðlegi dagur komu mannssonarins nálgast, er hann kemur til að taka á móti hinum heilögu sjálfum sér til handa, til að þeir fái dvalið í návist hans, og verði krýndir dýrð og ódauðleika; þegar ég íhuga að himnarnir munu brátt bifast og jörðin skjálfa og nötra, og fortjaldi himnanna mun svipt frá, eins og samanvöfðu bókfelli sem opnast, og allar eyjar hverfa og fjöllin verði ekki lengur til, hrópa ég í hjarta mínu: Hversu ber okkur þá ekki að ganga fram í heilagri breytni og guðrækni! [Sjá 2 Pét 3:11.]“16

„Jörðin stynur undan spillingu, áþján, harðstjórn og blóðsúthellingum, og Guð mun koma úr felum, líkt og hann hefur sagt, til að hrella þjóðir jarðarinnar. Daníel sá í sýn sinni umrót eftir umrót, hann ,horfði, þar til er stólar voru settir fram og hinn aldraði settist niður;‘ og einn var leiddur fyrir hann er líktist mannssyninum; og allir lýðir, þjóðir og tungur þjónuðu og lutu honum [sjá Dan 7:9–14]. Okkur ber að vera réttlát, svo við verðum vitur og skilningsrík, því enginn ranglátur mun skilja, en hinir vitru munu skilja, og þeir sem snúa mörgum til réttlætis, munu skína sem stjörnur, ætíð og ævarandi [sjá Dan 12:3].“17

„Megi hinn ríki og hinn lærði, hinn vitri og hinn göfugi, hinn fátæki og hinn þurfandi, hinn ánauðugi og hinn frjálsi, bæði svartir og hvítir, huga að ráðum sínum, og snúa sér að þekkingu Guðs, og iðka réttvísi og dómgreind á jörðinni í réttlæti, og búa sig undir að mæta dómara lifenda og látinna, því að stund komu hans er í nánd.“18

„Megum við vera vitur í öllu og halda boðorð Guðs, svo að sáluhjálp okkar sé tryggð. Við getum staðist þennan mikla reynsludag, ef við erum viðbúin og íkædd alvæpni réttlætisins [sjá Ef 6:13].“19

Í desember 1830 sagði spámaðurinn eftirfarandi í bréfi til meðlima kirkjunnar í Colesville, New York: „Megið þið öll vera trúföst og vænta tíma Drottins, því koma hans er í nánd.

‘En um tíma og tíðir hafið þér, bræður, ekki þörf á að yður sé skrifað. Þér vitið það sjálfir gjörla, að dagur Drottins kemur sem þjófur á nóttu. Þegar menn segja: Friður og engin hætta, þá kemur snögglega tortíming yfir þá, eins og jóðsótt yfir þungaða konu. Og þeir munu alls ekki undan komast.

En þér, bræður, eruð ekki í myrkri … Vér skulum þess vegna ekki sofa eins og aðrir, heldur vökum og verum algáðir. Þeir, sem sofa, sofa á nóttunni og þeir, sem drekka sig drukkna, drekka á nóttunni.

En vér, sem heyrum deginum til, skulum vera algáðir, klæddir brynju trúar og kærleika og von hjálpræðis sem hjálmi. Guð hefur ekki ætlað oss að verða reiðinni að bráð, heldur að öðlast sáluhjálp fyrir Drottin vorn Jesú Krist.‘ [1 Þess 5:1–4, 6–9.]

Hughreystið því hver annan, já, líkt og þið þegar gerið, því örðugar tíðir eru fyrir höndum. … Friður hefur að hluta verið tekinn af jörðinni, og brátt að fullu. Já, tortíming er fyrir höndum, og brátt kemur hún yfir hús hinna ranglátu, og þeirra sem ekki þekkja Guð.

Já, lyftið höfði og fagnið, því nú dregur að endurlausn ykkar. Við erum blessunarríkasta fólk sem uppi hefur verið allt frá grundvöllun heimsins, ef við verðum trúföst og höldum boðorð Guðs. Já, jafnvel Enok, hinn sjöundi frá Adam, sá okkar tíma og fagnaði [sjá HDP Móse 7:65–67], og spámenn frá þeim tíma hafa spáð um síðari komu Drottins okkar og frelsara, Jesú Krists, og fagnað yfir degi hvíldar hinna heilögu. Já, og postular frelsara okkar fögnuðu einnig yfir komu hans í skýi, ásamt herskörum himins, til að dvelja meðal manna á jörðinni í þúsund ár [sjá Op 1:7]. Við höfum því ástæðu til að fagna.

Sjá, spádómar Mormónsbókar uppfyllast jafn hratt og tími leyfir. Andi hins lifandi Guðs er yfir mér, hver getur þá komið í veg fyrir að ég spái. Sá tími er brátt fyrir höndum að við verðum að flýja hvert sem Drottinn býður okkur, í öruggt skjól. Óttist ekki þá sem reyna að sakfella ykkur [sjá Jes 29:20–21], verið heldur trúföst við að vitna fyrir spilltri og rangsnúinni kynslóð um að koma Drottins okkar og frelsara sé fyrir höndum. Já, greiðið veg Drottins, gjörið beinar brautir hans [sjá Matt 3:3].

Hver mun hörfa undan ásókn og árásum, því slíkt kemur örugglega, og vei sé þeim sem það ástunda, því hamrar munu á þá falla og kremja þá í duftið [sjá Matt 18:7; 21:43–44]. Mælir Þjóðanna er að fyllast, og vei sé þeim, ef þær iðrast ekki og láta skírast í nafni Drottins okkar og frelsara, Jesú Krists, til fyrirgefningar synda sinna, og komi inn um hið þrönga hlið og teljist meðal húss Ísraels. Því Guð mun ekki stöðugt láta að sér hæða, og halda aftur af reiði sinni gagnvart þeim sem vanhelga hans heilaga nafn, og sverðið, farsóttir og tortíming munu brátt koma yfir þá í þeirra spilltu iðju, því Guð mun refsa og úthella sinni bætandi reiði, og frelsa sína kjörnu [sjá Op 16:1].

Og allir þeir sem vilja halda boðorð hans eru hinir kjörnu, og brátt mun hann safna þeim saman úr áttunum fjórum, himinskauta á milli [sjá Matt 24:31], til þess staðar sem honum þóknast. Verið því þolgóð og hafið stjórn á sálum ykkar [sjá Lúk 21:19]“20

Þúsundáraríkið verður tímabil friðar og frelsarinn mun ríkja á jörðinni.

Trúaratriðin 1:10: „Vér höfum trú á … að Kristur muni sjálfur ríkja hér á jörðu og að jörðin verði endurnýjuð og hljóti paradísardýrð sína.“21

„Ásetningur Guðs … er að … koma á friði og spekt meðal manna, efla reglur eilífs sannleika, gera það ástand að veruleika sem sameinar manninn náunga sínum; fá heiminn til að ,smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum‘ [Jes 2:4], fá þjóðir jarðar til að búa við frið, og gera þúsund ára dýrðina að veruleika, er ,jörðin mun bera sinn gróða, og endurheimta [paradísardýrð] sína og verða sem aldingarður Drottins.‘ …

Þetta hefur verið ásetningur Jehóva, allt frá upphafi heimsins, og er tilgangur hans nú, að stjórna málefnum heimsins á sínum tíma, að vera höfuð alheims, og taka stjórnartaumana í sínar hendur. Þegar því hefur verið komið til leiðar, mun dómi úthellt í réttlæti, stjórnleysi og ringulreið upprætt, og ,engin þjóð skal … temja sér hernað framar.‘ [Sjá Jes 2:4.] …

… Móse tók á móti orði Drottins frá Guði sjálfum, hann var talsmaður Guðs til Arons, og Aron kenndi fólkinu, bæði borgaraleg og kirkjuleg málefni. Þeir voru báðir eitt, enginn ágreiningur var þeirra á milli, og þannig mun það einnig verða þegar tilgangi Guðs er náð: Þegar ,Drottinn mun [verða] konungur yfir öllu landinu,‘ og ,Jerúsalem hásæti [hans]‘ og ,kenning út ganga frá Síon og orð Drottins frá Jerúsalem.‘ [Sjá Sak 14:9; Jer 3:17; Míka 4:2.]

… ,Sá sem hefur réttinn mun eignast ríkið og ríkja þar til allt hefur verið lagt undir hann‘ [sjá Esek 21:27; 1 Kor 15:27]. Misgjörðum mun linna, Satan verður bundinn og myrkraverk upprætt, réttlæti verður komið á, og dómur settur upp, og ,aðeins sá er óttast Drottin á þeim degi mun upphafinn.‘ [Sá Jes 2:11; 28:17.]“22

„Það verður ekki svo að Jesús muni búa á jörðinni í þúsund [ár] með hinum heilögu, en hann mun ríkja yfir hinum heilögu og koma niður til að leiðbeina og kenna, líkt og hann gerði í tilviki hinna fimm hundruð bræðra [1 Kor 15:6], og þeir sem verða í fyrstu upprisunni munu einnig ríkja með honum yfir hinum heilögu.“23

Eftir Þúsundáraríkið mun jörðin breytast og verða helguð og himnesk.

„Við kvöldverðinn greindi ég fjöskyldu minni og viðstöddum vinum frá því, að þegar jörðin væri helguð og gjörð líkt og haf úr gleri, yrði hún stór Úrim og Túmmím, og hinir heilögu gætu litið á hana og séð sig líkt og þeir væru séðir.“24

„Þessi jörð verður færð aftur í návist Guðs og krýnd himneskri dýrð.“25

„Eftir hið stutta tímabil [síðustu uppreisnar Satans], og eftir að jörðin hefur farið í gegnum síðustu breytingu sína og gjörð dýrðleg, munu allir hinir auðmjúku erfa jörðina, og hinir réttlátu mun þar dvelja.“26

Spámaðurinn kenndi eftirfarandi 2. apríl 1843, sem skráð er í Kenningu og sáttmála 130:9: „Þessi jörð, helguð og ódauðleg, mun verða lík kristalli og verður íbúum sínum Úrim og Túmmím, þar sem allt er tilheyrir lægra ríki eða öll óæðri ríki, verða augljós þeim, sem á henni dvelja, og þessi jörð verður Krists.“27

Ábendingar um nám og kennslu

Íhugið þessar hugmyndir er þið lærið þennan kafla eða búið ykkur undir kennslu. Sjá bls. vii–xii til frekari leiðsagnar.

  • Lesið fyrstu tvær málsgreinarnar á bls. 248, og veitið athygli hvernig háprestarnir bjuggu sig undir að hljóta opinberunina sem nú er 88. kafli Kenningar og sáttmála. Íhugið hvernig frásögn þessi á við um ykkur er þið reynið að skilja spádómana um síðari komuna.

  • Lesið spádóm spámannsins Josephs Smith um hinar örðugu tíðir fyrir síðari komu Drottins (bls. 249–51). Hvernig getum við haldið ró okkar í slíkum raunum? Hvers vegna teljið þið að við þurfum að þekkja og skilja táknin fyrir síðari komuna? Hvaða tákn síðari komunnar hafa komið fram eða eru að koma fram?

  • Lesið aðra málsgreinina á bls. 251 og þriðju málsgreinina á bls. 253. Hvað merkir orðasambandið „eins og þjófur á nóttu“ varðandi komu Drottins? Hvers vegna teljið þið að dagur Drottins muni ekki verða börnum ljóssins sem þjófur á nóttu?

  • Hvernig getum við búið okkur undir síðari komu frelsarans? (Sjá dæmi á bls. 252–54.) Hugsið um það hvernig ykkur muni líða við að sjá frelsarann, ef þið eruð viðbúin komu hans? Hvernig getum við forðast ótta og skelfingu er við búum okkur undir síðari komuna?

  • Lesið spádóma Josephs Smith um Þúsund ára ríkið (bls. 255–56). Hverjar eru hugsanir ykkar og tilfinningar er þið íhugið þetta tímabil?

Ritningargreinar tengdar efninu: Míka 4:1–7; K&S 29:9–25; 45:36–71; 88:95–98, 110–15; Joseph Smith – Matteus 1:21–55

Heimildir

  1. History of the Church, 1:301; úr “History of the Church” (handrit), bók A-1, bls. 244, Skjalasafn kirkjunnar, Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, Salt Lake City, Utah.

  2. Kenning og sáttmálar 130:13; fræðsla sem Joseph Smith veitti 2. apríl 1843, í Ramus, Illinois.

  3. Háráð Kirtlands, fundagerðabók des. 1832–nóv. 1837, skráð 27. des. 1832, bls. 3–4, skráð af Frederick G. Williams, Skjalasafn kirkjunnar.

  4. History of the Church, 3:331; úr “Extract, from the Private Journal of Joseph Smith Jr.,” Times and Seasons, nóv. 1839, bls. 9.

  5. History of the Church, 3:390; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt í júlí 1839, í Commerce, Illinois; skráð af Willard Richards.

  6. History of the Church, 3:291; stafsetning færð í nútímahorf; úr bréfi frá Joseph Smith og fleirum til Edwards Partridge og kirkjunnar, 20. mars 1839, Liberty fangelsi, Liberty, Missouri.

  7. Bréf frá Joseph Smith og John Whitmer til hinna heilögu í Colesville, New York, 20. ágúst 1830, Harmony, Pennsylvaníu; í sjálfsævisögu Newels Knight og Journal, um 1846–47, bls. 133–36, Skjalasafn kirkjunnar.

  8. History of the Church, 6:364; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 12. maí 1844, í Nauvoo, Illinois; skráð af Thomas Bullock.

  9. History of the Church, 3:286; úr bréfi frá Joseph Smith til Presendia Huntington Buell, 15. mars 1839, Liberty-fangelsið, Liberty, Missouri; nafn systur Buells er ranglega stafsett sem „Bull“ í History of the Church.

  10. History of the Church, 6:254; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 10. mars 1844, í Nauvoo, Illinois; skráð af Wilford Woodruff; sjá einnig viðauka, bls. 562, atriði 3.

  11. History of the Church, 5:337; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 6. apríl 1843, í Nauvoo, Illinois; skráð af Willard Richards.

  12. History of the Church, 4:11; stafsetning færð í nútímahorf; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 29. sept. 1839, í Commerce, Illinois; skráð af James Mulholland.

  13. History of the Church, 5:336–37; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 6. apríl 1843, í Nauvoo, Illinois; skráð af Willard Richards.

  14. History of the Church, 6:254; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 10. mars 1844, í Nauvoo, Illinois; skráð af Wilford Woodruff.

  15. History of the Church, 5:291; úr bréfi frá Joseph Smith til ritstjóra Times and Seasons, 28. febr. 1843, Nauvoo, Illinois, birt í Times and Seasons, 1. mars 1843, bls. 113.

  16. History of the Church, 1:442; úr bréfi frá Joseph Smith til Moses Nickerson, 19. nóv. 1833, Kirtland, Ohio.

  17. History of the Church, 5:65; úr “The Government of God,” ritstjórnargrein birt í Times and Seasons, 15. júlí 1842, bls. 857; Joseph Smith var ritstjóri tímaritsins.

  18. History of the Church, 6:93; úr áfríun Josephs Smith til Vermont-fylkis, 29. nóv 1843, Nauvoo, Illinois, birt í General Joseph Smith’s Appeal to the Green Mountain Boys (1843), bls. 7.

  19. Bréf frá Joseph Smith og fleirum til Hezekiah Peck, 31. ágúst 1835, Kirtland, Ohio; í “The Book of John Whitmer,” bls. 80, í Skjalasafni Community of Christ, Independence, Missouri; afrit í “The Book of John Whitmer” í Skjalasafni kirkjunnar.

  20. Bréf frá Joseph Smith og John Whitmer til hinna heilögu í Colesville, New York, 2. des. 1830, Fayette, New York; í sjálfsævisögu Newels Knight og Journal, um 1846–47, bls. 198–206, Skjalasafn kirkjunnar.

  21. Trúaratriðin 1:10.

  22. History of the Church, 5:61, 63–65; stafsetning færð í nútímahorf; úr “The Government of God,” ritstjórnargrein birt í Times and Seasons, 15. júlí 1842, bls. 855–57; Joseph Smith var ritstjóri tímaritsins.

  23. Vitnað í William P. McIntire, skráður fyrirlestur sem Joseph Smith hélt snemma 1841 í Nauvoo, Illinois; William Patterson McIntire, Notebook 1840–45, Skjalasafn kirkjunnar.

  24. History of the Church, 5:279; færsla úr dagbók Josephs Smith, 18. febr. 1843, Nauvoo, Illinois.

  25. Vitnað í William Clayton, skráður ódagsettur fyrirlestur sem Joseph Smith hélt í Nauvoo, Illinois; í L. John Nuttall, “Extracts from William Clayton’s Private Book,” bls. 8, Journals of L. John Nuttall, 1857–1904, sérstakt safn L. Toms Perry, Brigham Young háskóli, Provo, Utah; texti úr Skjalasafni kirkjunnar.

  26. Vitnað í William P. McIntire, skráður fyrirlestur sem Joseph Smith hélt snemma 1841 í Nauvoo, Illinois; William Patterson McIntire, Notebook 1840–45, Skjalasafn kirkjunnar.

  27. Kenning og sáttmálar 130:9; fræðsla sem Joseph Smith veitti 2. apríl 1843, í Ramus, Illinois.

Ljósmynd
Newel K. Whitney store

Þakherbergi í hinni endurbyggðu verslun Newels K. Whitney. Joseph og Emma Smith bjuggu í flessu verslunarhúsi í rúmt ár, og spámaðurinn hlaut margar opinberanir þar, þar á meðal opinberanir um komu Drottins.

Ljósmynd
lamb and lion

„Sá dagur kemur brátt er endurreisn allra hluta mun uppfyllast. … Þá mun það meðal annars rætast að ljónið mun leggjast við hlið lambsins.“